Hverju reiddust goðin þegar forsetaembættið var lagt niður?

Síðustu 5 árin eða svo hafa margir velt fyrir sér breyttri ásýnd forsetaembættis Íslands. Gaman væri að vita hverjir gætu hugsað sér að það væri lagt niður. Engin skoðanakönnun eða umræða hefur farið fram á þeim nótum, en ég er viss um að það er þó nokkur hluti þjóðarinnar sem gæti alveg hugsað sér það. Líkt og þegar kristnir menn 999-1000 gátu ekki hugsað sér lengur á Alþingi að fylgja heiðnum trúarsiðvenjum í lagasetningum eða þegar þing var sett og haldið, allt eftir venjum ásatrúarmanna, þó stór hluti Íslendinga væri þá kristinn og hefði verið það lengi. Eins og forsetaembættið hefur þróast síðustu árin þá er ég komin á þá skoðun að best sé að leggja það niður......og ef til vill eru einhverjir sammála mér í því. Hvort sem það gýs í Eyjafjallajökli, Heklu eða Kötlu á næstunni.............

Hótel hótel hótel

adalstraeti.jpgÞað var í tíð R-listans í Reykjavík að fjöldi gistiheimila og hótela fékk rekstrarleyfi í miðbænum án þess að nokkrar kröfur væru gerðar um aðgengi, og þá sérstaklega aðgengi rútubifreiða. Á venjulegum sumarmorgni er Aðalstræti teppt frá Herkastala að Vesturgötu af rútum og jöklajeppum að sækja ferðamenn. Sama gerist um eftirmiðdaginn þegar fólkinu er skilað heim á hótel. Breidd götunnar er ekki meiri en svo að venjulegur fólksbíll kemst ekki fram hjá þeim. Hótel Borg er í næsta nágrenni og sama vandamál er þar upp á teningnum, enda lítil sem engin tök á því að leggja rútum eða blöðrujeppum þar í kring. Þetta er núverandi ástand við Austurvöll, með tilkomu nýs hótels við Austurvöll mun ástandið versna enn til muna, með tilheyrandi útblæstri og ónæði. Nú þegar Hjálmar Sveinsson er farinn að huga að skipulagsmálum borgarinnar ætti hann e.t.v. líka að velta upp þeirri spurningu hvort það er eðlilegt að rútur og jeppar eigi að komast alveg heim að dyrum hótela eða hvort ekki sé skynsamlegra að þessi farartæki eigi sér ákveðnar stoppistöðvar utan þröngra gatna og hótelgestir verði einfaldlega að koma sér þangað eða hótelin að hjálpa til með svokölluðum hotel-shuttles, eins og alþekkt er í öðrum löndum. Enda þekkist það hvergi í Evrópu mér vitanlega að rútur keyri fólk heim að dyrum hótela og gistiheimila í viðlíka mæli og hér er.

Hrætt fólk kýs Ólaf

Það er hrætt fólk sem kýs Ólaf í sæti forseta. Fólk sem er hrætt við óvissu, hrætt við framtíðina, hrætt við ungu kynslóðina sem mun erfa landið. Verum óhrædd, kjósum nýja tíma.

70 milljóna gjöf

Í hádegisfréttum RÚV í dag, 17. júní, var sagt frá því að Hringskonur hefðu gefið Barnaspítala Hringsins 70 milljónir til tækjakaupa í tilefni 70 ára afmælis félagsins. 1 milljón fyrir hvert ár í sögu þess. Fréttin var örstutt, enginn tekinn tali, fréttin var síðasta frétt á undan íþróttafréttum. Svona er fréttavægið í dag. Í fréttum helst voru fjármálaprettir og annað sem hærra þykir rísa í þjóðfélaginu en rausnargjafir kvenna.......en í mínum huga stóð þessi frétt upp úr sem sú merkasta. Sýnir að að það eru til hópar í þjóðfélaginu sem hlúa að, byggja upp, gefa stórgjafir á meðan aðrir stela og svíkja undan. Ég tek ofan fyrir þessum örlátu konum sem virtu þjóðhátíðardaginn með því að gefa stórgjöf í þágu barna.

Auðmaður í almenningsgarði

275px-fri_769_kirkjuvegur_11.jpgÁrið 2008 gerðist það að "athafnamanninum" Björgólfi Thor Björgólfssyni var seld merk húseign hér í bæ, Fríkirkjuvegur 11, og það án mikilla andmæla. Þó er húsið alfriðað og stendur mitt í almenningsgarði. Garði þar sem pistlahöfundur buslaði í gosbrunni sem barn, sællar minningar. Þar stendur líka styttan af Adonis hinum fagra, þar sem myndin af Herði Torfasyni var tekin til að fylgja landsfrægu viðtali í Samúel, álíka sællar minningar. Enn í dag njóta bæjarbúar sólskinsdaga í þessum fallega gróðurreit sem umkringir hina fallegu norskættuðu timburbyggingu, ungir og gamlir, sælir í sólinni, að safna minningum í sarp framtíðardaga.

Þessi sala, sem aldrei skyldi orðið hafa, situr nú í hálsi borgarbúa eins og eitraði eplabitinn í hálsi Mjallhvítar. Samkvæmt þessum hlekk voru það fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem tóku ákvörðun um að selja þessa eign til einkaaðila, en húsið hafði verið notað um árabil í ýmsa starfsemi, lengst af fyrir ÍTR (íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur).

Einhvern veginn hef ég grun um að þetta mál hafi ekki verið hugsað til enda, og margt sem mun þurfa að taka tillit til. Hvernig tilfinning ætli það verði t.d. að spóka sig því sem næst í garði auðmannsins þegar fram líða stundir? Hversu mikla nálægð þolir hann og hans fjölskylda við pöpulinn? Skyldi hann þurfa einkabílastæði í námunda við húseign sína, eða ef til vill á "lóðinni". Fær hann e.t.v. reit umhverfis húsið sem verður skilgreindur sem hans einkagarður? Og ef svo, mun hann geta girt hann af með mannhæðarhárri girðingu, varðhundi og lífvörðum til að tryggja sér nægilegt prívat í eigin garði? Núna, þegar hafnar eru framkvæmdir við húsið, kemur strax í ljós að hagsmunir fara ekki saman, húsið er friðað, að innan sem utan, og allar aðgerðir og breytingar þarf að bera undir húsafriðunarnefnd, sem strax hefur hafnað tilmælum eins og fjarlægingu á stiga sem setur mikinn svip á innviði hússins.

Hvernig hugsar borgin sér að leysa þetta mál svo vel fari? Eru einhverjir á vegum húsafriðunarnefndar með í skipulags- og hugmyndaferli við endurbætur eða eiga þeir bara að vera á bremsunni? Þarf ekki einfaldlega að hósta þessum eitraða bita upp í eitt skipti fyrir öll svo hægt sé að horfa til áhugaverðari framtíðar í borginni og Hallargarðinum hennar?

Eitt er mér alveg dagljóst: Einkaaðsetur auðmanns í almenningsgarði býður bara upp á endalaus vandamál og hagsmunaárekstra við almenning og borgaryfirvöld. Ef einhver tök væru á því ætti borgin að afturkalla þessa sölu með öllum tiltækum ráðum og hafa frekar í húsinu starfsemi sem eykur við gildi hins opinbera rýmis en skerðir það ekki, eins og núna er útlit fyrir.

Í ágætum þætti um  íslenska menningu í vikunni var rætt við Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um ýmis málefni, þar með talinn langvarandi húsnæðisvanda Náttúrugripasafns Íslands. Væri þetta fallega hús í þessu fallega umhverfi ekki tilvalinn staður fyrir það? Húsið myndi laða til sín jafnt íslensk skólabörn og erlenda ferðamenn, yrði lifandi safn og spennandi viðkomustaður en ekki aflokað og vandræðalegt einkarými. Hallargarðurinn byði einnig upp á ýmsa möguleika þessu tengt, með Tjörnina og Hljómskálagarðinn á næsta leiti.

Ef húsið reiknast ekki heppilegt fyrir Náttúrugripasafn, þá mætti einnig hugsa sér að það yrði hús tileinkað íslenskum skáldskap, Hús Skáldanna.

Ég er viss um að engin hörgull yrði á góðum hugmyndum fyrir not þessa fagra húss ef ríki og borg taka það upp á sinn eyk, og allar betri en að hafa þar einkaheimili auðmanns mitt í almenningsgarði.


Eitthvað svo innilega sammála.....

Styrmir segir allt sem segja þarf......ég er svo innilega sammála....
mbl.is Styrmir: Forsetaembættið úrelt fyrirbæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Steinar og sérálitin

Það væri nógu fróðlegt að vita hvort Jón Steinar gefur sérálit í sérhverjum dómi sem hann á aðild að......mér finnst ég lesa þetta aftur og aftur......og oftast eru sérálit hans til að styrkja málfutning manna sem eru ásakaðir um ofbeldi gegn börnum og konum.
mbl.is Dóttirin gefur ekki skýrslu aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

klám=valdatæki?

Það þarf ekki að lesa sér lengi til um kynferðislegt ofbeldi til að sjá að það snýst ekki um kynlíf heldur vald yfir annarri manneskju. Oftast framið af einstaklingi sem býr yfir duldum eða óduldum efasemdum um eigið ágæti, styrk eða virðingu. Notar hann þá ofbeldið til að efla hugmyndir sínar um eigið vald eða yfirburði yfir öðru fólki. Það skiptir ofbeldismanninn þá litlu hvort sá sem hann beitir ofbeldi er aðeins barn (eða jafnvel dýr) sem ekki getur barist á móti líkamlegum (eða andlegum) yfirburðum hans. Hluti fullnægjunnar sem ofbeldismaðurinn finnur til við ofbeldisverkið er ekki bara kynferðisleg, heldur líka fullnæging hugmynda um eigin yfirburði.

Að mínu mati er hluti skýringarinnar á klámvæðingu síðustu áratuga angi af þessari valdastaðfestingu aðila sem finna að vald þeirra þverr í samfélagi sem stefnir hægt og bítandi að jafnræði kynjanna. Aðila sem eru ekki sáttir við þennan tilflutning á valdi, eru ekki sáttir við að kyn þeirra veitir þeim ekki lengur ákveðin forréttindi.

Þetta undanskilur auðvitað strax stóran hluta karlmanna sem eru bara sáttir við jafnréttissjónarmiðin og vinna að þeim með konum. Karla með heilbrigt sjálfstraust og sjálfsmynd. En hin ómeðvitaða innræting er þeim jafn varasöm og hverjum öðrum, körlum eða konum. Það er hún sem við þurfum að koma auga á, í myndmáli, orðræðu, hegðun, viðhorfi - reyna að skilja hana og skilgreina.

En hluti karlmanna er ekki sáttur við jafnréttissjónarmiðin, vinna gegn konum og beita þær valdi. Sérstaklega í löndum þar sem konur hafa ekki notið mikilla réttinda fram að þessu en eru að sækja í sig veðrið, þar er misnotkun á konum, mansal og ofbeldi gagnvart börnum oft geigvænlegra en víðast annars staðar.

En einnig í hinum svokölluðu vestrænu ríkjum finnst manni vera auking á ofbeldi gagnvart konum og börnum, nema að fréttir gefi ýkta mynd. Nefna má sem dæmi að nauðgunum á stúlkum í Oslóborg hefur fjölgað gífurlega á síðustu árum. Þau eru oftast framin af innflytjendum eða sonum innflytjenda (lægst setta þjóðfélagshópnum má áætla), oft atvinnulausir ungir menn með stutta skólagöngu, á bótum, í flóttamannaferli eða einhverju slíku. Sem sagt, ungir menn sem finna til valdaleysis og óvirðingar samfélagsins.

En þetta er ekki algilt og ofbeldismenn geta komið úr öllum lögum þjóðfélagsins, verið vel menntaðir, fjölskyldumenn og fyrirmyndir ungmenna, eins og nýlegt dæmi um Amagermanden illræmda í Danmörku sannar.

En hvað með klámið? Klámið er ein myndbirting valds karla yfir konum. Það sýnir konuna oftast í hlutverki hins undirgefna aðila (dómínan með svipuna er ekki algeng mynd þó hún þekkist). En það er áhyggjuefni að klámefnið sem framleitt er verður sífellt ofbeldisfyllra, t.d. er hægt að sjá nokkuð mikið af efni þar sem fleiri en einn karlmaður beitir unga konu ofbeldi og hópnauðgun, oft er hún sýnd bundin og mikið um afar gróft orðbragð (verbal abuse). Hún er ekki þátttakandi í því að njóta, hún hefur ekkert að segja um það hvernig kynlífið fer fram, hún er kvalin og það heyrist, hún er notuð sem hlutur, ómerkilegt handargagn. Þetta eru eiginlegar kennslustundir í hópnauðgun.

Ungar konur eru farnar að tala um að ungir menn nálgist þær á skemmtistöðum eins og þeir hafa séð gert í klámyndböndum, og að í kynlífinu hafi þeir tileinkað sér þá hegðun sem þar sést. Nauðganir á skemmtistöðum og útihátíðum þekkjum við frá fréttum hér heima, litið á þær sem hluta af skemmtuninni hjá gerandanum virðist manni, og því miður lítið áhyggjuefni skemmtistaða- og hátíðarhaldara, allavega fáránlega lítið gert til úrbóta.

Ungar konur hafa líka farið að tileinka sér hluti úr kláminu eins og t.d. súludans og eggjandi hreyfingar (hugsanlega til að þóknast karlmönnum ). Þær bjóða sig fram með táknmáli og líkamstjáningu klámsins, en líta e.t.v. á það sem einhvers konar grín, en ættu kannski að kafa aðeins dýpra, t.d. með því að kynna sér fyrirlestra Jean Kilbourne, sem hefur eytt mörgum árum í að fræða og upplýsa um myndmálið í auglýsingum, t.d. myndmál klámsins. Auglýsingar beita myndmáli sem mótar okkur ómeðvitað í daglegu lífi og fær okkur jafnvel til að hegða okkur á ákveðinn hátt eða gera óeðlilegar kröfur til útlits okkar með tilheyrandi lýtaaðgerðum, eins og sjá má dæmi um í fyrirlestraröð Jean Kilbourne sem hún kallar "Killing us softly".

Klámið byggir á stöðluðum líkamshreyfingum og andlitssvipum, það verður allt fljótt auðþekkjanlegt. En þegar það er fléttað inn í daglegt líf með auglýsingum, tónlistarmyndböndum og slíku, fara einhver mörk að riðlast. Það þarf að kenna okkur að lesa í þetta til að skilja hvað er verið að segja við okkur. Og hvað við segjum við aðra ef við tileinkum okkur þetta líkamsmál.

Með því að hlutgera konur, geta þeir karlmenn sem hafa ekki nægilega trú á styrk sínum, ef til vill fundið til meiri máttar, en það er ekki varanleg tilfinning og þarf endurstyrkingu, svo hlutgervingin og niðrandi viðhorfið er endurtekið aftur og aftur, oft í hópi sem samþykkir þetta viðhorf.

Sá sem er háður klámi er líka háður þessari smættun á annarri manneskju og réttlætir hana með því að konur (og börn) vilji þetta jafnvel sjálfar. Konur geta líka verið ómeðvitaðar um eigin sjálfsvirðingu, bæla niður eða upphefja tilfinningar sínar gagnvart því sem þær þó skynja að veitir þeim ekki virðingu, hvorki þeirra sjálfra, karlanna sem kaupa og skoða, eða samfélagsins sem heildar. Ef raunveruleg virðing væri til staðar væri klám og vændi ekki feluleikur og í skúmaskotum, það væru skólar sem kenndu "fagið" foreldrar segðu frá því með stolti að dóttir þeirra, eiginkona eða systir stundaði það o.s.frv.

Klám er valdatæki þess sem finnur til minni máttar, bæði sá sem neytir og veitir, valdatæki til að finna til meiri máttar um stund. Það er því blekking. Blekking að valdið eða virðingin aukist, blekking sem þó sumir hafa valið að trúa á.


Ennþá með rúllur í hárinu...

hugmynd.jpgÞórhildur Laufey Sigurðardóttir skrifar ljómandi góða grein um nýlega auglýsingaherferð Vinnumálastofnunar til að styrkja atvinnumál kvenna. Grunnhugmynd og ástæða auglýsingarinnar er góðra gjalda verð, svo einhver gæti spurt sig, hvers vegna setja út á hana?

Stofnunin er greinilega ánægð með hana þrátt fyrir gagnrýni og segir: "Að okkar mati er staðalmynd kvenna allt önnur en birtist í auglýsingunni og ætti hún því vart að ýta undir hana. Hinsvegar vísar auglýsingin til gamalla gilda sem eitt sinn voru í hávegum höfð, með ákveðinni kímni. Auglýsingin hefur vakið athygli og þá er okkar tilgangi náð, að ná til kvenna með góðar hugmyndir og verkefni.....sjóður þessi hefur verið starfandi síðan 1991 og veitt hundruðum kvenna styrk til að láta drauma sína rætast og vinna að verkefnum sínum. Við munum gera það þangað til að jafnrétti hefur náðst í þeim efnum en rannsóknir sýna að konur hafa ekki sama aðgang að láns- og styrkfé og karlar." 

Svona er þessi eldgamla staðalmynd og auglýsing réttlætt: Hún nær athygli, gagnrýni er líka athygli þó neikvæð sé. Það finnst sumum næg réttlæting. En ekki mér. Auglýsingin er hallærisleg og í engum takti við raunveruleika flestra, ef ekki allra, íslenskra kvenna.  Það að þessi stofnun hafi stutt konur til góðra hluta í gegnum tíðina afsakar ekki að ein ákveðin auglýsingaherferð þeirra geti verið mistök og missi marks. Oftast er best að viðurkenna slík mistök strax frekar en verja þau. Eins og Emmess-ís gerði og afturkallaði fáránlega markaðssetningu á stelpu- og strákaís.

Ég held að margar stofnanir séu ekki nógu krítískar á þær auglýsingastofur sem vinna fyrir þær og þá hugmyndafræði sem þar ríkir. Stofnun sem höndlar með almannafé verður að vera það. Ég hef séð í gegnum tíðina að menn kaupa of auðveldlega hugmyndir auglýsingastofa án þess að greina þær. Munið gott skets úr áramótaskaupinu, en ég minni t.d. líka á gamla bílaauglýsingu þar sem faðir átti að ganga í augun á vinkonum unglingsdóttur sinnar. Kannski er ástæða til að velta fyrir sér vinnustaðnum "auglýsingastofa" - hvaða kúltúr er þar ríkjandi, hvernig eru kynjahlutföll, fer einhver umræða þar fram með kynjagleraugum - og svo framvegis. Jafnvel mætti skoða kennsluna sem grafískir hönnuðir fá í veganesti frá Listaháskóla Íslands - er eitthvað verið að greina skilaboð og andblæ auglýsinga í því námi? Eru kennarar meðvitað (eða ómeðvitað) að beina nemendum á ákveðnar brautir í hugmyndafræði? Og að síðustu: Er allt afsakanlegt í krafti gríns? Jafnvel vont grín?


Hvenær fær RÚV íþróttarás?

lexrpv.jpgÞað er alveg merkilegt að enn sé það talið ásættanlegt að RÚV hniki til dagskrá vegna íþrótta, á meðan flestar aðrar sjónvarpsstöðvar hafa komið upp sérstökum íþróttarásum (Stöð 2 með fleiri en eina). Sjálfsagt liggur skýringin í því að ef maður er áskrifandi að "frjálsri" sjónvarpsstöð og hún er endalaust að breyta dagskrá og hnika til vegna íþróttaviðburða þá segir maður einfaldlega upp áskriftinni. Það er því miður ekki hægt með RÚV og þess vegna halda þeir uppteknum hætti og við getum lítið gert nema röfla.. ....   Og af því að við getum engum þrýstingi beitt verðum við áfram kúguð af íþróttaliðinu. Þrátt fyrir þá staðreynd að fleiri njóta menningarviðburða og vilja sjá meira af íslenskri dagskrárgerð en nú er, þá fær þessi "íþróttadagskrá" miklu meiri tíma og fréttapláss en allt annað efni og það þykir í lagi að færa dagskárliði fram og til baka vegna handboltakeppni, fótboltakeppni, golfmóta og bara nefnið það. Ég sæi eitthvað svipað gerast þegar Feneyjatvíæringurinn er opnaður eða Dokumenta eða Frankfurt bókamessan eða Bafta-verðlaunin afhent, svo eitthvað sé nefnt. Nú er RÚV í fyrsta skipti að skila rekstrarafgangi (eftir að nefskatti var komið á) og því ætti að vera lag að breyta þessu ófremdarástandi og koma upp sérstakri íþróttarás........þá mun ég hrópa jafnhátt af gleði og þeir sem núna sitja fyrir framan skjáinn og hrópa af spenningi yfir fótbolta sem ratar í mark (eða er það handbolti:...)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband