Vond umgengni við landið

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá ferðaþjónustuaðila sem festi breyttan hópferðabíl í Skógaá, sem sagt utanvegaakstur, og komst upp um hann þar sem hann lenti í vandræðum. Efalaust hefur hann iðkað þennan leik lengi. Mér finnst við sem störfum í þessum geira eiga rétt á að vita hver þetta er......ef til vill fleiri sögur til af þessum sama aðila. Kannski sá sami og eldar pylsur og hrísgrjón í heitu hrauni Móða og Magna og skilur matarleifarnar eftir ásamt öðru rusli. Það eru alltof margir að selja þjónustu sína sem hafa ekki leiðsögumannsmenntun og gera hluti sem samræmast á engan hátt góðri umgengni við landið, oft til að ganga í augun á útlendingum......ég persónulega vil vita hverjir það eru og ég myndi líka vilja sjá Félag leiðsögumanna beita sér í slíkum málum. Og auðvitað á Umhverfisstofnun eða löggæsluaðilar að hafa einhver úrræði til sekta þegar svona kemur upp, en önnur mál en utanvegaakstur eru erfiðari að fást við því engar reglugerðir eða lög eru til þar að lútandi (um umgengni við landið).6a0133ecdf372a970b01348071616c970c-800wi_1130173.jpg

Hvalveiðar Bandaríkjamanna

Oft þegar hvalveiðar ber á góma, og sérstaklega andúð Bandaríkjamanna og baráttu gegn  hvalveiðum Íslendinga, þá er oft nefnt að þeir sjálfir veiði þúsundir hvala á ári hverju. Þetta er þó sjaldnast rökstutt með tölum eða öðrum gögnum, svo sumir telja þetta einfaldlega flökkusögu, enda settu Bandaríkjamenn lög upp úr 1970 sem bönnuðu hvalveiðar jafnt og verslun með hvalkjöt í bandarískri lögsögu.

En þó það sé hæpið að tala um "hvalveiðar " Bandaríkjamanna í þessu tilliti, þá er þetta ekki beinlínis flökkusaga, heldur sprettur hún útfrá aðferðum þeirra við túnfiskveiðar í Kyrrahafi. En lengi vel var túnfiskveiðimönnum heimilt að drepa höfrunga við veiðar sínar og er talið að um 6 milljón dýr hafi verið drepin frá því þessar veiðar hófust í A-Kyrrahafi undan ströndum Bandaríkjanna ca 1950, eða á síðustu 60 árum. Samanborið við 2 milljónir hvala (allar tegundir) sem voru drepnar (af öllum þjóðum) í markaðstengdum (commercial) hvalveiðum á allri 20. öld.

Vandamálið byggist á því að túnfiskar og höfrungar lifa í ákveðnu sambýli. Enginn veit nákvæmlega af hverju þeir fylgjast að, en það er túnfiskurinn sem fylgir höfrungunum en ekki öfugt. Af því að höfrungarnir eru við yfirborð sjávar og blása þar, þá benda þeir oft veiðimönnunum á túnfisktorfurnar neðar í sjónum, og með því að umkringja höfrungana með netum sínum veiða þeir túnfiskinn, en höfrungarnir drepast eða eru drepnir og ekkert er nýtt af þeim. Drápið á höfrungunum var álitinn nauðsynlegur fórnarkostnaður við túnfiskveiðarnar, en í kringum 1970 komu fram sterk mótmæli gegn þessu gengdarlausa drápi og reynt hefur verið síðan að herða reglur og þróa aðrar tegundir af veiðarfærum til þess að sem fæst dýr drepist við veiðarnar. Í dag segja bandarísk yfirvöld að um 1000 dýr deyi árlega við veiðarnar (sem er örugglega vanmetið).

Hér er nýleg frétt úr Huffington post um málið,  en líka hægt að kíkja á heimasíðu hinnar svokölluðu Höfrungastofnunar sér til fróðleiks.

Svo tæknilega stunda Bandaríkjamenn engar hvalveiðar, en höfrungar flækjast fyrir við túnfiskveiðar, og "fórnað" er ríflega þúsund dýrum árlega við þær. Spænskir túnfiskveiðimenn eiga við svipað vandamál að stríða og "fórna" líka nokkrum hvölum árlega við sínar túnfiskveiðar við Gíbraltar, en það eru háhyrningar sem þar falla í valinn, heldur stærri í sniðum en höfrungarnir og mjög útséð og samhæfð hópdýr sem ætla sér hluta af bráðinni sem svo þægilega er búið að smala saman í net veiðimannana.

Svo samanburðurinn snýst um ríflega 1000 höfrunga (USA) og e.t.v. 10 háhyrninga (Spánn) og svo hvalveiðikvóta Íslendinga, sem er ca 200 hrefnur og 150 langreyðar (en aldrei hefur veiðst upp í fullan kvóta). Fyrst þarf auðvitað að gera sér grein fyrir því að svona samanburður réttlætir ekki eitt á móti öðru, maður þarf að taka afstöðu í hverju máli fyrir sig, hvalveiðum Íslendinga, höfrungadrápi Bandaríkjamanna og háhyrningadrápi Spánverja. Í öðru lagi þarf að huga að því, ef maður ætlar í samanburð hvað sem tautar, að þessi dýr eru ansi ólík, bæði stofnstærð hverrar tegundar og hugsanleg útrýmingarhætta, og e.t.v. líka stærð dýranna (ef maður er að hugsa um kjötmagn). Jafnvel fæðuval dýranna dregst inn í þetta.

Hvorki hrefna né höfrungar eru í útrýmingarhættu og stofnar þeirra stórir. Háhyrningar eru heldur ekki taldir í útrýmingarhættu í dag, en frekar er hugað að því að styrkja stofna þeirra en hitt, því þeim hafði fækkað mikið um 1980, svo veiðar eða dráp á þeim er ekki litið jákvæðum augum. Langreyður er ekki lengur talin í útrýmingarhættu, en stofninn er ekki sérlega stór þó.

Hvað varðar stærðir þá eru hrefna og háhyrningar nokkuð áþekk, ca 10 tonn að þyngd og 7-10 m að lengd, langreyðar ca 20m og vega 40-70 tonn og höfrungar 2-4 m og vega milli 200-600 kg. Ein langreyður jafngildir því um 100 höfrungum í vigt. Ein hrefna jafngildir ca 30 höfrungum. Svo ef við hugsum bara um kjöt þá eru Íslendingar að veiða meira magn en Bandaríkjamenn. 

Og hvor er svo góði gæinn???

Ef Íslendingar hættu að veiða langreyðar og héldu sig við t.d. 50 hrefnur á ári, eingöngu fyrir heimamarkað, þá værum við mjög hófsöm í veiðum, á alla mælikvarða. 

En svo eru þau eftir rökin um það hvað stórhvelin éta mikið af loðnu, sandsíli, seiðum og átu og hvort þau taki of mikla fæðu frá öðrum fisktegundum, að maður tali nú ekki um allan þann þorsk sem þessar skepnur éta "frá okkur" að sumra manna mati. Fæðuskortur í hafinu virðist vera vandamál sem vert er að skoða betur, því hann er augsýnilega farinn að hafa áhrif á viðkomu fugla og varp, allavegana síðustu sumur, hvað sem veldur, menn, hvalir, mengun, gróðurhúsaáhrif eða guð veit hvað......



Hvalveiðar Íslendinga

Hrefnustofninn við Ísland er ekki í hættu þó veidd séu úr honum ca 200 dýr á ári, það er á bilinu 0,2-0,5% af stofninum hér við land (40.000-70.000 dýr) og er langt undir sjálfbærnismörkum. (þetta er ekki sami stofn og Japanir veiða úr, stofnanir eru nokkrir í höfum heims og halda sig á afmörkuðum slóðum). Langreyðarstofninn hér við land er minni (16.000-20.000 dýr) og nemur veiðikvótinn ca 1% af stofninum, sem er líka undir mörkum vegna sjálfbærni. Það mætti samt að ósekju hætta að veiða úr honum að mínu mati, en á móti kemur að hver og ein langreyður gefur svo miklu meira af sér af kjöti vegna stærðarmunar, og það finnst hvalveiðimönnum trúlega betra, fá margfalt meira kjöt fyrir sömu fyrirhöfn.

Hvalkjötsneysla er partur af menningu Íslendinga, allt frá fyrstu tíð. Þó ekki gætu menn veitt stórhveli á smákænum, þá veiddu menn minni dýr eins og hnísur og höfrunga, og svo átu menn rekinn hval eins og allir vita. Sérstakar lagasetningar eru um hvalreka í gegnum aldirnar, allt frá Grágás, og ekki ótítt að illdeilur risu vegna hvalreka og eignarréttar á honum, enda um mikinn matarforða og annað verðmæti að ræða, bein og olíu. Kjötið mátti hengja út og þurrka líkt og harðfisk (það gera frændur okkar Færeyingar enn) eða setja í súr eins og allt hitt kjötmetið. Hrefnuveiðar hefjast hér við land upp úr 1900, en hrefnan telst ekki beint stórhveli þó ekki sé hún smá, 7-10 metrar og ca 10 tonn að þyngd að meðaltali.

Veiði stórhvela við Ísland hefst með því að Baskar taka að sækja hingað á 16. öld. Þeir höfðu stundað hvalveiðar frá fornu fari, en hvölunum var farið að fækka í Baskaflóa og þeir eltu dýrin sífellt lengra norður í höf. Síðar komu hingað til hvalveiða bæði Hollendingar, Danir, Englendingar, Rússar og Norðmenn, og urðu Norðmenn á endanum stórtækastir. Lifur og spik dýranna var það sem sóst var eftir, enda dýrmætast á þeim tíma sem ljósmeti, en olían var líka notuð í sápugerð og smjörlíkisgerð. Beinin þóttu líka verðmæt og voru notuð í ýmislegt. Kjötið af þeim fjölda dýra sem veidd voru hér í lok 19. aldar var lítið sem ekkert nýtt. Norðmenn settu hér upp veiðistöðvar og lifrarbræðslur, og buðu oft fátækum Íslendingum að nýta sér kjötið, en mest rotnaði það í fjörunum undan hvalstöðvunum með tilheyrandi óþef. Gengu þessar veiðar og óþrifin sem þeim fylgdu svo fram af Íslendingum að þeir bönnuðu veiðar á stóru skíðishvölunum 1886 og svo á öllum stórhvelum árin 1916-1928, m.a. vegna augljósrar ofveiði. Hrefnan var aldrei talin til stórhvela og hún því veidd áfram. Um svipað leyti voru margar fuglategundir líka alfriðaðar, haförninn 1914, fálki 1940, en æðarfuglinn hafði verið friðaður löngu fyrr (1847). Geirfuglinn hafði e.t.v. verið víti til varnaðar.

Fylgdu Íslendingar öðrum Evrópuþjóðum í friðunarhugmyndum, en á þessum tíma voru þjóðir að vakna til vitundar um varðveislu náttúrunnar og fyrstu þjóðgarðarnir voru stofnaðir í Bandaríkjunum og nokkru síðar í Evrópu - við stofnuðum okkar fyrsta þjóðgarð á Þingvöllum 1930. Á sama tíma var mikið rætt um að friða stórhvelin, því það fór ekkert framhjá mönnum að færri og færri dýr veiddust. Rétt fyrir seinna stríð var svo reynt að komast að alþjóðasamkomulagi um takmörkun veiðanna, en Japanir og Rússar skoruðust undan. Íslendingar tóku heils hugar undir þessi friðunarsjónarmið, en eftir seinni heimsstyrjöldina er komið annað hljóð í strokkinn, þá var hér kominn floti sem gat staðið í stórhvalaveiðum og hafist var handa 1948, veiðar hafnar og byggð hvalveiðistöð þar sem áður hafði verið herstöð í Hvalfirðinum. Urðu Íslendingar sæmilega atkvæðamikli þjóð í hvalveiðum, en á móti kom að flest var nýtt af hvalnum, kjöt og spik. Hvalirnir höfðu fengið óbeina friðun meðan á stríðinu stóð og fjölgað eitthvað, en Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 og var reynt að meta ástand stofna og setja skorður við veiðum, sérstaklega eftir mikið ofveiðitímabil á árunum 1960-1980 (meðalveiði á t.d. búrhval þessi ár fór sjaldan niður fyrir 20 þúsund dýr á ári, en hann var ekki friðaður að fullu fyrr en 1982). Algert hvalveiðibann var svo sett á 1986 eins og við vitum, fyrir utan takmarkaðar frumbyggjaveiðar og rannsóknarveiðimennsku Íslendinga og Japana.

Íslendingar þurfa ekkert að skammast sín fyrir sína hvalveiðisögu, hún er engin hryllingssaga, en þessi síðustu ár rétt fyrir hvalveiðbannið (síðara) gengu e.t.v. lengst og er enginn sérstakur sómi að, enda tengt græðgishugsun og rányrkjuhugmyndum en ekki sjálfbærni og sátt við náttúruna.

Á meðan hvalveiðibannið ríkti (með rannsóknarveiðum) hófust hér á landi hvalaskoðunarferðir og í dag fara hátt í 200.000 ferðamenn í hvalaskoðun á ári. Margir telja þann bransa skila meiri gjaldeyri í þjóðarbúið en útflutningur á hvalkjöti. Sumir efast um að hvalveiðar og hvalaskoðun geti farið saman. Ég held þó að hófleg veiði og hvalaskoðun geti vel átt samleið. Ég fer í hvalaskoðun á hverju ári, með útlendinga líka, og það er ótrúleg upplifun í hvert sinn. Sérstaklega ef maður er svo heppinn að sjá steypireyði (alfriðuð 1966 ásamt hnúfubaki), stærstu skepnu sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni, risaeðlur meðtaldar. Ég hef farið í margar hvalasiglingar en aðeins einu sinni séð þessa ótrúlega stóru skepnu, bara hjartað vegur um 1000 kg=tonn.

En hvað með neyslu Íslendinga á hvalkjöti í dag? Ég er sjálf alin upp við að borða hvalkjöt og finnst það gott, þetta var ódýrasti maturinn sem hægt var að fá í henni Reykjavík þegar ég var að alast upp, kostaði nokkrar krónur, fátækramatur, kjötið var lagt í mjólk og svo soðið eða steikt á pönnu. Í dag er hvalkjötið girnilega matreitt sem sushi og einnig fæst það ferskt eða marinerað á grillið. Frábær matur. Örfá dýr á ári myndu duga til að þjóna heimamarkaði, svo ef við höldum okkur við það þá er þetta allt í sóma held ég.....og við værum þá í sama flokki og frumbyggjar í Grænlandi og Alaska, að ótöldum Færeyingum, sem mér finnst að eigi að fá að halda í sínar hefðir.

Þannig að mín skoðun er sú að við Íslendingar ættum að fá að veiða hrefnur fyrir heimamarkað en láta af veiðum til útflutnings og sölu á Japansmarkaði. Fáum frekar fólk frá Japan í hvalaskoðun hingað. ....

Annað, sem við höfum ekki athugað að neinu ráði held ég, er þungmálmamengun í hvalkjötinu. Dýrin verða gömul og þau safna í sig leifum þungmálma í sjónum sem sest fyrir í vöðvunum. Í Færeyjum borða ófrískar konur ekki hvalkjöt lengur af ótta við slíkt. Mér vitanlega fara engar mælingar fram á þessu hér á landi.


hreint vatn er fágætt dýrmæti

Við sitjum á miklum auðæfum sem er hreint vatn, nú þegar orðið fágæti í heiminum. Ásælni Ísraelsmanna í land Palestínumanna á sér líka skýringar í grunnvatnsbirgðum undir Vesturbakkanum - stríðið í Líbýu var til og með líka háð vegna mikilla grunnvatnsbirgða sem þar eru (nágrannarnir í Saudi-Arabíu búnir að þurrausa sitt) - norðurhéruð Kína eru orðin mjög vatnslítil og mikil vandmál þar framundan. "Water is the oil of the future" var aðalfyrirsögn utan á frægu útlendu blaði fyrir nokkrum árum.....það er aldrei sannar en einmitt núna.....kannski munum við Íslendingar sigla með stór vatnstankaskip norður um Rússland til Kína innan skamms....líkt og olíutankaskipin sigla um öll heimsins höf í dag......hefur einhver pælt í því að Norðausturland liggur beinast við þeirri siglingaleið.....Langanesið, Tjörnesið, ....kannski Húsvíkingar ættu að söðla um og fara að hugsa um vatnsver frekar en álver........ vatn er aðalfjárfestingarkostur framtíðarinnar eins og t.d. lesa má um hér í grein frá 2006     og hér:      og hér:      hér:    og hér segir frá því að vatnsmarkaðurinn verði brátt stærri en olíumarkaðurinn: 

Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari sem starfar í Japan segir frá því á Facebókinni að japanskur kennari hennar hafi hrósað Íslendingum fyrir að selja ekki Kínverjum land. Skýringin sem hann gefur er að öll slík viðskipti séu í raun við kínversk stjórnvöld og að það sem þeir sækist hvað mest eftir í dag sé vatn.....hugsa til framtíðar - ólíkt okkur Íslendingum sem erum flinkust í að bregðast við óvæntum aðstæðum, en horfum lítið fram á við eða gerum langtímaáætlanir  - og erum nú þegar búin að leigja vatnsréttindi til 40 ára (Ölfus) og 80 ára (Snæfellsnes) - alltaf verið soldið léleg í bisness.


Kommagrýlukallinn hann HHG

Mér var kennt í æsku að besta svarið við dylgjum og slúðri væri þögnin, þá talaði bara ómerkingurinn út í bláinn og fengi engin viðbrögð........ þetta er víst kallað þöggun í dag og þykir slæmt .... sérstaklega ef fólki finnst það sem talað er um vera satt og rétt og góðra gjalda vert.......en hvað ef það er bara slúður og dylgjur?? Má þá ekki bara þegja það af sér? Þessi bók HHG fær allt of mikla athygli miðað við innihald og áreiðanleik, bæði í Kastljósi og Kilju......hún er hennar ekki verð. Má ég frekar biðja um frjóar umræður um bókina Jó-jó eftir Steinunni Sigurðar. Eða Valeyri eftir Guðmund Andra. Eða Trúir þú á töfra eftir Vigdísi Gríms. Eða Hjarta mannsins eftir Jón Kalman.....það hlýtur margt töfrandi að leynast í hjarta mannsins sem slær lífsvalsinn taktfast eins og jó-jó.......

Kannski maður eigi bara að hætta að líta á bók HHG sem heimildaskrif og lesa hana sem skáldsögu, þá batnar hún nefnilega mjög mikið.......hann er með svo ógnmikið ímyndunarafl.......eins og þegar maður sá draug í hverju skúmaskoti þegar maður var barn.

Menn bera saman ferðalög til austurs og vesturs.... fyrr og nú..... Ég fór til Bandaríkja N-Ameríku nýlega, við komuna þurfti ég að gefa fingraförin mín, augu mín voru skönnuð, fyrir nú utan líkamsleitina frægu.....mér leið eins og glæpamanni, enda hafði ég aldrei séð aðrar eins aðfarir nema í framkomu við slíka menn í bíómyndum. .... mér varð því á orði við einn landamæravörðinn sem gekk sérstaklega hart fram við ellilífeyrisþegann móður mína, hún var 82 ára gömul og leit algerlega út eins og terroristi...... "So this is the free America?"....sagði ég brosandi, fannst ég bara soldið fyndin....... og hann ætlaði að hjóla í mig.........

Þó einhverjir gætu talið litla ástæðu til að bera saman austur og vesturveldin, og ferðalög þangað, þá er það nú staðreynd að þeir sem höfðu svo mikið sem gengið framhjá 1. maí göngu á Íslandi eða látið í ljós einhverja þá skoðun sem var bandarískum yfirvöldum ekki þóknanleg, var neitað um að ferðast til BNA um langt tímabil... er þetta ekki ákveðið form skoðanakúgunar og þöggunar, og það í öðru landi en sínu eigin? Skýringin sem gefin var fyrir heftingu ferðafrelsis (og málfrelsis) var:: þeir sem var hafnað voru kommúnistar.

Sönnunargagnið var oft léttvægt. Fólk sem hafði ekki gert neitt af sér annað en fylgjast með mótmælum á Austurvelli var neitað um ferðafrelsi, jafnvel líka um vinnu á Keflavíkurflugvelli, á þeim forsendum að það væri kommúnistar.....hér var fylgst vel með og það voru teknar myndir af öllum sem létu sjá sig á vafasömum stöðum og fundum og þessi gögn afhent bandarískum aðilum hér á landi....... þetta voru í raun persónunjósnir af grófustu sort, en allt í lagi af því að það voru ameríkanar sem framkvæmdu þær, ekki Rússar.......njósnir Rússa fengu allt aðra og verri umfjöllun.......þótt við, þessi eilíflega krítísku, sæjum ekki muninn.

Reyndar voru það ekki bara ameríkanar sem njósnuðu um Íslendinga, það voru ákveðnir íslenskir menn sem tóku það að sér fyrir þá, sumir innmúraðir og innvígðir Sjálfstæðismenn sem ég hirði ekki um að nafngreina hér, en flestir af eldri kynslóð þekkja nöfnin og vita hverjir stóðu með myndavélar í gluggum húsa við Austurvöll. Fólk sem mótmælti fékk að finna fyrir því við atvinnuleit.....sumir útilokaðir allt sitt líf. Á Íslandi er það reyndar almenna reglan að ekki er spurt um hæfileika og verðleika heldur flokksskírteini....... Og bara svo það gleymist ekki: Þátttakendur í búsáhaldabyltingunni voru myndaðir í bak og fyrir af íslenskri lögreglu. Maður veltir því stundum fyrir sér hvað verður um þessi gögn, núna þegar herinn er farinn og búsáhöldin kyrrlát heima í eldhúsi.....

Og hvað er gert við okkur sem viljum ekki vera fylgispök flokkum heldur málefnum? Er búið að setja okkur í eitthvert það hólf sem við höfum hingað til viljað forðast með því að standa utan allra flokkadrátta? Mun þessi pistill minn setja mig í hólf? Fæ ég t.d. kommastimpil af því að ég er ekki hrifin af bók HHG og aðferðinni sem beitt er: eða: Let them deny it??

En eiginlega er þessi hægri /vinstri umræða fáránlega þreytandi...hægri og vinstri útvötnuð hugtök.. og sama má segja um kommagrýluna, þann ljóta uppvakning HHG ........ kommúnistar með horn og hala eiga bara heima í þjóðsögunum...... og eru bara soldið fyndin fyrirbæri, eða eigum við að segja skáldskapur og hugarburður, eða kannski bara kerlingarbækur, eins og Jón Árnason þjóðsagnasafnari kallaði ýmis fyrirbæri og sagnir sem hann þó samviskusamlega skráði?

Hefur einhver hugmynd um hvernig það sýnir sig að manneskja er kommúnisti? Eða sósíalisti? Eru þetta ekki bara stimplar sem fólk notar eins og nasistar gulu gyðingastjörnuna forðum? Þá var það blóðið og uppruninn sem réði greiningunni, kommastimpillin er miklu huglægari og órökréttari......og þar af leiðandi skeikulli.

Hófstilltir jafnaðarmenn og menn sem vildu bæta kjör verkafólks og hinna verst settu eru með  nýuppvakinni kommagrýlu málaðir upp sem hálfgerðir djöflar....  á sama tíma og raunverulega öll stjórnmálaöfl á vesturlöndum hafa tekið upp allflest grundvallarsjónarmið sósíalískra hugsjóna, eins og t.d. jafnan rétt til menntunar, jafnan rétt til starfa, mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, jafnari dreifingu auðs í samfélaginu, jafnrétti kynjanna, aðstoð við þá sem minna mega sín = eða samantekið, hið margrómaða velferðarsamfélag,.. sem er í raun sniðið eftir sósíalískum hugmyndum......hið kapitalíska og ómannúðlega iðnbyltingarsamfélag sem sósíalisminn spratt upp úr, hefði ekki án baráttu afhent verkafólki á sínum tíma þau réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag, til þess þurfti nýja hugmyndafræði. 

En kannski vill Hannes Hólmsteinn og kommagrýlukallar aðrir aftur á fyrstu áratugi Iðnbyltingarinnar með þá miklu misskiptingu auðs og aðstöðumun sem þá þekktist, vinnuþrælkun, barnavinnu, poor-houses, skuldafangelsi og ömurleg kjör fyrir verkafólkið - en hallir, kavíar, silki og pluss fyrir auðfólkið......... ef þetta er sú veraldarsýn sem Hannesi hugnast (ef marka má orð hans um að græða á daginn og grilla á kvöldin, sama hvernig gróðinn er fenginn) þá má hann framkvæma sína hugsýn í samfélagi skoðanabræðra sinna og keppast þar við þá um toppsætin við að arðræna hvor annan. Við sáum dæmin í Kastljósi gærkvöldins..........


Afspyrnuleiðindi í steinsteypu við Ingólfstorg?

Hilmar Þór Björnsson arkitekt bloggar oft skemmtilega um arkitektúr. Hér er einn af hans góðu pistlum um háhýsi og tengsl þeirra við önnur þekkt tákn og nokkuð auðgljós minni. Í umræðu um háhýsin á íslandi hafði einhver á orði að þau væru dæmi um lata arkitekta og lata verktaka........get tekið undir það, en mér finnst þau samt aðallega vera dæmi um vonda arkitekta sem láta kaupa sig til verka sem eru engum arkitekt með sjálfsvirðingu samboðin. Eru Afspyrnuleiðindi í steinsteypu eins og Hörður Ágústsson nefndi það sem honum fannst klambur eða tildur eða eitthvað þaðan af verra.

images.jpgByggingarlist er talin til listgreina frá fornu fari og arkitektúrskólar oft í nánum tengslum við listaskóla í erlendum stórborgum. Því miður fer lítil opinber gagnrýni fram um verk arkitekta hér á landi, líkt og er t.d. um verk listamanna, sem setja svo ekki upp myndlistarsýningu, leiksýningu, eða gefa út ritverk eða kvikmynd, að ekki séu verk þeirra tekin til faglegrar umfjöllunar og gagnrýni. Arkitektar hlýta engri slíkri opinberri rýni, hvorki frá kollegum, fagfólki, opinberum aðilum eða öðrum. Væri þó ekki vanþörf á. Síðan Hörður Ágústsson skrifaði í Birting (1955-1968) oft óvægna dóma um byggingarlist síns samtíma og gaf þá oft starfandi arkitektum harðan dóm, hefur enginn stigið fram og gagnrýnt nútíma arkitektúr eins og vert væri. Endalaust eru haldin málþing um myndlist og stöðu íslenskrar myndlistar í ýmsu samhengi, en afar sjaldan um arkitektúr. Bloggið hans Hilmars er því virðingarverð tilraun til að skapa nauðsynlegan umræðuvettvang. En maður skynjar einhvern ótta manna við að segja hug sinn um þetta málefni..........

Listamaður sem endurtekið sýnir miðlungsverk fær ekki tækifæri til framtíðar, en arkitekt sem endurtekið teiknar miðlungsverk virðist endalaust fá ný verkefni,...... og því verri sem hann er, því ódýrara selur hann sig og því geðþekkari er hann verktökunum......

Nú er hafin á ný atlaga latra og ósmekkvísra verktaka að Ingólfstorgi, að því er virðist með aðstoð skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Miðað við það smekkleysi sem byggt hefur verið í Reykjavík undanfarinn áratug og fyrri tillögur þessara eignar- og verktakaaðila á Ingólfsreit, munu þeir líklega ekki verða í neinum vandræðum að finna arkitekta sem munu gera tillögur sem passa akkúrat að vondum smekk verktakanna, og von þeirra um hámarksgróða. Arkitekta sem eru tilbúnir til að hugsa sem minnst um óþægindin, útlitságallana og samhengisleysið við aðra byggð og notkun á svæðinu og nærumhverfi þess. Arkitekta sem hafa nákvæmlega engar áhyggjur af því að hugmyndir þeirra geta verið á kostnað almannarýmis okkar Reykvíkinga, þeim er sama svo lengi sem verktakinn/eigandinn er ánægður og greiðir þeim vel fyrir. Siðferðisleg afstaða arkitekta er tabú umræða. Fagurfræði er mörgum þeirra framandi hugtak, þó þeir hafi gengið á fagurlistaskóla.

Að blása til samkeppni um reitinn við Ingólfsstorg er engin trygging fyrir því að góðar tillögur verði valdar, þvert á móti er þetta líklegast aðferð til að blekkja okkur til að trúa því, að sú gróðahugmynd sem verður valin hafi verið fengin fram með lýðræðislegum hætti.......Pótemkínleiktjöldin eru notuð víða í íslensku samfélagi.  Eru eiginlega orðin svo ofnotuð að minnir á slæður sjónhverfingamanns sem hann dregur upp úr hatti sínum hvenær sem dylja þarf lipurt handlag (maneuver) og blekkingar.... og á eftir slíkum leikjum má segja: "Ég blekkti ekki, það varst bara þú sem sást ekki".

Opnum augum, fylgjumst vel með reitnum við Ingólfstorg.......látum ekki 2007 hellast yfir okkur að nýju......maður er því miður farinn að finna gustinn......

 


Sjómannslíf barna

Einu sinni var mér haldið á fótunum út um kýrauga og hótað að láta mig falla í sjóinn ef ég hagaði mér ekki eins og manneskja. Ég var 9 ára. Ég hafði verið soldið óþekk um borð í skipinu sem hann pabbi minn vann á. Systir mín líka. Sonur vélstjórans líka. Við vorum eiginlega búin að vera rosalega óþekk og stríða kokknum langtímum saman með því að hlaupa um kokkhúsið og matsalinn og henda sælgætisbréfum í súpuna sem hann var að sjóða handa áhöfninni, og sem stóð og mallaði í stórum potti á eldavélinni. Hættulegur gat þessi leikur verið fyrir börn......en því veltum við ekki fyrir okkur.....sáum hvorki fyrir okkur brunasár eða bráðnar plasttægjurnar sem áhafnarmeðlimir myndu veiða upp úr súpunni...........en það gerði kokkurinn. ..... Allt í einu fékk hann nóg. Greip þann krakkann sem næstur kom hlaupandi...... það var ég.......og með aðstoð messaguttans lyfti hann mér upp og þeir smeygðu mér út um opið kýraugað, héldu um ökklana, og þannig hvolfd horfði ég niður í grængolandi sjóinn á meðan ég gat heyrt þá hrópa fyrir innan kýraugað....."Við hendum þér í sjóinn ef þú hættir þessu ekki" ......hótunin var mjög sannfærandi.......en ég þrjósk......svo ég hrópaði á móti að þeir mættu þetta ekki, hann pabbi minn réði yfir mér........"Hann ræður engu hér, hér ræð ég" heyrði ég kokkinn hrópa yfir öldu- og vélaniðinn.......ég gat skilið þá röksemd...... hún var líka mjög sannfærandi.......og pabbi upptekinn við sína vinnu uppi í brú og ekkert víst að hann hefði orðið ánægður með að þurfa að verja athafnir mínar og óþekkt fyrir kokknum......ekki einu sinni víst að hann myndi verja þær þó svo hann réði yfir mér.......svo ég lofaði að vera góð......hætta þessari óþekkt.....þurfti að endurtaka það......allt á meðan ég horfði bæði í angist og aðdáun á sjóinn fyrir neðan sem var eins og hraðbraut af grænbláu og hvítu.......hreyfimynd sem ég gleymi aldrei... Þetta dugði......við hættum að stríða kokknum.....það gat haft afdrifaríkar afleiðingar...... Tilfinningin að finna sterkar hendur halda um ökkla mér og hvíta og grænbláa myndin sem enn lifir í höfði mér eins og lifandi málverk, eins og ég hangi þarna enn, þær eru jafnsterkar og daginn þennan, fyrir langa löngu, þegar ég var lítil stelpa, soldið frökk og óþekk, óþekktarstelpa sem hafði gengið of langt, fékk mína eftirminnilegu refsingu og finnst ég eiginlega ríkari á eftir. Svona er nú sjómannslíf barna afstætt.

100.000.000 börn á götunni!

child_labor.jpgEf marka má þær upplýsingar sem okkur eru færðar frá alþjóðlegum stofnunum um ástandið í heiminum, þá búa 100 milljón börn á götunni og 200 milljónir barna starfa í þeim þrælabúðum sem hinn vestræni heimur hefur komið sér upp í fjarlægum álfum, og kallar svo pent "ódýrt vinnuafl í þróunarlöndum" - en ódýrt vinnuafl utan Vesturlanda er einn helsti þátturinn í þeirri glóbaliseringu sem hefur tröllriðið heiminum síðustu árin í nafni hagvaxtar.

Ástandið milli Vesturlanda og svokallaðra þróunarlanda minnir í mörgu á það ástand sem var í upphafi Iðnbyltingarinnar, þegar ríkir verksmiðjueigendur arðrændu verkalýðinn sem bar uppi framleiðsluna, börn líka eins og þekkt er. Engan hefði grunað að slíkt ástand yrði samþykkt á ný, bara af því að ógeðfelldar staðreyndir þess eru svo  langt frá okkur, bæði landfræðilega og líka efnahagslega. Þrepin í framleiðslu Iðnbyltingarinar voru nokkuð gegnsæ og skiljanleg miðað við þrepin í hinni glóbal framleiðslu, sem eru mörg og á margra höndum, og mörgum þráðum hennar einnig haldið leyndum svo allir geta sagt sig alsaklausa af arðráninu sem viðgengst. Félög sem eiga félög sem eiga félög, eins og við höfum lært svo mikið um undanfarið.

Og alltaf hefur mér þótt hún aumkunarverð viðbáran sem notuð er þegar keypt er vinnuafl í Kína eða Indlandi á 10kall, að þetta sé nú bara hátt kaup hjá þeim og stórkostlegt fyrir þetta fólk að fá yfirhöfuð vinnu! Því miður er það þó svo, að launin eru svo lág að fólkið lifir frá degi til dags með enga von um að efnahagsleg staða þess batni, það á rétt fyrir nauðþurftum, eru þrælar vinnuveitandans með þá einu von að eiga fyrir mat daginn þann og lifa af.

child-labour.jpgÞað er mikið notuð mýta að þetta ódýra vinnuafl haldi verði á vörum lágu, það er miklu frekar að þeir sem framleiða vöruna eru að þéna svo margfalt, margfalt meira en nokkru sinni hefur verið þekkt, svo það er ekki hugmyndin um lágt söluverð vörunnar sem rekur framleiðendurnar áfram og viðheldur nútíma vinnuþrælkun, heldur einskær græðgi! Það hefur t.d. verið sýnt fram á að með því að tvöfalda laun þeirra sem vinna á fyrstu stigum framleiðslunnar þá hækki verðið á vörunni aðeins um 1- 2%.

Og bilið milli ríkra og fátækra verður sífellt stærra, ójöfnuður eykst, fólksflutningar aukast ( í leit að betri lífskjörum), ólga eykst í samfélögum þar sem ójöfnuðurinn er mestur og eins andúðin á neysluhyggju sem bindur stóran hluta mannkyns í þrældóm.

Og hvað er það helst sem er framleitt í þessum þrælabúðum nútímans? Til dæmis kaffi, te, súkkulaði, íþróttaskór, leikföng og tískufatnaður af ýmsu tagi. Ég horfði um daginn á breskan sjónvarpsþátt þar sem nokkur ungmenni voru látin upplifa hvernig tískufötin sem þau klæddust verða til, og samþykktu þau að fara til Indlands og vinna við framleiðsluna á öllum stigum. Þau tíndu m.a. bómull á bómullarökrunum og unnu á saumastofu sem saumaði tískufatnað fyrir vestrænan markað, sváfu og nærðust á sama hátt og hinir verkamennirnir, og það verður að segjast að þau urðu fyrir miklu sjokki, líkt og við sem horfðum á þetta á sjónvarpsskjánum. Á saumastofunni sá maður að fólkið sem vann þar fór sjaldan út, vinnustaðurinn var líka heimili þeirra, þau elduðu sér mat þar og sváfu á gólfinu um nætur, allaf í sömu fötunum því þau áttu bara ein, og unnu þar svo yfir daginn undir vökulu auga strangra verkstjóra af báðum kynjum. Bresku ungmennin voru úrvinda eftir þessa upplifun og þeirri stundu fegnust þegar þau komust aftur heim til sín og gátu upplifað sturtubað sem hreinan munað. En líka skildu þau betur að þetta voru ekki aðstæður sem þau óskuðu neinum. Þau höfðu haldið að það væri meira val og frelsi til atvinnu, að hægt væri að krefjast úrbóta og mannréttinda, en uppgötvuðu að svo var ekki. Enda er eitt helsta vandamálið í löndum þar sem svona þrælkun er við lýði, að þar er ekki um eiginlegt lýðræði að ræða, verkafólkið getur ekki bundist samtökum af neinu tagi, þar er ekki virkt málfrelsi, mannréttindi almennt lítils virt, og gífurleg stéttskipting í krafti auðs.

child-labour-51.jpgÞað tók vestræn ríki u.þ.b. 100 ár að bylta því kerfi sem verksmiðjueigendur á fyrstu dögum Iðnbyltingar höfðu komið á, mest fyrir öflug samtök verkafólks, svo það má ekki búast við því að þetta ómannúðlega arðrán sem nú er stundað hverfi án baráttu á næstu árum. Einna helst eru það ýmsar grasrótarhreyfingar sem hafa bent á hin ömurlegu kjör sem börn og fullorðnir búa við í svo kölluðum sweat-shops. Hreyfingar andsnúnar glóbaliseringunni hafa líka barist fyrir breyttum aðferðum í framleiðslunni, Fair-trade hópar hvetja fólk til að versla frekar við þá sem láta stærri hluta arðsins af framleiðslunni fara til verkafólksins sem vinnur við hana o.s.frv. Ef við gerum ekkert erum við meðsek!

 


70 % Fréttablaðsins auglýsingar

frettablad.jpg70% Fréttablaðsins er auglýsingar og 15% er innlendar fréttir. Eftir standa 15%, sem gætu verið annað efni sem er unnið af blaðamönnum blaðsins, en rétt að draga frá aðsendar greinar frá almenningi, sem eru góð uppspretta fréttatengds efnis sem ekki þarf að greiða einum eða neinum fyrir. Kannski standa þá eftir um 7-8% af efni blaðsins sem blaðamenn miðilsins vinna sjálfir, en gæti þó að hluta verið þýtt erlent efni frá fréttaveitum eins og Reuters eða hreinlega þýddar fréttir sem menn gúgla frá öðrum fréttamiðlum. Einhver hluti er svo líka uppsóp úr erlendum miðlum um tísku, kvikmyndastjörnur og frægaðendemi-fólkið og svo eitthvað smá um íslenska menningar- og pöbbalífið.

Er það nútíma íslensk blaðamennska sem kemur fram í þessum hlutfallstölum? Eftir þessu ættu að vera miklu fleiri starfsmenn í auglýsingadeildinni en fréttamannadeildinni á  Fréttablaðinu.

Þetta og margt fleira um íslenska prentmiðla má finna í nýkynntri rannsókn Birgis Guðmundssonar, dósents við fjölmiðladeild Háskólans á Akureyri, en Birgir kynnti vinnu sína í síðustu viku. Kristín Heba Gísladóttir, nemi á 3.ári í sálfræði aðstoðaði við rannsóknina. Skoðaðir voru prentmiðlarnir Morgunblaðið, fríblaðið Fréttablaðið og DV.

Í rannsókninni kemur fram að hlutfall auglýsinga í prentmiðlunum minnkaði snarlega fyrst eftir hrun en hefur aftur aukist, mest í Fréttablaðinu, en daglegt auglýsingamagn hefur minnkað frá 2008 til 2010 sem nemur 13 síðum. Skerfur Morgunblaðsins á auglýsingamarkaði er minnstur af þeim 3 prentmiðlum sem skoðaðir voru og heldur áfram að minnka. Sérkennilegt þegar horft er til þess að trúlega er unnið efni meira í Mbl en nokkrum öðrum prentmiðli, sérstaklega menningarefni, en DV er líka með töluvert magn unninna frétta. Öll blöðin reiða sig þó líka á aðsent efni, sem er ódýr leið til efnisöflunar.

Samkvæmt rannsókn Birgis hafa áhrif hrunsins á efnissamsetningu blaðanna ekki verið mikil, blöðin haldi að mestu sömu efnishlutföllum, en mælingin sýni þó að þjóðfélagsumræða hafi minnkað í íslenskum prentmiðlum. Spurning er hvort hún er í rénum eða hvort hún hefur færst til og þá hvert” segir Birgir.

Mín tilgáta er að umræðan hafi færst mikið yfir á bloggsíður, þar getur fólk sett fram skoðanir sínar án tafar og tekið þátt í umræðum sem eru gildar í hita leiksins. Á prentmiðlunum þarf aðsend grein iðulega að bíða birtingar, stundum bíða greinar í margar vikur áður en þær eru birtar, og oft er þá kraftur þeirra horfinn og augnablikið þegar sjónarmið voru sett fram liðið og samhengið tapað. Stundum hentar það útgefndum að birta alls ekki það sem þeir fá sent og þá gera þeir það ekki.

Sumir bloggmiðlar hafna reyndar líka bloggi eða athugasemdum. 


Mótleikur

Hvernig væri að ræða við börn um það að þau geti ef til vill bent á hverjir þetta eru sem eru að reyna tælingar með því að muna eftir að horfa á bílnúmerið og leggja það á minnið, eða taka eftir hvað bíltegundin heitir (krakkar eru oft ótrúlega glögg, en e.t.v. gerir geðshræringin það að verkum að þau gleyma að taka eftir svona hlutum).

Þegar ég var krakki þótti manni allt sem var svona "leynilöggu" ótrúlega spennandi, las auðvitað Fimm fræknu og fleira skemmtilegt eftir Enid Blyton......

Annað sem ég velti fyrir mér er að mörg börn í dag ganga með farsíma og margir farsímar eru með myndavél.......væri hægt að benda börnum á þann möguleika að taka mynd af bílnum og mönnunum????

Ég veit að þetta eru svo lítil börn og vanmáttug, og ekki gott að vita hvort þau verði sett í meiri hættu við svona aðgerð........en samt........mætti ekki ræða þennan mótleik líka.......í skólanum og heima????


mbl.is Reyndu að tæla dreng upp í bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband