18.3.2011 | 15:34
Skáldkonur deyja ekki, myndlistarkonur eru ekki til
Ég man eftir tveimur þáttum Kiljunnar þar sem ég sat hálf máttlaus eftir, því ég trúði varla því sem ég hafði horft á. Fyrra skiptið var þegar Egill Helgason og Guðjón Friðriksson gengu um kirkjugarða Reykjavíkur og námu staðar við leiði þekktra skálda. "Stórkonur" þess verðar að vera nefndar á nafn voru fáar en "stórmennin" mörg. Engin skáldkona virtist hafa dáið og verið jörðuð í Reykjavíkurkirkjugörðum. Þetta var eiginlega svo fáránlega fyndið að ég fór bara að hlæja í lok þáttar. Þær voru samkvæmt þessu bara ódauðlegar!
Hitt skiptið var þegar fjallað var um bækur um myndlist og myndlistarmenn sem komið hefðu út á siðasta ári. Eingöngu var fjallað um bækur um karla í þættinum og fór mér á sama hátt og fyrr, ég fór bara að hlæja í lokin að fáránleikanum. Gagnvart samfélaginu leit út fyrir að engar myndlistarkonur hefðu starfað á Íslandi, þó þær í dag séu í raun heldur fleiri en myndlistarmenn og þar að auki virkari í sýningarhaldi. Vissulega koma út mikið færri bækur um myndlistarkonur en myndlistarmenn, en það þarf ekki þess vegna að sniðganga þær fáu sem þó komu út. En það gerði Egill. Vegna þess að mér var málið skylt skrifaði ég Agli bréf - hann viðurkenndi mistök sín - en hvort hann vill bæta úr þeim veit ég ekki,sé engin merki þess.
Í gegnum tíðina hefur Egill oft fengið á sig krítík fyrir mikla kynjaskekkju, bæði í Silfrinu og í Kiljunni, en þrátt fyrir það viðurkennir Egill ALDREI karllægan vinkil sinn, hann notar alltaf sömu rökin" þátturinn endurspeglar þjóðfélagið" - en það þarf ekki að rýna lengi áður en maður sér að þættirnir endurspegla ekki þjóðfélagið heldur ýta þeir undir ójafnréttið sem fyrir er og styrkja það.
Egill Helgason reynir af veikum mætti að andæfa þeim ásökunum sem eru á hann bornar þessa dagana af málsmetandi rithöfundum af báðum kynjum. Gagnrýnin gengur út á að Egill gæti ekki kynjajafnréttis í Kiljunni. (Fyrir nokkurm árum var sama gagnrýni uppi hjá málsmetandi fólki vegna Silfurs Egils, en þá voru eiginlega eingöngu karlar viðmælendur, núna ratar þó ein og ein kona í Silfrið, kannski vegna gagnrýninnar forðum.)
Hann svarar á bloggi sínu núna með sömu viðbáru og áður að þátturinn endurspegli þjóðfélagið.Þessi rök eru fátækleg og halda auðvitað ekki, en ef Egill telur það hlutverk sitt að viðhalda skekkju og spéspegli þá er það auðvitað meðvituð afstaða sem hann hefur tekið sem ritstjóri þáttanna. En einhverjir myndu telja það hlutverk sitt að laga skekkjuna. Það er þar að auki bundið í lög opinberra stofnana eins og RÚV. Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri segist treysta Agli Helgasyni til þess að gæta jafnvægis milli kynjanna eftir því sem mögulegt er hverju sinni en ég verð að viðurkenna að trú mín á því er orðin ansi dauf.
Egill virðist nefnilega bæði sleginn blindu og daufdumbu þegar þessi mál ber á góma og hann fær uppbyggilega gagnrýni, meira að segja núna þegar málsmetandi og vel hugsandi einstaklingar reyna að benda honum á skekkjuna, þá virðist hann hafa ákveðið að hlusta ekki, afneita, þræta og þagga. - allt í anda þeirra sem hann gagnrýnir hvað harðast í hinum þættinum sínum, Silfrinu, og á blogginu sínu.
Kannski það sé tími til kominn fyrir Egil að segja "Sorry stelpur, ég skal bæta mig" en vonandi ekki með þeim hætti að hafa einhverja sérþætti um kvenfólk sem smyrls og sárauppbót, þetta á að vera meðvituð ritstjórn sem gætir jafnréttis í hvívetna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2011 | 00:52
Styðjum Japan - 9041500
Rauði kross Íslands hóf söfnun fyrir fórnalömb hörmunganna í Japan síðastliðinn mánudag...rennur söfnunarféð beint til Rauða krossins í Japan.....hægt er að hringja í símanúmerið 904 1500 og þá gefur maður 1500 krónur. Einfaldara getur það ekki verið.
Ég hvet Íslendinga til að líta upp úr naflaskoðuninni og til þessarar eldfjallaeyju hinum megin á hnettinum, þar sem fólk er að uplifa skelfilega hluti......við hljótum öll að geta séð af 1500 krónum.........styðjum Japan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2011 | 00:54
Söfnun fyrir Japan?
Samúð flestra hlýtur að beinast að Japan þessa dagana. Fyrir utan dauðsföll tugþúsunda þá eru 300.000 manns heimilislausir og búa í skólum og íþróttahúsum. Jafnmargir Íslendingum öllum eru á vergangi. Þetta fólk þarf að sofa á þunnum mottum á hörðu gólfi. Sumir hafa verið fluttir burt frá geislavirkum svæðum og eiga kannski aldrei afturkvæmt þangað eða munu geta snert kæra hluti vegna geislavirkni, en aðrir eru búnir að missa allt sitt, heimili og aðrar eigur, og ná jafnvel ekki símasambandi við sína nánustu. Þeir vita jafnvel ekki heldur hverjir nákomnir komust af, hverra er enn saknað og hverjir hafa fundist látnir (og það mun taka tíma að bera kennsl á þá). Ekkert bensín er að fá á farartæki og mat er úthlutað.
Þessi æðrulausa og agaða þjóð, sem allir sem hafa heimsótt Japan geta ekki annað en dáðst að, er í mikilum nauðum og ekki útséð um hvernig fer. Gætum við ekki hjálpað?
Áhyggjur af geislavirkni eru miklar í Japan, fólkið í nágrenni kjarnorkuveranna mælt í bak og fyrir, enda þekkkir engin þjóð áhrif geislunar betur en Japanir, sem hafa glímt í meira en hálfa öld við við afleiðingar hörmunganna í Hiroshima og Nagasaki. Þeir sem urðu fyrir geislun þá, og afkomendur þeirra, hafa þolað eins konar þögla útskúfun, eru sniðgengnir líkt og óhreinir væru, og segja helst ekki frá því. Sjúkdómar og erfðagallar sem þessir einstaklinar hafa orðið að þola gerir að verkum að þeir eru ekki álitnir æskilegir makar, og sú staðreynd að mörg þau veikindi sem geisluninni fylgja erfast, hefur orðið til þess að þrátt fyrir að langt sé um liðið síðan atómsprengjunum var varpað, þá eru áhrifi geislavirkni þeirra enn til staðar í japönsku samfélagi. Óttinn er mikill því Japanir þekkja afleiðingarnar þjóða best.
Oft hefur verið efnt til söfnunar hér á landi af minna tilefni en þessum hörmungum. Meira að segja fyrir ágætan kvikmyndagerðarmann - eiginlega treysti ég orkuboltunum Ómari Ragnarssyni og Friðriki Weisshappel einna best til að standa fyrir góðum gerningi til handa Japönum. Ég styð það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2011 | 15:39
Hver á sér fegra föðurland
Á þessum árstíma fara fjallamenn og fjallakonur að fyllast óþreyju og horfa til fjalla með löngun. Minningar um heiðar sumarnætur og útsýni af hæstu fjöllum birtast manni fyrir hugskotssjónum þegar maður fer á fætur á morgnana og maður hugsar til ónotaðs svefnpokans inn í skáp þegar maður skríður undir sængina á kvöldin. Ó, þú blíða sumartíð........hafi maður einhvern tíma tekið öræfaveikina þá er hún víst ólæknandi, en ólíkt öðrum vírusum þá ber sjúklingurinn hana með gleði.
Á bloggsíðu Egils Helgasonar fer nú fram mikil og heit umræða um þjóðsönginn. Í janúar vakti máls á sama máli Stefán Snævarr á sinni bloggsíðu. Miðað við undirtektir bloggverja er þetta greinilega hjartans mál margra og sitt sýnist hverjum. Umræðan setti mig í öræfagírinn....... því oftar en ekki fjalla ættjarðarljóðin um það hversu "fagurt er á fjöllum" eða eitthvað álíka sem snertir hjartastrenginn.
Lengi hefur það verið venja á Íslandi að ljóðskáld heiðri merka atburði í sögu þjóðarinnar með ljóði. 1851 orti Bólu-Hjálmar ljóð í tilefni Þjóðfundarins sem haldinn var þá með Jón Sigurðsson í forsæti. Í ljóðinu kvenkennir hann landið og bölvar þeim sem gerir þeirri góðu móður illt, og varð mörgum hugsað til þessa kjarnyrta kveðskapar í kjölfar hruns. Ljóðið hefst á ljóðlínunum:"Aldin móðir eðalborna, Ísland, konan, heiðarlig, ég í prýðifang þitt forna, fallast læt og kyssi þig......" Ljóðið er vel sönghæft, þó það sé ekki beinlínis glaðlegt í beinskeyttum boðskap sínum, en enginn hefur þó gert lag við það eftir því sem ég best veit.
Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar var ortur í tilefni Þjóðhátíðarinnar 1874 til að minnast 1000 ára byggðar landsins. Þess vegna eru ljóðlínur um hin þúsund ár sem einn dag o.s.frv. Ekki varð þetta þó formlega gert að þjóðsöng fyrr en 1980 (að mig minnir), og þá aðeins fyrsta erindið, og þjóðsöngurinn heitir skv. þeim lögum ekki Lofsöngur heldur "Ó, guðs vors land". Lagið er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Frumflutningur verksins fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík og alla tíð framan af var talað um það sem sálm.
Á Alþingishátíðinni 1930 var líka efnt til gerðar hátíðaljóða, þar sem Einar Ben og Davíð Stefánsson urðu hlutskarpastir en ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum hlaut einnig viðurkenningu. Vandinn við þessi ljóð er þó sá að þau eru mjög löng og sum erindin ótrúlega hátimbruð og upphafin og ekki laus við þjóðernisrembu, en útslagið hvað varðar útbreiðslu þeirra gerir trúlega að þau eru flest illa fallin til söngs. Ljóðaflokkur Davíðs var þó fluttur á hátíðinni við tónlist Páls Ísólfssonar og lifa einna helst erindin sem hefjast á ljóðlínunni "Brennið þið vitar" og er afar kröftugt tónverk og karlmannlegt. Fleiri tónskáld gerðu lag/kantötur við þennan ljóðabálk Davíðs og er einna þekktast neðangreind erindi við lag Sigurðar Þórðarsonar:
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
Við stofnun lýðveldisins 1944 var enn á ný efnt til samkeppni um hátíðarljóð og urðu Hulda og Jóhannes úr Kötlum hlutstkörpust og gerði Emil Thoroddsen lag við ljóð Huldu og Þórarinn Guðmundsson við ljóð Jóhannesar. Hvort tveggja eru þekkt sönglög í dag (sjá hér neðar).
Á Þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1974 sem haldin var til að minnast 1100 ára byggðar, flutti skáldið Tómas Guðmundsson mikinn ljóðabálk en ekki minnist ég þess að gert hafi verið lag við hann, en samkeppni um tónverk var þó líka haldin og verðlaunaverkið flutt í dagskrá hátíðarinnar.
Á Þingvallahátíðinni 1994 til að minnast 50 ára afmælis lýðveldisins var engin ljóðasamkeppni haldin, en flutt tónverk/fánahylling eftir Jón Ásgeirsson.
Eins og sjá má af þessari upptalningu töldu menn framan af að yrkja þyrfti í hvert sinn sem stórra viðburða Íslandssögunnar var minnst, og þá hafa menn e.t.v. verið að hugsa um að ný ljóð og lög þyrftu að vera í takt við tíðarandann hverju sinni. En eftir því sem á leið minnkaði þörfin greinilega og nú er helst rifist um hver sé hinn "raunverulegi" þjóðsöngur að mati fólksins sjálfs, af þeim lögum sem úr er að velja.
"Ísland er land mitt" er vinsælt og börnin læra það auðveldlega, en dálítið "sætt" að margra mati og hugsanlega litað af of miklum þjóðernisrembingi. Alla vega þreytir endurtekningin í því mig sjálfa.
"Ég vil elska mitt land" er annað þekkt lag og auðsungið, og gæti átt vel við í kjölfar hrunsins sem siðabótartexti: "Ég vil elska mitt land, ég vil auðga mitt land, ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag. Ég vil leita að þess þörf, ég vil létta þess störf, ég vil láta það sjá margan hamingjudag."
En í mínum huga eru tvö fallegustu ljóðin (og lögin) þau frá 1944. Ég heillaðist meira af ljóði Jóhannesar þegar ég var yngri en núna seinni árin hef ég orðið hrifnari af ljóði Huldu, kannski af því að í því er svo fallegur friðarboðskapur. Ekki má gleyma að ljóðið er ort í seinni heimsstyrjöldinni og þótt Íslendingar hafi farið tiltölulega vel út úr þeim hremmingum, þá var fólk meðvitað um mannfall og hörmungar sem aðrar þjóðir þurftu að líða.Hér koma textarnir og þið þekkið vonandi lögin:
Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.
Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífið sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.
Hulda
Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi,
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.
Hvíslað var um hulduland
hinst í vestanblænum,
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu þá á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð,
fundu ey og urðu þjóð
úti´í gullnum sænum.
Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma' af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma' á lýð
landsins sem vér unnum.
Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki,ung og frjáls,
undir norðurljósum.
Jóhannes úr Kötlum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2010 | 18:17
Heiðurslaun
![]() |
28 listamenn fá heiðurslaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2010 | 22:55
X-D: karlar 5 sinnum betri en konur
Samkvæmt fréttavef DV hefur Sjálfstæðisflokkurinn sent í kvöld út lista yfir þá frambjóðendur sem muni vera "með hógværar skoðanir á breytingum á stjórnarskrá".......sem sagt listi yfir þá frambjóðendur sem eru Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir. Ég nenni ekki að velta fyrir mér hógværum skoðunum þessara frambjóðenda en stansa ansi hastarlega þegar ég skoða kynjahlutfallið á listanum og velti þar af leiðandi fyrir mér skoðun Flokksins sjálfs á kynjunum........ekki er að undra að prófkjör Sjálfstæðisflokksins fari alltaf eins og þau fara með tilliti til kvenframbjóðenda, ef farið er eftir svona flokksleiðbeiningum.........þarna eru nefnilega nöfn 25 karla og 5 kvenna............kíkið á þetta:
http://www.dv.is/frettir/2010/11/26/sjalfstaedismenn-velja-frambjodendur-fyrir-sitt-folk/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2010 | 14:04
Þessi Jónas!...og óráðsíufólkið
Jónas Kristjánsson er áhugaverður bloggari sem oft er gaman að lesa. Hann predikar stutt gagnort blogg, en ég ætla að vera langorð, því ég hef haldið aftur af mér svo oft gagnvart skrifum hans sem mér mislíkar vegna þess að mér líkar annað svo vel sem hann segir og hef ekki þurft að hafa um það mörg orð.
Margoft hefur Jónas farið mikinn á bloggi sínu og dæmt hart hægri vinstri, en núna undanfarið hefur honum orðið einkar tíðrætt um "frekjur" og "óráðsíufólk". Hann er örugglega ekki að tala um sama óráðsíufólkið og Davíð Oddsson gerði, Davíð var nefnilega að tala um bankamenn og fjárglæframenn sem sett höfðu efnahag Íslands á hliðina með fífldjörfum fjármálafléttum og endurskoðunarfixum svo nam himinháum upphæðum, sem þrátt fyrir loforð Davíðs lentu á endanum á íslenskum skattgreiðendum. Jafnmiklar upphæðir lentu líka á íslenskum skattgreiðendum vegna "björgunaraðgerða" Davíðs sem Seðlabankastjóra í eftirmála hrunsins, svo kalla mætti hann óráðsíumann líka, eða hvað? Svo við, almenningur með breiðu bökin, erum að greiða ansi mikið fyrir óráðsíumenn af ýmsum toga. En Jónas er að tala um allt annað óráðsíufólk og þar sem margir hafa líklega verið orðnir forvitnir hvað hann meinti kom hann með skilgreiningu sína í dag.
"Óráðsíumaður er sá, sem kaupir sér 400 fermetra hús, þegar hann hefur ráð á 200 fermetra hæð. Og fær sér gengistryggt lán, því að hann hefur svo mikla trú á krónunni. Óráðsíumaður eyðir nefnilega peningum áður en hann aflar þeirra. Hann lendir alltaf í gjaldþroti, þegar til langs tíma er litið. Svo mynda slíkir óráðsíumenn hagsmunasamtök óráðsíumanna. Til að láta skuldir sínar falla á skattgreiðendur og lífeyrisþega. Þetta kalla ég ósiðlegt með öllu. Síðustu mánuði hefur óráðsíufólk tröllriðið samfélaginu með kröfum og taumlausri frekju."
Þabbarasvona!
Jónas bloggar líka um það í dag að samkvæmt Hagstofu íslands séu 10% heimila í vanskilum og telur vandamálið lítið, helmingur þessa fólks hefði verið í vandræðum án hruns! Jónas gleymir þó að geta þess að enn er þó talið að yfir 20.000 heimili eigi við greiðsluvanda að stríða. Það er stutt úr greiðsuvanda yfir í vanskil og spurning hvenær heimili rúllar yfir þá hárfínu línu sem þarna liggur á milli. Auðvitað reynir fólk í lengstu lög að standa í skilum, en það þarf lítið til að undirstaðan bresti þegar svo tæpt er orðið að fólk fleytir sér frá mánuði til mánaðar, notar allan sinn sparnað, tekur til og með út lífeyrisparnað sem safnað hefur verið saman á mörgum árum, allt það sem gera átti efri árin sæmileg er farið. Það má vera að Jónas sjálfur sé í svo góðum málum að hann skilji ekki alvöru þess að hanga á blábrúninni mánuð efir mánuð, og að hvorki hann sjálfur eða nokkur honum nákominn eða í kunningskap við sé í greiðsluvanda. Ég aftur á móti þekki marga, sérstaklega eru þeir sem búa einir og reka heimili á einum mánaðartekjum í vanda að mínu mati, en líka eldra fólk og öryrkjar með sínar smánarlegu bætur - en samkvæmt könnunum er mest talað um unga barnafólkið sem er í erfiðri stöðu og oft með skuldir umfram eignir. Trúlega er það líka þessi hópur sem tók 80-100% lán fyrir húsnæði sínu, annað hvort hjá bönkum eða Íbúðalánasjóði, því þau voru ekki í boði fyrir fyrri kynslóðir. Minni kynslóð var einfaldlega ekki mögulegt að eignast húsnæði örðuvísi en að eiga eitthvað upp í úborgun.
Það má kannski segja blákalt að skuldamál heimilanna séu einkamál hvers og eins skuldara, en skuldamál heimilanna eru ekkert einkamál ef þau stefna í að hafa örlagarík áhrif á efnahag alls þjóðfélagsins, með tilheyrandi félagslegum úrbótum, hækkunum vísitölu og þar af leiðandi enn þyngri byrðum á þá sem enn standa í lappirnar, hafa vinnu og þurfa ekki að þiggja aðstoð.
Í heimild frá apríl segir:" Í mati Seðlabanka Íslands á skuldastöðu heimilanna kemur fram að ríflega fimmta hvert heimili hér á landi eða tæp 24.000 heimili eru líkleg til þess að vera í greiðsluvanda þrátt fyrir þær almennu aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í til þess að létta á greiðslubyrði heimilanna. Samkvæmt mati bankans eru fjölskyldur með börn helst í vanda. Þriðja hvert einstæða foreldri er líklegt til þess að vera í skuldavanda og 27% hjóna með börn. Áberandi er hversu stór hluti ungs barnafólks sem tók íbúðalán í uppsveiflunni er í vanda, en Seðlabankinn áætlar tæp 40% heimila í þessum hópi séu líkleg til þess að eiga í greiðsluvanda, sem eru um 3.400 heimili. Af þeim ríflega 37.000 heimilum sem eru með gengistryggð lán eru um 13.000 heimili í greiðsluvanda, eða um 36% hópsins. Tæplega 65.000 heimili eru eingöngu með lán í íslenskum krónum og af þeim eru um 10.500 talin í vanda eða 16%. Athygli vekur að þau tæplega 24.000 heimili sem eru í greiðsluvanda eru með 42% af heildar bílaskuldum landsmanna og telur Seðlabankinn að vísbendingar séu um að bílaskuldir eigi stóran þátt í vanda þessara heimila. Að mati Seðlabankans eru nú tæp 40% heimila, eða ríflega 28.000 heimili, sem skulda meira en þau eiga í húsnæði sínu. Þetta hlutfall var um 11% fyrir bankahrunið, í upphafi árs 2008 en jókst í 20% haustið 2008. "
Það sem m.a.má lesa út úr þessu er að um helmingur heimila í greiðsluvanda er með gengistryggð lán og hinn helmingurinn með lán í íslenskum krónum. Það er nokkuð augljóst að gengistryggðu lánin hafa stökkbreyst, en "venjuleg" íslensk lán hjá t.d. Íbúðalánasjóði hafa líka hækkað óguðlega, eða um 30% á 2 árum. 18 milljón króna hámarkslánið sem hægt var að fá þar fyrir hrun stendur í ca 24 milljónum í dag þrátt fyrir allar afborgaranir, eða 6 milljón króna hækkun. Afborgun fór úr 80 þúsund krónum í 114 þúsund á mánuði. Sumir skulda auðvitað miklu meira, en þetta er bara almennt dæmi, ekkert ofmat eða vanmat þegar lán var tekið, allt innan viðráðanlegra og eðlilegra marka, ekkert bruðl, enginn lúxusvilla, enginn ofurjeppi, engin taumlaus frekja, eins og Jóans vill kalla það, bara venjuleg tiltölulega ódýr íbúð á "venjulegu láni". Þetta, auk almennra hækkana á nauðsynjum, orku, fasteignagjöldum og fleiru, kemur við pyngju fólks. Þetta er auðvitað ekki glóra og ekkert "frekjulegt" við að fólki ofbjóði það að þurfa að bæta við útgjöldum á þessum skala sem við erum að upplifa, ég tala nú ekki um fólk á þessum frægu meðallaunum á Íslandi, eða ca 250.000 kr brúttó, sem gerir um 180.000 útborgað. Það má vera að einkareikningsdæmi Jónasar líti allt öðruvísi út, hann eigi eignir skuldlausar og skuldi engum neitt, það má vera að hann Jónas sé af hinni svokölluð "frekjukynslóð" sem fékk eignir sínar á silfurfati fyrir tíma verðtryggingar þegar verðbólgan át upp lánin og fólk fékk þau á "léttgreiðslum" að lokum. En gífurlega stór hluti íslenskra heimila er í fyrrgreindu stöðunni, er í vanda staddur, nær varla endum saman, og í dag er mest áríðandi að koma í veg fyrir að greiðsluvandi þróist yfir í vanskil. Ef svo færi erum við að tala um skuldavanda helmings allra heimila í landinu!
"Sumir kikna í hnjáliðunum, þegar þeir sjá frekjurnar. Við hin erum frjáls." segir Jónas. Já, hann á gott, það er ekkert gaman að lenda í fátæktargildru og skuldafangelsi, sá sem það gerir er ekki frjáls, ekki einu sinni til að yfirgefa landið og hefja nýtt líf, hann er kominn í átthagafjötra skuldanna og getur sig hvergi hreyft, og skuldirnar erfast til barnanna, nema frumvarp Lilju Mósesdóttur nái fram að ganga.
Sannleikspáfar í anda Jónasar eru fleiri, einn heitir Pétur Blöndal og fer oft mikinn í að ráðleggja öðrum í fjármálum. Eitt ráð gaf hann í blaðaviðtali fyrir ekki svo löngu, en það var að skulda ekki of mikið, helst bara íbúðalán, ekki líka námslán og bílalán, ekki kaupa nýjan bíl ef maður hefði ekki efni á því o.s.fr.v. Öll hans góðu ráð úr háæsti hins velmegandi voru svo sem ágæt, og í mínu tilviki er ég ráðum Péturs gott fordæmi, ek ég um á ágætum eldri bíl, er búin að greiða námslánin af lágu meðaltekjunum og skulda "bara" íbúðalánið, sem er þó komið úr böndum vegna hrunverja og ömurlegrar efnahagsstjórnar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar.
Það sem bæði Pétur og Jónas virðast ekki skilja er að ráðin sem eru í boði henta ekki endilega öllum, eru sniðin að einum hópi fólks og henta t.d. alls ekki þeim sem vinna sem einyrkjar. Þrátt fyrir áratuga greiðslur tryggingargjalds eru réttindi einyrkja sama sem engin ef leita þyrfti bóta, en skv. Jónasi er þetta þannig: "Fólk vill frekar vera á bótum en að vinna. Atvinnuleysi og örorka eru orðin að lífsstíl."
Vandlæting Jónasar á atvinnulausu fólki og öryrkjum misbýður mér, ég þekki fólk í þessari stöðu og ég á ekkert nema samúð því til handa. Og álit hans á "óraðsíufólki" og "frekjum" eins og mér, sem tel að ekki hafi verið nóg að gert fyrir almenning í vanda með heimili sín, og tek þar af leiðandi undir með mörgu í málflutningi Hagsmunasamtaka heimilanna, þessa vandlætingu tek ég nærri mér þar sem ég hef ekki gert neitt af því sem hann sakar "trylltu frekjurnar" um, aðeins leyft mér þann munað að vilja eiga eigið húsnæði, lítið og nett, og 14 ára gamlan bíl. Þvílík frekja!
Það má vera að nýríkar eða moldríkar frekjur séu félagar í þessum Hagsmunasamtökum, en það eru örugglega líka margir félagar sem eiga fullan rétt á að sjónarmiðin sem þessi samtök hafa haldið á lofti heyrist og er reyndar loks farið að hlusta á, þar á meðal hljóma nefnilega líka raddir þeirra sem vilja borga skuldir sínar, vilja klára sín mál með fullum sóma. Lækkun vaxta væri t.d. ein leið, en fleiri en eina leið þarf að skoða og fyrir einarða afstöðu þessara samtaka er loks farið að skoða þær og reikna þær út. Ég er þeim þakklát.
Óþjóðakonan, óráðsíukonan og frekjan ég hef eiginlega fengið nóg af Jónasi og ætla ekki að kjósa hann á stjórnlagaþing, ég held nefnilega að hann sé blindur á öðru auganu á þjóðfélagið sem hann býr í og skilji ekki aðstöðu ákveðins hluta þjóðfélagsþegna, skilur ekki stöðu um 20.000 heimila og þeirra "freku" fjölskyldna sem þar búa. Skilur ekki aðstöðu atvinnulausra og öryrkja eða eldri borgara sem þurfa að lifa af bótum, sem eru svo lágar að fólkið þarf að sníkja mat og kýs flest að láta lítið fyrir sér fara og heldur sig heima frekar en hrópa á torgum eða bloggsíðum. Ég vil taka málstað þeirra gegn þeim sem lítillækkar það í erfiðri stöðu og kallar hlutskipti þeirra "lífsstíl". Þess vegna mun ég lesa Jónas áfram.............
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2010 | 01:40
Finnum Finn í fjöru í Tékklandi
Finnur Ingólfsson er slunginn maður. Við komumst ekki undan valdi hans þó við vildum hætta öllum afskiptum af honum og viðskiptum við hann.
Finnur fann gullnámu. Sjálfspilandi píanó.
Hann á alla rafmagnsmæla landsbúa, sem við leigjum af fyrirtæki hans, en hann keypti þennan mælabúnað af OR á sínum tíma. Þar er engin samkeppni möguleg í dag. Nema kannski með miklum tilfæringum, nýjum orkulögum, og útskiptingu mæla í heimahúsum sem svarar kannski ekki kostnaði.
Finnur er slunginn á fleiri sviðum. Hann á Frumherja og sumir segja að hann sé skuggabaldur í Aðalskoðun. Sem sagt, önnur gullnáma, annað sjálfspilandi píanó.
Við erum skyldug til að láta skoða bílinn okkar einu sinni á ári og til þess þarf að leita til þessara fyrirtækja.
Sem betur fer eru í þessum efnum einhver tök á að komast hjá því að skipta við Finn, og skipta frekar við aðra aðila, til dæmis við Tékkland, þar sem bifreiðaskoðun er þar að auki ódýrari. Þeir eru við Holtagarða og í Hafnarfirði. Sjá www.tekkland.is
Forðumst Finn og skiptum við aðra ef við getum........
Það þarf síðan nauðsynlega að skoða þetta með rafmagnsmælana og athuga hvort ekki er hægt að blanda samkeppnisráði í málið......þetta er auðvitað óeðlileg einokunarstaða.........skyldi hún standast Evrópureglugerðir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2010 | 17:55
Ó María, María
Forsíða Fréttatímans í dag:
"Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að konur séu alltaf að velta sér upp úr því að þær séu konur og að þeim sé mismunað af því að þær séu konur."
Svo mælir María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttalesari og heimildarmyndagerðarkona.
Fréttatíminn - þetta vikulega blað sem margir bundu vonir við, en reynist jafn útþynnt og Fréttablaðið, þó blaðamenn þess hafi heila viku til að skila af sér efninu. Svona kaus ritstjórn þess að verja forsíðu þess í helgarblaðinu sem er undanfari væntanlegs Kvennafrídags á mánudaginn kemur.
Það er ritstjórnarleg ákvörðun að velja nákvæmlega þessi orð á forsíðuna en t.d. ekki þau orð Maríu sem fjalla um heimildarkvikmynd hennar um misnotkun barna í Kambódíu. Það er ritstjórnarleg ákvörðun að láta fallegt andlit á forsíðu selja blaðið, í anda Nýs lífs, en ekki eitthvað annað. Það er kona sem tekur viðtalið, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, kannski var það líka hún sem valdi orðin á forsíðuna. En lokaorð Maríu í viðtalinu hljóma svona:
"Ef maður gerir bara ráð fyrir því að manni bjóðist sömu tækifæri og karlar - þá fær maður þau. En ef maður er fastur í hugsunum á borð við: Ég get þetta ekki af því að ég er kona / Ég fæ þetta örugglega ekki af því að ég er kona / Ég er með lægri laun af því að ég er kona - þá er það bara líklegra til að gerast. Það er náttúrulega staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu en ég held að það sé konum ekki endilega til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á þessu"
Bravó María!
Er ráð þitt að hugsa bara í anda Secret fræðanna og þá kemur þetta allt ? Var það bara þetta sem klikkaði í kvennabaráttunni síðustu 100 árin??
Það er gaman að spegla þessi orð núna á þessum tímamótum þegar gengið verður í fótspor kvenna frá Kvennafrídegi 1975 - við kjörorðin þá: Ég þori, get og vil - og skoða statusinn 35 árum seinna. Ég þekki sjálf bara konur sem minnst síðustu 35 ár (ef ekki alla æfi) hafa haft staðfasta trú á því að þær, og allar aðrar konur, þori, geti og vilji. Þess vegna er það að þær mennta sig (jafnvel meira og betur en karlar) þær hafa þor og gefa oft kost á sér í hin margvíslegustu verkefni (og ef framlag þeirra er ekki þegið þá framkvæma þær sín eigin prójekt.) Og þær geta ýmislegt líka, það hefur sýnt sig, enginn efast neitt um það lengur, en viðurkenning, hvort sem er samfélagsleg eða launatengd, lætur standa á sér, eins og María viðurkennir reyndar í lokaorðum sínum.
Hversu margar vel menntaðar og klárar konur hafa ekki í gegnum áratugi trúað á eigið þor, getu og vilja á sama hátt og María SIgrún nú, trúað að vilji er allt sem þarf? Kannski við allar?
Það sem er svo ánægjulegt að sjá í viðtalinu við Maríu Sigrúnu er að þessi unga, glæsilega og vel menntaða kona hefur ekki rekið sig á neitt glerþak enn..... og mun vonandi aldrei gera það. Það væri óskandi að engin ung, hæfileikarík og metnaðarfull kona þyrfti nokkurn tíma að gera það. Að dugnaður hennar og geta reynist hennar besta veganesti og ávísun á velgengni, og enginn efaðist um hæfileika hennar vegna kyns hennar (eða jafnvel aldurs).
En María horfist reyndar í viðtalinu í augu við þá "náttúrulegu staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu", en heldur að það sé ekki konum til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á því.
Hvað þá? - Ó María, María - verður ekki að finna skýringuna til að hægt sé að breyta málunum???
Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að María SIgrún telur allt í himnalagi og enga ástæðu til að leita skýringa á mismunun í samfélaginu? Er grunns velgengni hennar sjálfrar e.t.v að leita í því að hún nýtur baráttu annarra kvenna, kvenna sem leituðu skýringa á misrétti og fengu það leiðrétt? Leiðrétt til að María SIgrún og dætur okkar allra ættu bjartari framtíð fyrir höndum þar sem meira jafnrétti ríkti? Baráttu sem enn er ekki lokið?
Ég hefði viljað sjá Maríu SIgrúnu þakka á forsíðu Fréttatímans öllum þeim kynslóðum kvenna sem gerðu henni kleift að finna ekki fyrir neinu ójafnrétti vegna kyns síns. Þó hún sé óvenju vel blessuð af guðunum, mætti hún líka hugsa til þeirra kvenna sem ekki eru svo heppnar og hljóta önnur kjör. Alveg eins og hún vildi benda á hin hræðilegu kjör kambódískra barna, þó þau væru fjarri hennar kjörum og lífi.
Vikublaðið Fréttatíminn er búið að sanna sig ómarktækt í þjóðfélagsumræðunni, það er auðvelt að henda því í endurvinnslutunnuna, og ritstjóranum og Heiðdís Lilju Magnúsdóttur þakkar maður ekki "góð orð" eða áhugaverða umfjöllun í aðdraganda Kvennafrídags. Fjórða valdið á Íslandi er máttlaust - Fréttatíminn sannar það best.
En María Sigrún er enn ung að árum, vel gefin og vel menntuð, og heppin í störfum sínum - ég trúi því að hún öðlist fljótt þroska og skilning sem nýtist henni til samkenndar með þeim kynsystrum hennar sem hafa ekki verið eins heppnar og hún, og vona líka að hún læri að þakka þeim kynsystrum sínum sem ruddu brautina, frekar en gera lítið úr margra áratuga baráttu þeirra kvenna sem leituðu skýringa og leiðréttu eftir bestu getu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.10.2010 | 17:40
4. valdið er máttlaust
Nýr Fréttatími barst inn um lúguna í morgun.........er þetta boðberi nýrra tíma í blaðamennsku á Íslandi? Er þetta afrakstur vikuvinnu og undirbúnings?
Metnaður blaðamanna dag- og vikublaðanna virðist vera bundinn við ófarir Lindsey Lohan og bossann á misfrægum söng- og leikkonum, tískufatnað, snyrtivörur og íþróttir. Þetta er uppbyggilegt og örugglega það sem þjóðin þarf á að halda....eða hvað??
Einhvern tíma stóð maður í þeirri trú að það væri hlutverk fjölmiðla, fjórða valdsins, að standa fyrir uppbyggilegri umræðu, greiningu og bæði setja fram og örva gagnrýna hugsun. en vei ó vei...........gef oss í dag vort daglega endurvinnsludrasl........og Lindsey Lohan.........þetta hefur ekki burði til að vera fjórða valdið, þetta er ekki neitt, nema sé upphafin lágkúra........og ef hún hefur vald á við dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdavald í íslensku þjóðfélagi þá er það illa sett. ....
Fréttamat á Íslandi er hlægilegt........gamla gufan á RÚV er eini miðillinn sem stundar einhverja fréttarýni (t.d. Spegillinn), samfélagsrýni (Samfélagið í nærmynd, Umræður um lýðræðið, Vítt og breitt og fl.) og menningarrýni (Víðsjá, Lostafulli listræninginn, Flakk o fl.) .
.......ég átti reyndar von með Fréttatímann, þar hefðu blaðamenn heila viku til að vinna vandaða fréttaumfjöllun og greiningar........en hvað kom.........sama innantóma blaðrið og er í hinu daglega Fréttablaði = Ruslatunnumatur.....eins gott að maður er með endurvinnslutunnu......
E
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)