Hver á sér fegra föðurland

Á þessum árstíma fara fjallamenn og fjallakonur að fyllast óþreyju og horfa til fjalla með löngun. Minningar um heiðar sumarnætur og útsýni af hæstu fjöllum birtast manni fyrir hugskotssjónum þegar maður fer á fætur á morgnana og maður hugsar til ónotaðs svefnpokans inn í skáp þegar maður skríður undir sængina á kvöldin. Ó, þú blíða sumartíð........hafi maður einhvern tíma tekið öræfaveikina þá er hún víst ólæknandi, en ólíkt öðrum vírusum þá ber sjúklingurinn hana með gleði.

Á bloggsíðu Egils Helgasonar fer nú fram mikil og heit umræða um þjóðsönginn. Í janúar vakti máls á sama máli Stefán Snævarr á sinni bloggsíðu. Miðað við undirtektir bloggverja er þetta greinilega hjartans mál margra og sitt sýnist hverjum. Umræðan setti mig í öræfagírinn....... því oftar en ekki fjalla ættjarðarljóðin um það hversu "fagurt er á fjöllum" eða eitthvað álíka sem snertir hjartastrenginn.

Lengi hefur það verið venja á Íslandi að ljóðskáld heiðri merka atburði í sögu þjóðarinnar með ljóði. 1851 orti Bólu-Hjálmar ljóð í tilefni Þjóðfundarins sem haldinn var þá með Jón Sigurðsson í forsæti. Í ljóðinu kvenkennir hann landið og bölvar þeim sem gerir þeirri góðu móður illt, og varð mörgum hugsað til þessa kjarnyrta kveðskapar í kjölfar hruns. Ljóðið hefst á ljóðlínunum:"Aldin móðir eðalborna, Ísland, konan, heiðarlig, ég í prýðifang þitt forna, fallast læt og kyssi þig......" Ljóðið er vel sönghæft, þó það sé ekki beinlínis glaðlegt í beinskeyttum boðskap sínum, en enginn hefur þó gert lag við það eftir því sem ég best veit.

Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar var ortur í tilefni Þjóðhátíðarinnar 1874 til að minnast 1000 ára byggðar landsins. Þess vegna eru ljóðlínur um hin þúsund ár sem einn dag o.s.frv. Ekki varð þetta þó formlega gert að þjóðsöng fyrr en 1980 (að mig minnir), og þá aðeins fyrsta erindið, og þjóðsöngurinn heitir skv. þeim lögum ekki Lofsöngur heldur "Ó, guðs vors land". Lagið er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Frumflutningur verksins fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík og alla tíð framan af var talað um það sem sálm.

Á Alþingishátíðinni 1930 var líka efnt til gerðar hátíðaljóða, þar sem Einar Ben og Davíð Stefánsson urðu hlutskarpastir en ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum hlaut einnig viðurkenningu. Vandinn við þessi ljóð er þó sá að þau eru mjög löng og sum erindin ótrúlega hátimbruð og upphafin og ekki laus við þjóðernisrembu, en útslagið hvað varðar útbreiðslu þeirra gerir trúlega að þau eru flest illa fallin til söngs. Ljóðaflokkur Davíðs var þó fluttur á hátíðinni við tónlist Páls Ísólfssonar og lifa einna helst erindin sem hefjast á ljóðlínunni "Brennið þið vitar" og er afar kröftugt tónverk og karlmannlegt.  Fleiri tónskáld gerðu lag/kantötur við þennan ljóðabálk Davíðs og er einna þekktast neðangreind erindi við lag Sigurðar Þórðarsonar: 

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.

 

Við stofnun lýðveldisins 1944 var enn á ný efnt til samkeppni um hátíðarljóð og urðu Hulda og Jóhannes úr Kötlum hlutstkörpust og gerði Emil Thoroddsen lag við ljóð Huldu og Þórarinn Guðmundsson við ljóð Jóhannesar. Hvort tveggja eru þekkt sönglög í dag (sjá hér neðar).  

Á Þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1974 sem haldin var til að minnast 1100 ára byggðar, flutti skáldið Tómas Guðmundsson mikinn ljóðabálk en ekki minnist ég þess að gert hafi verið lag við hann, en samkeppni um tónverk var þó líka haldin og verðlaunaverkið flutt í dagskrá hátíðarinnar.

Á Þingvallahátíðinni 1994 til að minnast 50 ára afmælis lýðveldisins var engin ljóðasamkeppni haldin, en flutt tónverk/fánahylling eftir Jón Ásgeirsson.

Eins og sjá má af þessari upptalningu töldu menn framan af að yrkja þyrfti í hvert sinn sem stórra viðburða Íslandssögunnar var minnst, og þá hafa menn e.t.v. verið að hugsa um að ný ljóð og lög þyrftu að vera í takt við tíðarandann hverju sinni. En eftir því sem á leið minnkaði þörfin greinilega og nú er helst rifist um hver sé hinn "raunverulegi" þjóðsöngur að mati fólksins sjálfs, af þeim lögum sem úr er að velja.

"Ísland er land mitt" er vinsælt og börnin læra það auðveldlega, en dálítið "sætt" að margra mati og hugsanlega litað af of miklum þjóðernisrembingi. Alla vega þreytir endurtekningin í því mig sjálfa.

"Ég vil elska mitt land" er annað þekkt lag og auðsungið, og gæti átt vel við í kjölfar hrunsins sem siðabótartexti: "Ég vil elska mitt land, ég vil auðga mitt land, ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag. Ég vil leita’ að þess þörf, ég vil létta þess störf, ég vil láta það sjá margan hamingjudag."

En í mínum huga eru tvö fallegustu ljóðin (og lögin) þau frá 1944. Ég heillaðist meira af ljóði Jóhannesar þegar ég var yngri en núna seinni árin hef ég orðið hrifnari af ljóði Huldu, kannski af því að í því er svo fallegur friðarboðskapur. Ekki má gleyma að ljóðið er ort í seinni heimsstyrjöldinni og þótt Íslendingar hafi farið tiltölulega vel út úr þeim hremmingum, þá var fólk meðvitað um mannfall og hörmungar sem aðrar þjóðir þurftu að líða.Hér koma textarnir og þið þekkið vonandi lögin:

Hver á sér fegra föðurland,

með fjöll og dal og bláan sand,

með norðurljósa bjarmaband

og björk og lind í hlíð?

Með friðsæl býli, ljós og ljóð,

svo langt frá heimsins vígaslóð.

Geym, drottinn, okkar dýra land

er duna jarðarstríð.

 

Hver á sér meðal þjóða þjóð,

er þekkir hvorki sverð né blóð

en lifir sæl við ást og óð

og auð, sem friðsæld gaf?

Við heita brunna, hreinan blæ

og hátign jökla, bláan sæ,

hún uni grandvör, farsæl, fróð

og frjáls - við ysta haf.

 

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,

um eilífið sé þín gæfa tryggð,

öll grimmd frá þinni ströndu styggð

og stöðugt allt þitt ráð.

Hver dagur liti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í

svo verði Íslands ástkær byggð

ei öðrum þjóðum háð

 

Svo aldrei framar Íslands byggð

sé öðrum þjóðum háð.

Hulda

 

Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi,
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.

Hvíslað var um hulduland
hinst í vestanblænum,
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu þá á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð,
fundu ey og urðu þjóð
úti´í gullnum sænum.

Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma' af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma' á lýð
landsins sem vér unnum.

Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki,ung og frjáls,
undir norðurljósum.

Jóhannes úr Kötlum


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband