Af hverju flytja þeir?

Eins og hefur komið fram eru flestir útrásarvíkingarnir fluttir af landinu, flestir til Englands, en að minnsta kosti einn til Rússlands og annar til Luxemborgar. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir þessu, önnur en að þeir séu að flýja íslenskan almenning og illilegt augnaráð.

Sumir segja eflaust: Farið hefur fé betra - en hvort sem það er illa fengið fé eða ei sem þarna er verið að koma í griðland undan skattayfirvöldum, eða lagalegt umhverfi sem gagnast má, t.d. í meiðyrðamálum, þá er þetta ákveðin gáta sem væri gaman að fá svör við.

Vonandi verður moldviðrið í kringum Icesave ekki til þess að menn sofi líka á verðinum gagnvart þessu, það þarf að skoða hvaða kostir fylgja því fyrir þessa menn að búa í Englandi. Það gefur nokkuð auga leið að það hljóta að vera fjárhagslegir eða lagalegir hagsmunir, annað regluverk og lagaumhverfi verndar þá á einhvern hátt.

Það þyrfti að fá glögga endurskoðendur og lögfræðinga til að skoða hvað það er sem gerir London að besta kostinum fyrir þessa menn. Örugglega eru einhverjir úr þessum stéttum þegar búnir að finna út úr því og hafa ráðlagt víkingunum að flytja. En hvað er það sem þessi búseta breytir fyrir þá? Eru engir aðrir en ég orðnir forvitnir?


"Karlmannleg tragikómedía"

Stórsérkennileg frétt. Maðurinn er á vafasömum stað, það er viðurkennt, með 2 kreditkort, sitt eigið og KSÍ, og notar eða framvísar greinilega báðum. Bara það að framvísa korti frá KSí á svona stað hefði maður haldið að væri brottrekstrarsök. En nei, þeir "vorkenna" aumingjans manninum svo óumræðilega mikið að hafa lent í vondum mönnum og lausakvenna ljótum pjásum. Ef þetta er ekki dæmi um samtryggingu karla þá veit ég ekki hvað er það. Gaman fyrir konuna hans líka........og börnin........

Fimm ár eru liðin síðan atburðurinn var og málið hefur greinilega verið þaggað kirfilega niður af forsvarsmönnum KSÍ.

Stundum kallar samtryggingarlið karla svona atburði mannlegan harmleik (og láta sem um sé að ræða eitthvað sem menn lenda í grandalausir en eiga engan þátt í), ætli það sé ekki orðið tímabært að kalla slíka atburði "karlmannlega tragikómedíu".

KSÍ - takið ykkur saman og sýnið alvöru karlmennsku.


mbl.is Dýrt næturævintýri Íslendings í Sviss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útgjöld heimilinna í takt við tekjur heimilinna

Ingólfur H. Ingólfsson hjá SPARA.IS skrifar merkilega hugleiðingu í nýjasta fréttabréfi sínu (sjá www.spara.is) sem allir ættu að vera áskrifendur að. Þar talar hann um misrétti, siðrof og búsáhöld. Ég tek mér það bessaleyfi að vitna í hluta af skrifum hans:

"Það versta sem gæti gerst á næstu dögum eða vikum væri að almenningur gengi ekki lengur í takt við hefðir og venjur samfélagsins og bryti jafnvel lög í nafni þess sem hann kallaði réttlæti. Í fréttum heyrist æ oftar af fólki sem ekki ætlar lengur að greiða af lánum sínum, hvort sem það hefur efni á því eða ekki. Það er því ekki neyðin sem knýr fólk til þess að hætta að borga heldur réttlætið, eða tilfinning fólks fyrir misréttinu sem er reyndar það sama. Verði þetta raunin skiptir litlu hvort ríkisvaldið telji lögin og réttin vera sín megin og fólkið vera lögbrjóta, óeirðaseggi eða siðleysingja, samfélagið allt færi í uppnám. ........Það er einmitt þetta sem kallað hefur verið siðrof og er vel þekkt í félagsfræðinni. ......Fólk sem er með íbúðalán er ... að takast á við misrétti sem efnahags- og peningastjórnun ríkisins og Seðlabankans hefur kallað yfir það með misgengi skulda og eigna. Það er líka að takast á við óréttlæti í skiptingu ábyrgðar á milli lánveitanda og skuldara. ........telji fólk sig beitt órétti og vilji þessvegna ekki greiða af lánum sínum, þá stefnir í siðrof og upplausn í samfélaginu. Ríkisvaldið getur brugðist við með því að beita fyrir sig lögum og reglum og valdboði, ef það telur sig þurfa, eða það getur breytt afstöðu sinni til þess sem olli ástandinu og leiðrétt ranglætið."

Þarna er Ingólfur að orða það sem brennur orðið á öllum almenningi og sem er auðvitað aðalbaráttumálið í dag, en það er að dreifa byrðum efnahagshrunsins jafnar............ekki bara láta almenning bera þær og blæða út. Það sem er flestum hugstæðast er auðvitað skuldum vafin húseign þess, því stærstur hluti fólks á aldrinum 25 - 60 ára er að baksa við að eignast þak yfir höfuðið með ærinni fyrirhöfn. Má kalla þetta fyrirkomulag sem við búum við núna átthagafjötra.

Nú þegar þarf taka upp sértækar aðgerðir eins og að setja þak á afborganir lána, svo þær miðist við sanngjarna húsaleigu, eða húsaleigu/afborgun sem tekur mið af innkomu heimilisins. Þegar ég var úti í Danmörku i den og atvinnuleysi var þar almennt, þá miðaðist ansi margt við "hjemmets indkomst", til dæmis greiddi ég og allt barnafólk barnaheimilisgjöld miðað við tekjur heimilisins, það voru nokkur þrep með tilliti til misjafnra tekjuhópa, og þeir tekjuhæstu greiddu fullt gjald og aðrir fengu jafnvel frítt ef tekjur heimilsins voru lágar, t.d. atvinnulausir. Einnig voru í boði alls konar námskeið og nám á niðurgreiddu verði fyrir atvinnulausa, á meðan hér er atvinnulausum refsað með tekjumissi ef þeir fara í nám.

Hér á landi hefur verið algert tregðulögmál gagnvart því að skoða útgjöld heimilinna í takt við tekjur heimilanna.....kannski er það hluturinn sem er hægt að krefjast af núverandi ríkisstjórn, að hún sjái til þess að útgjöld heimilinna séu í samræmi við tekjur þeirra.


Er fúsk í hvíta húsinu?

Auglýsingin ógeðfellda sem sýna átti fúsk hefur stuðað margan manninn og konuna. En er það ekki auglýsingastofan Hvíta húsið sem er mesti fúskarinn? Selur sig sem topp auglýsingastofu með frumlega auglýsingahönnuði en kemur svo með þessa líka ömurlegu hugmynd. Mynduð þið vilja skipta við hana?

Af heimasíðu Hvíta hússins....... Árangur byggist í fæstum tilvikum á heppni. Reynslan hefur kennt okkur að skapandi og frumlegt auglýsinga- og markaðsefni skilar bestum árangri í harðri samkeppni um athygli neytandans. Athyglisverðar auglýsingar þarf ekki að birta jafnoft og aðrar og í því felst verulegur sparnaður fyrir þann sem auglýsir.

Einmitt, það þurfti bara að birta þessa einu sinni, þá varð allt vitlaust........

Skapandi vinna - Hvíta húsið er elsta auglýsingastofa landsins, stofnuð árið 1967, og hefur áratuga reynslu af markaðsstörfum fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum á Íslandi. Nafn stofunnar er dregið af eggi, tákni frjósemi og sköpunar, sem jafnframt er grunnurinn að lógói fyrirtækisins. Hvíta húsið er fullt hús hugmynda.Skapandi hugmyndavinna er ekki bundin við sérstakar hugmyndadeildir hjá Hvíta húsinu heldur er iðulega um að ræða samstarf margra ólíkra starfsmanna þar sem allir fá að leggja sitt af mörkum. Þessi vinnuaðferð hefur skilað Hvíta húsinu fleiri verðlaunum en nokkurri annarri íslenskri auglýsingastofu, bæði hérlendis og erlendis.

Var virkilega enginn á auglýsingastofunni sem setti spurningamerki við ósmekklegheitin í þessu rosa góða samstarfi skapandi einstaklinga? Eða voru það "húmoristarnir" sem réðu ferðinni og hinir þorðu ekki að segja neitt af ótta við að vera álitnir hallærislegir?

Með fæturna á jörðinni og höfuðið í skýjunum - Grunnurinn í markaðsstarfi þarf að vera traustur áður en lagt er upp í auglýsingagerðina sjálfa. Með traustan grunn, sem byggist á skýrri stefnumótun, faglegum vinnubrögðum og rannsóknum, er hægt að hefja sig til flugs í hugmyndavinnu og finna snjallar lausnir sem skila árangri.

Einmitt það já..........hvaða rannsókn ætli hafi legið að baki þessari lausn? og hvaða stefnumótun?

Ja, kona spyr sig............. 


mbl.is „Fádæma sóðaleg auglýsing“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hláleg "atvinnusköpun" Sjálfstæðiskonu.......

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi, kallaði á framboðsfundi vændi "elstu atvinnugrein veraldarsögunnar" (og það var púað á hana).
Hvernig er hægt að leggja mat á hvað er elsta atvinnugrein í heimi? Hver treystir sér í þá skilgreiningu? Er þá verið að tala um öll þau verk sem hafa verið unnin per se, t.d. veiðiskapur, söfnun, verkfæragerð, skartgerð, matseld, landbúnaðarstörf, o.s.frv. en reikna má með að öll þessi störf hafi verið unnin frá upphafi mannkyns - og líklega er ljósmóðurstarfið elsta viðvik sem gert hefur verið fyrir aðra manneskju.
En kannski er bara verið að tala um verk sem er unnið fyrir annan og endurgoldið með einhverjum hætti, t.d. einhvers konar skipti (verk gegn verki eða verk gegn mat/gjöf/greiðslu - aftur hlýtur ljósmóðurstarfið að skora ofarlega þar og mörg önnur störf. Mér hefur alltaf fundist það að tala um vændi sem elstu atvinnugreinina hláleg rökfærsla...........
Er þá ekki það að vera eiginkona/eiginmaður elsta atvinnugreinin líka?
Legg til að um leið og atvinnugreinin vændi verður lögverndað starfsheiti, verði atvinnugreinin þjófnaður líka lögvernduð. Og stofnaðir verði skólar til að fólk fái sem besta menntun í þessum fögum og undirbúning undir starfið. Þá munu börn Ragnheiðar og annarra Sjálfstæðismanna í framtíðinni getað valið um hvort þau fara í lögfræðinginn, þjófinn, lækninn, hjúkkuna, kennarann eða hóruna.
mbl.is Fagna vændislögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kjörklefanum ertu frjáls........

Það er ekki í fyrsta sinn sem þessi sannindi eru sögð, en gott að minna á mikilvægi þeirra. Í kjörklefanum er hægt að henda af sér helsi áralangrar meðvirkni, úr sér gengins trygglyndis og taka skref í átt að einhverju nýju........jafnvel skila auðu, sem er yfirlýsing í sjálfu sér, þótt atkvæðið fari þannig fyrir lítið.

Hvað skal kjósa?

Vandamál kjósandans að velja eftir viku er þó flóknara en oft áður, þar sem margir flokkanna eru margklofnir í afstöðu sinni til helstu málaflokka og erfitt að sjá hvað verður að kosningum loknum, þar sem þeir tala í þessum málum tungum tveim, allt eftir því hvaða fulltrúi þeirra er með orðið. Þau mál sem er næsta ómögulegt að sjá hvernig verða til lykta leidd innan flokkanna þegar á hólminn er komið eru orkumálin/umhverfismálin (utan Vinstri Græn) - fiskveiðimálin/kvótaúthlutunin (utan Frjálslyndir) - ESBmálin (utan Samfylkingin) og sjálfsagt eru þau fleiri málefnin sem flokkarnir steyta á og skoðanir flokksmanna fljóta sitthvoru megin við.

Orkumálin -

Uppbygging fleiri álvera er á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og því sjónarmiði fylgja auðvitað fleiri virkjanir, möguleikarnir eru m.a. í neðri hluta Þjórsár, Bitruhálsi, Þeistareykjum, Gjástykki, Skjálfandafljóti og víðar, jafnvel í friðlandi að Fjallabaki. Þó nokkrir umhverfisverndarsinnar eru til í röðum Sjálfstæðismanna og eins þeir sem blöskrar einhæfnin í atvinnuuppbyggingunni og  áníðslan á landinu - hverjar verða raddirnar sem ber hæst í flokknum að kosningum liðnum?. Samfylkingin talar um græna atvinnuuppbyggingu á sama tíma og hafist er handa við álver í Helguvík, þar sem iðnaðarráðherrann Össur fetar í verki sömu slóð og Sjálfstæðismenn, en fyrrverandi umhverfisráðherra þeirra Þórunn Sveinbjarnardóttir, er greinilega ekki jafn hrifin. Nokkuð ljóst er að þingmenn og flokksmenn Samfylkingar eru mjög klofnir í þessu máli og hvaða sjónarmið verður ofan á að kosningum loknum er erfitt um að spá. Framsóknarflokkurinn, með fyrrverandi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttur í fararbroddi, er hlynntur álverauppbyggingunni, svo að maður tali nú ekki um fyrrverandi þingmann og ráðherra þeirra Valgerði Sverrisdóttur. Innan Framsóknarflokksins eru þó til nokkrar hjáróma raddir sem biðja náttúrunni griða undan þenslunni í þungaiðnaði og umhverfiságangi..........hvernig nýi formaðurinn Sigmundur Davíð er stemmdur í þessum málum er frekar óljóst. Ekki er hægt að lesa annað úr stefnuyfirlýsingu Frjálslyndra en að þeir vilji vernda náttúruna og náttúruauðlindir, en erfitt að sjá hvað þeir meina um stóriðjuna í því samhengi. Vinstri Græn eru yfirlýstur umhverfisverndarflokkur, grænn flokkur, og vilja skoða aðra atvinnuuppbyggingu en álver og óhóflega virkjanagerð - hreinar línur þar. Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin eru nokkuð almennar í yfirlýsingum sínum um þetta málefni, enda stefna þessar hreyfingar báðar fyrst og fremst á umbætur í lýðræðismálefnum þjóðarinnar, hvor með sínum hætti.

Sjávarútvegsmálin -

Einn flokkur var stofnaður beinlínis vegna þessa málaflokks og hefur um áraraðir barist gegn kvótaúthlutuninni eins og hún fór fram á sínum tíma, vill innkalla veiðiheimildir og stokka spilin upp á nýtt með auknum veiðiheimildum - hreinar línur þar. VG er nokkuð á sömu nótum nema kannski ekki með auknar veiðiheimildir, þó má minna á að Steingrímur J. ljáði núverandi kerfi atkvæði sitt á Alþingi forðum daga. Hvort hann er á annarri skoðun í dag og hvernig sjónarmið skiptast í VG er næstum ómögulegt að segja til um. Sjálfstæðismenn taka innköllun og uppstokkun veiðiheimilda ekki í mál, telja núverandi kerfi gott og gilt (Geir Haarde kaus þó gegn því á sínum tíma) - en greinilega kom fram á landsfundi þeirra að ýmsir flokksmenn eru á öðru máli en forystan og samþykkt landsfundarins, svo hvaða raddir verða ofan á að kosningum loknum????(Má líka minna á að þingmenn XD gengu í raun gegn samþykktum landsfundarins í auðlindamálinu á þinginu núna  undir lokin). Samfylkingin vill endurskoða fiskveiðistefnuna, vill að auðlindin verði þjóðareign en ekki einkaeign og má því reikna með að stefnt skuli að uppstokkun kvótakerfisins verði þeir við stjórnvölinn. Mér finnst virkilega erfitt að átta mig á hvað Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin vilja í þessum málum. 

ESB -

Samfylkingin er ein um að lýsa því staðfastlega yfir að þar verði okkur best borgið og vilja hefja aðildarviðræður hið fyrsta. Sjálfstæðismenn eru þverklofnir, sumir eru á sömu skoðun og Samfylking en aðrir fara hægar í sakirnar, segjast ekki setja sig á móti því að kanna möguleika á aðild en enn aðrir Sjálfstæðismenn taka ekki einu sinni í mál að hefja viðræður. Þeir forystumenn flokksins sem töluðu frjálslega um þessi mál á landsfundi hafa nú dregið í land með yfirlýsingar til að styggja ekki flokkssamheldnina. Vinstri Græn hafa lýst andstöðu við inngöngu í ESB en gefa færi á því að fara í viðræður til að kanna hvað er í boði. Frjálslyndir eru ekki hlynntir ESB aðild vegna fiskveiðistjórnunarinnar. (Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin hafa ekki á stefnuskrá sinni neitt er varðar ESB og hafa frekar lítið tjáð sig um það mál.)

 Eins og sjá má er valið ekki auðvelt -  flokkar sem eru svo gegnumskornir í sjónarmiðum flokksmanna í þessum mikilvægu málaflokkum geta farið í báðar áttir eftir kosningar, allt eftir því hvaða einstaklingur innan hans kemst til áhrifa. Það eitt og sér gerir kröfuna um persónukjör ágenga, hvort sem er innan flokka eða milli flokka. Persónukjör er ein af hinum mikilvægu lýðræðisumbótum sem Borgarahreyfingin berst fyrir og maður gæti stutt ef ekki væru að velkjast í huga manns mikilvægi málanna sem að ofan eru talin og Borgarahreyfingin er ekki nógu afdráttarlaus gagnvart. Lýðræðishreyfingin er svo með mann innanborðs sem segist berjast fyrir lýðræði en er sjálfur hið mesta skaðræði fyrir lýðræðið.

Kínverskt spakmæli segir: Ef orð og gjörð fara ekki saman, segja gjörðirnar sannleikann. 


mbl.is Kosningar kosta 200 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þurfti að jafna?

Það er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem logar stafna á milli vegna "styrkja" tveggja fyrirtækja......allt þjóðfélagið logar af forvitni um það HVAÐ það var sem þurfti að jafna út með 25 milljón króna viðbótargreiðslu Landsbankans, til að vera í sömu hæðum og FL-Group, eða eigum við heldur að segja, með sama rétt?

Það má vera að þeir sem tóku ákvarðanir um að veita flokki sínum þessa ofurstyrki séu bara svona góðir og gegnir Sjálfstæðismenn..............og þeir sem tóku við þeim líka...... en að manni læðist grunur um að eitthvað annað liggi að baki...........

Maður þorir varla að taka sér í munn orðið af ótta við málshöfðun, segir bara MÚ... eins og Búkolla forðum, og ef ég hefði hennar kraft og úrræði þá myndi ég segja: "Taktu hár úr hala mínum og leggðu það á jörðina, svo úr því verði ofurstór gegnsæisvél, sem sér gegnum holt og hæðir, flokkabókhald og fyrirtækjatengsl, og dregur fram í dagsljósið allt sem falið er í hinu stóra glæpafjalli falsgreifanna sem mergsugu Ísaland og grófu auðæfi sín í aflöndum. Megi þeir vera útlægir þar um aldir og æfi."


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðbrestur Sjálfstæðismanna?

Davíð uppskar miklu meira lof og klapp fyrir sínar ósmekklegu eiturpillur en hófstillt ræða Geirs Haarde gerði, sem hafði auk þess vit á að biðja flokkinn sinn afsökunar á mistökum sinnar stjórntíðar. Háðsglósur og stráksskapur Davíðs eru ekki sæmandi manni sem hefur gegnt nokkrum af mestu virðingarembættum landsins. Hann er fyrrum borgarstjóri og fyrrum forsætisráðherra og fyrrum Seðlabankastjóri. Reynið að sjá fyrir ykkur einn, aðeins einhvern einn sem gegnt hefur sömu embættum og sem hefði komið fram á þennan hátt, sagt svona hluti.........Er það erfitt? Já, svo sannarlega er það erfitt, en þó ekkert í samanburði við það ef maður reynir að sjá fyrir sér erlenda fyrrum forsætisráðherra segja sömu hluti og Davíð gerði um andstæðinga jafnt sem samherja. Þeir einu sem manni dettur í hug að komist nálægt því eru frægir að endemum.......og það er Davíð reyndar orðinn líka. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig erlendir fjölmiðlar (sérstaklega þeir norsku) munu fjalla um þessa ræðu. Þeir sem klappa fyrir þessum háðsglósum og lítillækkandi ummælum um aðra hljóta að vera fullir af sama stráksskap og foringinn fyrrverandi, þeir hljóta að finna fróun í því að hlusta á aðra lítilækkaða og uppnefnda. Klappið sem Davíð uppskar segir manni að það hefur ekki aðeins orðið siðrof í íslenskum fjármálaheimi, klappið sýnir svo ekki verður um villst að það er stórfelldur siðbrestur í Sjálfstæðisflokknum.
mbl.is Vilhjálmur: Ómakleg ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að biðja flokk afsökunar en ekki þjóð sína....

Það er athyglisvert að lesa ræður fráfarandi formanna bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Þau bæði, Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde, eyða meira púðri í að setja út á fyrrum samstarfsflokkinn en rýna í eigin barm. Ingibjörg telur t.d. helstu mistök sín hafa verið að fylgja " ekki nógu fast eftir okkar eigin sannfæringu um nauðsynlegar umbætur, við fylgdum ekki orðum eftir með athöfnum, við létum gildismat Sjálfstæðisflokksins og viðskiptalífsins yfir okkur ganga og súpum nú seyðið af því ásamt með þorra þjóðarinnar." Sem sagt þetta var hinum að kenna og því engin ástæða fyrir hana til að biðja afsökunar á einu eða neinu. Enda gerir hún það ekki.

Geir eyðir fleiri orðum í uppgjör og endurmat en ISG og segir m.a. "við þurfum að viðurkenna í fullri hreinskilni að
peningamálastefnan sem fylgt var frá 2001 á grundvelli nýrra seðlabankalaga reyndist ekki vel eins og mál þróuðust í okkar litla en opna hagkerfi..........okkur hafa vissulega orðið á margs konar mistök við stjórn landsmála. Það voru mistök að fallast á kröfu framsóknarmanna um 90% húsnæðislán að loknum kosningunum 2003. Að sama skapi má gagnrýna tímasetningar skattalækkana á því kjörtímabili. En stærstu mistök okkar sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Með því að falla frá þeirri stefnumörkun sem ákveðin hafði verið um dreifða eignaraðild urðu okkur á mikil mistök. ......Ég ber mína ábyrgð á því að svona var búið um hnútana á sínum tíma og á þeim mistökum er rétt að biðjast afsökunar. Geri ég það hér með. Sama er að segja um annað sem miður fór og var í okkar valdi og hefði mátt gera betur. En ég get ekki beðist afsökunar á afglöpum eða lögbrotum fyrirferðarmikilla manna í bönkum eða atvinnulífi sem fóru offari með mjög skaðlegum afleiðingum."

Geir er sem sagt maður að meiri og biður flokksmenn sína afsökunar á ákveðnum mistökum. En það er sorglegt að afsökunarbeiðni Geirs (sem þjóðin reyndar kallaði á frá hausti og fram á vor og fékk aldrei) er núna einungis borin fram við eigin flokksfélaga. Er það alvöru afsökunarbeiðni ef henni er ekki beint til þjóðarinnar sjálfrar í opinberu málgagni?

Í mínum huga hefur þjóðin enn enga afsökunarbeiðni fengið, hvorki frá Geir né Ingibjörgu.........

Það er sorgleg staðreynd að þessir tveir forystumenn séu nú báðir að glíma við veikindi og þurfa af þeim sökum að stíga út af velli stjórnmála með ákveðinni samúð meginþorra þjóðarinnar, þótt ferillinn hafi í raun endað með ákveðinni brotlendingu. En jafnvel þó þau hefðu verið fullhraust er harla óvíst að þeim hefði verið stætt á þeim sama velli, bara út af ofansögðu. Óheilindin, ósannsöglin, sjálfsréttlætingin og forherðingin sem lýsti af þessum tveimur stjórnmálamönnum fyrstu mánuðina eftir bankahrunið sýndi þjóðinni þeirra af hvaða tagi þeir voru. Þjóðin vill fleiri Jóhönnur fram á völl stjórnmálanna.............


Say SORRY, someone.........

Það eru víst allir hálf miður sín eftir að hafa horft á fyrrverandi forsætisráðherra okkar Geir Haarde í þættinum Hardtalk sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Engin sjálfsskoðun, enginn baksýnisspegill, bara hroki, afneitun og forherðing (við Sjálfstæðismenn gerum aldrei neitt rangt) og svo á bara að bíða og bíða og bíða og sjá til hvað skýrsla sem kemur út í nóvember segir. En Geir kom vel fyrir að öðru leyti og ég held að hann sé eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem getur tjáð sig sómasamlega á erlendum málum (munið þið eftir Davíð, Steingrími Hermanns, Óla Jó, Bjarna gamla Ben og fleirum?)

Nú eru tveir virtir hagfræðingar búnir að skrifa skýrslu sem lýsir aðdraganda hrunsins, ástæðum, viðbrögðum, mistökum - og stinga síðan upp á aðgerðum sem bjarga því sem bjargað verður. Það tók þá ekki ár að greina málið og gera um það skýrslu, það tók þá um tvo mánuði, enda klárir menn. Og það í fullri vinnu við annað. Nefndin sem skila á skýrslu í nóvember er líklega eingöngu í vinnu við sína skýrslugerð og ekkert annað. Af hverju fær hún heilt ár til að skila sinni vinnu? Er ekkert uppi á borðinu nú þegar sem hægt væri að gera opinbert? Birta hluta skýrslunnar jafnóðum svo almenningur fái á tilfinninguna að eitthvað sé að gerast?? Líkt og hjá Gylfa og Jóni, hvað gerðist - hvers vegna - hvernig var brugðist við o.s.frv.

Fjórir bankastjórar Royal Bank of Scotland voru kallaðir fyrir breska þingið nú fyrir skömmu og farið fram á að þeir bæðu þingmenn (kjörna fulltrúa þjóðarinnar og yfirvald peningamála) afsökunar á mistökum sínum við stjórn bankans. Þeir gerðu það, sögðust vera "profoundly sorry" , en hjá einum gætti hroka þrátt fyrir afsökunarbeiðnina, sem vakti andúð þingmanna og fjölmiðla, hroka af því tagi sem við erum orðin svo vön að hér á landi að við teljum það eðlileg viðbrögð.
'
Hér á landi hefur enginn beðist formlega og af einlægni afökunar á mistökum sínum. Enginn bankamaður. Enginn stjórnmálamaður (utan örfáir þingmenn Samfylkingar sem virðast átta sig á háværri kröfunni, en maður getur svo velt fyrir sér einlægninni).

Kosningar eru framundan, allir sem ég tala við reyta hár sitt og sjá engan vænlegan kost að krossa við, allir flokkar hafa sýnt sig seka um hagsmunapot, feluleik, óheiðarleika og/eða afneitun á ábyrgð.

Ég er að hlusta á gamalt og gott Elton John lag á fóninum núna, og textinn á einhvern vegin svo vel við, þegar SORRY virðist vera erfiðasta orðið sem hægt er að biðja um að verði sagt.

...........
What have I got to do to be heard
What do I say when its all over
And sorry seems to be the hardest word

Its sad, so sad
Its a sad, sad situation
And its getting more and more absurd
Its sad, so sad
Why cant we talk it over
Oh it seems to me
That sorry seems to be the hardest word


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband