31.1.2009 | 14:09
Að skjóta farfugla eða veiða hvali....
Þegar ég fór til Möltu síðastliðið vor (2008), rakst ég á gönguferðum um eyjuna á undarleg skýli og staura sem voru mér algjör ráðgáta þar til ég fékk skýringu eftir nokkra eftirgrennslan. Það er aldalöng hefð á Möltu að snara eða skjóta farfuglana sem fara sunnan úr Afríku og norður um Evrópu að vori og aftur til baka að hausti (yfir 100 tegundir). Er þetta hefð eitthvað í líkingu við nautaat Spánverja og grindhvaladráp Færeyinga.
Meðal drepinna fugla á Möltu hafa fundist merktir fuglar frá 38 löndum Evrópu, og þar af margar sjaldgæfar tegundir og enn aðrar sem eru hreinlega í útrýmingarhættu (og sem maltversk lög heimila reyndar alls ekki heldur að séu skotnar). Alvarlegust er þó talin sú staðreynd að fuglarnir eru drepnir rétt fyrir varptímann, sem minnkar möguleikann á að styrkja stofninn.
Þegar Maltverjar sóttu um inngöngu í Evrópubandalagið var það eitt af skilyrðunum fyrir inngöngu þeirra að þessum fuglaveiðum yrði hætt. Þeir fengu þó inngöngu 2004 með samkomulagi um aðlögun og minnkandi veiðar fram til 2008. 2005 var veitt skv. venju en þegar stjórn Möltu leyfði enn á ný árlegar veiðar vorið 2006 án takmarkana, hóf Evrópusambandið alvarlegar viðræður við stjórnvöld eyjarinnar. 2007 jókst enn þrýstingurinn enda gefið veiðileyfi eina ferðin enn þrátt fyrir að Evrópusambandið krefðist af fullum þunga að sett væru lög og reglur og veiðarnar stöðvaðar. Án árangurs. Maltversk lögregluyfirvöld fylgja málum lítið eftir þó kærur berist vegna veiðanna. Mótmæli ýmissa samtaka í Evrópu báru heldur ekki árangur, (t.d. bárust yfir 115.000 undirskriftir eingöngu frá Bretlandi vorið 2008). Ákvað forsætisráðherra Möltu að hunsa andmælin og neitaði að taka við undirskriftalistum. Vorið 2008 var reyndar ekki gefið leyfi til veiða en heldur ekki bannað og því skotið sem fyrr....
Evrópusambandið hefur hótað hörðum viðurlögum linni veiðunum ekki, enda eru þær ólöglegar samkvæmt lögum Evrópusambandsins. Mál fuglaveiðimanna Möltu kom til kasta Evrópudómstólsins 2008 og voru veiðarnar dæmdar ólöglegar og varða sektum, en verra er þó það álit sem Maltverjar hafa hjá náttúruverndarsamtökum og almenningi um alla Evrópu. Veiðimennirnir hóta á móti að klaga til Mannréttindadómstólsins, veiðarnar byggi á hefð og séu hluti af menningu landsins. Veiðimenn eru lítt á því að gefa sig og harkan í baráttunni sést e.t.v. best á því að skotið var á innlendan fuglafræðing síðasta vor og að kveikt hefur verið í bílum fuglaskoðara, jafnvel unnin skemmdarverk á friðuðum svæðum á eyjunni.
Maltverjar eru í kringum 400.000 og skráðir veiðimenn eru um 16.000. Þeir skjóta um 100.000 farfugla árlega. Meirihluti almennings er andsnúinn veiðunum skv. könnunum, en harðsnúinn minnihluti veiðimanna segist ekki hlusta á þetta veiðibann og muni skjóta hvern þann sem reyni að koma inn á veiðisvæðin og hindra veiðarnar og hafa einnig tekið upp skotveiðar af sjó. Þegar ég las þetta í blöðunum á Möltu snemmvors 2008, áttaði ég mig á því að hefði ég verið á gangi nokkrum vikum síðar hefði ég kannski endað með hagl í rassinum vegna fákænsku minnar. Skildi ég líka allt í einu að ferðalag farfuglanna sem við bíðum með svo mikilli óþreyju er hin mesta háskaför. Þeir leggja líf sitt að veði til að fljúga hingað uppeftir á sinn árlega ástafund. Myndum við vilja fara á mis við það? Það þykir mér ólíklegt og þess vegna hljótum við Íslendingar líka að fordæma fuglaveiðarnar á Möltu.
Farfuglunum bjóðum við griðastað á hverju ári, hér geta þeir verpt og fjölgað sér, hér koma þeir upp ungviðinu og ekki glymja hér við skothvellir í sumarnóttinni. Hingað koma fuglaáhugamenn alls staðar að úr heiminum og njóta. Varptíminn er griðatími og eyjan okkar er griðastaður fugla allt sumarið. Megi svo alltaf vera.
En gæti eyjan okkar ekki líka verið griðastaður hvala? Eyjan þar sem þeir geta svamlað áhyggjulausir og án ótta við skutulinn? Eyjan þangað sem fólk ferðast til að sjá þessar stórskepnur hafsins? Í dag veiðum við hvali......... og finnst við hafa fullan rétt til þess. Þeir eru í sjónum, og við eigum rétt á öllu sem syndir í sjónum í kringum landið, segja sumir. Þeir 115.000 ferðamenn sem vilja sjá hvali í hvalaskoðun vilja örugglega ekki sjá þá í blóðugum niðurskurði í hvalveiðistöðinni, þó Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðismanna, haldi því fram. Það er annar markhópur og örugglega miklu minni. Og ekki víst að hann færi tvisvar í slíka skoðunarferð. En hinir hvalaskoðendurnir koma hugsanlega aftur og vilja mjög líklega sína jákvæðu upplifun aftur. Hver sá sem hefur farið í hvalaskoðun og séð hvali vill fara aftur, það veit ég sem leiðsögumaður. Þetta er auðlind sem þverr ekki.
Talað er um að hvalaskoðun og hvalveiðar geti vel farið saman. En það getur því aðeins farið saman að engin hætta sé á því að þessir aðilar séu á sömu slóðum (og þá ráði ekki kostnaður við olíubrennslu stórskipa ferðinni). Ef leyfa á hvalveiðar á að setja reglur um að ekki mega veiða innan 50 mílna landhelgi, (líkt og væri líka skynsamlegt að gera með botnvörpungana). Og ekki væri verra að setja senda á gæfustu dýrin sem sjást í hvalaskoðuninni, svo hvalveiðiskipin láti þau óáreitt. Það má alls ekki ske að gæf dýr sem full trausts hafa komið til móts við hvalaskoðunarskipin verði drepin vegna þess hve auðveld skotmörk þau eru.
En ég held nú samt sem áður að sama hvað við gerum og hvernig við reynum að sætta þessi sjónarmið, að í augum umheimsins verðum við dæmd eins og Maltverjar, talin hálfgerðir barbarar............. viljum við það?
Bloggar | Breytt 1.2.2009 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2009 | 20:38
Er FME svarthol?
Fyrir ekki svo löngu síðan voru svarthol aðeins fræðileg tilgáta, jafnvel fræðileg martröð, en í dag eru þau tekin sem staðreynd og rannsökuð af mikilli elju af geimvísindamönnum. Tilvera þeirra hefur m.a. verið staðfest vegna streymis efnis í eina átt, eins konar geimvindur, sog eða andardráttur. Afar spennandi og heillandi, eins og ósýnilegur dreki sem sýgur ofan í svelg sinn allt efni og lætur það hverfa. Eiginleikar svartholsins eru þeir að það sem kemur of nærri þeim fer á sífellt hraðari rússíbanareið og endar sem samanklesst hnoð einhvers staðar í innsta kjarna.
Minnir soldið á hvarf allra þeirra mála sem FME er að rannsaka og ekkert heyrist síðan meira af. Fréttamenn sem reyna að ná sambandi við FME fá engin svör, finna bara á kinn sér hrollkalt sog, sem minnir á andfýlu sem streymir stöðugt í eina átt. Drekinn spúir engu út, hvorki upplýsingum, leystum málum, áminningum, sektum, kærum, refsingum..... it´s one way breathing. Ergo = FME er svarthol!
Talið er að svartholin séu mynduð af stjörnum sem springa og hrynja inn að eigin miðju og aðdráttarafli. Því fleiri alvöru stjörnur (og færri svarthol) því lífvænlegri eru stjörnukerfin. Einhvern tíma, t.d. 1998 þegar lögin um Fjármálaeftirlitið voru sett, var FME líklega efni í stjörnu, en hún er löngu sprungin og hrunin inn að eigin miðju, þar sem ekkert gerist og ekkert upplýsingastreymi kemur frá. Almenningur myndi ekki vita af tilveru þess nema vegna þess að enn streyma að því mál og rannsóknarefni, en enda því miður sem hnoð í innsta kjarna. Þetta setur mark sitt á lífvænleik þessa nútíma samfélags sem við teljum okkur búa í, eitthvað sem hefur verið kallað upplýst samfélag, upplýsingasamfélag. Björn Bjarnason, fráfarandi dómsmálaráðherra sagði í kvöld í sjónvarpi að hann teldi FME vinna fyrir of luktum dyrum. Þá vitum við það ..... ... fleiri upplifa martröðina.
Þar sem engar eru upplýsingar þar er mein. Eins og dökkur blettur á röntgenmynd sem gefur til kynna illkynja æxli. Þögn FME er orðin að meini sem þarf að skera burt. Það þarf að opna. Það þarf að upplýsa.
Afléttið leyndinni! Talið við þjóðina! Hún er menntuð. Hún skilur. Hún er meira að segja einkennilega forgiving.....
Eðlisfræðingurinn Frank Oppenheimer varð oft fokreiður þegar fólk sagði við hann að hann ætti að hegða sér á einhvern ákveðinn hátt (oftast skv einhverjum venjum í samfélaginu). Honum var sagt að svona væri raunveruleikinn, the real world, hann yrði bara að aðlagast honum. Frank fannst það ekki sterk röksemd, hann sagði: "This is not the real world. It´s a world we made up. We can make it another way.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 13:02
Það er sitthvað Jón eða heilög Jóhanna
![]() |
Jóhanna vinnusöm en þröngsýn" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 02:48
When I´m 64........
Lýðveldið Ísland náði að verða 64 ára á síðasta ári - og nú viljum við aftur gangast norskri krúnu/krónu á hönd, eða bara einhverju Evrópuvaldi sem getur tekið í taumana á sjálftökuliðinu sem hér veður uppi.
Það hefur reyndar verið sjálftökulið hér á landi allt frá landnámi........þeir fyrstu tóku allt það land sem þeir gátu með góðu móti ráðið yfir og deildu því síðan út til vina, ættingja og annarra styrktaraðila, en kölluðu sjálfa sig goða yfir svæðinu til að öllum mætti vera ljóst hver hafði völdin. Goðar gengu að sjálfsögðu næstir guðum. Strax þarna var grundvöllurinn lagður að þeim nepótisma sem síðan hefur gegnumsýrt íslenskt þjóðfélag. Strax þarna var líka lagður grundvöllurinn að þeim inngróna og allt að því genetíska mótþróa gegn því að borga skatt sem enn ríkir. Þeir sem vildu borga sínu samfélagi skatt urðu nefnilega eftir í Noregi eða Danmörku eða Svíþjóð. Írsku munkarnir og þrælarnir áttu ekkert val (og engar eignir) og skattur var þar að auki orð sem þeir skildu ekki. Kannski eru það afkomendur þeirra sem borga fúslega sína skatta og skyldur í dag, þrælslundin í blóð borin........?
Að lokum safnaðist vald á 5 höfuðættir landsins sem börðust blóðugu stríði innbyrðis þar til útséð var um það að enginn friður yrði í landinu fyrr en æðsta vald væri fært út fyrir landsteinana. Noregur vildi fúslega hygla nýrri hjálendu í nauðsynjamálum, eins og samgöngum við Evrópu, gegn von um auknar skattekjur (reyndar urðu Íslendingar næstu aldir snillingar í að vantelja eignir sínar, en hvað um það....) og féll nú allt í frið og spekt.
Fram liðu tímar. Við tók nýtt sjálftökulið, hreppstjórar, sýslumenn og prestar, menn sem oft hikuðu ekki við að reita af fátæklingum síðustu eigur þeirra í blindri græðgi sinni, leysa upp fjölskyldur, senda lítil börn til vandalausra og þar fram eftir götunum, á meðan eignir kirkju og embættismanna margfölduðust. Og svo tóku við embættismannaættirnar í kaupstöðunum, afkomendur stórbænda á landbyggðinni, þeirra sem gátu sent syni sína til mennta. Og allir komu þeir aftur, fengu þægileg embætti og höfðu það bara flestir fínt, á meðan almúginn var bundinn átthagafjötrum og var haldið með stífu regluverki sem vinnuafl stórbænda í sveitum. Svo fóru betri borgararnir að sinna kaupmennsku þegar kóngur gaf loks leyfi, og upp spruttu enn sterkari ættir þar sem embættismenn og kaupmenn hittust í fjölskylduboðum, giftu börn sín innbyrðis og almúginn þjónaði undir. En svo var það fiskurinn sem öllu bjargaði og gerði þjóðina frjálsa og upp úr jarðvegi almúgans og þeirra sem sóttu sjóinn kom hin nýja millistétt Íslands, stéttin sem byggði upp menntakerfið og heilbrigðiskerfið með skattgreiðslum sínum. Jú, betri borgararnir borguðu einhvern skatt líka en vantöldu eigur sínar að gömlum sið. En hugmyndafræði menntunar og hjúkrunar sjúkra var í boði íslenskra kvenna, sem danski kóngurinn veitti svo kosningafrelsi 1915. Þá var löggiltum íslenskum fána flaggað í fyrsta sinn.
Já, fiskurinn gerði okkur frjáls, og hraust, nógu hraust til að hefja sjálfstæðisbaráttu og rífa soldið kjaft við Dani, líkt og mótþróafullur unglingur við foreldri sitt. Og þrátt fyrir að hafa heimt okkar sjálfstæði að lokum erum við enn unglingurinn í samfélagi Evrópuþjóða, áköf og ör, fífldjörf og framkvæmdaglöð - en líka soldið óhefluð og full af kjánalegum sjálfbirgingi, sem kemur greinilega fram í því að telja okkur best í flestu, meira að segja landið okkar er fegurra en nokkurt annað land. Þetta er Guð vors land, hans eigið land, en þar býr samt ekki hans útvalda þjóð, hún stundar barnamorð í annarra manna landi.
Þessi ákafa og áhættusækna þjóð efldi fiskiskipaflota sinn hratt en sá fljótt að sjósókn og fiskur væri bara fyrir þá örfáu sem gátu talist æðrulausar hetjur, og eitthvað þurftu hinir að setja ótamda orku sína í. Í fjölskylduboðum æðstu embættismanna og viðskiptamanna (já, þeir eru enn að hittast svona) fóru menn að ræða um ný tækifæri og hvort það væri ekki snjallt að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Forsætisráðherrann GHH kynnti þessar hugmyndir HHG vinar síns fyrst í Þjóðleikhúsinu (nei ekki leikhúsi þjóðarinnar á Alþingi) já, fyrir fullum sal leikhússins, þéttsetnu aðalviðskiptajöfrum þjóðarinnar sem klöppuðu dátt, sagði hann að við yrðum líka á þessu sviði mest og best. Að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Einhverjir töldu að landið væri of lítið og þjóðin of fámenn til að hér gæti orðið svona alþjóðleg fjármálamiðstöð, en aðrir sögðu að það passaði hreint ekki, Ísland væri ekki bara fallegasta land í heimi heldur væri það líka stórasta land í heimi! (Nei, það var ekki forsetinn sem sagði þetta, en hann gæti hafa staðið á bak við það).
Og hér erum við stödd, hnípin þjóð í fallegu landi - sem í örvæntingu leitar leiðtoga í daganna þraut. Hér höfum við strandað eftir Íslands þúsund ár, nú má svo sannarlega syngja um hið tárvota eilífðar smáblóm - eða með alþjóðlegri orðum "Iceland forever" eða "Iceland for evra" . Kosningar eru í nánd og 5 flokkar berjast um atkvæði landsmanna, með evru eða móti evru, en líkt höfðingjaættunum á Sturlungaöld er engum þeirra treystandi fyrir stjórn landsins, því þeir bera ekki almannaheill fyrir brjósti heldur eru þeir, líkt og Sturlungar, haldnir valdfíkn sem engin lækning finnst gegn. Hvað er til ráða? Hvert getur 64 ára lýðræði leitað?
Við sem horfum fram á tóma lífeyrissjóði þegar við verðum 64, rifjum í húminu upp gamlan slagara sem hljómaði oft þegar við vorum ung...
http://www.links2love.com/love_lyrics_125.htm
When I get older losing my hair,
Many years from now.
Will you still be sending me a valentine
Birthday greetings bottle of wine.
If I'd been out till quarter to three
Would you lock the door,
Will you still need me, will you still feed me,
When I'm sixty-four.
You'll be older too,
And if you say the word,
I could stay with you.
I could be handy, mending a fuse
When your lights have gone.
You can knit a sweater by the fireside
Sunday mornings go for a ride.
Doing the garden, digging the weeds,
Who could ask for more.
Will you still need me, will you still feed me,
When I'm sixty-four.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2009 | 22:06
Að hágráta yfir fréttum.....
Á meðan sprengjupabbar kreppuþjóðfélagsins á Íslandi hófu að tæma rakettukassana frá áramótunum, sat ég og horfði á Kastljós kvöldsins. Fréttamyndirnar frá Gaza renna mér seint úr minni.......ég hef aldrei áður á ævi minni hágrátið og hágrátið aftur og aftur yfir fréttum. Svo skelfilegt var að sjá lítil limlest börn, og önnur svo augljóslega í sjokki..........og svo þau sem lágu náköld og stíf í fangi foreldra sinna. Hver getur varið hernaðarsinnann sem fer svona fram og bent í sama andartakinu, til afsökunar ódæðinu, á hin 20 ára gömlu samtök Hamas, sem voru stofnuð sem viðbragð við ofríki Ísraelsmanna? Jú, það getur forsætisráðherra Íslands........alltaf réttu megin.
Svona afneitaði líka heimurinn ódæðisverkum nasista gegn gyðingum lengi vel, og svo undarlegt sem það er, minnir stefna Ísraela gagnvart Palestínumönnum ekki lítið á þá aðferð nasista gegn skæruliðum, m.a. í Grikklandi og Rússlandi, að hefna dráps á einum af sínum hermönnum með því að drepa 30 almenna borgara.
Það var fróðlegt að hlusta á einn gáfaðasta haus Íslands, Jón Orm Halldórsson, fjalla um málið í Víðsjá í dag http://dagskra.ruv.is/ras1/4426139/2009/01/06/ hann útskýrði frábærlega vel tengsl bandarísks þjóðfélags við málstað gyðinga, hinar goðsögulegu trúartengingar og gat með skýrum og glöggum hætti greint hvernig á hinu undarlega aðgerðaleysi umheimsins stendur. Mikil væri nú von Íslands ef maður eins og Jón Ormur færi hér með æðsta vald. (Hann þefaði einu sinni af íslenskri pólitík sem aðstoðarmaður ráðherra, en óþefurinn úr reykfylltu herbergjunum geðjaðist honum ekki og hann hvarf frá). Já, það er reykur víða og ofurvaldið er illt, hvort sem það er iðkað í BNA, Ísrael eða eyríkinu Íslandi.
Kannski hljóma hljóðin sem við heyrum hér í Reykjavík í kvöld eitthvað í líkingu við það sem sprengingarnar á Gaza hljóma í eyrum Palestínubarna (svo hafa þeir sem til þekkja sagt mér) en ólíkur er bæði tilgangurinn og afleiðingarnar. Það á víst að heita nú á dögum að það sé kreppulykt af ljósadýrðinni hér hjá okkur, en reyk og blóðlyktin sem fylgir drununum á Gaza hlýtur að vera hverjum þeim sem finnur ógleymanleg. Það mátti að minnsta kosti skilja á norska lækninum sem talaði í eigið útsendingartæki yfir til vestrænna þjóða, eini fréttamiðillinn sem enn var til staðar á svæðinu, öll fjarskipti rofin af Ísraelum og allir fréttamenn flúnir í skjól, og þessir tveir norsku sjálfboðalæknar einir eftir med vores palestiniske venner eins og hann orðaði það svo fallega, á meðan sprengjudrunurnar glumdu í bakgrunninum, í samhljóm við flugeldadrunurnar fyrir utan gluggann minn. Ég græt enn á ný............
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2008 | 13:50
Hver trúir þessu Geir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2008 | 00:48
Óþjóðakona hefur blogg
Jæja, þá er maður nú barasta orðin bloggari. Ekki átti ég nú von á því. Vonandi breytir það ekki neinu um það hver ég er. Ég er bara ég.
En ég hef þó fengið eitt að vita á undanförnum vikum sem ég vissi ekki áður, og var e.t.v. hvatinn að þessu blogguppátæki, og það er að ég telst víst utan þjóðar. Og þá er það vonandi á hreinu að á þessu bloggi tala ég ekki fyrir þjóðina. Ég er óþjóðakona.
En í mér býr rödd.....
Það er orðið nokkuð um liðið síðan ég stóð í kuldagalla á Austurvelli og reyndi að finna stuðning með óþjóð minni. Þarna hafði ég komið nokkra laugardaga í röð ásamt óþjóðafólki úr öllum lögum samfélagsins og úr öllum stjórnmálaflokkum. Þarna voru jafnvel flokkleysingjar eins og ég. Og enn lifir í minninu magnaður borgarafundur í Háskólabíói, sem í mínum huga markaði tímamót í íslensku samfélagi. Í salnum var fullt af óþjóðafólki eins og mér, líkt og á Austurvelli, en fulltrúar þjóðarinnar sátu fyrir svörum á palli. Ekki veit ég hvað fulltrúar þjóðarinnar voru að hugsa, en í mínum huga blunduðu blendnar tillfinningar.
En þó ég sé ekki þjóðin, þá varðar mig um þjóðina. Mér þykir hún mikils virði. Mér finnst framtíð hennar varða mig.
En í dag er ég þreytt, og ég held að óþjóðin sé það líka, flest okkar eftir mikla og langvarandi vinnu til þess ætlaða að afla tekna til að greiða niður skuldir og eiga fyrir hinu daglega lífi. Fólk sem vinnur svona mikið hefur ekki mikið þrek afgangs til að standa úti í kulda og frosti, og þó það bíti þegjandi á jaxlinn svona dags daglega, þá ber það helst ekki þögn sína á torg í táraborg. Óþjóðin er þreytt og þar á ofan á hún erfitt með að finna út hvað hún getur gert sem einhverju breytir.
En óþjóðin veit reyndar vel hvað það er sem hún vill ekki, og hefur nú reynt að segja það upphátt nokkrum sinnum. En það er ekki hlustað á hana. Ekkert frekar en á þögn hennar.
Meðal okkar hafa búið menn sem láta sig ekki óþjóðina varða. Þeir láta sig heldur ekki þjóðina varða. Þetta eru menn sem hafa hugsað mikið UM SIG. Þeir halda því fram að sú staðreynd að þeir hafi hugsað svona vel um sig hafi verið afskaplega gott fyrir alla hina líka. Gott fyrir þjóðina. Samt voru þeir ekkert að hugsa um þjóðina. Þeim fannst þjóðin minna virði en eigið virði. Þeir vildu ekki einu sinnni gjalda þjóðinni sanngjarnan skatt af eigum sínum og virði og fluttu sig því frá þjóðinni. Þeir töldu sig utan þjóðar, innanlands sem utanlands, alltaf í útlöndum, aflandsmenn á aflandssvæðum. Samtímis græddu þeir mikið á litlu þjóðinni sinni sem sífellt jók eigið virði þeirra. En þá varðaði ekkert sérstaklega um þessa þjóð sem gerði þá mikils virði. Þeim fannst framtíð þjóðarinnar ekki varða sig.
Svona er bilið langt á milli mín og þeirra.......óþjóðakonunnar og aflandsmannanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er þetta ekki það sem símtal Árna Matt við Alister Darling snerist um? Hvort Árni gæti staðfest að íslenska ríkistjórnin í gegnum Seðlabankann myndi tryggja þessa greiðslu? Kannski málefni fundarins fræga þar sem "eitthvað aðeins var tæpt á Icesave-reikningum"? Fullyrti ekki líka Björgúlfur Thor að þetta hefið margoft verið rætt síðustu dagana fyrir fallið mikla en íslensk stjórnvöld hefðu ekki viljað gera þetta, e.t.v. talið tryggingar bankans of hæpnar eða einfaldlega ekki ætlað að greiða þetta, eins og Davíð sagði í Kastljósviðtalinu fræga.........og var það því viðbótar staðfesting á orðum Árna við Darling um það að íslensk stjórnvöld ætluðu ekki að vinna með breskum stjórnvöldum að mögulegri (og hepplegri sjáum við nú) lausn Icesave-reikninganna. Ekki nema von að Árni stamaði soldið í þessu símtali...... en nú bítur Geir úr nálinni með þetta allt saman og segir engan hafa vitað af þessu góða tilboði.......hvorki hann sjálfur né aðrir embættismenn. Ja, nú er nefið á Gosa orðið langt.........
.....og ég er ekkert hissa lengur á hryðjuverkalögunum.