25.8.2010 | 20:08
Kirkjuráð tekur jákvætt skref.
Það er mikill léttir að yfirlýsingu kirkjuráðs í dag. Vandræðaganginum er lokið. Afgerandi afstaða tekin með fórnarlömbum kynferðisofbeldis, þeim er trúað. Eftir þessa yfirlýsingu trúi ég því að kirkjan muni sýna meiri skilning og minni vandræðagang í flóknum og vandmeðförnum málum. Línur hafa skýrst, verklag verður endurskoðað. Sama ferli er hafið innan kirkjunnar sem hófst fyrir mörgum árum innan lögreglunnar í kynferðisbrotamálum........viðhorfsbreyting og skilningur fylgir í kjölfarið. Jákvætt skref.
Eins fannst mér gott að heyra að Geir Waage sagðist í kvöldfréttum virða landslög umfram þagnarskylduna, einnig hann fékk tíma til umhugsunar og komst að réttri niðurstöðu. Jákvætt skref. Það var gott að sjá í bloggheimum að hann var á sínum tíma sá prinsippmaður að ganga fram fyrir skjöldu í biskupsmálinu, og uppskar kæru biskups - en númer eitt var hans jákvæða skref að skipta um skoðun að hugsuðu máli, það er sjaldgæfur eiginleiki á Íslandi. Batnandi kirkjunnar mönnum er best að lifa, og okkur öllum hinum líka.
![]() |
Kirkjuráð biðst fyrirgefningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2010 | 23:00
"Ég rengi hana ekki" eða "Ég trúi henni"
Það var undarlegt að horfa á biskupinn okkar (héðan í frá nefndur Karl) eiga í erfiðleikum með að segja "Ég trúi henni" í Kastljósviðtali kvöldsins þegar hann var spurður hvort hann tryði Guðrúnu Ebbu - aftur á móti endurtók hann tvisvar við þrýsting "Ég rengi hana ekki". En hann gat greinilega ekki sagt hreint út að hann tryði henni. Skrítið, svo ekki sé meira sagt.
Karl taldi sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á sannleiksgildi ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni, gamalla og nýrra. Kirkjuráð notaði 2009 svipað orðalag í viðskiptum sínum við Sigrúnu Pálínu: "..að kirkjuráð hefur ekki vald til að leggja mat á eða úrskurða um framangreindar sakargiftir þar sem ákæra var ekki gefin út á sínum tíma og séra Ólafur er nú látinn." Nákvæmlega sama orðalagið, trúlega samið af þeim sama..........og hverju breytir dauðinn ef allar líkur leiða að því rökum að konurnar sögðu satt? Í morðmálum þar sem annar málsaðili er dauður en hinn lifandi og þrætir eru það líkur, sannanir og vitni sem geta orðið til að dómur fellur. Og þessi umræddu mál eru eins og Karl sagði, sálarmorð. Nema að hinir myrtu lifa - og í þessu tilviki er það morðinginn sem er látinn..........
Hvaða forsendur þarf að hafa til að trúa þessum konum? Trúa fólki, unglingum, börnum? Trúa á guð og heilaga ritningu ef því er að skipta, en þar eru forsendurnar oft ruglingslegar og snúast oft um flest annað en gagnrýna hugsun. Forsenda þess að trúa á Guð er ákvörðun eða sannfæring. Forsenda þess að trúa þessum konum er ákvörðun tekin útfrá sterkum líkindum og/eða sannfæringu. Forsenda þess að trúa þeim ekki, er ef til vill líka sannfæring um sakleysi Ólafs, eða sannfæring um það að satt megi best kjurt liggja. Eins og bein í mold, eins og falin bein hins sálarmyrta.
"Og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa" Jóh.8. 31 - Takið það til ykkar kirkjunnar menn, biskupar sem og aðrir drottins þjónar.
Það að Ólafur er látinn breytir engu um það að hann geti verið sekur um glæp, þó ekki sé lengur fært að rétta í máli hans. Kannski hefði verið betra að ríkissaksóknari hefði ekki lagt að honum að falla frá kærum á hendur konunum, þá hefði kannski ýmislegt komið fram í dagsljósið sem vammleysinginn vildi fela. Sannleikurinn sem hefði gert Ólaf frjálsan. Ef allt sem á Ólaf var og er borið er satt, hlýtur Ólafur að hafa haft djúpa fyrirlitningu á sjálfum sér, fyrir óeðlið sem hann kallaði svo í viðtölum við organista sinn, fyrir feilað föðurhlutverk sitt, fyrir svikið sálusorgarahlutverk sitt, fyrir eiðstafssvik sín, fyrir hræsnina fyrir framan altari Guðs hvert sinn..................
Það liggur nokkuð ljóst fyrir mér að Guðrún Ebba kaus að draga það fram yfir andlát föður síns að opna málið sem sneri að henni. Hún sýndi honum þannig meiri tillitsemi lifandi en hann henni, lifandi litlu barni í hans umsjá, (og mörgum öðrum ungum lifandi konum). Þegar hún ákvað að beina áskorun um sjálfsskoðun kirkjunnar í kynferðisbrotamálum til Karls Sigurbjörnssonar og kirkjuráðs, kaus Karl að svara ekki bréfi hennar, lét það liggja óhreyft í rúmt ár þar til hún ítrekaði beiðni sína beint við kirkjuráð. Geymdi upplýsingar í bréfi hennar við hjarta sér, sagði hann. Reyndi að fela fleiri bein.
Það var ekki mikil tillitsemi við tilfinningar Guðrúnar Ebbu - og miklu meira gat það þó virst líklegt brotið gegn henni, í ljósi fyrri ásakana sem Karl vissi manna gjörlast um. Sú bið og sú árs langa þögn sem Karl kaus að sýna Guðrúnu Ebbu segir mikið. Nú voru komnar ærnar ástæður til að trúa mörgum konum, leggja mat á upplýsingar og bregðast við. En Karl vildi geyma þessar upplýsingar við hjarta sér. Þessi feluleikur með bréfið á sér innanhúðar hljómar næstum pervert - ætlaði hann að lesa það reglulega, rifja upp innihald þess, ætlaði hann að örvast við þessa geymd eða finna til djúpstæðrar sorgar? Ætlaði hann að grafa upp bein eða grafa niður bein? Hugsaði hann einhvern tíma um sannleikann sem gjörir menn frjálsa? Las hann yfirhöfuðið Jóhannesarguðspjallið?
Ég er á þeirri skoðun að góður prestur hefði af meðaumkunarfullu hjarta viljað sjá sársauka kvennanna sem ásökuðu Ólaf á sínum tíma fá tiltrú, samúð og linun í gegnum kirkjunnar þjóna og þjónustu. Ég er á þeirri skoðun að forvitinn prestur hefði viljað vita hvað væri hæft í þessum ásökunum, hefði grafið dýpra, hefði skilið að sannleikurinn gjörir menn frjálsa. Ég er á þeirri skoðun að prestur sem hefði andstyggð á slíkri hegðun sem í ásökununum felst, hefði vijað fá fram algera hreinsun ásakana, hefði ekki viljað vera sjálfur bendlaður við neitt slíkt í starfi kirkjunnar. Slíkur prestur hefði ekki getað verið alveg einarður í afstöðu sinni með Ólafi.
Karl Sigurbjörnsson var alltaf dyggur stuðningsmaður Ólafs, líka eftir ásakanir kvennanna, og Ólafur var hans stuðningmaður, t.d. í síðasta biskupskjöri þegar Karl var kjörinn með 58% atkvæða. Svo mikið var kappið á síðustu kjördögum að sóknarpresturinn Karl mætti of seint í jarðarför föður míns, ruglaði mörgu í útfararræðu og gleymdi kveðjum frá fjarstöddum ættingjum. Svona getur valdakapp ruglað menn í ríminu........
Ég er á þeirri skoðun....og haldið ykkur nú fast.......að allir sem frekar draga taum þeira sem leggjast á lítilmagna eigi í hjarta sér eitthvað sameiginlegt með þeim ójafnaðarmönnum. Ég er á þeirri skoðun að prestar sem reyna að þagga niður fregnir um kynferðisbrot innan kirkjunnar þekki þessar óróakenndir sem líka geta bærst neðan pípukraga og samlagðra handa og sýni þeim skilning samsærisins og leynireglunnar. Ég er á þeirri skoðun að lögmenn sem draga taum kynferðisbrotamanna og vændiskaupenda hafi í hjarta sér samúð með slíkum mönnum, sjái sig í þeim, skilji þá. Þeir verja þá af skilningi. Þeir sjá ekki þann sem meiðir, kúgar, og myrðir sálir. Þeir sjá þann sem langar og þráir, byrgir inni en á möguleika á uppfyllingu undarlegustu drauma og hugaróra ......
Ég er á þeirri skoðun að mannlegir veikleikar séu svolítið annað en yfirvegaðar lygar og kúgun. Þess vegna er auðveldara að fyrirgefa þá, sérstaklega ef sóst er eftir fyrirgefningu og iðrast. Yfirvegaðar lygar og kúgun eru allt annar handleggur, brot í mannlegum samskiptum sem er reiknað sjálfum sér í hag en á kostnað annarra. Það eru svik, hreinn og kaldur útreikningur vel gefins einstaklings sem notar góðar gáfur sínar og aðra yfirburði til að kúga aðra - slíkt er ekki svo auðvelt að fyrirgefa.........það eru svik við mennskuna.
Ég trúi Guðrúnu Ebbu, ég trúi Sigrúnu Pálínu, ég trúi hinum konunum sem komu fram, ég trúi unglingsstúlkunum á Selfossi sem sóknarpresturinn leitaði á. Ég trúi þeim því ég tel mig skilja hugrekkið sem býr að baki þeirri ákvörðun að standa með sjálfri sér gegn hræsni "vammleysingjans" sem snýr óaðfinnanlegri grímu sinni að þjóðfélaginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2010 | 17:24
Ráðgjafastofa heimilanna - þvílíkt grín!
Hef tvisvar leitað til Ráðgjafastofu heimilanna. í bæði skipin lenti ég á ungum mönnum sem litu út fyrir að vera fyrrum verðbréfasalar. Þekking þeirra á því sem þeir áttu að vera að ráðleggja um var hlægilega lítil. Samt var mér ekki skemmt. Ákvað að fara aftur þrátt fyrir slæma reynslu fyrst, því ég vonaði að ég hefði verið óheppin í fyrra skiptið. Ráðgjafinn hafði ótrúlega lítið innsæi, en er með forrit sem hann hélt að allt passaði inn í. Fullyrti t.d. að ég ætti rétt á vaxtabótum þó ég viti (og endurskoðandinn minn enn betur) að það á ég ekki, m.a. vegna þess að eignastaðan er orðin absúrd vegna óseldrar íbúðar og ég hef stöðugt reynt að auka greiðslugetu mína til að standa í skilum. (Best virðist manni reyndar þeir standa sem skulda sem mest og óhagstæðast og þá er hlaupið til hjálpar, en hinn stóri hópur sem er með venjuleg íbúðalánasjóðslán og hefur staðið í skilum er að verða illa úti.). Verst þótti mér þó þegar ráðgjafinn í léttara spjalli í lok samtals okkar fullyrti að helsti verðbólguhvati efnahagskerfa væri almenn neysla borgaranna.......OMG......vissi sem sagt ekkert um að sveiflur í verðlagi útflutningsverðmæta vegna gengissveiflna valda mikilli verðbólgu, og að óstöðugt gengi hefur verið hinn eilífi bölvaldur og hvati íslenskrar verðbólgu og stjórnvöld svo áratugum skiptir algerlega vanhæf til að takast á við það. Líka má nefna þensluáhrif virkjanaframkvæmda og annarra stórframkvæmda sem krefjast erlendra lána, eins stórvéla og tækjainnflutningur eða innflutningur dýrra bíla með lækkuðum innflutningstollum o.s.fr.v. Ráðgjafi minn taldi neyslu almennings (og þar af leiðandi neikvæðan viðskiptahalla) fara langt framúr þessum verðbólgumyndandi þáttum, þó lítið vit þurfi til að lesa sér til um annað. Æji, hvers á venjulegt fólk að gjalda á íslandi.........Ráðgjafi sem veit ekkert, á ekki að ráðleggja öðrum. Ef þeir eru allir svona hjá Ráðgjafastofu er ég ekki undrandi á að fólk fari þaðan út bálreitt.
Það er eins og þessum ráðgjöfum hjá Ráðgjafastofu hafi síðan sjálfum verið ráðlagt af sínum stjórnendum að telja alla sem þangað leita á að fara í greiðsluaðlögun, enda tryggir það endurheimtur hjá þeim sem reka Ráðgjafastofuna (ríki, bankar, stéttarfélög), en er ekkert endilega heppilegasti kosturinn hjá þeim sem til hennar leita. Það gæti t.d. hentað einhverjum sem er að komast í þrot en er enn skuldlaus að gera eitthvað allt annað. Og það gæti hentað þeim sem er hvort eð er fallinn á tíma að láta bara allt rúlla, fara í gjaldþrotameðferð eða skila lyklunum.......en þessum ráðum mun stofan aldrei beina til fólks......bara greiðsluaðlögun, greiðsluaðlögun, greiðsluaðlögun, þá fær ríkið sitt, eða bankinn eða lífeyrissjóðurinn. Þetta lítur allt voða vel út á yfirborðinu og í orðalaginu, en er bara grín þegar þú skoðar málið betur, því það er enn verið að verja hagsmuni lánastofnananna en ekki almennings. Gaman að vera Íslendingur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2010 | 20:59
Sú þjóð
Sú þjóð sem löngum átti´ ekki´ í sig brauð
en einatt bar þó reisn í fátækt sinni,
skal efnum búin orðin þvílíkt gauð
er öðrum bjóði sig að fótaskinni.
Sú þjóð sem horuð ærið afhroð galt
af ofurheitri trú á frelsið dýra,
hún býður lostug sama frelsi falt
með fitustokkinn belg og galtarsvíra.
Sú þjóð sem veit sér ekkert æðra mark
en aurasníkjur, sukk og fleðulæti,
mun hljóta notuð herra sinna spark
og heykjast lágt í verðgangsmanna sæti.
Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó,
og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!
Jón Helgason 1951
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2010 | 14:57
Hefð´ann haft her?
Ég er að lesa tvö rit - Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson, sagnfræðilega skáldsögu þar sem m.a. er fjallað um uppgang nasismans í Þýskalandi og flótta gyðinga, Reykjavík stríðsáranna o.fl. Hitt ritið er skýrslan margfræga, sem ég les úr styttri kafla í einu á netinu.
Ég hef verið sérstaklega hugsi yfir lýsingum á skapofsaköstum Davíðs, hvernig menn titra af ótta frammi fyrir honum, hótunum hans um að gera ákv. manni ólíft á Íslandi (skyldi hann vera sá fyrsti eða eini sem hann hótaði því?) og fleira í sama dúr. Nú hefur maður líka í gegnum tíðina fengið að heyra hversu sjarmerandi maður Davíð getur verið, fyndinn og klár. Margbrotinn er hann greinilega.
Þessu tvennu slær saman í huga mér og ég get ekki varist þeirri hugsun hvað svona skapofsaköst hefðu getað orsakað ef maðurinn hefði haft yfir her að ráða..............hefði hann beitt honum gegn eigin þjóð eða jafnvel eigin samherjum sem hann var ósáttur við, eins og sumir valdamiklir menn sem réðu yfir her hafa gert og mannkynssagan segir frá???
Nei, þetta er of grimmileg tilgáta hjá óbreyttum þegni svona friðelskandi þjóðar við ysta haf, sem aldrei mun fara með stríði gegn annarri þjóð..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2010 | 11:55
Hver er þessi Gestur?
Lögmaðurinn Gestur Jónsson kemur víða fyrir í rannsóknarskýrslunni. Og núna í dag heyrum við enn af honum, hann er nefnilega verjandi Hauks Þórs Haraldssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landsbankans, og fékk Gestur hann sýknaðan af kæru um fjárdrátt. Gestur fékk litlar 4 millljónir greiddar frá ríkinu (okkur) fyrir að verja Hauk (Hann fékk 15 milljónir 2007 frá okkur fyrir að verja Jón Ásgeir í Baugsmálinu). Og hvað hafði Haukur gert? Jú, millifært litlar 118 milljónir í aðdraganda hrunsins frá Guernsey á einkareikning sinn "til að bjarga fénu" eins og hann sagði og aðrir bankamenn virðast hafa staðfest. (Samtrygging?) Fé án hirðis er greinilega umsetið. En ekki af góðum hirðum.
En hver er þessi Gestur?
Lögmaðurinn Gestur Jónsson var kallaður fyrir rannsóknarnefndina sem einstaklingur.
Hann kom líka fyrir nefndina sem lögmaður Sigurðar Einarssonar, Kaupþingi.
Hann kom líka með Reyni Stefáni Gylfasyni, hjá KPMG sem sá um ytri endurskoðun Kaupþings.
Hann kom líka með Sigurði Jónssyni forstjóra KPMG, vegna ytri endurskoðunar Kaupþings.
Hann kom líka með Sæmundi Valdimarssyni hjá KPMG vegna ytri endurskoðunar Kaupþings
Hann kom líka með Ólafi Má Ólafssyni hjá KPMG, sem sá um ytri endurskoðun Sparisjóðabankans/Icebank
Hann virðist hafa mikla sérþekkingu á enduskoðun og reikningshaldi fyrirtækja þessi Gestur. Sérstaklega í aflandslöndum......Skyldi hann vera sá sem ráðlagði skjólstæðingum sínum (Jóni Ásgeiri, Lýð, Sigurði Einars o fl.) að flytja lögheimili sín til Englands? Hvar skyldi hann sjálfur eiga lögheimili?
Googlið skilaði þessu:
Hann virðist hafa átt einhverja aðkomu að Hafskipsmálinu, líklega í skiptastjórn þess.
Hann var umboðsmaður þeirra bjóðenda sem lögðu fram þátttökutilkynningu vegna sölu á 51% hlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins 1999.
Hann var lögmaður Skeljungs í samráðsmálinu 2003
Hann var verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugsmálinu 2006
Hann var í matsnefnd vegna vatnsrétinda 2007.
Hann var lögmaður slömmbarónanna sem áttu Laugaveg 4-6 og mjólkuðu borgaryfirvöld.
Hann var lögfræðingur Glitnis.
Hann fylgdi Lárusi Welding og Þorsteini Má Baldurssyni í Seðlabankann í aðdraganda yfirtöku Glitnis í lok september 2008.
Á árinu 2009 var hann með meðalmánaðartekjur 930.000 sem er ótrúlega lágt miðað við auðmennina sem hann er að verja og öll þau mál sem hann er að vasast í (kannski með góðan endurskoðanda hjá KPMG?).
Hann situr í stjórn Askar Capital frá yfirtöku kröfuhafa 2009.
Hann virðist vera viðloðandi lífeyrissjóð verkfræðinga og lífeyrissjóð sjómanna, sér um fundarstjórn á fundum þeirra.
Hann er varamaður bankastjórnar Sparisjóðabankans.
hann er lögmaður Lýðs Guðmundssonar í yfirheyrslum sérstaks saksóknara.
Hann er verjandi Exista í málaferlum gegn Kaupþingi núna í apríl.
Fingraför Gests virðast vera víða........
Þurfum við ekki að fá meiri þekkingu á þessum Gesti?
Þetta segir um hann á heimasíðu Markarinnar, lögmannsstofu:
Starfssvið:
Málflutningur, vinnuréttur og viðskiptaréttur
Í stjórn Lögfræðingafélagsins 1984-1986, í stjórn Lögmannafélags Íslands 1986-1988 og aftur, sem formaður, 1989-1992. Seta í Landskjörstjórn frá 1991, varaformaður frá 1995, formaður frá 2004. Stundakennari og prófdómari við lagadeild Háskóla Íslands frá 1990. Formaður Úrskurðarnefndar lögmanna, skipaður af Hæstarétti, frá 1998. Hefur tekið þátt í samningu lagafrumvarpa, m. a. meðhöfundur frumvarps til breytinga á skaðabótalögum, og skrifað greinar um lögfræðileg málefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2010 | 14:40
Fátækasta fólk þjóðarinnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2010 | 00:21
Vigdís er virðing Íslands, viska og styrkur
Eitt sinn var sagt um mætan mann að hann væri sómi Íslands, sverð þess og skjöldur.........ég segi um Vigdísi:
Virðing íslands - vitur og sterk
Heill þér áttræðri!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2010 | 00:45
Íbúðalán þjóðarinnar-þakið (hrynur) yfir höfuðið
Mér finnst að það þurfi að fara að skoða málið allt í heild sinni, ekki bankaíbúðalánin sér og myntkörfulánin sér og íbúðalánasjóðslánin sér.
Við sem erum að horfa upp á eignir okkar brenna upp, venjulegt fólk sem alltaf hefur staðið í skilum, eigum kröfu á að gripið sé til úrræða sem allir njóta góðs af, ekki bara þeir sem skuldsettu sig sem mest eða með áhættusamasta hætti.
Íbúðalánasjóðslánin og lífeyrissjóðslánin hafa löngum verið hið hefðbundna form lántöku þegar kaupa skyldi íbúð, bankalánin og myntkörfulánin voru "ný vara" á þessum vettvangi. Við sem fórum hefðbundnu leiðina erum flestöll komin í mjög þrönga stöðu núna, einfaldlega vegna höfuðstólshækkunar og þar af leiðandi hækkunar á mánaðarlegri afborgun. Ekkert gerðum við sem áhætta var fólgin í, og við reynum að standa í skilum fram í rauðan dauðann. En 30% hækkun lána og afborgana er stór biti.
Að tala um greiðslugetu er líka afstætt, því með því að auka vinnuálag eykur maður tekjur sínar og þar af leiðandi greiðslugetuna. Hvað er eiginlega eðlileg greiðslugeta? Er það laun fyrir 8 stunda vinnudag - eða er það laun fyrir 16 stunda vinnudag? Ég persónulega hef aukið vinnuálag mitt jafnt og þétt undanfarin 2 ár til að geta staðið í skilum, útfrá þeirri grundvallarreglu að á meðan maður aflar stendur maður í skilum. Og á meðan maður fær vinnu sem greitt er fyrir er maður þokkalega öruggur. En er þetta þrælafyrirkomulag einhverjum til góðs? Hvað ef maður fær ekki tvöfalda/þrefalda vinnu? Er maður þá ekki líka að taka vinnu frá öðrum? Og á maður að stunda 16 tíma vinnudag fram að ellilífeyri? Og hvað þá, ekki borgar ellilífeyrinn það sem krafist er?
Vitiði það, ég er orðin örþreytt eftir 2 ár í óvissu og því að reyna að halda mér á floti með öllum mögulegum (löglegum) ráðum og fáránlegu vinnuálagi. Hversu lengi getur maður staðið vaktina? Hugmyndin um að skila inn lyklunum til skuldunautanna verður sífellt meira freistandi - eitthvert frelsi fólgið í því.
Djókinn er að þó að maður borgi sem nemur 8-10% af virði láns á ári (ca 100.000 af hverri 1.000.000) þá lækkar lánið ekki, heldur hækkar um 30%.!!!! Hvar á byggðu bóli i Evrópu þekkist svona rugl? Í öðrum löndum þýddi þetta uppgreiðsu lána á innan við 20 árum....en hér minnst 40 ára skuldaklafa með síhækkandi grelðslum.
Krafan er: Lækkun höfuðstóls aftur til jan-mars 2008 og þak á verðtryggingu þaðan í frá, t.d. 7-8%.
(Samt sem áður myndi það þýða um 13-15% raunvexti - og það þykir mikið í öðrum Evrópulöndum, þar sem íbúar geta reiknað með 2-5% raunvöxtum á lánum sínum))
Við verðum að herða baráttuna gegn svona augljósum afarkostum þar sem lánveitandi er tryggður í bak og kvið en við blæðum. Krafan er: lækkun höfuðstóls til jan 2-mars 2008 og þak á verðtryggingu þaðan í frá!!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2010 | 13:28
Höfuðstólinn niður, STRAX
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)