Að biðja flokk afsökunar en ekki þjóð sína....

Það er athyglisvert að lesa ræður fráfarandi formanna bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Þau bæði, Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde, eyða meira púðri í að setja út á fyrrum samstarfsflokkinn en rýna í eigin barm. Ingibjörg telur t.d. helstu mistök sín hafa verið að fylgja " ekki nógu fast eftir okkar eigin sannfæringu um nauðsynlegar umbætur, við fylgdum ekki orðum eftir með athöfnum, við létum gildismat Sjálfstæðisflokksins og viðskiptalífsins yfir okkur ganga og súpum nú seyðið af því ásamt með þorra þjóðarinnar." Sem sagt þetta var hinum að kenna og því engin ástæða fyrir hana til að biðja afsökunar á einu eða neinu. Enda gerir hún það ekki.

Geir eyðir fleiri orðum í uppgjör og endurmat en ISG og segir m.a. "við þurfum að viðurkenna í fullri hreinskilni að
peningamálastefnan sem fylgt var frá 2001 á grundvelli nýrra seðlabankalaga reyndist ekki vel eins og mál þróuðust í okkar litla en opna hagkerfi..........okkur hafa vissulega orðið á margs konar mistök við stjórn landsmála. Það voru mistök að fallast á kröfu framsóknarmanna um 90% húsnæðislán að loknum kosningunum 2003. Að sama skapi má gagnrýna tímasetningar skattalækkana á því kjörtímabili. En stærstu mistök okkar sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Með því að falla frá þeirri stefnumörkun sem ákveðin hafði verið um dreifða eignaraðild urðu okkur á mikil mistök. ......Ég ber mína ábyrgð á því að svona var búið um hnútana á sínum tíma og á þeim mistökum er rétt að biðjast afsökunar. Geri ég það hér með. Sama er að segja um annað sem miður fór og var í okkar valdi og hefði mátt gera betur. En ég get ekki beðist afsökunar á afglöpum eða lögbrotum fyrirferðarmikilla manna í bönkum eða atvinnulífi sem fóru offari með mjög skaðlegum afleiðingum."

Geir er sem sagt maður að meiri og biður flokksmenn sína afsökunar á ákveðnum mistökum. En það er sorglegt að afsökunarbeiðni Geirs (sem þjóðin reyndar kallaði á frá hausti og fram á vor og fékk aldrei) er núna einungis borin fram við eigin flokksfélaga. Er það alvöru afsökunarbeiðni ef henni er ekki beint til þjóðarinnar sjálfrar í opinberu málgagni?

Í mínum huga hefur þjóðin enn enga afsökunarbeiðni fengið, hvorki frá Geir né Ingibjörgu.........

Það er sorgleg staðreynd að þessir tveir forystumenn séu nú báðir að glíma við veikindi og þurfa af þeim sökum að stíga út af velli stjórnmála með ákveðinni samúð meginþorra þjóðarinnar, þótt ferillinn hafi í raun endað með ákveðinni brotlendingu. En jafnvel þó þau hefðu verið fullhraust er harla óvíst að þeim hefði verið stætt á þeim sama velli, bara út af ofansögðu. Óheilindin, ósannsöglin, sjálfsréttlætingin og forherðingin sem lýsti af þessum tveimur stjórnmálamönnum fyrstu mánuðina eftir bankahrunið sýndi þjóðinni þeirra af hvaða tagi þeir voru. Þjóðin vill fleiri Jóhönnur fram á völl stjórnmálanna.............


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband