When I´m 64........

Lýðveldið Ísland náði að verða 64 ára á síðasta ári - og nú viljum við aftur gangast norskri krúnu/krónu á hönd, eða bara einhverju Evrópuvaldi sem getur tekið í taumana á sjálftökuliðinu sem hér veður uppi.

Það hefur reyndar verið sjálftökulið hér á landi allt frá landnámi........þeir fyrstu tóku allt það land sem þeir gátu með góðu móti ráðið yfir og deildu því síðan út til vina, ættingja og annarra styrktaraðila, en kölluðu sjálfa sig goða yfir svæðinu til að öllum mætti vera ljóst hver hafði völdin. Goðar gengu að sjálfsögðu næstir guðum. Strax þarna var grundvöllurinn lagður að þeim nepótisma sem síðan hefur gegnumsýrt íslenskt þjóðfélag. Strax þarna var líka lagður grundvöllurinn að þeim inngróna og allt að því genetíska mótþróa gegn því að borga skatt sem enn ríkir. Þeir sem vildu borga sínu samfélagi skatt urðu nefnilega eftir í Noregi eða Danmörku eða Svíþjóð. Írsku munkarnir og þrælarnir áttu ekkert val (og engar eignir) og skattur var þar að auki orð sem þeir skildu ekki. Kannski eru það afkomendur þeirra sem borga fúslega sína skatta og skyldur í dag, þrælslundin í blóð borin........?

Að lokum safnaðist vald á 5 höfuðættir landsins sem börðust blóðugu stríði innbyrðis þar til útséð var um það að enginn friður yrði í landinu fyrr en æðsta vald væri fært út fyrir landsteinana. Noregur vildi fúslega hygla nýrri hjálendu í nauðsynjamálum, eins og samgöngum við Evrópu, gegn von um auknar skattekjur (reyndar urðu Íslendingar næstu aldir snillingar í að vantelja eignir sínar, en hvað um það....) og féll nú allt í frið og spekt.

Fram liðu tímar. Við tók nýtt sjálftökulið, hreppstjórar, sýslumenn og prestar, menn sem oft hikuðu ekki við að reita af fátæklingum síðustu eigur þeirra í blindri græðgi sinni, leysa upp fjölskyldur, senda lítil börn til vandalausra og þar fram eftir götunum, á meðan eignir kirkju og embættismanna margfölduðust. Og svo tóku við embættismannaættirnar í kaupstöðunum, afkomendur stórbænda á landbyggðinni, þeirra sem gátu sent syni sína til mennta. Og allir komu þeir aftur, fengu þægileg embætti og höfðu það bara flestir fínt, á meðan almúginn var bundinn átthagafjötrum og var haldið með stífu regluverki sem vinnuafl stórbænda í sveitum. Svo fóru betri borgararnir að sinna kaupmennsku þegar kóngur gaf loks leyfi, og upp spruttu enn sterkari ættir þar sem embættismenn og kaupmenn hittust í fjölskylduboðum, giftu börn sín innbyrðis og almúginn þjónaði undir. En svo var það fiskurinn sem öllu bjargaði og gerði þjóðina frjálsa og upp úr jarðvegi almúgans og þeirra sem sóttu sjóinn kom hin nýja millistétt Íslands, stéttin sem byggði upp menntakerfið og heilbrigðiskerfið með skattgreiðslum sínum. Jú, betri borgararnir borguðu einhvern skatt líka en  vantöldu eigur sínar að gömlum sið. En hugmyndafræði menntunar og hjúkrunar sjúkra var í boði íslenskra kvenna, sem danski kóngurinn veitti svo kosningafrelsi 1915. Þá var löggiltum íslenskum fána flaggað í fyrsta sinn.

Já, fiskurinn gerði okkur frjáls, og hraust, nógu hraust til að hefja sjálfstæðisbaráttu og rífa soldið kjaft við Dani, líkt og mótþróafullur unglingur við foreldri sitt. Og þrátt fyrir að hafa heimt okkar sjálfstæði að lokum erum við enn unglingurinn í samfélagi Evrópuþjóða, áköf og ör, fífldjörf og framkvæmdaglöð - en líka soldið óhefluð og full af kjánalegum sjálfbirgingi, sem kemur greinilega  fram í því að telja okkur best í flestu, meira að segja landið okkar er fegurra en nokkurt annað land. Þetta er Guð vors land, hans eigið land, en þar býr samt ekki hans útvalda þjóð, hún stundar barnamorð í annarra manna landi.

Þessi ákafa og áhættusækna þjóð efldi fiskiskipaflota sinn hratt en sá fljótt að sjósókn og fiskur væri bara fyrir þá örfáu sem gátu talist æðrulausar hetjur, og eitthvað þurftu hinir að setja ótamda orku sína í. Í fjölskylduboðum æðstu embættismanna og viðskiptamanna (já, þeir eru enn að hittast svona) fóru menn að ræða um ný tækifæri og hvort það væri ekki snjallt að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Forsætisráðherrann GHH kynnti þessar hugmyndir HHG vinar síns fyrst í Þjóðleikhúsinu (nei ekki leikhúsi þjóðarinnar á Alþingi) já, fyrir fullum sal leikhússins, þéttsetnu aðalviðskiptajöfrum þjóðarinnar sem klöppuðu dátt, sagði hann að við yrðum líka á þessu sviði mest og best. Að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Einhverjir töldu að landið væri of lítið og þjóðin of fámenn til að hér gæti orðið svona alþjóðleg fjármálamiðstöð, en aðrir sögðu að það passaði hreint ekki, Ísland væri ekki bara fallegasta land í heimi heldur væri það líka stórasta land í heimi! (Nei, það var ekki forsetinn sem sagði þetta, en hann gæti hafa staðið á bak við það).

Og hér erum við stödd, hnípin þjóð í fallegu landi - sem í örvæntingu leitar leiðtoga í daganna þraut. Hér höfum við strandað eftir Íslands þúsund ár, nú má svo sannarlega syngja um hið tárvota eilífðar smáblóm - eða með alþjóðlegri orðum "Iceland forever" eða "Iceland for evra" . Kosningar eru í nánd og 5 flokkar berjast um atkvæði landsmanna, með evru eða móti evru, en líkt höfðingjaættunum á Sturlungaöld er engum þeirra treystandi fyrir stjórn landsins, því þeir bera ekki almannaheill fyrir brjósti heldur eru þeir, líkt og Sturlungar, haldnir valdfíkn sem engin lækning finnst gegn. Hvað er til ráða? Hvert getur 64 ára lýðræði leitað?

Við sem horfum fram á tóma lífeyrissjóði þegar við verðum 64, rifjum í húminu upp gamlan slagara sem hljómaði oft þegar við vorum ung...

http://www.links2love.com/love_lyrics_125.htm

When I get older losing my hair,
Many years from now.
Will you still be sending me a valentine
Birthday greetings bottle of wine.

If I'd been out till quarter to three
Would you lock the door,
Will you still need me, will you still feed me,
When I'm sixty-four.

You'll be older too,
And if you say the word,
I could stay with you.

I could be handy, mending a fuse
When your lights have gone.
You can knit a sweater by the fireside
Sunday mornings go for a ride.

Doing the garden, digging the weeds,
Who could ask for more.
Will you still need me, will you still feed me,
When I'm sixty-four.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband