Færsluflokkur: Bloggar

Hvaða elíta???

Margir eru að tala um að hér á landi sé einhver elíta.......og helst í kringum opnunarhátið Hörpunnar.

Hvaða elítu eru menn að tala um? Á hverju byggist skilgreining hennar?

Ég er nú búin að búa í þessu landi yfir hálfa öld og veit ekki til að hér sé einhver elíta.....eða hafi nokkurn tíma verið.......nema íslenskur aðall sem Þórbergur talaði um og var víst örugglega íslenskur almenningur, alþýðufólkið sem byggði og byggir þetta land.....

Er hægt að ákveða að einhver hópur sé elíta.......og hver ákveður það???..., er það hópurinn sjálfur eða einhverjir sem telja sig vera utan hans? (þannig hljómar reyndar þetta elítu-tal soldið.....einhverjir telja sig ekki hafa fengið að vera með í einhverju sem þá annaðhvort langar til að vera með í eða hafa engan áhuga á að vera með í .......soldið erfitt að henda reiður á því.

Nokkrar skvísur tóku sig til í vetur og héldu VIP-ball.....voru þær og þeir sem þær buðu þá orðin elíta??

Er valdalítill maður sem er þó ríkur að fé, en algerlega áhugalaus um tónlist en alltaf í golfi elíta?

Er fólk sem fær að fara framar í röðinni við skemmtistað elíta??'

Verður fólk hluti af elítu í krafti peninga - valda - þátttöku í menningarlífi??????? Eða ef það er hluti af öllu þessu og jafnvel meiru til??? Er maður elíta ef maður hefur áhuga á tónlist???? Er maður elíta ef maður á nokkrar milljónir og fínt hús??? Er maður elíta ef maður er alþingismaður????

Menningarsnauðir geta búið í veglegum húsum og átt milljónir, þingmenn geta komið úr öllum lögum samfélagsins, listnjótendur geta verið ríkir sem fátækir, valdalitlir og valdamiklir og trúlega allir njóta menningar og lista ef vel er að gáð (tónlist, bækur, kvikmyndir, dans og s.frv.).

Verður maður sjálfkrafa hluti af elítu ef manni er boðið á opnunarhátíð í Hörpuna??? Ræður þá sá eða sú sem setti saman boðslistann hver er elíta? Viljum við gefa viðkomandi það vald??? Er ekki verið að því með því að tala yfirhöfuð um elítu í þessu samhengi??? Það að lenda á einhverjum boðslista gerir fólk ekki að elítu..........

Þetta elítutal er mér eiginlega algerlega óskiljanlegt.......enda hef ég alltaf litið á alþingismenn, peningamenn, listamenn og alla aðra sem jafngilda þjóðfélagsþegna - öfunda ekki fólkið sem á peninga frekar en listamenn með skoplétta pyngju, öfunda ekki þá sem hafa yfir öðrum að segja frekar en þá sem þurfa að hlýða stórnanda - hvort sem viðkomandi stjórnar í krafti peninga, pólitíkur eða tónlistarsprota........enda sé ég þá ekki sem elítu heldur jafningja í öðru starfi en ég sjálf........en sjálf er ég í miklu elítustarfi, ræð mér sjálf að mestu með vald á mörgum hlutum, fátæk að peningum en rík í anda.


Er verið að prísa fólk út?

Samkvæmt bloggi Bubba Morthens og birtingu hans á samningi sem tónlistarmönnum sem vilja leigja sali í Hörpunni er boðið, þá bendir allt til að verið sé að gera þeim lífið ansi erfitt..... Þeir þurfa að greiða leigu salar mánuði áður en flutningur fer fram.......eru sem sagt prísaðir út fyrirfram......þetta er óþekkt aðferð hér á landi og þó víðar væri leitað. Ekkert er að því að greiða einhverja tryggingu fyrirfram, eins og líka er farið fram á, eða 10% við undirritun samnings, en að hin 90% séu greidd 30 dögum fyrir tónleika er fáheyrt......og gerir að litlu þær vonir að þetta yrði hús alls tónlistarfólks og allra Reykvíkinga.......

Þætti t.d. undarlegt ef kaupmaður sem vill kaupa af birgi vöru að hann þyrfti að borga vöruna mánuði áður en hann fær hana afhenta.......

Þessu þarf að breyta.........vonandi er skilningur á því hjá stjórnendum Hörpunnar.....


Stórkostlega gjöf - kunnum við að þakka fyrir hana?

Í dag tekur Listasafn Íslands formlega á móti höfðinglegri gjöf. Sidsel Ramson, ekkja hins heimsfræga danska COBRA-málara Carl-Henning Pedersen (1913-2007), færði á síðasta ári Listasafni Íslands og íslensku þjóðinni að gjöf nokkur verk listamannsins, en verk hans eru afar verðmæt í dag og mikill heiður að þessari gjöf. Ekkert hefur verið frá þessu sagt. Á heimasíðu Listasafnsins er ekki eitt orð um gjöfina eða afhendinguna í dag.

2006-sidsel-ramson-pedersen.jpgEn hvernig stendur á því að við njótum svo mikil örlætis? Ekki veit ég það svo gjörla, en skýringarinnar kann að vera að leita í þeirri staðreynd að sumarið 1948 kom Carl-Henning Pedersen ásamt þáverandi konu sinni, málaranum Else Ahlfelt, til Íslands í boði Svavars Guðnasonar. Eyddu þau sumrinu í ferðalög og nýttu sér hughrif landsins í málverk sín. Í nóvember sama ár var svo hinn frægi hópur COBRA málaranna stofnaður í Kaupmannahöfn og var Svavar Guðnason einn stofnenda. Carl-Henning Pedersen varð þó einn hinna nafnfrægari og vinsælli meðlima, stundum kallaður Chagall Norðurlanda vegna ævintýralegs og glaðlegs yfirbragðs mynda sinna. Elsu konu sína missti hann 1974, og giftist þá eftirlifandi konu sinni Sidsel Ramson, sem nú færir okkur þessa stórkostlegu gjöf. Hugsanlega er um að ræða myndir frá Íslandsdvölinni.

Gjöfin barst fyrir löngu eins og áður sagði, en er núna formlega afhent. Ekkert hefur verið minnst á þessa stórkostlegu gjöf í fjölmiðlum, þögn sem jaðrar við vanþakklæti, bæði af hendi Listasafns Íslands - og ef fjölmiðlar hafa fengið fregnir af því (sem væri þá hlutverk safnsins að sjá um)  þá eru þeir ekki heldur að standa sig í stykkinu.

Það verður forvitnilegt að vita hvernig Íslendingar munu þakka fyrir sig, en til þess að þeir fái vitneskju um þess stórkostlegu gjöf og geti þakkað hana sem bæri, í hjarta sér ef ekki vill betur, þurfa þeir að vita af henni. Það er hlutverk Listasafns Íslands og íslenskra fjölmiðla að segja frá slíku. Þetta má ekki liggja í þagnargildi.


Ég elska Japani


Vatn er olía framtíðarinnar

"Vatn er olía framtíðarinnar", sagði einhver. En líkt og með olíuna verður hreint vatn sífellt minna í heiminum, grunnvatn minnkar þar sem tekið er ótæpilega af því, líkt og kemur fram í grein í Guardian um Saudi-Arabíu og Egill Helgason bendir á í bloggi sínu.

Vatnskerfi jarðarinnar er lokað kerfi, og af öllu því vatni sem fyrirfinnst á jarðarkúlunni er mestur hlutinn haf, jöklar eru 2,4%, ár, vötn og uppsprettur 0,6%, grunnvatn 1.6% - sem sagt um 2% hreint vatn. Á heimskautasvæðunum eru miklar ferskvatnsbirgðir, sem þó erfitt er að nýta. Sums staðar er unnið hreint vatn úr sjó, en það er dýrt. Aðrir safna regnvatni, t.d. til áveitu, en það er merkilega lítið nýtt aðferð í heiminum. Man ennþá eftir vatnstunnunum í Vestmannaeyjum sem söfnuðu regnvatni af þökum húsa áður en vatnslögnin var lögð til eyja, og sundlaugin þar var fyllt ísköldum og söltum sjó.

Hér á landi erum við ennþá ótrúlega vel sett, sullum í heitu vatni án umhugsunar og látum bæði heitt og kalt vatn renna svo lítrum skiptir til einskis. Í nágrannalöndum okkar eru menn með fjernvarme, þar sem heita vatnið sem hitar húsin er látið fara í hringrás sem hitar það upp aftur og aftur, en það sparar heilmikla orku við upphitun. Hér á landi fer heita vatnið í klóakið eftir að hafa hitað húsin, oft 50°heitt eða meira. Sums staðar hafa menn nýtt frárennslið til snjóbræðslu, en það er lítil prósenta sem nýtist þannig og aðeins lítinn hluta ársins.

En þótt sumir telji okkar heita og kalda vatn ótæmandi auðlind, þá eru þessar auðlindir, eins og allt annað, háð því hversu mikið er af tekið og hversu mikið er hróflað við vatnsbirgðum í jörðu. Við Íslendingar þurfum líka að hugsa til framtíðar, þó okkur sé það ekki eðlislægt. Hvað eigum við nákvæmlega mikið vatn, hvernig getum við nýtt það á sjálfbæran hátt, erum við aflögufær?

Í commentakerfinu hjá Guardian er vísað í risastórt vatnsprójekt Gaddafis í Libýu, Lybia´s Great Man-Made River Project, þar sem hann og ríkisstjórn hans hefur lagt áherslu á að vinna vatn úr nokkrum riasastórum grunnvatnshólfum sem fundust fyrir tilviljun við olíuborun.

Libýa er að stærstum hluta eyðimörk og ræktun fer fram við strendurnar, líkt og víða annars staðar, m.a. hér, en þetta nýja vatnsprójekt hefur aukið ræktað land og gert Libýu lífvænlegri á allan hátt. Meðal annars þess vegna hefur Gaddafi orðið vinsæll leiðtogi, fólkið telur hann bera hag íbúanna fyrir brjósti, en einnig hefur þetta gert landið sjálfbært með framleiðslu matvöru og vegna olíusölunnar safnar landið auði.

Það helsta sem Libýa hefur keypt frá öðrum þjóðum undanfarna áratugi er vopn og tæknibúnaður, því Gaddafi hefur í mörg ár verið sannfærður um að voldug ríki muni koma og reyna að ræna frá þeim þessum gæðum, landið er skuldlaust og ekki hægt að beita það neinum efnahagslegum þvingunum. Um leið og vopnasölubanninu sem sett var á Libýu eftir Lockerby-slysið var aflétt, kepptust vesturveldin við að selja Gaddafi vopn og tæknibúnað, Rússar, Frakkar Ítalir, Bretar, Þjóðverjar - Bretar tóku meira að segja að sér að þjálfa libýska hermenn. Sömu þjóðir (að Rússum undanskildum) sem núna herja á landið.

Núna situr Gaddafi ekki aðeins á miklum olíubirgðum, heldur líka vatnsbirgðum, hvort tveggja dýrmætar auðlindir í dag, og vekja örugglega öfund nærliggjandi ríkja. Gæti verið jafn eftirsóknarvert fyrir nágrannaríkin að komast í þessar vatnsbirgðir og vestræn ríki að komast í olíuna (t.d. Saudi-Arabíu sem hefur tæmt sínar vatnsbirgðir með græðgishugarfari eða Ísrael sem hefur stolið vatni frá vesturbakkanum í áratugi).

Sjónvarpsþátturinn um áhrif olíu á gang sögunnar sem sýndur var í sjónvarpinu nýverið var áhugaverður,  en sögu vatnsins og baráttunnar um vatnið á eftir að skrifa............


Sjúkraskrám úthýst

Slembiúrtak 100 hjúkrunarfræðinga og 50 lækna leiddi í ljós að sumir úr hópnum voru að glugga í sjúkraskrár spítalanna án þess að eiga í þær nokkurt erindi. Aðallega hjá frægu fólki. 6 úr þessu slembiúrtaki hlutu áminningu. En hvað með alla hina starfsmennina sem hafa aðgang að sjúkraskránum? Og hvað með þá sem hafa aðgang að þeim en eru ekki starfsmenn sjúkrahúsanna sjálfra, heldur einkafyrirtækja úti í bæ?

Sú stefna var nefnilega tekin í tíð fyrri ríkisstjórnar (2007) að stefna að einkavæðingu starfa innan heilbrigðiskerfisins. Einn liður í því var að úthýsa læknaritarastörfum í tilraunaskyni og bjóða út ritun sjúkraskráa hjá einkafyrirtækjum. Mikil óánægja reis meðal læknaritara vegna þessa máls, enda ekkert við þá rætt um hagræðingu eða annað og fréttu þeir um málið í fjölmiðlum.

Sagt var að þetta yrði gert til reynslu og frekari ákvarðanir teknar að metinni þeirri reynslu. Í febrúar 2008 birtist frétt þar sem kom fram að fyrirtækið Conscriptor hefði boðið lægst í verkið og fengið samning til 6 mánaða reynslutíma, síðan skyldi ákveðið hvort framhald yrði á. Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar var líka inni í myndinni. Ekkert hefur heyrst meira um málið í fjölmiðlum og ekkert um það hvernig tilraunaverkefnið tókst og hvort efnt var til viðameira samstarfs við Conscriptor eða aðra.

Ein hættan við að úthýsa sjúkraskrám lýtur að trúnaði um þau gögn sem unnið er með. Starfsfólk sjúkrahúsanna skrifar undir þagnareið og skyldi engan undra. Auk þess ríkir innan sjúkrastofnana ákveðinn kúltúr og viðhorf sem styrkir starfsfólkið í að gæta trúnaðar og virða þagnareiðinn. Hópeflisáhrif. Þetta veit ég af reynslu.

Við útvistun sjúkraskráa til Conscriptor var fullyrt að starfsemin uppfyllti ströngustu kröfur um öryggi og starfsmenn myndu undirrita þagnareiða líkt og starfsfólk sjúkrahúsanna. Til að hægt sé að úthýsa sjúkraskrám þarf að veita einkafyrirtækinu úti í bæ rafrænan aðgang að öllum skrám. Þar er eingöngu unnið við ritun og þar er ekki er til staðar sá sérstaki kúltúr sem ríkir á sjúkrahúsum og sá andi sem efldur er af þeim ólíku hópum sem vinna saman innan sjúkrastofnananna í þágu sjúklinga.

Þessar nýjustu fréttir um óeðlilega miklar flettingar í sjúkraskrám frægra einstaklinga vekja manni ugg. Ég er viss um að frekari einkavæðing starfa innan heilbrigðiskerfisins mun auka hættuna á slíkri hnýsni um persónuleg málefni annars fólks, málefni sem oft varða mjög viðkvæma þætti í lífi þeirra.


Neyðarmilljónir - neyðarástand

Fjölskylduhjálpin sendir neyðarkall til Norðurlanda. Er það nauðsynlegt?

Því verður ekki í móti mælt að fólk í neyð þarf hjálp. Fólk sem hefur orðið fyrir áföllum þarf aðstoð. Íslenska þjóðin hefur oft sameinast fallega til að safna fé svo hægt sé að hjálpa fólki í neyð. Eða til að aðstoða heilbrigðiskerfið í baráttu við illvíga sjúkdóma.

Við þekkjum öll slíkar safnanir og það er gott að gefa til góðs málstaðar. Ég sjálf hef haft það að vana að gefa lítilræði þegar ég fæ því við komið, sérstaklega um jól þegar ég legg nokkra þúsundkalla til hjálparsamtaka af ýmsu tagi eftir kenningunni "Margt smátt gerir eitt stórt".

Núna er nýliðinn mottumars, þar sem bent var sérstaklega á krabbamein sem hrjá karlmenn, allir sem töldust menn með mönnum söfnuðu skeggi, meira að segja taðskegglingar skörtuðu nokkrum hökuhárum. Fjölmiðlar létu sitt ekki eftir liggja í umfjöllun, viðtölum og greinaskrifum. Gott mál. Þá söfnuðust um 30 milljónir.

Um sama leyti og mottumarsinn var í gangi urðu miklar hamfarir í Japan. Íslenska ríkisstjórnin afhenti Rauða krossinum í Japan neyðaraðstoð upp á 10 milljónir. Söfnun sem Japansvinir settu í gang hér á landi fékk miklu minni athygli en vænta mætti, fjölmiðlar sáu því miður ekki ástæðu til að gera mikið úr henni. Enginn sjónvarpsþáttur var til dæmis helgaður söfnuninni, eins og svo oft hefur tíðkast þegar mikið liggur við. Síðustu upplýsingar segja að meðal almennings hér á landi hafi safnast 8,5 milljónir handa fórnarlömbum í Japan, en fyrir utan hina látnu og týndu, þá eru 300-400.000 manns þar heimilislausir. Neyðarsöfnunarsíminn hjá Rauða krossinum er 9041500 ef þú átt 1500 kr að gefa.

Japan er eitt þeirra landa sem veita hvað mestum fjármunum til þróunarsamvinnu og neyðaraðstoðar um allan heim. En þegar þeir lenda sjálfir í hamförum brynja þeir sig fágun og æðruleysi sem fyllir mann aðdáun. Þeir senda ekki neyðarkall en eru þakklátir þeim þjóðum sem hafa lagt fram fé eða aðstoð, falleg orð og þakkir má t.d. lesa á heimasíðu Rauða krossins hér á landi.

Japanir hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á menningarsamstarf við Ísland og hafa samskipti þjóðanna aukist og orðið innihaldsríkari - en án þess og í öllu tilviki ættum við að finna til samkenndar með þessari þjóð sem lifir á eldfjallaeyju líkt og við, þar sem náttúruhamfarir gera ekki boð á undan sér og barátta við óblíð náttúruöfl hefur mótað þjóðareðlið gegnum aldir. Ólíkar þjóðir hafa komið út úr þeirri þróun.

Fallegast var að lesa á heimasíðu Rauða krossins að framlög til Japan koma nær eingöngu frá almenningi, í árferði sem er íslenskum almenningi ekki sérlega hagstætt, og sérstaklega aðdáunarverð voru framlögin frá hópi ungs syngjandi fólks, og frá unga manninum sem gaf 50.000 kr í nafni kærustunnar sinnar - það var flott ástarjátning!

En það sem sló mig í þessum umliðna mánuði og þessum málum, var hvað Íslendingar voru duglegir að öngla saman fé til eigin málefna en ekki eins til handa japönsku þjóðinni í alvarlegri neyð. 

En aftur að neyðarkalli til Norðurlanda: Fjölskylduhjálpin fær ríflega 6 millónir í styrki frá ríki (4 milljónir) og borg (2,4 milljónir) - en líka fær hún framlög frá almenningi og fyrirtækjum í formi gjafa. Talið að það séu um 1000 manns sem þangað leita reglulega eftir matargjöfum (og hjá Mæðrastyrksnefnd). Oft hefur verið þröngt í búi hjá pistlahöfundi, en þó aldrei svo að þetta hafi verið úrræði. Þakka ég forsjóninni fyrir það og að hafa haft heilsu til að vinna mig út úr erfiðum aðstæðum oft á tíðum. Margir eru þó ekki svo lánsamir; öryrkjar, atvinnulausir eða lífeyrisþegar eiga örugglega ekki alltaf auðvelt með að ná endum saman, bæturnar í engum takti við framfærsluna.

Fjöldi þeirra sem leita til Fjölskylduhjálparinnar (um 1000 manns) sýnir að það er neyð meðal margra Íslendinga, ekki geri ég lítið úr því, en vandasamt er að finna bestu leiðina til að aðstoða þetta fólk og matargjafirnar hafa verið umdeildar. Ef svo er að yfirvöld séu ekki að standa sig gagnvart þessu fólki er örugglega full þörf fyrir hjálparsamtökin og matargjafirnar.

En neyðarkall til Norðurlanda finnst mér alveg á mörkunum - sérstaklega í ljósi þess að hér á fólk undantekningarlaust í hús að venda, á flestallt ástvini á lífi og fjölskyldur sem gætu e.t.v. hjálpað til tímabundið, og við hljótum að geta haft þá fágun og æðruleysi til að bera að leita ekki með betlistaf til annarra þjóða. Vissulega hafa margir það skítt, en neyðarástand ríkir hér ekki.


Den tossede præsident.....og de stædige Islændinge

Á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 er fastur umræðuþáttur með Uffe Ellemann og Mogens Lykketoft "fordi de kender verden" eins og segir í kynningu. Í nýjasta þættinum frá 15. apríl fjalla þeir um efnahagsörðugleikana sem mörg Evrópuríki eiga við að glíma. Um miðbik þáttar kemur að Íslandi.

Þar bendir Uffe Elleman á mikilvægi Íslands í varnarbandalagi Evrópuþjóða sem varðpósts í norðri. Sjálfsagt eru aðrar ástæður fyrir því að Evrópuþjóðir vilja gjarnan fá Ísland í EU, því víst er að ekki er efnahagslega hagkvæmt fyrir sambandið að fá stórskulduga þjóð í hópinn. Hugsanlega hefur það eitthvað að gera með væntanlega alþjóðlega norðursiglingaleið eða vatnsforða norðursins, hver veit.

En nokkuð er víst að í augnablikinu virðist meirihluti Íslendinga ekki hafa áhuga á að ganga í EU og EU ekki hafa áhuga á að fá til samstarfs ríki sem ekki er hægt að stóla á.

Annað áhugavert sem þarna kom fram er að þeir telja Ísland vera í nokkuð góðum málum efnahagslega, sérstaklega ef miðað er við Írland, Grikkland og Portúgal.

En áhugaverðust er umræða þeirra félaga um forsetaembætti Íslands og Ólaf Ragnar Grímsson......hann er þar kallaður "den tossede præsident". Harkaleg ummæli, og það frá mönnum sem eru alvanir alþjóðlegum samskiptum.

Í lok umræðunnar um Ísland eru þeir félagar spurðir hvaða Íslendingur þeir vildu helst vera og Lykketoft svarar að trúlega langi engan til að vera Íslending í augnablikinu, en ef hann ætti að nefna einn Íslending sem hann beri mikla virðingu fyrir, þá sé það forsætisráðherra okkar, Jóhanna Sigurðardóttir........

Ég yrði ekki undrandi á að svona sé því farið um marga málsmetandi menn og konur erlendis. Öfugt við meirihluta Íslendinga sem hafa alltaf hlaupið á eftir lýðskrumurum og bumbuslögurum. ..... sérstaklega í pólítík þar sem ærlegt fólk hrökklast iðulega frá og vandaðir og vel hugsandi vilja helst ekki vera. Þess vegna er áríðandi að styðja þá fáu heiðarlegu stjórnmálamenn sem gefa kost á sér í þetta erfiða og vanþakkláta verk, og vilja frekar taka þátt í að moka flórinn en vera í hlutverki mykjudreifarans.

Jóhanna hefur lengi verið álitin heiðarleg, bæði af samherjum og andstæðingum, og jafnvel hlotið uppnefni af. Undanfarin ár hefur stjórnarandstaðan með Sjálfstæðisflokkinn í forystu lagt sig í líma við að koma á hana og aðra ríkisstjórnarmeðlimi höggi og ávirðingum eftir aðferðinni "let them deny it"  -  einhverri sóðalegustu pólitísku aðferðafræði sem þekkist og á uppruna sinn í bandarískum stjórnmálum. Sannkölluð mykjudreifaraaðferð.

Þó ég sé ekki alltaf í skýjunum með núverandi ríkisstjórn (sérstaklega ekki í aðgerðum til hjálpar heimilum) var ég mjög ánægð með hvernig hún brást við kröfum Samtaka atvinnurekenda og LÍÚ. SA sýndi okkur svo ekki varð um villst að enn er verið að skíta út......... og að þeir svífast einskis í að viðhalda óréttlátu kvótakerfi sem hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins.

Svo hef ég aldrei getað skilið hvernig það fólk er innrætt sem hefur geð í sér til að semja um skítalaun fyrir aðra, laun sem þeir og allir aðrir sjá að duga ekki til framfærslu.......það er eitthvað að hjartalaginu í þessu fólki, það hlýtur að vera með glerhart hjarta......og finnast svo það sjálft svo miklu betur úr garði gert en aðrir að það eigi að fá milljónir í laun. Nema þeir séu bæði "stædige" og "tossede" svo maður noti lýsingarorðin sem hinir dönsku álitsgjafar brugðu fyrir sig.


Sjálfhverfa og stolt

Sjálfhverfa er þekkt í mannlegu eðli, Freud varð einna fyrstur til að skilgreina hana og setti fram hugtakið narcissism. En gerður er greinarmunur á heilbrigðri sjálfhverfu (sem er einstaklingnum nauðsynleg til lífsafkomu og kemur fram í öfgalausu mati á því sem við kunnum og getum og t.d. líka í umhyggju okkar fyrir þeim sem við elskum eða því að við viljum frekar annast börnin okkar en annarra manna börn) og svo á hinn bóginn óheilbrigðri sjálfhverfu sem er á hinum enda ássins og ýktasta form hennar er psykópatían. Óheilbrigð sjálfhverfa getur lýst sér í óeðlilegri sjálfsánægju með útlit sitt, verk og afrek, en líka í óeðlilega sterkum viðbrögðum við gagnrýni eða jafn einföldum hlut og að einhver er ekki á sama máli og maður sjálfur.

Allir hafa sjálfhverfu í einhverjum mæli, og rannsóknir hafa sýnt að 80% fólks finnst þau vera betri, heiðarlegri og klárari en aðrir. En einnig er þekkt að með auknum aldri, þroska og menntun minnkar sjálfhverfan, menn taka að sjá út fyrir sinn eigin sjóndeildarhring og hætta að miða allt eingöngu við eigin þarfir, verða samfélagslega þroskaðir einstaklingar. 

Sjálfhverfa í sambandi við völd er þekkt í einstaklingum eins og Hitler og Stalín, oft fylgir hinum sjálfhverfa og valdasjúka líka heiftarleg paranoja um að aðrir sjái ekki í  þeim þann framúrskarandi einstakling sem þeir telja sjálfan sig vera, og mæta þeir hverjum sem vogar sér að efast um ágæti þeirra eða ákvarðanir með reiði eða æðisköstum, hefndin er þeim nærtækt vopn eða það að bregða fæti fyrir þá sem þeir telja vera sér andsnúna á einhvern hátt. Þeir eru alltaf á verði gagnvart hugsanlegum óvinum og berja niður alla mótstöðumenn. Slík hegðun virðist eflast eftir því sem einstaklingurinn eldist. Því meir sem narcissistinn upphefur sig yfir aðra, því einangraðri verður hann, allir eru hugsanlegir óvinir og til að vinna á óttanum reynir hann með athöfnum sínum að styrkja vald sitt og vissu um eigið ágæti.

Vissulega fylgja völdunum fleiri óvinir svo narcissistinn á auðvelt með að afsaka fyrir sjálfum sér og öðrum öfgafull viðbrögð sín. Narcistissinn er hégómlegur og gott ráð til að halda frið við hann er að skjalla hann.......hann kann að meta það og fylkir oft í kringum sig jáfólki og skjallbræðrum.

Erik Fromm skrifað í bók sinni The Heart of Man - Its Genius for Good and Evil um einstaklingsbundna og svo hópsjálfhverfu (group narcissism). Þar í flokki má líka skipta upp í heilbrigða og óheilbrigða sjálfhverfu líkt og hjá einstaklingum. Hópur getur t.d. komið sér saman um að vinna að sameiginlegum markmiðum sem yrðu til góða fyrir sem flesta, þeir hvetja hvorn annan og hrósa þegar eitthvað ávinnst, þakka hópnum og samstöðu hans. En svo er það hin hliðin á peningnum, hin maligna sjálfhverfa, og útskýrir Erik Fromm hana svo (feitletranir mínar):

A society which lacks the means to provide adequately for the majority of its members, or a large proportion of them, must provide these members with a narcissistic satisfaction of the malignant type if it wants to prevent dissatisfaction among them. For those who are economically and culturally poor, narcissistic pride in belonging to the group is the only - and often a very effective - source of satisfaction. Precisely because life is not "interesting" to them, and does not offer them possibilities for developing interests, they may develop an extreme form for narcissism. Good examples of this phenomenon in recent years are the racial narcissism which existed in Hitler´s Germany, and which is found in the American South today. In both instances the core of the racial superiority feeling was, and still is, the lower middle class;this backward class, which in Germany as well as in the American South, has been economically and culturally deprived, without an realistic hope of changing its situation......(it) has only one satisfaction: the inflated image of itself as the most admirable group in the world, and of being superior to another racial group that is singled out as inferior. The member of such a backward group feels: "Even though I am poor and uncultured I am somebody important because I belong to the most admirable group in the world - I am white"  or "I am an Aryan".

....og við getum bætt við: af því að "Ég er kristinn" eða  "Ég er Múslimi" eða "Ég get verið stoltur af sjálfum mér af því að ég er Íslendingur" eða "Ég er Íslendingur og við Íslendingar látum engan kúga okkur".

 


Samsæriskenning

Var það þetta sem Styrmir var að ræða við forsetann? Sjá hér og hér.

Kannski þetta sé næsta útspil hjá Sjálfstæðisflokknum........

Nú undanfarið hefur verið að skapast hefð á því að safna undirskriftum vegna umdeildra mála og bæði Jóhanna og forsetinn hafa lýst því yfir að ef það er gert með miklu magni undirskrifta (30.000 - 40.000 manns) sé kominn marktækur hópur sem verði að hlusta á....

Næsta verkefni hópanna Indefence og Advice (skrítið að þessir ástmegir Íslands skuli nota ensk heiti) gæti orðið það að koma ríkisstjórninni frá með góðu eða illu. Og kannski hægt að reiða sig á forsetann í því máli líka, fá hann til að rjúfa þing og boða til kosninga eins og hann hefur rétt til. Hann getur svo vísað á fólkið/undirskriftir til að afsaka það..........

30.000-40.000 undirskriftir yrði auðvelt að fá frá fylgismönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.........þetta er borðleggjandi ef maður er hallur undir samsæriskenningar......og eftir að vera nýbúin að lesa bókina um Gunnar Thoroddsen og bókina um Davíð Oddsson, að maður tali nú ekki um kosningaaðferðir nýkjörins formanns VR, þá er þetta ekki svo ólíkleg tilgáta.

Og hvers vegna stjórnarandstaðan er tilbúin í stjórn akkúrat núna er næsta umhugsunarefni? Fyrir utan að sjá þessa mögulegu leið gegn ríkisstjórninni og aftur til valda, þá er víst að núna mun Icesave velkjast í kerfinu næstu 5 árin hið minnsta, hægt er að lýðskrumast heilmikið á meðan og fela slóðir, eða a.m.k. gera ferli svo flókin að engin leið er að gera sér grein fyrir því hvað er rétt og rangt.......og þegar gullfiskaminni Íslendinga leggst þar til viðbótar, þá er þetta bara borðleggandi tilraun .........


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband