Færsluflokkur: Bloggar

Áhættusækni

Í útrásinni voru íslenskir fjármálamenn lofaðir fyrir áhættusækni og djörfung, hugarfar víkinga. Í hruninu voru sömu menn ásakaðir um gengdarlausa áhættusækni sem sett hefði allt á hvolf. Fulltrúar hinna áhættusæknu kusu Nei í gær - þá getur maður nærri um að í því vali sé fólgin meiri áhætta, spennufíknin hverfur ekki svo glatt.

Orð írska fjármálaráðherrans Brian Lenihans um að Ísland allt hafi verið einn risavaxinn vogunarsjóður fara að hljóma sem trúleg sannindi og lýsa ef til vill viðhorfinu til þjóðarinnar almennt hjá evrópskum þjóðum. "Við erum ekki eins og Íslendingar, sagði Brian Lenihan fullur hneykslunar á samanburðinum við Írland " við erum ekki 300.000 manna vogunarsjóður bænda og fiskimanna". Og hann bætti við: "Við Írar ætlum ekki að fara aftur á 8. og 9.unda áratuginn - en fyrir þá sem ekki vita þá var Írland á þeim árum fátækasta land Evrópu.

Kannski felst í þessum orðum forspá um það hvert Íslendingar stefna í dag, þegar samningar við gamlar viðskiptaþjóðir eru ekki lengur möguleiki í stöðunni. Ég bjó á Írlandi 1980 og ég get lofað ykkur því að það er ekki efnahagsástand sem ég óska Íslandi..........en er hrædd um að það sé framtíðin sem bíður okkar næstu ár. Ég spái til 2024.Þegar harðnar á dalnum munu hinir áhættusæknu yfirgefa skerið og flytja sig til landa þar sem meira er í spilunum, og spila sinn póker þar..........margir þeirra eru þegar farnir og gambla með leppum um íslensk þrotabú.


Góð greining

Ég stenst ekki mátið að senda ykkur link á þennan fína pistil eftir Gunnar Hersvein heimspeking um umræðuhefð Íslendinga......þetta er ekki áróður, þetta er ekki um hvort fólk eigi að kjósa já eða nei, heldur um að taka upplýsta ákvörðun byggða á eigin hyggjuviti......rök eru til með og móti jái og nei-i, áhættan er álíka mikil þegar grannt er skoðað, maður þarf jafnvel á endanum að velja útfrá þeim lífsgildum sem maður aðhyllist í lengd og bráð.......  en hvað sem maður gerir þarf það að vera upplýst ákvörðun á morgun........

Hörmungaþrá og stjórnleysi

Guðbergur Bergsson greinir þjóðarsálina af sinni alkunnu íróníu og kennir okkur við hörmungaþrá - við þráum hörmungar og hamfarir því þá getum við loks staðið saman, hjálpast að, sameinast. Hörmungaþráin er inngróin í sálarlífið eins og ósjálfrátt viðbragð eða genetísk meðvirkni - við bíðum spennt eftir vá og voða - er sama hvort það er eldgos eða icesave - vonumst bara eftir að allt fari til fjandans svo við getum dæst og barmað okkur - helst í eyru útlendinga - við erum best í eymdinni eins og öllu hinu sem við erum svo ótrúlega góð í. Eymingja iceland!

Forseti Íslands var löngum sameiningartákn, hlutverk hans ætti að vera að telja kjark í þjóðina á erfiðum stundum, sameina hana gegn hörmungum en ekki auka óeirð og ójöfnuð. Núverandi forseti hefur allan sinn embættisferil verið umdeildur - fyrst sem klappstýra viðskiptalífsins, svo sá sem færði valdið í hendur fólksins. Klappstýruhlutverkið fékk ekki góða gagnrýni í rannsóknarskýrslunni frægu. Hitt þótti mörgum flott PR-stunt. Aflaði vinsælda.

Fulltrúalýðræði eins og það sem við höfum búið við frá 1944 felur í sér að við kjósum okkur fulltrúa sem eru fulltrúar valdsins sem þeir þiggja frá fólkinu, þeir mynda þingið sem er handhafi framkvæmdavalds í landinu. Forsetinn sneri því við og færði valdið frá fulltrúunum á þinginu til fólksins, þó þingið væri fulllkomlega starfhæft og hefði tekið meirihlutaákvörðun. Hvað er hægt að kalla það - fjöldalýðræði í stað fulltrúalýðræðis? Var þetta kannski valdarán? Stjórnarbylting?

Alla vegana er þetta alveg ný og óþekkt tegund af lýðræði hér á landi. Og þetta er líka yfirlýsing um vanhæfi Alþingis til að gegna hlutverki sínu þrátt fyrir meirihlutasátt um stórt málefni sem varðar þjóðina miklu.

Forseti sem grípur þannig fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem hafa náð meirihlutasátt um mikilvægt málefni er hættulegur lýðræðinu eins og við höfum þekkt það fram að þessu, hann hefur einræðistilburði. Þess vegna þarf að endurmeta stöðu forsetans. Það hlýtur að vera Alþingis að fara fram á slíkt endurmat.

Forsetinn getur ekki verið ósnertanlegur, hann getur líka gert mistök og farið út fyrir sitt valdsvið. Spurningin núna er: Er það Alþingi og ríkisstjórn þess sem er vanhæf eða er það forsetinn? Nema hvoru tveggja sé?

Hver ætlar að leggja spurninguna fram? Og hver ætlar að leggja mat á það? Hvað ef ríkisstjórnin metur forsetann vanhæfan? Og hvað ef forsetinn metur ríkisstjórnina vanhæfa? Búum við kannski við illa dulið stjórnleysi?

Ósameiningartákn þjóðarinnar

Á erfiðum stundum er gott að þjappa sér saman, hjálpast að, sameinast. Til eru leiðtogar sem er ætlað það hlutverk að sameina þjóð en líka eru leiðtogar sem taka þetta hlutverk að sér óbeðnir. Svo eru hinir sem vilja deila og drottna, sundra samstöðu og samkomulagi til að fá sjálfir meira svigrúm, völd  og athygli. Pólitík býður upp á þann möguleika. Forsetaembætti Íslands ekki. Forsetinn á að sameina þjóðina á erfiðum tímum, hugga hana í sorg, efla henni kjark og von. Ekki sundra henni.


Forseti vor stendur sig ekki í þessu sameiningarhlutverki, hann er ósameiningartákn. Sundrungin í þjóðfélaginu núna er hans verk.

Hann hefur kastrerað Alþingi með ákvörðunum sínum. Hann hegðar sér eins og einvaldur en ekki forseti. Hann lítur á sig sem pólitískt afl til jafns við Alþingi. Jafnvel fremra Alþingi. Hann boðar til blaðamannafunda og tilkynnir pólitískar ákvarðanir sínar án þess að ráðfæra sig við lýðræðislega kjörið Alþingi, án þess svo mikið sem segja ríkisstjórninni hvað hann ætlast fyrir. Hann hefur ekki samráð, bara einráð.

Jafnvel kóngar og drottningar í nágrannaríkjum okkar myndu ekki blanda sér á þennan hátt í verkefni þingsins. Í löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru almennar, t.d. í Sviss, eru mál fjármálalegs eðlis aldrei lögð í dóm þjóðarinnar.

Kannski það ætti að reka forsetann eins og forstjóra sem elur á úlfúð í fyrirtæki sínu, grípur fram fyrir hendur á starfsfólkinu, er einn daginn í liði með lukkuriddurunum og því næsta skúringarkonunni (sem veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið). ÓRG fór mikinn í (of)lofi sínu um íslenska viðskiptamenn og beitti áhrifum sínum þeim í hag á alþjóðavettvangi, bæði með viðveru og bréfaskriftum. Og núna fer hann með skýjum í lýðræðisást sinni og trú á visku þjóðarinnar. Í báðum tilvikum er einhver veikleiki, óeðlileg sókn í aðdáun, hégómleg ósk um vinsældir. Eitthvað líkt og gerist stundum hjá unglingum á skólalóðinni.


Ráðavillt og reið þjóð

Íslendingar sögðu í sjálfstæðisyfirlýsingu sinni 1944 að þeir myndu aldrei fara með stríði gegn annarri þjóð, en síðan er mikið vatn runnið til sjávar og núna virðumst við tilheyra árásarbandalaginu NATO en ekki varnarbandalagi, eða misskildum við eitthvað þegar við gengum í það? Mér sýnist enginn velta þessu fyrir sér í dag, eina umræðan sem hefur farið fram um þátttökuna í stríðinu í Libýu var hjá VG en foringjarnir í flokknum réttlæta árásarþátttökuna á meðan grasrótin andmælir.
Eitthvað viðnám var vegna innrásarinnar í Írak en ekkert núna, er þetta ekki undarlegt? Kannski hugsa flestir að þetta komi þeim ekki við, hugsa bara um Icesave, eru nytsamir sakleysingjar í flestu og hafa ekki skoðanir á neinu nema því sem snýr að þeim fermetra sem þeir standa á, skilja ekki samábyrgð. Sama gildir um Icesave, þar skilja menn ekki samábyrgð gagnvart öðrum þjóðum.

Er búin að kjósa um Icesave og sagði já.........já er fallegasta orðið í öllum tungumálum....qui, si, da, ja, já, yes......Yoko vissi það og John Lennon fattaði það.......vona svo innilega að ég hafi ekki með því sýnt að ég vilji selja Ísland í hendur erlendra stríðs- og herraþjóða, heldur að ég vilji standa við gefin loforð og samninga, svona er ég nú gamaldags, svona er ég upp alin. Ætli ég eigi ekki meira sameiginlegt með kynslóð ungmennafélagshreyfinganna en minni eigin, það hvarflar stundum að mér........annars er ég soldið rugluð í ríminu gagnvart þessu öllu saman, eins og þjóðin öll virðist vera, langar þó að vera nógu stór til að horfa yfir fermetrann sem ég stend á og greina einhverja heildarmynd og sameiginlega ábyrgð þjóða. Hennar verður sannarlega þörf á næstu áratugum þegar reyna þarf að bjarga lífríki jarðar. Nema fjármálaspekúlantarnir séu nú þegar búnir að ná undirtökunum með kaupum og sölu á mengunarkvótum og við séum komin á beina braut í óefni. Heimur á hraðferð á helvegi.

Hér er fallegt ljóð eftir Einar Braga, það heitir Haustljóð á vori. Mér finnst það lýsa stemningunni í þjóðfélaginu núna......soldið eins og vonin í líki lóunnar geti ekki fest hér yndi því landið og þjóðin er svo ráðavillt, reið og rugluð í ríminu.

Ein flýgur sönglaust til suðurs,
þótt sumartíð nálgist,
lóan frá litverpu túni
og lyngmóa fölum,
þytlausum vængjum fer vindur
um víðirunn gráan.
- Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

Misst hefur fallglaður fossinn
fagnaðarróminn,
horfinn er leikur úr lækjum
og lindanna niður,
drúpir nú heiðin af harmi
og hörpuna fellir.
- Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

Felmtruð og þögul sem þöllin
er þjóðin mín unga,
brugðið þér sjálfum hið sama:
þú syngur ei lengur,
þeyrinn ber handan um höfin
haustljóð á vori.
_ Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

Sendum þá heim

Fangelsin eru yfirfull. Nokkuð stór hluti fanga, eða um helmingur, eru erlendir ríkisborgarar. Af hverju ekki að senda þá til síns heimalands til afplánunar? Þetta gera Danir núna þegar íslenskur ríkisborgari er dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir morð í Danmörku, honum er vísað til síns heimalands.

Eins og sést í fréttinni þá vill aumingja strákurinn ekki að nafn hans verði birt í dönskum fjölmiðlum. Sama gildir um þjófagengið sem sést á myndinni hér fyrir neðan, þeir vilja síður þekkjast þessir guttar sem hér hafa gengið um rænandi og ruplandi. Þá gætum við nefnilega varað okkur á þeim. En þeir verða líklega ekki lengi í steininum, ef þeir fá þá dóm. Alltaf skal þræta, þá er smáglæta....bilde.jpg

En skyldu þeir vilja fara heim og taka út refsingu sína þar ef þeir fá á sig dóm? Varla. Þar sem enginn þekkir mann þar er gott að vera........og ræna.......og taka út refsingu. Þá fréttir mamma gamla ekki af því......og svo segja sumir að íslensk fangelsi séu nokkuð þægilegur dvalarstaður miðað við fangelsi í mörgum öðrum löndum. En hvað veit maður svo sem um það, þetta er örugglega bara ómerkilegt slúður, tæplega gaman að vera sviptur frelsi sínu.

Í dag eru um 15 íslenskir brotamenn í fangelsi erlendis. Margir þeirra hafa óskað eftir að afplána hér á landi en það er ekki hægt því fangelsin eru yfirfull. Hvað skyldi verða um þann sem Danir vilja senda okkur? Fær einhver að fara fyrr út svo það verði pláss fyrir hann? Verður hann í opnu fangelsi í Bitru eða á Kvíabryggju? Verður afplánunin hans stytt til að fá pláss fyrir enn aðra?

Sendum erlenda fanga heim og spörum stækkun á íslenskum fangelsum, hleypum í staðinn þeim í afplánun sem núna komast ekki inn í yfirfull fangelsin, komast ekki til að taka út sína refsingu heldur rápa um á götunum og valda óskunda og eru ógn við almannaheill.  Líka sína eigin heill, en margoft hefur verið bent á að gildi refsingar minnkar ef hún kemur ekki strax í kjölfar brots - tilfinning fyrir orsök og afleiðingu verður lítil sem engin...... og þó fangelsi sé ekki jákvæð upplifun þá verða menn að minnsta kosti edrú þar og geta kannski farið að hugsa sinn gang, geta hafið nám, geta byrjað að reyna að verða almennilegar manneskjur sem þurfa ekki að hylja andlit sitt og geta gengist við nafninu sínu. 

 


Krísa Kapítalismans


Vopnasala til Libýu

Umræða fer nú fram í breskum fjölmiðlum um vopnasölu til Libýu undanfarin ár og þátttöku breskra fyrirtækja í þeirri sölu. Guardian fjallar t.d. um það hér.

Vopnasölubann til Libýu var í gildi út árið 2004, en eftir það tóku mörg Evrópuríki til við að selja Gaddafi vopn, stórtækastir Ítalir, Frakkar, Bretar, Rússar og Þjóðverjar, en margar aðrar Evrópuþjóðir í minna mæli, til að mynda Belgar og Pólverjar. Þjóðverjar seldu til dæmis Libýu tæknibúnað sem gerði stjórn Gaddafis kleift að stöðva GSM-símtöl og netsamskipti í landinu þegar uppreisnin fór í gang.

Eins og sjá má í þessari grein Guardian voru Ítalir langstærsti heildsali vopna til Libýu. En fyrirtæki eins og vopnaframleiðandinn Boe Systems í Englandi gerði það einnig og eins eru viðskipti og samningar olíufyrirtækisins BP við Libýu undanfarin ár athugunarefni. Hersveitir Gaddafis hlutu hernaðarþjálfun hjá Bretum að sögn breskra fjölmiðla og athygli vekur að Tony Blair er greinilega enginn aukaleikari í þessum samskiptum öllum (sjá t.d. Mail Online hér).

Sala vopna til Libýu fór stigvaxandi frá því að vopnasölubanninu lauk og kulmineraði árið 2009 eins og sjá má á súluriti í grein Guardian. Vopnasölubannið á Libýu var sett á eftir eitt hið flóknasta mál sem sögur fara af í milliríkjadeilum, en það er málareksturinn eftir Lockerbie-slysið, en þar er augljóslega svo ótrúlega flókið plott í gangi að þræðirnir hafa enn ekki raknað eftir öll þessi ár og vafasamt hvort nokkurn tíma fáist upp á yfirborðið hvað gerðist í raun og veru.

Hvort Libýa átti þar þátt eða ekki er stóra spurningin og þá sérstaklega hvort Gaddafi sjálfur átti hlut að máli, en álitamálin snúa allt frá því að Gaddafi hafi persónulega pantað þessa sprengjuárás eða hvort Libýa hafi ranglega verið ásökuð um hryðjuverkin og þurft að greiða háar skaðabætur til fórnarlambanna að ósekju. Hvort botn fæst í þau mál nokkurn tíma er aldrei að vita, en gruggug eru þau (og CIA-mennirnir um borð í flugvélinni vekja upp alls konar samsæriskenningar, enda hafa verið skrifaðar margar bækur um Lockerbie-slysið þar sem 270 manns létust alls).

En staðreyndin núna er sú að það eru evrópsk vopn sem salla niður fólk í Libýu, trúlega hjá báðum aðilum þessara átaka. Aukahlutverkið sem BNA vill leika í þessum hráskinnsleik og hversu áfram þeir eru um að láta Evrópuþjóðir leiða árásirnar á Libýu vekur líka upp spurningar um fyrri samskipti þessara þjóða og lesa má um í bókum og blaðagreinum.

Og eins vekur það upp spurningar að Seifur sonur Gaddafis hefur ýjað að því að Sarkozy Frakklandsforseti hafi fengið fjárstyrk frá Libýu í kosningabaráttu sinni og þeir eigi nú sitthvað inni hjá honum......... þeir feðgar segjast eiga öll gögn um málið og geti birt þau ef þarf......og góðir olíusölusamningar sem Sarkozy hefur gert við Libýu spila líka þarna inn í, heimsóknir fyrri eiginkonu hans Cecilliu til Libýu og lausn búlgörsku hjúkrunarkvennanna sem ásakaðar voru um að smita libýsk börn af alnæmi (enn ein gátan í þessum milliríkjasamskiptum)  fóðrar fjölbreyttar samsæriskenningar. Synd væri að segja að gagnsæi ríki og allt sé uppi á borðinu í þessum málum öllum.........en svona leika þeir sér víst strákarnir hjá stórveldunum og þeir sem vilja vera með á því skákborði.

Sem sagt, Libýumálið er flókið og þáttur NATO undarlegur sem varnarbandalags............ekki árásarbandalags.......eða misskildum við eitthvað þegar við gengum í það????? 

 


Bankar og hvítþvætti peninga

Því miður get ég ekki þýtt þessa athyglisverðu grein í Guardian en set slóðina hér:

Þrátt fyrir sannað mál þess efnis að einn stærsti banki BNA, bankinn Wachovia (núna hluti Wells Fargo), tók þátt í því að hvítþvo peninga mexíkóskra eiturlyfjabaróna og glæpagengja, þá lauk málinu með samkomulagi og enginn var handtekinn. Allt til að vernda fjármálastöðugleika og bankakerfi sem riðaði til falls. 

 Starfsmann bankans grunaði að ekki væri allt með felldu með einkennilegar greiðslur milli Mexíkó og BNA og reyndi eftir bestu getu að vara við og segja frá grunsemdum sínum en var í kjölfarið einangraður í bankanum og fékk á endanum eitthvað í líkingu við taugaáfall. Seinna, þegar ábendingar hans reyndust eiga við rök að styðjast og málið fór í rannsókn hjá eftirlitsaðilum, var honum þökkuð árveknin og þrautseigjan, en niðurstaðan var samt sú á endanum að enginn hlaut dóm, samkomulag var gert og ......úppsala.......málið dautt!

Við lestur þessarar greinar rifjast upp þær grunsemdir að íslenskir bankar hafi verið notaðir í svipuðum tilgangi, til dæmis til að hvítþvo fé vegna vopnasölu (Tchenguiz-bræður) eða illa fengið fé rússnesku mafíunnar.

Þegar maður svo veit að rússneska mafían hefur látið drepa fjölda blaðamanna sem reynt hafa að fletta ofan af glæpaverkum þeirra, þá hríslast um mann hrollur........hef ég kannski átt viðskipti við banka sem var í samstarfi við slíka glæpamenn og morðingja?

Ég vona svo sannarlega ekki........en tortryggnin er vakin á ný........nojan lifir þar til allt verður uppi á borðinu og við fáum að vita hvað gerðist í raun og veru í íslensku bankakerfi.

FOLLOW THE MONEY 


Galtómt Alþingi!

Fór í síðustu viku með danska menntaskólanema í heimsókn í Alþingishúsið. Við fórum á þingpalla eftir hádegið til að geta séð þingið að störfum, en áður höfðu nemarnir verið á Þingvöllum og hlustað á hefðbundna rollu um upphaf Alþingis og fyrirkomulagið á þjóðveldisöld.

Við komuna í þinghúsið var okkur sagt að fara úr yfirhöfnum, og að ekki mætti taka með sér farsíma eða myndavélar. Við hlýddum og læddumst upp á þingpallana þar sem lögreglumaður tók á móti okkur og fylgdist grannt með. En þegar á pallana kom trúði ég ekki mínum eigin augum og um mig hríslaðist aumingja- og skömmustuhrollur.....í þingsal var ENGINN þingmaður, í pontu stóð Össur utanríkisráðherra mót tómum þingsal og talaði í myndavél sjónvarpsins, að baki hans Sif þingforseti og þingritari henni á hægri hönd. Upp talið. Fylgdist Sif vel með klukkunni og hvort ráðherra færi yfir tímamörk. Einhver þarf jú að standa vaktina!

Össur var að ræða eitthvað í sambandi við Evrópubandalagið, en ég verð að viðurkenna að ég fyrirvarð mig svo gagnvart þessu unga fólki sem ég var með á mínum snærum, komnu alla leið frá Danmörku, okkar fyrrum herraþjóð, og hafði svo miklar áhyggjur af því hvað þau væru nú að hugsa, að mál ráðherra fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér, ég var í hálfgerðu losti. En viti menn....einn þingmaður gekk í salinn, Árni Þór Sigurðsson, settist og virtist hlusta á Össur af athygli. Skömmu síðar gekk Atli Gíslason í salinn og hlustaði með hönd undir kinn. Tvö stig fyrir VG. Næst gengu í salinn Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra (S) og Birgir Guðmundsson (D). Bæði voru með farsíma í hendinni og voru annaðhvort að senda símskilaboð eða fá, alla vegana var athyglin óskipt þar, þau litu ekki af farsímanum sínum.

Kennari nemendanna dönsku leit til mín og ég á hann, við kinkuðum kolli til hvors annars, það var tími til kominn að yfirgefa pallana... hér var ekki mikið að sjá. Þetta var pínleg stund. Og enn skil ég ekki hvers vegna við máttum ekki vera með farsíma en þingmenn mega leika sér með þá eins og ekkert sé og fyrir allra augum í þingsal. Og helst hefði ég viljað taka mynd af þessu, jafnvel á hverjum degi til að sjá hvernig þetta fólk sem er að vinna fyrir mig stendur sig í vinnunni.

Danski kennarinn spurði um hvað ráðherrann hefði verið að tala, "um Evrópubandalagið" sagði ég..."er ekki áhugi á því málefni á Íslandi?" spurði hann, "er það ekki umdeilt?"....."jú, það hefði ég haldið" svaraði ég.......en yppti svo bara vonleysislega öxlum, því ég var algerlega orðlaus og vildi komast sem fyrst út til að sýna þeim eitthvað annað áhugavert sem fengi þau til að gleyma þessu hratt, t. d. skírnarfont Thorvaldsen í Dómkirkjunni.

Á leiðinni af pöllunum spurði ég lögreglumanninn á vakt hvort þetta væri alltaf svona.....hann hikaði, kannski mátti hann ekki segja neitt - en sagði svo: "Því miður er þetta svona ansi oft."

Niðurstaða dagsins var spurningin: Er hægt að ætlast til að virðing sé borin fyrir þessari samkomu? Mér skilst að þingmenn hafi tíma fyrir hádegi til að sinna ýmsum störfum sínum, en eftir hádegi sé "þingið að störfum", eins og það heitir svo fallega, og þá séu þeir í þingsal, framsögur fari fram og þátttaka í umræðum. Samkvæmt starfsfólkinu var þetta ekki einsdæmi sem ég upplifði en kannski kann einhver skýringu á þessu sem sem meikar sens? Þetta meikaði ekki sens fyrir mér og ekki fer ég aftur með hóp erlendra gesta á þingpalla að sýna þeim þingið "að störfum". Best að reyna að fækka þeim sem hlægja að okkur.......og elsta starfandi þingi í heimi.....HA HA HA!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband