Færsluflokkur: Bloggar

Fordómafullur formaður SÁÁ

Var að enda við að lesa viðtal Mikaels Torfasonar við nýjan formann SÁÁ,  Gunnar Smára Egilsson, í SÁÁ-blaðinu sem fylgir helgarblaði Fréttatímans þessa helgi. Fordómarnir drúpa þungt af formanninum..........

Því miður er blaðið (2.tbl) ekki komið á heimasíðu SÁÁ svo þið getið kynnt ykkur innihaldið hér og nú (ef hafið þið ekki þegar lesið það í blaðinu sem berst frítt inn um lúguna), en netútgáfa blaðsins hlýtur að birtast á heimasíðunni innan tíðar.

Þarna birtast fordómar gagnvart heilbrigðisstéttum, kennurum og skólafólki og HINUM (sem eru víst þeir sem Gunnari Smára virðist finnast aumkunarverðastir, og eru skilgreindir m.a. sem þeir nemendur sem líður vel í skóla, stunda nám sitt af samviskusemi og vinna að því loknu hin ýmsu störf í þjóðfélaginu sem krefjast BA-gráðu).

Lendir Gunnar Smári eiginlega í algerri mótsögn við sjálfan sig í viðtalinu þar sem hann segir að allir geti ekki verið eins, þjóðfélagið verði að vera samsett úr mismunandi fólki til að skapa spennu og orku. "Einhver verður að vera svoldið óþekkur, annar dáldið óvirkur og sumir bara normal." segir hann, án þess að útlista nánar hvað "normal " er (hefur reyndar reynst mörgum erfitt).

Umburðarlyndi fyrir margbreytileika manna og kvenna er ekki helsti mannkostur Gunnars Smára, enn man ég þegar hann í Helgarpóstinum dæmdi hægri vinstri eftir eigin fordómum "ofmetnasta Íslendinginn" og sagði menn "leiðinlega" ef hann var á skjön við þá í skoðunum. Enn er hann tilbúinn með "leiðinlega" stimpilinn - hann segir að í þjóðfélaginu ríki "forgangsröð leiðinlega fólksins" og hefur skilgreint hana sjálfur, skv. hans skilgreiningu gengur hún út á að mennta sig til atvinnuöryggis og síðan huga að sjálfsrækt. Lendir GSE þó aftur í ákveðinni mótsögn þegar hann talar sem svo að þeim með gráðurnar leiðist eftir námið gífurlega í vinnunni sinni, hann virðist sem sagt ekki gera ráð fyrir að til séu þeir sem mennti sig til starfa með BA-námi, starfa sem þeir hafi síðan mikla ánægju af og gefur þeim lífsfyllingu.

Eitt get ég þó tekið undir með Gunnari Smára, þó hann segi það ekki með mínum orðum, en það er að skólakerfið hefur lagt ofuráherslu á bóknám á kostnað handverks og annarra greina sem eru alveg jafn mikilvægar fyrir þjóðfélagið og koma ekkert bóknámsgreind við. Viðloðandi hefur verið í nokkra áratugi að gefa minna fyrir t.d. iðnnám en t.d. viðskiptanám, þó hvort tveggja námið sé krefjandi, hvort á sínu sviði. Í ýmsum öðrum löndum, t.d. Þýskalandi, Hollandi og sumum fylkjum USA, geta krakkar valið á seinni hluta skyldunámsins námsbrautir í takt við áhugasvið sín, líkt og er hægt í sumum fjölbrautarskólum hér á landi, valið fer bara fram á yngra skólastigi og verður þar af leiðandi ítarlegra og þau finna sig frekar í skólanum. 

Ég er sammála GSE í því að greind er margvísleg og ekkert endilega bundin við skólagöngu og gráður, minni bara á fjölgreindakenningu Gardners sem ég hallast mjög að, en skv. henni er það fyrst og fremst málgreind sem nýtist við venjubundið bóknám.

Greindur einstaklingur er greindur, sama hvað hann lærir eða starfar við, og ekkert er betra en hitta fyrir einn slíkan, hvort sem hann er smiður, sjómaður, bóndi, bílstjóri, námsráðgjafi, lögfræðingur, endurskoðandi, listamaður eða blaðamaður. Eða jafnvel formaður SÁÁ. En það fellur dálítið á ljómagreindina þegar fordómarnir vaða uppi, hvort sem það er í heitum potti, hjá þeim með BA-gráðuna eða iðnmenntunina............eða blaðamönnum og óvirkum alkóhólistum.


Ruslatína

Ég tíni rusl. Ég er ruslatína. Sérstaklega hef ég lagt rækt við að tína rusl við náttúruperlur sem mér þykir vænt um. Meðal þeirra eru svæðin við Geysi, Gullfoss, Kerið og fleiri staðir sem ég kem oft á á hverju sumri. Líka að vetri. Hvenær sem er. Ein og með öðrum.

Systir mín er líka ruslatína. Hún heldur hreinni leiðinni sem hún gengur í vinnuna í miðborg Reykjavíkur. Oft tínir hún fullan ruslapoka á þeirri leið. Hún ber virðingu fyrir umhverfi sínu. Henni finnst í lagi að tína upp rusl eftir aðra ef það gerir hennar gönguleið ánægjulegri. Hún á virðingu skilið. En þetta uppbyggilega starf hennar er ekki auglýst eða umtalað, það er unnið í hljóði. Engir fjölmiðlar hafa áhuga á því. En það er jafn merkilegt og virðingarvert fyrir það.

 Sem leiðsögumaður verður maður áþreifanlega var við að virðingin og umgengnin við landið er misjöfn, fólk hendir rusli á fegurstu áninga- og útsýnisstöðum - sígarettustubbum, sælgætisbréfum, kaffimálum, gosflöskum - já, næstum hverju sem er - við helstu náttúruperlur. Í dag var ég við Geysi og hirti þar upp notaða bleiu sem lá við Strokk þar sem hópur ferðamanna stóð og beið eftir gosi. Aðeins seinna tíndi ég heilan ruslapoka við Gullfoss. Fólk fór að hjálpa til. Margir þökkuðu mér fyrir.

Sigríður Tómasdóttir hefði verið ánægð með mig. Eins og ég er ánægð með að hún varðveitti fossinn fyrir mig og mína afkomendur.

Af hverju er ég ruslatína? Af því að mér þykir vænt um Ísland. Mér þykir vænt um landið mitt. Ég vil að það sé hreint land. Ég vil ekki að það sé allt fljótandi í rusli. Ég vil vera sú sem byggir upp og fegrar en ekki ruslari sem gefur skít í landið og sýnir því vanvirðingu með því að henda rusli.

Ég vil heiðra mitt land, ég vil elska mitt land, ég vil láta það sjá margan hamingjudag.


Að vanda orðaval

Noregur er í sárum. Aðdáun vekja viðbrögð þjóðarinnar. Einn maður hefur staðið eins og klettur og ber nafn sitt með rentu: Stoltenberg. Í morgun ítrekaði hann í Stórþinginu og sagt var frá í Aftenposten að viðbrögðin við hryðjuverkunum 22. júlí yrðu að vera yfirveguð áfram og fólk yrði að vanda orðaval sitt í allri umræðu svo ekki hæfust nornaveiðar.

Siv Jensen, formaður norska Fremskrittspartiet er spurð hvort hún muni láta af ákveðnu gildishlöðnu orðalagi en hún lætur undir höfuð leggjast að svara beint.

Aftur á móti leggur Thorbjörn Jagland, aðalritari Evrópuráðsins, til að evrópskir þjóðhöfðingjar og stjórnmálamenn láti af ákveðnu gildishlöðnu orðalagi, eins og t.d. "íslamiskir hryðjuverkamenn" - hryðjuverk Al Queda hafi ekkert með islam trú að gera frekar en hryðjuverk Anders Breivik hafi með kristna trú að gera. Thorbjörn Jagland hefur áður hvatt Evrópuleiðtoga til að nota frekar orðið "fjölbreytni" í stað "fjölmenningar", og þykir sumum hófsamur málflutningur hans hingað til hafa frekar höfðað til íhaldsafla hvað varðar fjölþjóðasamfélög, en hvað um það, einnig hann hvetur núna til nýrrar hugsunar og vandaðrar orðræðu...."maður verður að fara varlega við val sitt á orðum, því þau má misnota" segir Jagland. (Man må være forsigtige med hvilke ord man bruker, for de kan misbrukes)..

Athyglisvert að minna á í þessu samhengi hversu stór hluti jafnréttisbaráttu snerist um að gera fólk meðvitað um orðalag og gildishlaðna orðræðu sem viðhélt ómeðvituðum viðhorfum. Var þá oft gott að skipta um kyn í setningu eða samhengi til að sjá skekkjuna. Sama á við hér.


En mikið er hann Stoltenberg flottur kall, bara ef við hefðum einhvern eins og hann. Það sýnir alltaf styrk stjórnmálamanns eða þjóðhöfðingja hvernig hann kann að hughreysta fólk sitt í sorg eða einhverri ánauð eins og t.d. kreppu eða stríði. Kóngurinn norski er vinalegur kall en virkar ekki nógu sterkt núna sem sameiningartákn, líkt og Stoltenberg gerir. Ég man hvað Vigdís var flott þegar snjóflóðin féllu fyrir vestan, hún hafði þetta, láta fólkið finna að hún fyndi til með því, en sýndi líka styrk og æðruleysi, og fann réttu orðin að segja. Þess vegna var hún flottur þjóðhöfðingi.


Snjókoma í júlí

asparfrae.jpgUm loftið flögra hvítar flygsur, minna í mínu hverfi á snjókomu vegna magnsins. Þetta eru fræ asparinnar, og má af þessu sjá hversu mikið er af henni í borginni. Víða afar há og laufmikil tré og þurfa mikinn vökva. Rótarkerfið er ótrúlega stórt, leitar undir húsveggi og inn í garða nágranna, brýtur sér jafnvel leið inn í hús. Þegar þurrt er í veðri eins og núna, leitar rótarkerfið upp á við í leit að raka. Þá fyrst byrja vandræðin þegar grasflötin fer að lyftast undan rótarskotum í vökvaleit......eða vatnsleiðslur að fara í sundur.......

Því miður er þetta fallega tré orðið að eins konar "illgresi" í borginni, of mikið er af trjánum og vandræðin sem þau skapa aukast jafnt og þétt. Þetta er engin garðaplanta, þetta er stór og falleg trjáplanta sem þarf mikið pláss og mikinn raka, og hún fer víða vel meðfram vegum og á opnum svæðum í nágrenni borgarinnar. Þar sem er mikill raki í jörð eða mýrlent kann hún vel við sig.


Arðsemi og sóðar í ferðaþjónustu

img_2726.jpgNiðurlag þessarar fréttar Morgunblaðsins um litla arðsemi í ferðamennsku er einkennilegt, kemur arðseminni sem er upphaflega umræðuefnið ekkert við og er beinlínis rangt, þar sem regluverk ferðaþjónustunnar er mótað af fyrri valdhöfum en ekki núverandi.

En það breytir auðvitað ekki því að breytinga er þörf og eftirlit þyrfti að auka. Gildir það jafnt um opinbera aðila og einkaaðila í ferðaþjónustunni, að þeir þurfa að hugsa um "sjálfbærni" ferðamennskunnar, hugsa um landið og náttúruna sem laðar ferðafólkið hingað til lands, en nýta hana ekki með aðferðum rányrkju, eins og sumir gera.

Ég hef sjálf horft upp á fjórhjólaleigu aka með ferðamenn utan vega, séð erlendar og íslenskar rútur hleypa fólki út á vinsælum ferðamannastoppum til að nota þá sem salerni -( að sjálfsögðu grípur maður inní og beitir fortölum eða hreinlega tekur til eftir þessa sóða, en maður getur ekki verið alls staðar alltaf og þetta viðgengst því miður víða, líkt og svarta hagkerfið í ferðaþjónustunni.)

Margrir íslenskir leiðsögumenn taka að sér hreingerningahlutverk þegar þeir eru á ferðinni með hópa sína, í þágu landsins og náttúrunnar, og veit ég ekki hvernig margir vinsælir ferðamannastaðir litu út ef þeir gerðu það ekki. Ég hef ávallt gert þetta, en þar að auki hef ég tekið einn stað í sérstakt fóstur og tek til þar alltaf þegar ég fer þar hjá, en það er í kringum Kerið í Grímsnesi. Þetta er staður sem ég hef þekkt frá barnæsku og mér þykir vænt um og vil ekki að spillist, en því miður skilja bæði útlendingar og Íslendingar þar eftir alls kyns rusl og drasl.

Landinn er ekki barnanna bestur, nema síður væri, og útlendingar furða sig oft á þeirri staðreynd að ruslatunnur sjást varla á fjölmennum ferðamannastöðum. Við Gullfoss og Geysi til dæmis eru þær settar upp um miðjan júní og horfnar í lok ágúst, en t.d. núna í maí komu til landsins 35.000 ferðamenn og reikna má með að vel flestir þeirra hafi farið Gullna hringinn.

Ferðaskrifstofur sem kenna sig við lúksus leigja út sumarbústaðinn hennar mömmu sem lúksusgistingu á toppverði, án leyfa, framtals tekna eða annars. Eitt einkenni slíkra "ferðaskrifstofa" er að ráða óreynda eða nýútskrifaða leiðsögumenn. Enn aðrir tefla fram ómenntuðum einstaklingum sem telja sig kunna og geta allt án undirbúnings, með lélega tungumálakunnáttu og litla þekkingu, en soldið hressir og kunna fullt af klisjum um Ísland  (all Icelanders believe in elfs, we have the strongest men and most beautiful women, here is where the tectonic plates meet, Icelanders hate polish people (hate er sterkt orð í enskri tungu) og svo framvegis, vitleysan ríður ekki við einteyming)

Það eru margir lukkuriddararnir í ferðabransanum, margir án nokkurra leyfa eða réttinda, jafnvel leigubílstjórar gefa sig út fyrir að vera leiðsögumenn, og með fullri virðingu fyrir leigubílstjórum, þá tel ég þá ekki geta gengið í leiðsögumannastarfið án þess náms sem veitir réttindin, ekkert frekar en fólk án meiraprófsréttinda getur gengið í þeirra starf.

Hér þyrftu að gilda þær reglur sem gilda víða í Evrópu, að í hverri rútu sem hér keyrir um með hóp sé íslenskur leiðsögumaður um borð. Þá er hægt að tryggja að vel sé gengið um landið og reglur virtar. Við þurfum að koma upp salernisaðstöðu þar sem hennar er greinilega þörf, svo við þurfum ekki að vaða klósettpappírsskóg á þeim stöðum þar sem við forðum áðum og fengum okkur snæðing.

Einnig þyrfti að afhenda ferðamönnum um borð í flugvélum og ferjum bæklinga sem benda fólki á góða umgengni við landið, segja frá því hvað gróður sé viðkvæmur vegna stutts vaxtartíma, að ekki megi taka með sér dropasteina, hrafntinnu, silfurberg, geislasteina eða annað eftirsóknarvert grjót (einn fararstjóri í enskum hóp sem ég hitti gortaði sig af því við hópinn sinn að hann hefði tekið 2 kíló af steinum á Djúpalónssandi til skartgripagerðar. Þetta þarf að laga og upplýsinga er þörf fyrir gesti sem hingað koma.

En fyrst og fremst eigum við sjálf, Íslendingar, að ganga vel um landið okkar, passa upp á náttúruperlur, gefa ekkert eftir með góða umgengni, líða ekki að fólk vanvirði fegurð landsins með því að horfa athugasemdalaust upp á fólk henda rusli eða sígarettustubbum.

Við eigum að horfa til framtíðar og vera meðvituð um hvernig land við viljum byggja í framtíðinni, hvernig náttúru við viljum upplifa í framtíðinni. Við verðum að sjá til þess að börnin okkar upplifi eitthvað af því sem við þekkjum og eigum enn ómengað í dag.

Það þarf að grípa til ráðstafana ÁÐUR EN allt er eyðilagt, ekki ÞEGAR búið er að eyðileggja það, eins og oftast er okkar aðferð.Eða á Ísland að verða eitt risavaxið salerni fyrir 1 milljón túrista og 300.000 íslenska sóða?


mbl.is Engin arðsemi i ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plebbaleg símaskrá

Aldrei séð plebbalegri símakrá..............

si_769_maskra_769.jpg

Sjálfhverfur hnakki í hópi ungra, fallegra íþróttastúlkna.......stúlkurnar eru afreksstúlkur, líka fyrir það að geta tekið þátt í þessu með þessum bera kalli....sem er svo upptekinn af sjálfum sér að þegar hann er beðinn um að sjá um útlit símskrárinnar dettur honum ekkert frumlegra í hug en troða sjálfum sér fáklæddum á forsíðuna.........og hverja einustu mynd sem er inni í skránni líka...........

 


Sjálfsmyndir karla

Philip Scott Johnsson hefur líka sett saman sjálfsmyndir karlkyns listamanna (líkt og hann gerði við kvenkyns fyrirsætur og viðfangsefni þeirra). Öfugt við soldið kókett fas kvennanna og daðrandi augnaráð er augnaráð karlanna kaldara og jafnvel vottar fyrir tortryggni eða stífni.......


Konur í myndlist

Þær daðra fallega við mann þessar konur úr myndlist sem Philip Scott Johnson hefur sett saman.....


Eldgos eða skýstrókur

Vissulega er gosið sem hófst í Grímsvötnum laugardaginn 21. maí miklar nátúruhamfarir. Og vissulega á fólkið á Suðurlandi skilið samúð okkar allra, að ég tali nú ekki um dýrin. Frábær fréttaumfjöllun gerir okkur kleift að fylgjast með gangi gossins og daglegum aðgerðum, líðan íbúa og ástandi skepna. Samúð okkar er mikil. Sem betur fer er enginn í alvarlegri hættu og dýrin virðast braggast furðu fljótt.

severe_weather_110428_wg.jpg

Á sama tíma fara skýrstrókar yfir Bandaríkin í lange baner......165 á 24 klukkustundum, 291 látnir og margir enn ófundnir. Einn skýstrókur eyddi á sunnudaginn 22. maí tveimur þriðju hlutum borgarinnar Joplin.

Á meðan á gosinu í Grímsvötnum stóð höfðu íslenskir fréttamiðlar að því er virtist ekki minnsta áhuga á þessum atburðum, þó mannskæðir væru, og margt eftirlifandi fólk eignalaust og í áfalli. Núna, þegar gosið er í rénum er meiri fréttaflutningur af alvarlegum afleiðingum skýstrókanna.

Þetta er áberandi líkt viðbrögðum okkar við flóðbylgunni í Japan, við vorum þá upptekin við Mottumars gegn krabbameini karlmanna. Ég hef svolitlar áhyggjur af því hvað við erum sjálflæg, alvarlegustu hörmungar annarra þjóða megna ekki að vekja athygli okkar og samúð..........


Clean Cut - um kvótamálið

Líst rosalega vel á frumvarp Hreyfingarinnar um kvótann...............þá er þetta bara eitt clean cut, eitt ramakvein frá LÍÚ og sægreifum og svo ekki söguna meir. Með frumvarpi Jóns Bjarnasonar verður þetta tekið í þrepum og kveinað hátt í hvert sinn og hálftími hálfvitanna alltaf toppbókaður......hlífum þjóðinni við því.........

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband