Færsluflokkur: Bloggar

Nauðsynlegt, en hér vantar fagurfræði

Þetta þykir mér illa hannað verk.......flestir sem ljósmynda Kerið standa sunnanmegin og horfa til norðurs, þannig er besta ljósið, en núna sjá þeir þessar tröppur fyrir miðju myndefninu. Þetta sleppur, en þó ekki gott, þegar gengið er frá bílastæðinu og komið að fyrsta útsýnisstaðnum, þá sér maður tröppurnar frá hlið. Það hefði þó alveg verið spurning að mínu mati að sleppa því alveg að hleypa fólki niður að vatninu og hafa bara stígana meðfram gígbarminum, en auðvitað ráða eigendur hvað þeir gera, nauðsynlegt er að vernda svæðið, þó þessi lausn þyki mér ekki fögur...

Þetta hér við Kerið er því ekki spurning um að gera ekki stíga, það er bara hvernig þeir eru gerðir sem er álitamálið. Það er víða búið að gera fína náttúrulega stíga, sérstaklega þar sem komið hefur að fólk með sérfræðiþekkingu í stígagerð, oft frá Bretlandi, og svo vinna sjálfboðaliðar undir þeirra stjórn, í Skaftafelli, í Þórsmörk og víðar.....þar er unnið með náttúruleg efni úr nágrenninu, gerðar vatnsrennur með steinum, o.s.frv.......það er nefnilega ekkert að því að hafa ákveðna fagurfræði í huga ásamt gagnseminni...


Sofandi börn í bílum

Kom í sumar að hágrátandi ungabarni í læstum bíl því foreldrarnir höfðu farið í göngutúr niður í fjöru (þar sem ekki sást til bílsins þeirra og var soldill spotti að frá bílastæði). Sólin skein á höfuð barnsins og á meðan sumir ferðafélagar mínir reyndu að dreifa athygli barnsins og mynda skugga fyrir sólinni til að fá það til að hætta að gráta hlupu aðrir niður í fjöru til að ná í foreldrana...... ekki fengum við þakkir fyrir að grípa þarna inn í, þvert á móti voru foreldrarnir bara frekar fúlir, kannski yfir því að göngutúrinn þeirra var truflaður, kannski í vörn því þetta var ekki forsvaranlegt og þau vissu það .....
Það er ábyrgðarhluti að skilja lítið barn eftir í læstum eða ólæstum bíl, nema fólk sé með öryggistæki eins og hlustunartæki og verði þá vart við ef barnið vaknar og ekki of langt í burtu til að bregðast við því.....

 

http://www.ruv.is/frett/fundu-tyndan-thriggja-ara-dreng-i-obyggdum


Apótekið

Ákvað í kvöld að prófa nýjan veitingastað í bænum á horni Póshússtrætis og Austurstrætis, þar sem gamla Reykjavíkurapótek var í den. Staðsetningin er mjög góð með tilliti til túrismans og útlit staðarins og hönnun er glæsilegt. Þjónustan var ljómandi og maturinn mjög góður, EN: og þetta er stórt EN: það var spiluð hávær tónlist allan tímann sem við stóðum við, þar sem það eina sem heyrðist var Dunka-Dunka Dunk og ég og borðfélagi minn urðum að hrópa hvort á annað yfir tveggja manna borðið til að geta átt samræður. Svipað hlýtur að hafa verið uppi á teningnum á öðrum borðum, því hávaðinn þarna inni var óbærilegur. Þegar ég stakk upp því við þjónustufólkið að lækka eða velja aðra "dinner"tónlist var svarið að þetta væri að virka fyrir þau, þetta væri stemningin sem þau vildu hafa? Eftir 40 mínútur var þolið búið og við ákváðum að yfirgefa staðinn, og þó það hefði verið reidd fram 1 milljón til að fá okkur til að stansa aðeins lengur og fá okkur kaffi og desert þá hefði ég neitað því boði. Þvílíkur léttir var að koma út! Núna hálftíma síðar finn ég enn fyrir hausverknum sem myndaðist og verkjum í herðum (eftir aðeins 40 mínútur!), þó ég sé afar lítið hausverkjagjörn. Þessar 40 mínútur voru hreint út sagt tortúr sem meira að segja góður matur gat ekki bætt! Sem leiðsögumaður get ég ekki ráðlagt mínu fólki að borða á Apótekinu, því miður......... og mikið vorkenni ég starfsfólki staðarins að vinna heilu kvöldin við þetta!

reykjavi_769_kurapo_769_tek.jpg


Ekki synda í gjánum!

Í frétt í Vísi segir frá því að foreldrar hafi hvatt son sinn til að synda í Flosagjá og hlegið þegar kuldinn varð honum um megn, sjá HÉR. Fræðslufulltrúi Þjóðgarðsins sá atvikið, tók mynd af drengnum í hálfgerðri sjálfheldu og setti frásögn á Facebook. Ég er mjög fegin að heyra að starfsmenn þjóðgarðsins voru á ferli, því í þau 8 ár sem ég hef verið að leiðsegja fólki um, og auðvitað margoft á Þingvöllum á hverju sumri, þá hef ég aldrei, ég endurtek aldrei, mætt eða séð landvörð á ferli. Segir það kannski meira um skort á starfsmönnum og fjárskort þjóðgarðsins en margt annað.

Það er ekki sjálfgefið að fólk viti að kuldinn í vatninu geti valdið t.d. krömpum og mögulega dauða í kjölfarið. Það var mikið hlegið að því í mínu ungdæmi að ungur maður fór á sundskýlu í Nikulásargjá að ná í peninga og við áhrif kuldans hrukku eistun upp í kvið og þurfti lækna til að hjálpa uppá...........en ógnvænlegra er að þessi kuldi getur drepið. Það er einn björgunarhringur á Spönginni, en þar er sjaldnast fólk sem gæti kastað honum út til einstaklings í hættu, auk þess sem einstaklingur í kuldakrampa gæti ekki nýtt sér það. Enginn björgunarhringur er þar sem flestir ferðamennirnir eru. Sem betur fer dettur fáum í hug að synda í gjánum, en það kemur fyrir og ég hef tekið „hárblásarann“ á unga menn sem gerðu það, og þá reiddist ég ekki bara vegna hættunnar, heldur líka þess virðingarleysis sem mér fannst þeir sýna staðnum. Tærleiki gjánna myndi hratt hverfa ef fólk almennt gerði það að sporti að synda í þeim nakið, saurgerlamengun og annað miður kræsilegt kæmi upp. En mér finnst nú að þjóðgarðurinn ætti að setja upp einhverjar merkingar til að útskýra hvers vegna þetta er hættulegt. Svo finnst mér löngu tímabært að þjóðgarðar hafi heimild til sekta vegna brota á reglum þjóðgarðsins......það virkar!


Sæbrautin er flott!

Get ekki annað en dáðst að skipulaginu við Sæbraut (göngu- og hjólastígarnir og listaverkin), sem er jafn frábærlega vel úr garði gert og byggingarskipulagið við sömu strandlengju er meistaralega illa úr garði gert. Þarna gengur fólk, hjólar, skokkar,..... frá morgni til kvölds er fjöldi fólks að nóta strandlengjunnar og listaverkanna. Þegar ég var krakki var alltaf gaman að fara þarna niður að sjó, en þá voru þarna skólprör, rottur, skeljar, krabbar og ýmislegt annað forvitnilegt sem svona strönd býr yfir. Áður hafði maður farið í gegnum alla bakgarða frá Skólvörðuholti (maður þekkti stystu leiðirnar), kíkt inn í portið hjá Völundi og stundum dirfst að fara inn í anddyri Útvarpshússins. Frystihúsið, þar sem Seðlabankinn er núna, geymdi allar sláturbirgðir móður minnar og þangað var maður sendur reglulega yfir veturinn að bera heim í búið frosinn blöðmör og lifrarpylsu, sem var svo í matinn nokkra daga á eftir með ýmsum framreiðsluaðferðum. Í minningunni var ljúft að fara niður að sjó, en líka minnist ég gjóstursins og brimsins sem kastaðist upp á götuna og á bíla og fólk. Aldrei minnist ég að hafa séð fólk ganga þarna í spássitúr.......Sæbrautin er gott dæmi um jákvæðar framfarir og gott borgarskipulag í Reykjavíkurborg og mætti horfa til þess þegar ný eða önnur hverfi eru skipulögð...Hver skyldi eiga heiðurinn af því?

Terta veldur titringi

Terta á 1290 kr er að valda titringi í umræðum um ferðamál. Okur segja sumir, eðlilegt segja aðrir.

Sem leiðsögumaður á sumrin hefur maður góða yfirsýn yfir hvað er í boði fyrir ferðamenn og hvernig verðlagið er, og eins hversu það hækkar milli ára. Ég er nýkomin úr ferð þar sem það var nokkuð augljóst að ef aðili í ferðaþjónustu hafði einokunarstöðu, t d. í sölu á mat á ákveðnu svæði, þá fór verðið upp úr öllu valdi. Samanburður við verð á höfuðborgarsvæðinu sýnir að það getur munað allt að 1000 kr á súpu í hádeginu, og er þó bæði gæði og þjónusta yfirleitt miklu betri í höfuðborginni.

Nú halda sumir því fram að þetta sé síst of hátt verð því bæði laun og verðlag í þeim löndum sem ferðamenn komi frá sé svo hátt og þetta komi þeim því ekkert á óvart eða við pyngju þeirra.

Þarna held ég að menn séu að tala af fáfræði, ef til vill að miða við Oslo eða London, einhverjar dýrustu borgir Evrópu. Og kaffibollinn í Köben er nokkuð dýr á Strikinu. En ég er nýkomin frá Spáni og þar kostar kaffibollinn 1,5-2 evrur = 200-300 kr. Bílaleigubíll kostaði um 8000 krónur fyrir heilan dag með bensíni. Ég hugsa að ferðamönnum frá Spáni muni þykja dýrt að ferðast hér......

Leiðsögumenn hafa mikið um það að segja hvernig ferðamenn verja fé sínu, hvar þeir stansa og hvað þeir kaupa.....Hingað til hef ég haft þá stefnu sem leiðsögumaður að hvetja fólk til að borða hádegismat á veitingastað, því ég vil auka viðskipti ferðamanna í landinu eins og hægt er. En þetta græðgisviðhorf sem maður nú skynjar verður ef til vill til þess að maður fer að ráðleggja ferðamönnum að kaupa sér nesti í kaupfélaginu frekar en borða hádegismat á veitingastað, og sniðganga þá staði sem augljóslega okra á ferðamönnum.

Hið merkilega er einnig að þeir staðir sem okra eru líka oft með leiðinlegustu þjónustuna, geðvonda eigendur og starfsfólk, en þeir sem eru sanngjarnir taka vel á móti fólki og gera allt til að gera upplifunina þægilega og yndislega. Viðhorf græðginnar mun hefna sín á þeim stöðum sem hana stunda og ég veit að ég mun beina mínum ferðamönnum frá þeim........

 


Íslensk erfðagreining eða lyfjarisinn AMGEN?

Margir halda að Íslensk erfðagreining eigi lífsýnin sem safnað hefur verið nú þegar úr Íslendingum, en það er í raun bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen sem á ÍE (keypt 2012), svo öll þessi lífsýnasöfnun verður í eigu og þágu þeirra.......
Ég sagði mig úr íslenskri erfðagreiningu á sínum tíma, það gerðu reyndar margir. Síðan hefur ÍE efnt til margra rannsókna og leitað til ýmissa hópa, oft unglinga þar sem þarf leyfi foreldra fyrir rannsókninni, svo er bætt í ósk um að foreldrar og ömmur og afar taki þátt til að fá betri rannsóknarniðurstöður. Svona er fólk lokkað til að láta frá sér lífsýni - og af því að fólk er oftast hjálpsamt og fullt trausts, þá tekur það þátt. Núna trúir þjóðin því að hún sé að styrkja íslensk fyrirtæki, ÍE og Landsbjörgu, en er í raun að styrkja lyfjarisann AMGEN ef við horfum hér á bak við tjöldin.....hvers vegna er engin dýpri fréttaumfjöllun um þetta mál?

Eitur í íslenskri matvöru og vatni

Lítið fréttir maður af því að verið sé að mæla eiturefni í matvöru eða náttúrunni hér á Íslandi, en getur lesið margar slíkar greinar á hverju ári í erlendum fjölmiðlum, helst skandinavískum. Frétt um iðnaðarsalt í matvöru feykti upp stormi um stund, einnig mengun frá álþynnuverksmiðju á Akureyri og saurmengun í Pollinum, en svo heyrist ekki meir og maður heyrir lítið um markvissar, reglulegar rannsóknir og niðurstöður þeirra.

Ég hef t.d. oft velt því fyrir mér hvort ekki sé þungmálmamengun í hrefnukjöti, líkt og í grindhval í Færeyjum, og þó það geti verið að hrefnan safni upp minna af slíku en grindin þá vil ég gjarnan vita hversu mikið þetta er. Þetta er rannsakað í Færeyjum, þar eta börn og ófrískar konur ekki grindhvalakjöt vegna eitrunarhættu.

Fréttir hafa hermt að Vegagerðin hafi (og geri jafnvel enn) notað hið illa ræmda eitur Round-up í vegarkanta, til að hamla gróðri og illgresi. Við sem erum á ferðinni um vegi landsins á sumrin sjáum svo lömb og kindur á beit í þessum sömu vegarköntum, og jafnvel þó ekki væri eitrað í þá þá er útblástur bifreiða örugglega ekki besti áburðurinn..... er lambakjöt nokkurn tíma rannsakað?

Annað sem ég hef áhuga á að vita er mengun lækja og vatna á Íslandi. Í Bretlandi er það t.d. viðurkennd staðreynd að ekki sé óhætt að drekka af því vatni sem fólk gengur hjá í náttúrunni, flest er það mengað af einhverju, helst saurgerlum. Mér vitanlega fer engin slík mæling fram hér á landi. Þó má reikna með að með auknum túrisma aukist hættan. Sjálf hef ég séð merkin og varast að drekka á fjölförnum stöðum....

Mengun frá jarðvarmavirkjunum og áhrif hennar á mannfólk er lítið ef ekkert rannsökuð. Þó búa þúsundir Reykvíkinga við hana á hverjum degi, og Hvergerðingar ekki síst, þar liggur brennisteinsþefurinn eðlilega daglega í loftinu.

Áhrif gosefna úr t.d. Eyjafjallajökli á menn og dýr er líka áhugavert rannsóknarefni, og víst er það að dýr af svæðinu eru rannsökuð eitthvað lítilsháttar þegar þau koma til slátrunar, en ekki t.d. mjólk úr kúm mér vitanlega. Og auðvitað ekki mannfólkið sem þoldi það sama og dýrin....

Við erum svo viss um að hér sé hrein náttúra, hreint og ómengað vatn, hreint og ómengað fjallalambakjöt að við drögum það sjaldnast í efa. Kannski við ættum að krefjast sannana fyrir því?


Banna stóru skemmtiferðaskipin

Hér er talað um vandamál sem ég hef stundum rætt hér og víðar, en það er hlutur stóru skemmtiferðaskipanna í ferðamennsku. Nú hafa yfirvöld í Feneyjum bannað stærstu skemmtiferðaskipunum að leggja að bryggju í nágrenni við Markúsartorgið.....gott hjá þeim segi ég bara.......Þessi skip stansa nokkrar klukkustundir á hverjum stað, farþegar keyrðir út og suður (með tilheyrandi kolefnamengun), lítið verður eftir af þessum túrisma (fyrir utan hafnargjöld), engin gisting, lítil neysla, en gífurlegt álag skapast á áhugaverðum stöðum. Í Feneyjum Markúsartorgið sjálft. Hér á landi má til dæmis nefna okkar viðkvæmu náttúru sem hefur liðið fyrir þessa tegund túrisma, Gullna hringinn, Goðafoss, Mývatn svo eitthvað sé nefnt. Ég held að hafnaryfirvöld hér á landi verði að íhuga kvóta á þessi skip og hugsanlega banna þau stærstu.....og svo gera framtíðaráætlanir um rafbíla og rútur, svo við verðum fyrirmyndarriki í þeim efnum...
http://www.theguardian.com/commentisfree/2014/mar/20/tourism-overwhelms-historic-places-venice-cruise-liners

Hrákadallar og spýtukallar

Á göngu um borgina verða oft fyrir manni gljáandi slummur á gangstéttum sem „brosa mót sól“ og oft sér maður huggulega unga menn hrækja frá sér þessum gljáhroða eins og ekkert sé sjálfsagðara, jafnvel töff. Fólk, börn og hundar ganga ofan í þetta og má reikna með að óþverrinn berist inn á heimili fólks oftar en það kærir sig um að vita um. Eins sér maður knattspyrnumenn og aðra íþróttamenn hrækja á vellinum hægri vinstri. Sama völl nota svo börn á yngri stigum, detta oft eins og gefur að skilja, fá óhroðann í hárið og á líkamann og fara svo heim, nema þau skelli sér í góða sturtu á eftir, sem ætti eiginlega að vera skylda. En jafnvel þó menn fari í sturtu eftir æfingu eða leik, má reikna með að eitthvað af gumsinu hafi náð þangað sem ekki er óskað eftir því, t.d. í augu, munn eða nef þegar hendi er strokið yfir andlit, undir nef, hár dregið frá augum o.s.frv.

Þetta er einhver viðbjóðslegasti ósiður sem ég þekki, og hefur aftur verið upp tekinn eftir marga áratugi þegar þetta þótti óheflað og ógeðslegt fram úr hófi. Í mínu ungdæmi þótti hver sá sem hrækti á götu afskaplega illa uppdreginn og fékk augnagotur. Í dag sýnist mér ungir karlmenn telja að þetta sé eitthvert merki um svalheit, þetta sést í íþróttunum, í kvikmyndum og svo auðvitað í mannlífi borgarinnar og enginn gerir athugasemd við þetta. 

Hér áður fyrr, allt fram á 20. öld,  voru hrákar talsvert almennir, en svo fór fólki að blöskra sóðaskapurinn og kúltúrleysið sem lýsti sér í þessari búkhreinsun. Heilbrigðissjónarmið réðu líka talsverðu, því margir sjúkdómar geta borist með hráka. Hrákadallar voru settir upp, t.d. á skipum eða stórum vinnustöðum, til að slummurnar væru ekki út um allt, heldur safnað á einn ákveðinn stað sem væri svo hægt að hreinsa reglulega. Síðan lagðist þessi ósiður sem betur fer hægt og bítandi af, einkum vegna hræðslu fólks við berklana, en berklasmit gat auðveldlega borist með hráka. Um tíma var meira að segja bann við hrákum á almannafæri í lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar af þessari ástæðu og mátti beita sektum við athæfinu. Þegar berklunum hafði verið útrýmt að menn töldu, var það tekið út. En enn stinga berklar upp kollinum, árvisst hér á landi, og ekki get ég hugsað þá hugsun til enda að einhver með smitandi berkla gangi um götur borgarinnar og spýti í allar áttir.

En það getur fleira borist en berklar með hráka, til dæmis kvef og umgangspestir og geta læknar upplýst betur um það, en almenn skynsemi segir okkur að ekki sé sérlega heilsusamlegt að snerta eða rekast í þessa líkamsvessa, hvað þá fá þá inn í sinn eigin líkama, t.d. við að þeir berist inn á gólf heimila, þar sem lítil börn skríða um eða eru að leik, eða ef fólk athugar ekki að þvo hendur sínar oft á dag og sérstaklega áður en matast er.  

Mig langar til að skora á spýtukallana að hætta þessum ósið, eða að öðrum kosti koma sér upp hrákadöllum sem þeir geta þá borið með sér og geymt í vasa sínum á milli. Annars verða borgaryfirvöld að bregðast við þessu og annað hvort koma upp hrákadöllum líkt og var fyrrum eða setja reglur um þessa losun líkt og er nú gert gegn t.d. þvaglátum á almannafæri. Eins skora ég á íþróttafélög að taka upp harðari reglur um hrækingar á íþróttavöllum og hefja vitundarvakningu um ósiðinn, benda börnum í íþróttastarfi og foreldrum þeirra á vandamálið og brýna fyrir þeim hreinlæti og þvott. En fyrst og fremst vil ég segja við spýtukallana að þetta er alls ekki svalt, þetta er einfaldlega virkilega ógeðslegur vani sem er auðvelt að venja sig af og væri það öllum til sóma.

spit.jpg


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband