Óþjóðakona hefur blogg

Jæja, þá er maður nú barasta orðin bloggari. Ekki átti ég nú von á því. Vonandi breytir það ekki neinu um það hver ég er. Ég er bara ég.

En ég hef þó fengið eitt að vita á undanförnum vikum sem ég vissi ekki áður, og var e.t.v. hvatinn að þessu blogguppátæki, og það er að ég telst víst utan þjóðar. Og þá er það vonandi á hreinu að á þessu bloggi tala ég ekki fyrir þjóðina. Ég er óþjóðakona.

En í mér býr rödd.....

Það er orðið nokkuð um liðið síðan ég stóð í kuldagalla á Austurvelli og reyndi að finna stuðning með óþjóð minni. Þarna hafði ég komið nokkra laugardaga í röð ásamt óþjóðafólki úr öllum lögum samfélagsins og úr öllum stjórnmálaflokkum. Þarna voru jafnvel flokkleysingjar eins og ég. Og enn lifir í minninu magnaður borgarafundur í Háskólabíói, sem í mínum huga markaði tímamót í íslensku samfélagi. Í salnum var fullt af óþjóðafólki eins og mér, líkt og á Austurvelli, en fulltrúar þjóðarinnar sátu fyrir svörum á palli. Ekki veit ég hvað fulltrúar þjóðarinnar voru að hugsa, en í mínum huga blunduðu blendnar tillfinningar.

En þó ég sé ekki þjóðin, þá varðar mig um þjóðina. Mér þykir hún mikils virði. Mér finnst framtíð hennar varða mig.

En í dag er ég þreytt, og ég held að óþjóðin sé það líka, flest okkar eftir mikla og langvarandi vinnu til þess ætlaða að afla tekna til að greiða niður skuldir og eiga fyrir hinu daglega lífi. Fólk sem vinnur svona mikið hefur ekki mikið þrek afgangs til að standa úti í kulda og frosti, og þó það bíti þegjandi á jaxlinn svona dags daglega, þá ber það helst ekki þögn sína á torg í táraborg. Óþjóðin er þreytt og þar á ofan á hún erfitt með að finna út hvað hún getur gert sem einhverju breytir.

En óþjóðin veit reyndar vel hvað það er sem hún vill ekki, og hefur nú reynt að segja það upphátt nokkrum sinnum. En það er ekki hlustað á hana. Ekkert frekar en á þögn hennar.

Meðal okkar hafa búið menn sem láta sig ekki óþjóðina varða. Þeir láta sig heldur ekki þjóðina varða. Þetta eru menn sem hafa hugsað mikið UM SIG. Þeir halda því fram að sú staðreynd að þeir hafi hugsað svona vel um sig hafi verið afskaplega gott fyrir alla hina líka. Gott fyrir þjóðina. Samt voru þeir ekkert að hugsa um þjóðina. Þeim fannst þjóðin minna virði en eigið virði. Þeir vildu ekki einu sinnni gjalda þjóðinni sanngjarnan skatt af eigum sínum og virði og fluttu sig því frá þjóðinni.  Þeir töldu sig utan þjóðar, innanlands sem utanlands, alltaf í útlöndum, aflandsmenn á aflandssvæðum. Samtímis græddu þeir mikið á litlu þjóðinni sinni sem sífellt jók eigið virði þeirra. En þá varðaði ekkert sérstaklega um þessa þjóð sem gerði þá mikils virði. Þeim fannst framtíð þjóðarinnar ekki varða sig.

Svona er bilið langt á milli mín og þeirra.......óþjóðakonunnar og aflandsmannanna.

 


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óþjóðalýðurinn hér á heimilinu fylgist spennt með blogginu

Edda Ýr (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 12:25

2 identicon

Áfram Harpa þú óþjóðarkona

ÓN (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband