4.9.2014 | 18:35
Sæbrautin er flott!
Get ekki annað en dáðst að skipulaginu við Sæbraut (göngu- og hjólastígarnir og listaverkin), sem er jafn frábærlega vel úr garði gert og byggingarskipulagið við sömu strandlengju er meistaralega illa úr garði gert. Þarna gengur fólk, hjólar, skokkar,..... frá morgni til kvölds er fjöldi fólks að nóta strandlengjunnar og listaverkanna. Þegar ég var krakki var alltaf gaman að fara þarna niður að sjó, en þá voru þarna skólprör, rottur, skeljar, krabbar og ýmislegt annað forvitnilegt sem svona strönd býr yfir. Áður hafði maður farið í gegnum alla bakgarða frá Skólvörðuholti (maður þekkti stystu leiðirnar), kíkt inn í portið hjá Völundi og stundum dirfst að fara inn í anddyri Útvarpshússins. Frystihúsið, þar sem Seðlabankinn er núna, geymdi allar sláturbirgðir móður minnar og þangað var maður sendur reglulega yfir veturinn að bera heim í búið frosinn blöðmör og lifrarpylsu, sem var svo í matinn nokkra daga á eftir með ýmsum framreiðsluaðferðum. Í minningunni var ljúft að fara niður að sjó, en líka minnist ég gjóstursins og brimsins sem kastaðist upp á götuna og á bíla og fólk. Aldrei minnist ég að hafa séð fólk ganga þarna í spássitúr.......Sæbrautin er gott dæmi um jákvæðar framfarir og gott borgarskipulag í Reykjavíkurborg og mætti horfa til þess þegar ný eða önnur hverfi eru skipulögð...Hver skyldi eiga heiðurinn af því?
Athugasemdir
En hvað það er jákvætt og hressandi að til sé fólk á mölinni fyrir sunnan sem þakkar fyrir og hrósar því sem vel er gert í skipulagi borgarinnar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.9.2014 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.