Þessi Jónas!...og óráðsíufólkið

Jónas Kristjánsson er áhugaverður bloggari sem oft er gaman að lesa. Hann predikar stutt gagnort blogg, en ég ætla að vera langorð, því ég hef haldið aftur af mér svo oft gagnvart skrifum hans sem mér mislíkar vegna þess að mér líkar annað svo vel sem hann segir og hef ekki þurft að hafa um það mörg orð.

Margoft hefur Jónas farið mikinn á bloggi sínu og dæmt hart hægri vinstri, en núna undanfarið hefur honum orðið einkar tíðrætt um "frekjur" og "óráðsíufólk". Hann er örugglega ekki að tala um sama óráðsíufólkið og Davíð Oddsson gerði, Davíð var nefnilega að tala um bankamenn og fjárglæframenn sem sett höfðu efnahag Íslands á hliðina með fífldjörfum fjármálafléttum og endurskoðunarfixum svo nam himinháum upphæðum, sem þrátt fyrir loforð Davíðs lentu á endanum á íslenskum skattgreiðendum. Jafnmiklar upphæðir lentu líka á íslenskum skattgreiðendum vegna "björgunaraðgerða" Davíðs sem Seðlabankastjóra í eftirmála hrunsins, svo kalla mætti hann óráðsíumann líka, eða hvað? Svo við, almenningur með breiðu bökin, erum að greiða ansi mikið fyrir óráðsíumenn af ýmsum toga. En Jónas er að tala um allt annað óráðsíufólk og þar sem margir hafa líklega verið orðnir forvitnir hvað hann meinti kom hann með skilgreiningu sína í dag.
"Óráðsíumaður er sá, sem kaupir sér 400 fermetra hús, þegar hann hefur ráð á 200 fermetra hæð. Og fær sér gengistryggt lán, því að hann hefur svo mikla trú á krónunni. Óráðsíumaður eyðir nefnilega peningum áður en hann aflar þeirra. Hann lendir alltaf í gjaldþroti, þegar til langs tíma er litið. Svo mynda slíkir óráðsíumenn hagsmunasamtök óráðsíumanna. Til að láta skuldir sínar falla á skattgreiðendur og lífeyrisþega. Þetta kalla ég ósiðlegt með öllu. Síðustu mánuði hefur óráðsíufólk tröllriðið samfélaginu með kröfum og taumlausri frekju."

Þabbarasvona!

Jónas bloggar líka um það í dag að samkvæmt Hagstofu íslands séu 10% heimila í vanskilum og telur vandamálið lítið, helmingur þessa fólks hefði verið í vandræðum án hruns! Jónas gleymir þó að geta þess að enn er þó talið að yfir 20.000 heimili eigi við greiðsluvanda að stríða. Það er stutt úr greiðsuvanda yfir í vanskil og spurning hvenær heimili rúllar yfir þá hárfínu línu sem þarna liggur á milli. Auðvitað reynir fólk í lengstu lög að standa í skilum, en það þarf lítið til að undirstaðan bresti þegar svo tæpt er orðið að fólk fleytir sér frá mánuði til mánaðar, notar allan sinn sparnað, tekur til og með út lífeyrisparnað sem safnað hefur verið saman á mörgum árum, allt það sem gera átti efri árin sæmileg er farið. Það má vera að Jónas sjálfur sé í svo góðum málum að hann skilji ekki alvöru þess að hanga á blábrúninni mánuð efir mánuð, og að hvorki hann sjálfur eða nokkur honum nákominn eða í kunningskap við sé í greiðsluvanda. Ég aftur á móti þekki marga, sérstaklega eru þeir sem búa einir og reka heimili á einum mánaðartekjum í vanda að mínu mati, en líka eldra fólk og öryrkjar með sínar smánarlegu bætur - en samkvæmt könnunum er mest talað um unga barnafólkið sem er í erfiðri stöðu og oft með skuldir umfram eignir. Trúlega er það líka þessi hópur sem tók 80-100% lán fyrir húsnæði sínu, annað hvort hjá bönkum eða Íbúðalánasjóði, því þau voru ekki í boði fyrir fyrri kynslóðir. Minni kynslóð var einfaldlega ekki mögulegt að eignast húsnæði örðuvísi en að eiga eitthvað upp í úborgun.

Það má kannski segja blákalt að skuldamál heimilanna séu einkamál hvers og eins skuldara, en skuldamál heimilanna eru ekkert einkamál ef þau stefna í að hafa örlagarík áhrif á efnahag alls þjóðfélagsins, með tilheyrandi félagslegum úrbótum, hækkunum vísitölu og þar af leiðandi enn þyngri byrðum á þá sem enn standa í lappirnar, hafa vinnu og þurfa ekki að þiggja aðstoð.

Í heimild frá apríl segir:" Í mati Seðlabanka Íslands á skuldastöðu heimilanna kemur fram að ríflega fimmta hvert heimili hér á landi eða tæp 24.000 heimili eru líkleg til þess að vera í greiðsluvanda þrátt fyrir þær almennu aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í til þess að létta á greiðslubyrði heimilanna. Samkvæmt mati bankans eru fjölskyldur með börn helst í vanda. Þriðja hvert einstæða foreldri er líklegt til þess að vera í skuldavanda og 27% hjóna með börn. Áberandi er hversu stór hluti ungs barnafólks sem tók íbúðalán í uppsveiflunni er í vanda, en Seðlabankinn áætlar tæp 40% heimila í þessum hópi séu líkleg til þess að eiga í greiðsluvanda, sem eru um 3.400 heimili. Af þeim ríflega 37.000 heimilum sem eru með gengistryggð lán eru um 13.000 heimili í greiðsluvanda, eða um 36% hópsins. Tæplega 65.000 heimili eru eingöngu með lán í íslenskum krónum og af þeim eru um 10.500 talin í vanda eða 16%. Athygli vekur að þau tæplega 24.000 heimili sem eru í greiðsluvanda eru með 42% af heildar bílaskuldum landsmanna og telur Seðlabankinn að vísbendingar séu um að bílaskuldir eigi stóran þátt í vanda þessara heimila. Að mati Seðlabankans eru nú tæp 40% heimila, eða ríflega 28.000 heimili, sem skulda meira en þau eiga í húsnæði sínu. Þetta hlutfall var um 11% fyrir bankahrunið, í upphafi árs 2008 en jókst í 20% haustið 2008. "

Það sem m.a.má lesa út úr þessu er að um helmingur heimila í greiðsluvanda er með gengistryggð lán og hinn helmingurinn með lán í íslenskum krónum. Það er nokkuð augljóst að gengistryggðu lánin hafa stökkbreyst, en "venjuleg" íslensk lán hjá t.d. Íbúðalánasjóði hafa líka hækkað óguðlega, eða um 30% á 2 árum. 18 milljón króna hámarkslánið sem hægt var að fá þar fyrir hrun stendur í ca 24 milljónum í dag þrátt fyrir allar afborgaranir, eða 6 milljón króna hækkun. Afborgun fór úr 80 þúsund krónum í 114 þúsund á mánuði. Sumir skulda auðvitað miklu meira, en þetta er bara almennt dæmi, ekkert ofmat eða vanmat þegar lán var tekið, allt innan viðráðanlegra og eðlilegra marka, ekkert bruðl, enginn lúxusvilla, enginn ofurjeppi, engin taumlaus frekja, eins og Jóans vill kalla það, bara venjuleg tiltölulega ódýr íbúð á "venjulegu láni". Þetta, auk almennra hækkana á nauðsynjum, orku, fasteignagjöldum og fleiru, kemur við pyngju fólks. Þetta er auðvitað ekki glóra og ekkert "frekjulegt" við að fólki ofbjóði það að þurfa að bæta við útgjöldum á þessum skala sem við erum að upplifa, ég tala nú ekki um fólk á þessum frægu meðallaunum á Íslandi, eða ca 250.000 kr brúttó, sem gerir um 180.000 útborgað. Það má vera að einkareikningsdæmi Jónasar líti allt öðruvísi út, hann eigi eignir skuldlausar og skuldi engum neitt, það má vera að hann Jónas sé af hinni svokölluð "frekjukynslóð" sem fékk eignir sínar á silfurfati fyrir tíma verðtryggingar þegar verðbólgan át upp lánin og fólk fékk þau á "léttgreiðslum" að lokum. En gífurlega stór hluti íslenskra heimila er í fyrrgreindu stöðunni, er í vanda staddur, nær varla endum saman, og í dag er mest áríðandi að koma í veg fyrir að greiðsluvandi þróist yfir í vanskil. Ef svo færi erum við að tala um skuldavanda helmings allra heimila í landinu!
"Sumir kikna í hnjáliðunum, þegar þeir sjá frekjurnar. Við hin erum frjáls." segir Jónas. Já, hann á gott, það er ekkert gaman að lenda í fátæktargildru og skuldafangelsi, sá sem það gerir er ekki frjáls, ekki einu sinni til að yfirgefa landið og hefja nýtt líf, hann er kominn í átthagafjötra skuldanna og getur sig hvergi hreyft, og skuldirnar erfast til barnanna, nema frumvarp Lilju Mósesdóttur nái fram að ganga.

Sannleikspáfar í anda Jónasar eru fleiri, einn heitir Pétur Blöndal og fer oft mikinn í að ráðleggja öðrum í fjármálum. Eitt ráð gaf hann í blaðaviðtali fyrir ekki svo löngu, en það var að skulda ekki of mikið, helst bara íbúðalán, ekki líka námslán og bílalán, ekki kaupa nýjan bíl ef maður hefði ekki efni á því o.s.fr.v. Öll hans góðu ráð úr háæsti hins velmegandi voru svo sem ágæt, og í mínu tilviki er ég ráðum Péturs gott fordæmi, ek ég um á ágætum eldri bíl, er búin að greiða námslánin af lágu meðaltekjunum og skulda "bara" íbúðalánið, sem er þó komið úr böndum vegna hrunverja og ömurlegrar efnahagsstjórnar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar.

Það sem bæði Pétur og Jónas virðast ekki skilja er að ráðin sem eru í boði henta ekki endilega öllum, eru sniðin að einum hópi fólks og henta t.d. alls ekki þeim sem vinna sem einyrkjar. Þrátt fyrir áratuga greiðslur tryggingargjalds eru réttindi einyrkja sama sem engin ef leita þyrfti bóta, en skv. Jónasi er þetta þannig: "Fólk vill frekar vera á bótum en að vinna. Atvinnuleysi og örorka eru orðin að lífsstíl."

Vandlæting Jónasar á atvinnulausu fólki og öryrkjum misbýður mér, ég þekki fólk í þessari stöðu og ég á ekkert nema samúð því til handa. Og álit hans á "óraðsíufólki" og "frekjum" eins og mér, sem tel að ekki hafi verið nóg að gert fyrir almenning í vanda með heimili sín, og tek þar af leiðandi undir með mörgu í málflutningi Hagsmunasamtaka heimilanna, þessa vandlætingu tek ég nærri mér þar sem ég hef ekki gert neitt af því sem hann sakar "trylltu frekjurnar" um, aðeins leyft mér þann munað að vilja eiga eigið húsnæði, lítið og nett, og 14 ára gamlan bíl. Þvílík frekja!

Það má vera að nýríkar eða moldríkar frekjur séu félagar í þessum Hagsmunasamtökum, en það eru örugglega líka margir félagar sem eiga fullan rétt á að sjónarmiðin sem þessi samtök hafa haldið á lofti heyrist og er reyndar loks farið að hlusta á, þar á meðal hljóma nefnilega líka raddir þeirra sem vilja borga skuldir sínar, vilja klára sín mál með fullum sóma. Lækkun vaxta væri t.d. ein leið, en fleiri en eina leið þarf að skoða og fyrir einarða afstöðu þessara samtaka er loks farið að skoða þær og reikna þær út. Ég er þeim þakklát.

Óþjóðakonan, óráðsíukonan og frekjan ég hef eiginlega fengið nóg af Jónasi og ætla ekki að kjósa hann á stjórnlagaþing, ég held nefnilega að hann sé blindur á öðru auganu á þjóðfélagið sem hann býr í og skilji ekki aðstöðu ákveðins hluta þjóðfélagsþegna, skilur ekki stöðu um 20.000 heimila og þeirra "freku" fjölskyldna sem þar búa. Skilur ekki aðstöðu atvinnulausra og öryrkja eða eldri borgara sem þurfa að lifa af bótum, sem eru svo lágar að fólkið þarf að sníkja mat og kýs flest að láta lítið fyrir sér fara og heldur sig heima frekar en hrópa á torgum eða bloggsíðum. Ég vil taka málstað þeirra gegn þeim sem lítillækkar það í erfiðri stöðu og kallar hlutskipti þeirra "lífsstíl". Þess vegna mun ég lesa Jónas áfram.............


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband