19.4.2009 | 20:45
Í kjörklefanum ertu frjáls........
Það er ekki í fyrsta sinn sem þessi sannindi eru sögð, en gott að minna á mikilvægi þeirra. Í kjörklefanum er hægt að henda af sér helsi áralangrar meðvirkni, úr sér gengins trygglyndis og taka skref í átt að einhverju nýju........jafnvel skila auðu, sem er yfirlýsing í sjálfu sér, þótt atkvæðið fari þannig fyrir lítið.
Hvað skal kjósa?
Vandamál kjósandans að velja eftir viku er þó flóknara en oft áður, þar sem margir flokkanna eru margklofnir í afstöðu sinni til helstu málaflokka og erfitt að sjá hvað verður að kosningum loknum, þar sem þeir tala í þessum málum tungum tveim, allt eftir því hvaða fulltrúi þeirra er með orðið. Þau mál sem er næsta ómögulegt að sjá hvernig verða til lykta leidd innan flokkanna þegar á hólminn er komið eru orkumálin/umhverfismálin (utan Vinstri Græn) - fiskveiðimálin/kvótaúthlutunin (utan Frjálslyndir) - ESBmálin (utan Samfylkingin) og sjálfsagt eru þau fleiri málefnin sem flokkarnir steyta á og skoðanir flokksmanna fljóta sitthvoru megin við.
Orkumálin -
Uppbygging fleiri álvera er á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og því sjónarmiði fylgja auðvitað fleiri virkjanir, möguleikarnir eru m.a. í neðri hluta Þjórsár, Bitruhálsi, Þeistareykjum, Gjástykki, Skjálfandafljóti og víðar, jafnvel í friðlandi að Fjallabaki. Þó nokkrir umhverfisverndarsinnar eru til í röðum Sjálfstæðismanna og eins þeir sem blöskrar einhæfnin í atvinnuuppbyggingunni og áníðslan á landinu - hverjar verða raddirnar sem ber hæst í flokknum að kosningum liðnum?. Samfylkingin talar um græna atvinnuuppbyggingu á sama tíma og hafist er handa við álver í Helguvík, þar sem iðnaðarráðherrann Össur fetar í verki sömu slóð og Sjálfstæðismenn, en fyrrverandi umhverfisráðherra þeirra Þórunn Sveinbjarnardóttir, er greinilega ekki jafn hrifin. Nokkuð ljóst er að þingmenn og flokksmenn Samfylkingar eru mjög klofnir í þessu máli og hvaða sjónarmið verður ofan á að kosningum loknum er erfitt um að spá. Framsóknarflokkurinn, með fyrrverandi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttur í fararbroddi, er hlynntur álverauppbyggingunni, svo að maður tali nú ekki um fyrrverandi þingmann og ráðherra þeirra Valgerði Sverrisdóttur. Innan Framsóknarflokksins eru þó til nokkrar hjáróma raddir sem biðja náttúrunni griða undan þenslunni í þungaiðnaði og umhverfiságangi..........hvernig nýi formaðurinn Sigmundur Davíð er stemmdur í þessum málum er frekar óljóst. Ekki er hægt að lesa annað úr stefnuyfirlýsingu Frjálslyndra en að þeir vilji vernda náttúruna og náttúruauðlindir, en erfitt að sjá hvað þeir meina um stóriðjuna í því samhengi. Vinstri Græn eru yfirlýstur umhverfisverndarflokkur, grænn flokkur, og vilja skoða aðra atvinnuuppbyggingu en álver og óhóflega virkjanagerð - hreinar línur þar. Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin eru nokkuð almennar í yfirlýsingum sínum um þetta málefni, enda stefna þessar hreyfingar báðar fyrst og fremst á umbætur í lýðræðismálefnum þjóðarinnar, hvor með sínum hætti.
Sjávarútvegsmálin -
Einn flokkur var stofnaður beinlínis vegna þessa málaflokks og hefur um áraraðir barist gegn kvótaúthlutuninni eins og hún fór fram á sínum tíma, vill innkalla veiðiheimildir og stokka spilin upp á nýtt með auknum veiðiheimildum - hreinar línur þar. VG er nokkuð á sömu nótum nema kannski ekki með auknar veiðiheimildir, þó má minna á að Steingrímur J. ljáði núverandi kerfi atkvæði sitt á Alþingi forðum daga. Hvort hann er á annarri skoðun í dag og hvernig sjónarmið skiptast í VG er næstum ómögulegt að segja til um. Sjálfstæðismenn taka innköllun og uppstokkun veiðiheimilda ekki í mál, telja núverandi kerfi gott og gilt (Geir Haarde kaus þó gegn því á sínum tíma) - en greinilega kom fram á landsfundi þeirra að ýmsir flokksmenn eru á öðru máli en forystan og samþykkt landsfundarins, svo hvaða raddir verða ofan á að kosningum loknum????(Má líka minna á að þingmenn XD gengu í raun gegn samþykktum landsfundarins í auðlindamálinu á þinginu núna undir lokin). Samfylkingin vill endurskoða fiskveiðistefnuna, vill að auðlindin verði þjóðareign en ekki einkaeign og má því reikna með að stefnt skuli að uppstokkun kvótakerfisins verði þeir við stjórnvölinn. Mér finnst virkilega erfitt að átta mig á hvað Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin vilja í þessum málum.
ESB -
Samfylkingin er ein um að lýsa því staðfastlega yfir að þar verði okkur best borgið og vilja hefja aðildarviðræður hið fyrsta. Sjálfstæðismenn eru þverklofnir, sumir eru á sömu skoðun og Samfylking en aðrir fara hægar í sakirnar, segjast ekki setja sig á móti því að kanna möguleika á aðild en enn aðrir Sjálfstæðismenn taka ekki einu sinni í mál að hefja viðræður. Þeir forystumenn flokksins sem töluðu frjálslega um þessi mál á landsfundi hafa nú dregið í land með yfirlýsingar til að styggja ekki flokkssamheldnina. Vinstri Græn hafa lýst andstöðu við inngöngu í ESB en gefa færi á því að fara í viðræður til að kanna hvað er í boði. Frjálslyndir eru ekki hlynntir ESB aðild vegna fiskveiðistjórnunarinnar. (Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin hafa ekki á stefnuskrá sinni neitt er varðar ESB og hafa frekar lítið tjáð sig um það mál.)
Eins og sjá má er valið ekki auðvelt - flokkar sem eru svo gegnumskornir í sjónarmiðum flokksmanna í þessum mikilvægu málaflokkum geta farið í báðar áttir eftir kosningar, allt eftir því hvaða einstaklingur innan hans kemst til áhrifa. Það eitt og sér gerir kröfuna um persónukjör ágenga, hvort sem er innan flokka eða milli flokka. Persónukjör er ein af hinum mikilvægu lýðræðisumbótum sem Borgarahreyfingin berst fyrir og maður gæti stutt ef ekki væru að velkjast í huga manns mikilvægi málanna sem að ofan eru talin og Borgarahreyfingin er ekki nógu afdráttarlaus gagnvart. Lýðræðishreyfingin er svo með mann innanborðs sem segist berjast fyrir lýðræði en er sjálfur hið mesta skaðræði fyrir lýðræðið.
Kínverskt spakmæli segir: Ef orð og gjörð fara ekki saman, segja gjörðirnar sannleikann.
Kosningar kosta 200 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.