Fyrst í heiminum - Græðum á því að vera til fyrirmyndar

Þröstur Jónsson ritar áhugaverða grein í Austurpóstinn, sjá hér. Hann er að skrifa um hugmyndir um olíuleit og vinnslu Íslendinga á Drekasvæðinu og telur okkur ekki hafa hugsað þær hugmyndir til enda. Menn hafi gleymt að hugleiða hvað sé að gerast á móður jörð, hlutir sem varða okkur öll, allt mannkynið. Loftslagsbreytingar bendi til gífurlegs vanda í umhverfismálum jarðarinnar, sem geti verið orðnar óviðráðanlegar innan fárra áratuga, merkin sjást víða. Þröstur minnir okkur á grátandi fulltrúa Filippseyja á þingi Sameinuðu þjóðanna eftir að öflugur fellibylur gekk þar yfir, fellibylirnar þar verða bara öflugri og öflugri og tíðari og tíðari vegna inngripa og tilrauna til stýringar í lofthjúp jarðar.

Hinn þekkti sjónvarpsmaður og náttúruskoðari David Attenboroug hefur viðrað áhyggjur sínar líka. Hinn þekkti kanadíski náttúruvísindamaður David Suzuki hefur beitt sér í umhverfismálum, varað við eyðingu skóglendis, og talað fyrir náttúruvernd og hugsun til framtíðar. Hann hélt fyrirlestur hér á landi fyrir nokkrum árum og talaði um að kannski snerist mesta ógn framtíðarinnar um það hvort við gætum yfirhöfuð andað að okkur hreinu lofti, hvort næstu kynslóðir gætu andað að sér yfirhöfuð. Nýleg mynd frá Kína sem sýnir menn horfa á sólina á risavöxnum tölvuskjám því ekkert sést til sólar vegna mengunar. Þetta er eins og úr vísindaskáldsögu, grátlegt þó.

Og ekki megum við gleyma nágrönnum okkar Grænlendingum, hvaða áhrif hefur hlýnandi loftslag á lifnaðarhætti þeirra, og hvaða hætta gæti skapast vegna olíuvinnslu í norður Íshafinu fyrir þá, fyrir fiskimiðin þar sem sótt er í af mörgum norðurslóða-þjóðum? Hvar verða olíuhreinsunarstöðvarnar? Hvað verður um þeirra úrgang? Ætla Íslendingar að taka að sér förgun hans? Hvar?

Af hverju einbeita Íslendingar sér ekki að umhverfisvænni orkugjöfum, rafbílum o.s.frv. Hvað ef við yrðum fyrsta landið í heiminum til að rafvæða bílaflotann okkar? Settum okkur það markmið að allir aki um á rafbílum innan næstu 20 ára? Þvílík fyrimynd fyrir heiminn! Næg er raforkan, gífurlegur gjaldeyrir myndi sparast því ekki þyrfti að kaupa olíu og bensín til landsins. Einhver sagði einhverju sinni „Steinöldin hætti ekki vegna þess að það væru ekki lengur til steinar“ - Nei, mennirnir uppgötvuðu einfaldlega betri verkfæri..........Við erum komin á endastöð í umhverfismálum, það þarf að finna aðrar lausnir......verum í forystu þar! Verum best þar! Þar liggur gróðinn......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband