1.9.2013 | 14:50
Er þversögn í mannréttindasáttmála?
Þetta hefur verið að velkjast fyrir mér vegna byggingar nýrrar mosku í Reykjavík:
Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmála, t.d. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og margra annarra yfirlýsinga, sáttmála, laga og reglna sem gilda hér á landi, er óleyfilegt að mismuna fólki á grundvelli trúar og kyns, svo dæmi sé tekið.
Eða eins og stendur í mannréttindasáttmála Evrópusambandsins sem við höfum undirgengist og gilda sem lög hér á landi:
1. Hvers kyns mismunun er bönnuð, s.s. á grundvelli kynferðis, kynþáttar, litarháttar,
þjóðernis eða félagslegs uppruna, erfðaeinkenna, tungu, trúarbragða eða sannfæringar,
stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þess að tilheyra þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar.
Þversögnin er sú að ekki má mismuna vegna trúar, en innan ákveðinna trúarbragða er konum mismunað vegna kyns síns. Þær fá t.d. ekki að vera til jafns við karlmennina við bænagjörð eða þeim samhliða, jafnvel hliðra prestar sumra slíkra söfnuða sér við að taka í hönd kvenna, því þær séu óhreinar eða óæðri.
Einu sinni heyrði ég þá skýringu, hvort sem hún er rétt eða röng, að konur og karlar slíkra söfnuða gætu ekki ákallað guð sinn saman því það væri ekki heppilegt að karlmenn horfðu á afturenda kvenna þegar þær halla sé fram við bænagjörðina. Sama hlýtur auðvitað að gilda um konurnar, nema þær eigi eðlislægt að hafa svo miklu meiri sjálfsstjórn en karlar. Ef þetta er sönn skýring, þá er auðvelt að leysa vandamálið með lágu skilrúmi milli raðanna sem eru til bæna, svo enginn þurfi að sjá afturenda hins, og þá gætu kynin svo auðveldlega hallað sér fram og ákallað sinn guð án þess að hafa áhyggjur af þessu.
Það er ekki langt síðan konur og karlar sátu aðskilin í kristnum kirkjum, konur norðanmegin og karlar sunnan. Gárungar sögðu að það væri vegna þess að kaldara væri norðanmegin og því gætu konurnar verið þar og norpað. Eins áttu konur að hylja hár sitt við guðsþjónustu en karlar taka ofan. Allar slíkar kreddur eru löngu horfnar úr íslenskum kristnum kirkjum, einna helst við brúðkaup að fólk skipti sér eftir kyni í kirkjunni. Og nú mega konur taka til máls í kirkju, vera djáknar, prestar og biskupar. Bókstafurinn, eða Biblían, segir svo margt um konur sem löngu hefur verið fellt úr gildi í praksís í nútímasamfélagi, sem betur fer. Kóraninn segir líka margt um konur sem mætti endurskoða, en mér þykja kreddurnar merkilega lífseigari þar.
Ég myndi taka hattinn ofan fyrir þeim moskusöfnuði á Íslandi sem færi ofan í saumana á þessum kreddum, samhæfði bænahald og viðhorf við mannréttindasáttmála og gildandi lög í samfélaginu, og leyfði t.d. konum og körlum að biðjast fyrir samhliða og á jafnréttisgrundvelli. Annars væri verið að brjóta lög og reglur og mannréttindasáttmála, og væri forvitnilegt ef á þetta væri látið reyna fyrir dómstólum, því landslög hljóta að vera ofar trúarkreddum. Ef halda á til streitu þessum siðum og venjum í íslenskum moskum hvað varðar kynin, þá er um klárt lögbrot að ræða og það viljum við nú helst ekki að viðgangist, eða hvað?
Ti að fyrirbyggja allan misskilning er ég ekki á móti byggingu nýrrar mosku í Reykjavík, hér í næsta nágrenni við mig, en tel að alveg eins og kristna kirkjan hefur þurft að endurskoða ýmislegt í sínu starfi í gegnum árin þá þurfi þessir islömsku söfnuðir líka að endurskoða sín mál.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.