23.8.2013 | 13:07
Hjólabylting án statíva?
Í grein í Fréttablaðinu í dag fjallar Hjálmar Sveinsson um hjólabyltinguna í Reykjavík. Segir þar að fjöldi hjólreiðamanna í borginni hafi þrefaldast á fjórum árum. Hann nefnir að hluti af þessu sé tíska og hugarfarsbreyting, en þakkar það líka metnaðarfullri hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar, sem hafi greitt götu hjólafólks með lagningu nýrra stíga víða í borginni. En einu hef ég tekið eftir: Hjólreiðafólkið getur hjólað víða en þegar kemur að því að leggja hjólinu sínu eru fá statív, hvorki við verslanir, stofnanir eða fyrirtæki. Ekki einu sinni við borgarstofnanir. Þessi mynd hér sýnir ástandið í einni aðalgötunni í miðbænum, Austurstræti, fólk festir hjólin sín við næsta staur og eins og sjá má er hver staur nýttur og svona er þetta á hverjum degi, því ekkert, ég segi og skrifa, ekkert hjólastatív er að finna í Austurstræti. Sömu sögu er að segja á Skólavörðustíg og Laugavegi, þeim götum þar sem helsta iða mannlífsins líður um, á hjóli eða gangandi. Þarna hefur gerst hið dæmigerða íslenska, menn hafa hugsjónir og skipuleggja og skipuleggja, en gleyma alltaf einhverju í ferlinu, oftast aftarlega í ferlinu, hugsa hlutina ekki til enda. Hér er það við lokamark hjólaferðarinnar að afar mikilvægur hlutur gleymist.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.