30.5.2013 | 18:33
Vondir arkitektar eða góðir
Ég geng um bæinn með erlenda ferðamenn á hverju sumri. Hópurinn sem ég er með núna er danskur. Þau horfa mikið á arkitektúrinn. "Hvernig stendur á því að hér eru annaðhvort afar falleg gömul hús eða ferlega ljót ný hús," spurði einn.
Danir hafa kosið Danmarks smukkeste landsby og Danmarks smukkeste köbstad síðustu ár. Það er undantekningarlaust að þeir bæir sem lenda í efstu sætunum eru þeir sem eiga best varðveittu gömlu húsin. Sama heyrir maður frá erlendum ferðamönnum sem koma til Reykjavíkur, það sem þeim finnst fallegast við borgina eru gömlu húsin.
Þegar ég sagði hópnum mínum frá hugmyndum um risahótel við Austurvöll göptu þau af undrun. Þegar ég sýndi þeim hversu langt nýjar byggingar eiga að ná inn á Ingólfstorg, hristu þau bara hausinn og spurðu hvort við ættum svona vonda arkitekta og hvort borgaryfirvöld ætluðu virkilega að leyfa þetta. Ég svaraði þeim að íslenskir arkitektar væru flestir menntaðir í Danmörku, sem þau tóku sem djók, því það má örugglega staðhæfa að allflestar nýbyggingar í Kaupmannahöfn hafa fagurfræði að leiðarljósi og hafa tekið tillit til þess sem fyrir er, ofbjóða ekki umhverfi sínu, hvorki í umfangi eða öðru, og oft eru haldnir margir samráðsfundir með íbúum hverfa áður en ráðist er í framkvæmdir.
Þetta risahótel við Austurvöll er aftur á móti í engu samræmi við það sem fyrir er, eyðileggur menningarverðmæti og minnkar lífsgæði þeirra sem búa í miðbænum og þeirra sem koma þangað til að njóta miðbæjarins. Samkvæmt þessum hugmyndum sem nú eru uppi á borðinu verða mörg hundruð túrista þarna á sama miðbæjarblettinum, með umferðaröngþveiti á alla kanta, því aðföng matar, brottflutningur sorps og annað sem fylgir stóru hóteli verður yfirþyrmandi í þeim þröngu götum sem liggja þarna að, götum sem nú þegar eru allt of þröngar fyrir hótelin sem fyrir eru. Á hverjum morgni má sjá þarna í kring fjölda rúta, túttujeppa og flutningabíla sem flytja matvöru á matsölustaðina í kring. Á Austurvölls og Igólfstorgsreitnum er verið að skipulegga tótal kaos með fullu samþykki borgarfulltrúa, fulltrúa okkar, borgaranna í borginni, sem sækjumst eftir einhverju öðru en ofvöxnu risahóteli í hjarta borgarinnar. Ég bið um meira Grjótaþorp og minna af afspyrnuleiðindum í steinsteypu.
Fjöldi fólks á fundi um skipulag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.