klám=valdatæki?

Það þarf ekki að lesa sér lengi til um kynferðislegt ofbeldi til að sjá að það snýst ekki um kynlíf heldur vald yfir annarri manneskju. Oftast framið af einstaklingi sem býr yfir duldum eða óduldum efasemdum um eigið ágæti, styrk eða virðingu. Notar hann þá ofbeldið til að efla hugmyndir sínar um eigið vald eða yfirburði yfir öðru fólki. Það skiptir ofbeldismanninn þá litlu hvort sá sem hann beitir ofbeldi er aðeins barn (eða jafnvel dýr) sem ekki getur barist á móti líkamlegum (eða andlegum) yfirburðum hans. Hluti fullnægjunnar sem ofbeldismaðurinn finnur til við ofbeldisverkið er ekki bara kynferðisleg, heldur líka fullnæging hugmynda um eigin yfirburði.

Að mínu mati er hluti skýringarinnar á klámvæðingu síðustu áratuga angi af þessari valdastaðfestingu aðila sem finna að vald þeirra þverr í samfélagi sem stefnir hægt og bítandi að jafnræði kynjanna. Aðila sem eru ekki sáttir við þennan tilflutning á valdi, eru ekki sáttir við að kyn þeirra veitir þeim ekki lengur ákveðin forréttindi.

Þetta undanskilur auðvitað strax stóran hluta karlmanna sem eru bara sáttir við jafnréttissjónarmiðin og vinna að þeim með konum. Karla með heilbrigt sjálfstraust og sjálfsmynd. En hin ómeðvitaða innræting er þeim jafn varasöm og hverjum öðrum, körlum eða konum. Það er hún sem við þurfum að koma auga á, í myndmáli, orðræðu, hegðun, viðhorfi - reyna að skilja hana og skilgreina.

En hluti karlmanna er ekki sáttur við jafnréttissjónarmiðin, vinna gegn konum og beita þær valdi. Sérstaklega í löndum þar sem konur hafa ekki notið mikilla réttinda fram að þessu en eru að sækja í sig veðrið, þar er misnotkun á konum, mansal og ofbeldi gagnvart börnum oft geigvænlegra en víðast annars staðar.

En einnig í hinum svokölluðu vestrænu ríkjum finnst manni vera auking á ofbeldi gagnvart konum og börnum, nema að fréttir gefi ýkta mynd. Nefna má sem dæmi að nauðgunum á stúlkum í Oslóborg hefur fjölgað gífurlega á síðustu árum. Þau eru oftast framin af innflytjendum eða sonum innflytjenda (lægst setta þjóðfélagshópnum má áætla), oft atvinnulausir ungir menn með stutta skólagöngu, á bótum, í flóttamannaferli eða einhverju slíku. Sem sagt, ungir menn sem finna til valdaleysis og óvirðingar samfélagsins.

En þetta er ekki algilt og ofbeldismenn geta komið úr öllum lögum þjóðfélagsins, verið vel menntaðir, fjölskyldumenn og fyrirmyndir ungmenna, eins og nýlegt dæmi um Amagermanden illræmda í Danmörku sannar.

En hvað með klámið? Klámið er ein myndbirting valds karla yfir konum. Það sýnir konuna oftast í hlutverki hins undirgefna aðila (dómínan með svipuna er ekki algeng mynd þó hún þekkist). En það er áhyggjuefni að klámefnið sem framleitt er verður sífellt ofbeldisfyllra, t.d. er hægt að sjá nokkuð mikið af efni þar sem fleiri en einn karlmaður beitir unga konu ofbeldi og hópnauðgun, oft er hún sýnd bundin og mikið um afar gróft orðbragð (verbal abuse). Hún er ekki þátttakandi í því að njóta, hún hefur ekkert að segja um það hvernig kynlífið fer fram, hún er kvalin og það heyrist, hún er notuð sem hlutur, ómerkilegt handargagn. Þetta eru eiginlegar kennslustundir í hópnauðgun.

Ungar konur eru farnar að tala um að ungir menn nálgist þær á skemmtistöðum eins og þeir hafa séð gert í klámyndböndum, og að í kynlífinu hafi þeir tileinkað sér þá hegðun sem þar sést. Nauðganir á skemmtistöðum og útihátíðum þekkjum við frá fréttum hér heima, litið á þær sem hluta af skemmtuninni hjá gerandanum virðist manni, og því miður lítið áhyggjuefni skemmtistaða- og hátíðarhaldara, allavega fáránlega lítið gert til úrbóta.

Ungar konur hafa líka farið að tileinka sér hluti úr kláminu eins og t.d. súludans og eggjandi hreyfingar (hugsanlega til að þóknast karlmönnum ). Þær bjóða sig fram með táknmáli og líkamstjáningu klámsins, en líta e.t.v. á það sem einhvers konar grín, en ættu kannski að kafa aðeins dýpra, t.d. með því að kynna sér fyrirlestra Jean Kilbourne, sem hefur eytt mörgum árum í að fræða og upplýsa um myndmálið í auglýsingum, t.d. myndmál klámsins. Auglýsingar beita myndmáli sem mótar okkur ómeðvitað í daglegu lífi og fær okkur jafnvel til að hegða okkur á ákveðinn hátt eða gera óeðlilegar kröfur til útlits okkar með tilheyrandi lýtaaðgerðum, eins og sjá má dæmi um í fyrirlestraröð Jean Kilbourne sem hún kallar "Killing us softly".

Klámið byggir á stöðluðum líkamshreyfingum og andlitssvipum, það verður allt fljótt auðþekkjanlegt. En þegar það er fléttað inn í daglegt líf með auglýsingum, tónlistarmyndböndum og slíku, fara einhver mörk að riðlast. Það þarf að kenna okkur að lesa í þetta til að skilja hvað er verið að segja við okkur. Og hvað við segjum við aðra ef við tileinkum okkur þetta líkamsmál.

Með því að hlutgera konur, geta þeir karlmenn sem hafa ekki nægilega trú á styrk sínum, ef til vill fundið til meiri máttar, en það er ekki varanleg tilfinning og þarf endurstyrkingu, svo hlutgervingin og niðrandi viðhorfið er endurtekið aftur og aftur, oft í hópi sem samþykkir þetta viðhorf.

Sá sem er háður klámi er líka háður þessari smættun á annarri manneskju og réttlætir hana með því að konur (og börn) vilji þetta jafnvel sjálfar. Konur geta líka verið ómeðvitaðar um eigin sjálfsvirðingu, bæla niður eða upphefja tilfinningar sínar gagnvart því sem þær þó skynja að veitir þeim ekki virðingu, hvorki þeirra sjálfra, karlanna sem kaupa og skoða, eða samfélagsins sem heildar. Ef raunveruleg virðing væri til staðar væri klám og vændi ekki feluleikur og í skúmaskotum, það væru skólar sem kenndu "fagið" foreldrar segðu frá því með stolti að dóttir þeirra, eiginkona eða systir stundaði það o.s.frv.

Klám er valdatæki þess sem finnur til minni máttar, bæði sá sem neytir og veitir, valdatæki til að finna til meiri máttar um stund. Það er því blekking. Blekking að valdið eða virðingin aukist, blekking sem þó sumir hafa valið að trúa á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo órökrétt að maður roðnar.

Svefnnauðgarar og þeir sem nauðga á skemmtistöðum eða útihátíðum eru mjög líklega ekki að hafa frekari áhyggjur en hver annar af einhverri valdatilfærslu. Enn þá heimskulegra er að halda því fram að karlar séu í nokkrum mæli að svekkja sig á auknu jafnrétti. Þó að margir þeirra stökkvi á nef sér í kynjaumræðunni, enda hafa kvenréttindakonur engann einkarétt á því.

Hvað voru þá nauðgararnir í gamla daga að gera með því að nauðga?

afr (IP-tala skráð) 8.2.2012 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband