Hvalveiðar Bandaríkjamanna

Oft þegar hvalveiðar ber á góma, og sérstaklega andúð Bandaríkjamanna og baráttu gegn  hvalveiðum Íslendinga, þá er oft nefnt að þeir sjálfir veiði þúsundir hvala á ári hverju. Þetta er þó sjaldnast rökstutt með tölum eða öðrum gögnum, svo sumir telja þetta einfaldlega flökkusögu, enda settu Bandaríkjamenn lög upp úr 1970 sem bönnuðu hvalveiðar jafnt og verslun með hvalkjöt í bandarískri lögsögu.

En þó það sé hæpið að tala um "hvalveiðar " Bandaríkjamanna í þessu tilliti, þá er þetta ekki beinlínis flökkusaga, heldur sprettur hún útfrá aðferðum þeirra við túnfiskveiðar í Kyrrahafi. En lengi vel var túnfiskveiðimönnum heimilt að drepa höfrunga við veiðar sínar og er talið að um 6 milljón dýr hafi verið drepin frá því þessar veiðar hófust í A-Kyrrahafi undan ströndum Bandaríkjanna ca 1950, eða á síðustu 60 árum. Samanborið við 2 milljónir hvala (allar tegundir) sem voru drepnar (af öllum þjóðum) í markaðstengdum (commercial) hvalveiðum á allri 20. öld.

Vandamálið byggist á því að túnfiskar og höfrungar lifa í ákveðnu sambýli. Enginn veit nákvæmlega af hverju þeir fylgjast að, en það er túnfiskurinn sem fylgir höfrungunum en ekki öfugt. Af því að höfrungarnir eru við yfirborð sjávar og blása þar, þá benda þeir oft veiðimönnunum á túnfisktorfurnar neðar í sjónum, og með því að umkringja höfrungana með netum sínum veiða þeir túnfiskinn, en höfrungarnir drepast eða eru drepnir og ekkert er nýtt af þeim. Drápið á höfrungunum var álitinn nauðsynlegur fórnarkostnaður við túnfiskveiðarnar, en í kringum 1970 komu fram sterk mótmæli gegn þessu gengdarlausa drápi og reynt hefur verið síðan að herða reglur og þróa aðrar tegundir af veiðarfærum til þess að sem fæst dýr drepist við veiðarnar. Í dag segja bandarísk yfirvöld að um 1000 dýr deyi árlega við veiðarnar (sem er örugglega vanmetið).

Hér er nýleg frétt úr Huffington post um málið,  en líka hægt að kíkja á heimasíðu hinnar svokölluðu Höfrungastofnunar sér til fróðleiks.

Svo tæknilega stunda Bandaríkjamenn engar hvalveiðar, en höfrungar flækjast fyrir við túnfiskveiðar, og "fórnað" er ríflega þúsund dýrum árlega við þær. Spænskir túnfiskveiðimenn eiga við svipað vandamál að stríða og "fórna" líka nokkrum hvölum árlega við sínar túnfiskveiðar við Gíbraltar, en það eru háhyrningar sem þar falla í valinn, heldur stærri í sniðum en höfrungarnir og mjög útséð og samhæfð hópdýr sem ætla sér hluta af bráðinni sem svo þægilega er búið að smala saman í net veiðimannana.

Svo samanburðurinn snýst um ríflega 1000 höfrunga (USA) og e.t.v. 10 háhyrninga (Spánn) og svo hvalveiðikvóta Íslendinga, sem er ca 200 hrefnur og 150 langreyðar (en aldrei hefur veiðst upp í fullan kvóta). Fyrst þarf auðvitað að gera sér grein fyrir því að svona samanburður réttlætir ekki eitt á móti öðru, maður þarf að taka afstöðu í hverju máli fyrir sig, hvalveiðum Íslendinga, höfrungadrápi Bandaríkjamanna og háhyrningadrápi Spánverja. Í öðru lagi þarf að huga að því, ef maður ætlar í samanburð hvað sem tautar, að þessi dýr eru ansi ólík, bæði stofnstærð hverrar tegundar og hugsanleg útrýmingarhætta, og e.t.v. líka stærð dýranna (ef maður er að hugsa um kjötmagn). Jafnvel fæðuval dýranna dregst inn í þetta.

Hvorki hrefna né höfrungar eru í útrýmingarhættu og stofnar þeirra stórir. Háhyrningar eru heldur ekki taldir í útrýmingarhættu í dag, en frekar er hugað að því að styrkja stofna þeirra en hitt, því þeim hafði fækkað mikið um 1980, svo veiðar eða dráp á þeim er ekki litið jákvæðum augum. Langreyður er ekki lengur talin í útrýmingarhættu, en stofninn er ekki sérlega stór þó.

Hvað varðar stærðir þá eru hrefna og háhyrningar nokkuð áþekk, ca 10 tonn að þyngd og 7-10 m að lengd, langreyðar ca 20m og vega 40-70 tonn og höfrungar 2-4 m og vega milli 200-600 kg. Ein langreyður jafngildir því um 100 höfrungum í vigt. Ein hrefna jafngildir ca 30 höfrungum. Svo ef við hugsum bara um kjöt þá eru Íslendingar að veiða meira magn en Bandaríkjamenn. 

Og hvor er svo góði gæinn???

Ef Íslendingar hættu að veiða langreyðar og héldu sig við t.d. 50 hrefnur á ári, eingöngu fyrir heimamarkað, þá værum við mjög hófsöm í veiðum, á alla mælikvarða. 

En svo eru þau eftir rökin um það hvað stórhvelin éta mikið af loðnu, sandsíli, seiðum og átu og hvort þau taki of mikla fæðu frá öðrum fisktegundum, að maður tali nú ekki um allan þann þorsk sem þessar skepnur éta "frá okkur" að sumra manna mati. Fæðuskortur í hafinu virðist vera vandamál sem vert er að skoða betur, því hann er augsýnilega farinn að hafa áhrif á viðkomu fugla og varp, allavegana síðustu sumur, hvað sem veldur, menn, hvalir, mengun, gróðurhúsaáhrif eða guð veit hvað......



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Bandaríkjamenn leika þann snjalla leik, að skilgreina höfrunga ekki sem hvali. Þess vegna telja þeir ekki höfrungana þegar talað er um hvalveiðar. Góð aðferð til að réttlæta fyrir sjálfum sér höfrungadráp um leið og hvalveiðar annarra eru fordæmdar.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 22.12.2011 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband