22.12.2011 | 03:12
Hvalveiðar Íslendinga
Hrefnustofninn við Ísland er ekki í hættu þó veidd séu úr honum ca 200 dýr á ári, það er á bilinu 0,2-0,5% af stofninum hér við land (40.000-70.000 dýr) og er langt undir sjálfbærnismörkum. (þetta er ekki sami stofn og Japanir veiða úr, stofnanir eru nokkrir í höfum heims og halda sig á afmörkuðum slóðum). Langreyðarstofninn hér við land er minni (16.000-20.000 dýr) og nemur veiðikvótinn ca 1% af stofninum, sem er líka undir mörkum vegna sjálfbærni. Það mætti samt að ósekju hætta að veiða úr honum að mínu mati, en á móti kemur að hver og ein langreyður gefur svo miklu meira af sér af kjöti vegna stærðarmunar, og það finnst hvalveiðimönnum trúlega betra, fá margfalt meira kjöt fyrir sömu fyrirhöfn.
Hvalkjötsneysla er partur af menningu Íslendinga, allt frá fyrstu tíð. Þó ekki gætu menn veitt stórhveli á smákænum, þá veiddu menn minni dýr eins og hnísur og höfrunga, og svo átu menn rekinn hval eins og allir vita. Sérstakar lagasetningar eru um hvalreka í gegnum aldirnar, allt frá Grágás, og ekki ótítt að illdeilur risu vegna hvalreka og eignarréttar á honum, enda um mikinn matarforða og annað verðmæti að ræða, bein og olíu. Kjötið mátti hengja út og þurrka líkt og harðfisk (það gera frændur okkar Færeyingar enn) eða setja í súr eins og allt hitt kjötmetið. Hrefnuveiðar hefjast hér við land upp úr 1900, en hrefnan telst ekki beint stórhveli þó ekki sé hún smá, 7-10 metrar og ca 10 tonn að þyngd að meðaltali.
Veiði stórhvela við Ísland hefst með því að Baskar taka að sækja hingað á 16. öld. Þeir höfðu stundað hvalveiðar frá fornu fari, en hvölunum var farið að fækka í Baskaflóa og þeir eltu dýrin sífellt lengra norður í höf. Síðar komu hingað til hvalveiða bæði Hollendingar, Danir, Englendingar, Rússar og Norðmenn, og urðu Norðmenn á endanum stórtækastir. Lifur og spik dýranna var það sem sóst var eftir, enda dýrmætast á þeim tíma sem ljósmeti, en olían var líka notuð í sápugerð og smjörlíkisgerð. Beinin þóttu líka verðmæt og voru notuð í ýmislegt. Kjötið af þeim fjölda dýra sem veidd voru hér í lok 19. aldar var lítið sem ekkert nýtt. Norðmenn settu hér upp veiðistöðvar og lifrarbræðslur, og buðu oft fátækum Íslendingum að nýta sér kjötið, en mest rotnaði það í fjörunum undan hvalstöðvunum með tilheyrandi óþef. Gengu þessar veiðar og óþrifin sem þeim fylgdu svo fram af Íslendingum að þeir bönnuðu veiðar á stóru skíðishvölunum 1886 og svo á öllum stórhvelum árin 1916-1928, m.a. vegna augljósrar ofveiði. Hrefnan var aldrei talin til stórhvela og hún því veidd áfram. Um svipað leyti voru margar fuglategundir líka alfriðaðar, haförninn 1914, fálki 1940, en æðarfuglinn hafði verið friðaður löngu fyrr (1847). Geirfuglinn hafði e.t.v. verið víti til varnaðar.
Fylgdu Íslendingar öðrum Evrópuþjóðum í friðunarhugmyndum, en á þessum tíma voru þjóðir að vakna til vitundar um varðveislu náttúrunnar og fyrstu þjóðgarðarnir voru stofnaðir í Bandaríkjunum og nokkru síðar í Evrópu - við stofnuðum okkar fyrsta þjóðgarð á Þingvöllum 1930. Á sama tíma var mikið rætt um að friða stórhvelin, því það fór ekkert framhjá mönnum að færri og færri dýr veiddust. Rétt fyrir seinna stríð var svo reynt að komast að alþjóðasamkomulagi um takmörkun veiðanna, en Japanir og Rússar skoruðust undan. Íslendingar tóku heils hugar undir þessi friðunarsjónarmið, en eftir seinni heimsstyrjöldina er komið annað hljóð í strokkinn, þá var hér kominn floti sem gat staðið í stórhvalaveiðum og hafist var handa 1948, veiðar hafnar og byggð hvalveiðistöð þar sem áður hafði verið herstöð í Hvalfirðinum. Urðu Íslendingar sæmilega atkvæðamikli þjóð í hvalveiðum, en á móti kom að flest var nýtt af hvalnum, kjöt og spik. Hvalirnir höfðu fengið óbeina friðun meðan á stríðinu stóð og fjölgað eitthvað, en Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 og var reynt að meta ástand stofna og setja skorður við veiðum, sérstaklega eftir mikið ofveiðitímabil á árunum 1960-1980 (meðalveiði á t.d. búrhval þessi ár fór sjaldan niður fyrir 20 þúsund dýr á ári, en hann var ekki friðaður að fullu fyrr en 1982). Algert hvalveiðibann var svo sett á 1986 eins og við vitum, fyrir utan takmarkaðar frumbyggjaveiðar og rannsóknarveiðimennsku Íslendinga og Japana.
Íslendingar þurfa ekkert að skammast sín fyrir sína hvalveiðisögu, hún er engin hryllingssaga, en þessi síðustu ár rétt fyrir hvalveiðbannið (síðara) gengu e.t.v. lengst og er enginn sérstakur sómi að, enda tengt græðgishugsun og rányrkjuhugmyndum en ekki sjálfbærni og sátt við náttúruna.
Á meðan hvalveiðibannið ríkti (með rannsóknarveiðum) hófust hér á landi hvalaskoðunarferðir og í dag fara hátt í 200.000 ferðamenn í hvalaskoðun á ári. Margir telja þann bransa skila meiri gjaldeyri í þjóðarbúið en útflutningur á hvalkjöti. Sumir efast um að hvalveiðar og hvalaskoðun geti farið saman. Ég held þó að hófleg veiði og hvalaskoðun geti vel átt samleið. Ég fer í hvalaskoðun á hverju ári, með útlendinga líka, og það er ótrúleg upplifun í hvert sinn. Sérstaklega ef maður er svo heppinn að sjá steypireyði (alfriðuð 1966 ásamt hnúfubaki), stærstu skepnu sem nokkru sinni hefur lifað á jörðinni, risaeðlur meðtaldar. Ég hef farið í margar hvalasiglingar en aðeins einu sinni séð þessa ótrúlega stóru skepnu, bara hjartað vegur um 1000 kg=tonn.
En hvað með neyslu Íslendinga á hvalkjöti í dag? Ég er sjálf alin upp við að borða hvalkjöt og finnst það gott, þetta var ódýrasti maturinn sem hægt var að fá í henni Reykjavík þegar ég var að alast upp, kostaði nokkrar krónur, fátækramatur, kjötið var lagt í mjólk og svo soðið eða steikt á pönnu. Í dag er hvalkjötið girnilega matreitt sem sushi og einnig fæst það ferskt eða marinerað á grillið. Frábær matur. Örfá dýr á ári myndu duga til að þjóna heimamarkaði, svo ef við höldum okkur við það þá er þetta allt í sóma held ég.....og við værum þá í sama flokki og frumbyggjar í Grænlandi og Alaska, að ótöldum Færeyingum, sem mér finnst að eigi að fá að halda í sínar hefðir.
Þannig að mín skoðun er sú að við Íslendingar ættum að fá að veiða hrefnur fyrir heimamarkað en láta af veiðum til útflutnings og sölu á Japansmarkaði. Fáum frekar fólk frá Japan í hvalaskoðun hingað. ....
Annað, sem við höfum ekki athugað að neinu ráði held ég, er þungmálmamengun í hvalkjötinu. Dýrin verða gömul og þau safna í sig leifum þungmálma í sjónum sem sest fyrir í vöðvunum. Í Færeyjum borða ófrískar konur ekki hvalkjöt lengur af ótta við slíkt. Mér vitanlega fara engar mælingar fram á þessu hér á landi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.