20.11.2011 | 16:33
Afspyrnuleiðindi í steinsteypu við Ingólfstorg?
Hilmar Þór Björnsson arkitekt bloggar oft skemmtilega um arkitektúr. Hér er einn af hans góðu pistlum um háhýsi og tengsl þeirra við önnur þekkt tákn og nokkuð auðgljós minni. Í umræðu um háhýsin á íslandi hafði einhver á orði að þau væru dæmi um lata arkitekta og lata verktaka........get tekið undir það, en mér finnst þau samt aðallega vera dæmi um vonda arkitekta sem láta kaupa sig til verka sem eru engum arkitekt með sjálfsvirðingu samboðin. Eru Afspyrnuleiðindi í steinsteypu eins og Hörður Ágústsson nefndi það sem honum fannst klambur eða tildur eða eitthvað þaðan af verra.
Byggingarlist er talin til listgreina frá fornu fari og arkitektúrskólar oft í nánum tengslum við listaskóla í erlendum stórborgum. Því miður fer lítil opinber gagnrýni fram um verk arkitekta hér á landi, líkt og er t.d. um verk listamanna, sem setja svo ekki upp myndlistarsýningu, leiksýningu, eða gefa út ritverk eða kvikmynd, að ekki séu verk þeirra tekin til faglegrar umfjöllunar og gagnrýni. Arkitektar hlýta engri slíkri opinberri rýni, hvorki frá kollegum, fagfólki, opinberum aðilum eða öðrum. Væri þó ekki vanþörf á. Síðan Hörður Ágústsson skrifaði í Birting (1955-1968) oft óvægna dóma um byggingarlist síns samtíma og gaf þá oft starfandi arkitektum harðan dóm, hefur enginn stigið fram og gagnrýnt nútíma arkitektúr eins og vert væri. Endalaust eru haldin málþing um myndlist og stöðu íslenskrar myndlistar í ýmsu samhengi, en afar sjaldan um arkitektúr. Bloggið hans Hilmars er því virðingarverð tilraun til að skapa nauðsynlegan umræðuvettvang. En maður skynjar einhvern ótta manna við að segja hug sinn um þetta málefni..........
Listamaður sem endurtekið sýnir miðlungsverk fær ekki tækifæri til framtíðar, en arkitekt sem endurtekið teiknar miðlungsverk virðist endalaust fá ný verkefni,...... og því verri sem hann er, því ódýrara selur hann sig og því geðþekkari er hann verktökunum......
Nú er hafin á ný atlaga latra og ósmekkvísra verktaka að Ingólfstorgi, að því er virðist með aðstoð skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Miðað við það smekkleysi sem byggt hefur verið í Reykjavík undanfarinn áratug og fyrri tillögur þessara eignar- og verktakaaðila á Ingólfsreit, munu þeir líklega ekki verða í neinum vandræðum að finna arkitekta sem munu gera tillögur sem passa akkúrat að vondum smekk verktakanna, og von þeirra um hámarksgróða. Arkitekta sem eru tilbúnir til að hugsa sem minnst um óþægindin, útlitságallana og samhengisleysið við aðra byggð og notkun á svæðinu og nærumhverfi þess. Arkitekta sem hafa nákvæmlega engar áhyggjur af því að hugmyndir þeirra geta verið á kostnað almannarýmis okkar Reykvíkinga, þeim er sama svo lengi sem verktakinn/eigandinn er ánægður og greiðir þeim vel fyrir. Siðferðisleg afstaða arkitekta er tabú umræða. Fagurfræði er mörgum þeirra framandi hugtak, þó þeir hafi gengið á fagurlistaskóla.
Að blása til samkeppni um reitinn við Ingólfsstorg er engin trygging fyrir því að góðar tillögur verði valdar, þvert á móti er þetta líklegast aðferð til að blekkja okkur til að trúa því, að sú gróðahugmynd sem verður valin hafi verið fengin fram með lýðræðislegum hætti.......Pótemkínleiktjöldin eru notuð víða í íslensku samfélagi. Eru eiginlega orðin svo ofnotuð að minnir á slæður sjónhverfingamanns sem hann dregur upp úr hatti sínum hvenær sem dylja þarf lipurt handlag (maneuver) og blekkingar.... og á eftir slíkum leikjum má segja: "Ég blekkti ekki, það varst bara þú sem sást ekki".
Opnum augum, fylgjumst vel með reitnum við Ingólfstorg.......látum ekki 2007 hellast yfir okkur að nýju......maður er því miður farinn að finna gustinn......
Athugasemdir
Lóðahafinn við Vallarstræti mun auðvitað reyna að ná hámarksgróða út úr eignum sínum og fá að byggja eins stórt hótel og framast er kostur og láta tengja við þau hús sem hann á fyrir. Samt hafa yfirvöld sett hann í undirbúnings- og dómnefnd fyrir samkeppnina og áhrif hans á samkeppnislýsinguna, sem nefndin samdi, eru auðsæ. Auðvitað mun hann líka beita sér fyrir tillögum sem eru honum mest að skapi og verðlauna þær. Það verður erfitt fyrir aðra í dómnefnd að rísa gegn skoðunum hans, vilji þeir það, því að hann á lóðirnar, það eru gífurlegir hagsmunir í húfi, fyrir hann, og hann greiðir verðlaunafé (og kostnað), líklega að hálfu. Auk þess getur hann ógnað með því að hann muni fara í skaðabótamál, fái hann ekki að byggja í samræmi við deiliskipulag sem er ekki í neinu samræmi við ríkjandi viðhorf. Yfirvöld í borginni þora ekki að láta á málið reyna fyrir dómstólum sem væri þó heiðarlegt og eðlilegt. Eigandinn græðir á þessari óvissu, miðborgin er svipt ýmsum gæðum, almenningur tapar.
Helgi Þorláksson (IP-tala skráð) 21.11.2011 kl. 17:59
Þetta háttalag borgarstjórnar í skipulagsmálum á reitnum við Ingólfstorg er borgarstjórn til skammar.
Sunnan megin við Ingólfstorg á að vera lágreist byggð sem hleypir birtu inn á torgið og í stíl við gömlu húsin í nágrenninu.
Ekki fleiri hótel á svæðið sem mun ekki bera þá umferðaraukningu sem hóteli fylgir.
Garðar (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.