20.11.2011 | 15:09
Sjómannslíf barna
Einu sinni var mér haldið á fótunum út um kýrauga og hótað að láta mig falla í sjóinn ef ég hagaði mér ekki eins og manneskja. Ég var 9 ára. Ég hafði verið soldið óþekk um borð í skipinu sem hann pabbi minn vann á. Systir mín líka. Sonur vélstjórans líka. Við vorum eiginlega búin að vera rosalega óþekk og stríða kokknum langtímum saman með því að hlaupa um kokkhúsið og matsalinn og henda sælgætisbréfum í súpuna sem hann var að sjóða handa áhöfninni, og sem stóð og mallaði í stórum potti á eldavélinni. Hættulegur gat þessi leikur verið fyrir börn......en því veltum við ekki fyrir okkur.....sáum hvorki fyrir okkur brunasár eða bráðnar plasttægjurnar sem áhafnarmeðlimir myndu veiða upp úr súpunni...........en það gerði kokkurinn. ..... Allt í einu fékk hann nóg. Greip þann krakkann sem næstur kom hlaupandi...... það var ég.......og með aðstoð messaguttans lyfti hann mér upp og þeir smeygðu mér út um opið kýraugað, héldu um ökklana, og þannig hvolfd horfði ég niður í grængolandi sjóinn á meðan ég gat heyrt þá hrópa fyrir innan kýraugað....."Við hendum þér í sjóinn ef þú hættir þessu ekki" ......hótunin var mjög sannfærandi.......en ég þrjósk......svo ég hrópaði á móti að þeir mættu þetta ekki, hann pabbi minn réði yfir mér........"Hann ræður engu hér, hér ræð ég" heyrði ég kokkinn hrópa yfir öldu- og vélaniðinn.......ég gat skilið þá röksemd...... hún var líka mjög sannfærandi.......og pabbi upptekinn við sína vinnu uppi í brú og ekkert víst að hann hefði orðið ánægður með að þurfa að verja athafnir mínar og óþekkt fyrir kokknum......ekki einu sinni víst að hann myndi verja þær þó svo hann réði yfir mér.......svo ég lofaði að vera góð......hætta þessari óþekkt.....þurfti að endurtaka það......allt á meðan ég horfði bæði í angist og aðdáun á sjóinn fyrir neðan sem var eins og hraðbraut af grænbláu og hvítu.......hreyfimynd sem ég gleymi aldrei... Þetta dugði......við hættum að stríða kokknum.....það gat haft afdrifaríkar afleiðingar...... Tilfinningin að finna sterkar hendur halda um ökkla mér og hvíta og grænbláa myndin sem enn lifir í höfði mér eins og lifandi málverk, eins og ég hangi þarna enn, þær eru jafnsterkar og daginn þennan, fyrir langa löngu, þegar ég var lítil stelpa, soldið frökk og óþekk, óþekktarstelpa sem hafði gengið of langt, fékk mína eftirminnilegu refsingu og finnst ég eiginlega ríkari á eftir. Svona er nú sjómannslíf barna afstætt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.