23.10.2011 | 17:42
100.000.000 börn á götunni!
Ef marka má þær upplýsingar sem okkur eru færðar frá alþjóðlegum stofnunum um ástandið í heiminum, þá búa 100 milljón börn á götunni og 200 milljónir barna starfa í þeim þrælabúðum sem hinn vestræni heimur hefur komið sér upp í fjarlægum álfum, og kallar svo pent "ódýrt vinnuafl í þróunarlöndum" - en ódýrt vinnuafl utan Vesturlanda er einn helsti þátturinn í þeirri glóbaliseringu sem hefur tröllriðið heiminum síðustu árin í nafni hagvaxtar.
Ástandið milli Vesturlanda og svokallaðra þróunarlanda minnir í mörgu á það ástand sem var í upphafi Iðnbyltingarinnar, þegar ríkir verksmiðjueigendur arðrændu verkalýðinn sem bar uppi framleiðsluna, börn líka eins og þekkt er. Engan hefði grunað að slíkt ástand yrði samþykkt á ný, bara af því að ógeðfelldar staðreyndir þess eru svo langt frá okkur, bæði landfræðilega og líka efnahagslega. Þrepin í framleiðslu Iðnbyltingarinar voru nokkuð gegnsæ og skiljanleg miðað við þrepin í hinni glóbal framleiðslu, sem eru mörg og á margra höndum, og mörgum þráðum hennar einnig haldið leyndum svo allir geta sagt sig alsaklausa af arðráninu sem viðgengst. Félög sem eiga félög sem eiga félög, eins og við höfum lært svo mikið um undanfarið.
Og alltaf hefur mér þótt hún aumkunarverð viðbáran sem notuð er þegar keypt er vinnuafl í Kína eða Indlandi á 10kall, að þetta sé nú bara hátt kaup hjá þeim og stórkostlegt fyrir þetta fólk að fá yfirhöfuð vinnu! Því miður er það þó svo, að launin eru svo lág að fólkið lifir frá degi til dags með enga von um að efnahagsleg staða þess batni, það á rétt fyrir nauðþurftum, eru þrælar vinnuveitandans með þá einu von að eiga fyrir mat daginn þann og lifa af.
Það er mikið notuð mýta að þetta ódýra vinnuafl haldi verði á vörum lágu, það er miklu frekar að þeir sem framleiða vöruna eru að þéna svo margfalt, margfalt meira en nokkru sinni hefur verið þekkt, svo það er ekki hugmyndin um lágt söluverð vörunnar sem rekur framleiðendurnar áfram og viðheldur nútíma vinnuþrælkun, heldur einskær græðgi! Það hefur t.d. verið sýnt fram á að með því að tvöfalda laun þeirra sem vinna á fyrstu stigum framleiðslunnar þá hækki verðið á vörunni aðeins um 1- 2%.
Og bilið milli ríkra og fátækra verður sífellt stærra, ójöfnuður eykst, fólksflutningar aukast ( í leit að betri lífskjörum), ólga eykst í samfélögum þar sem ójöfnuðurinn er mestur og eins andúðin á neysluhyggju sem bindur stóran hluta mannkyns í þrældóm.
Og hvað er það helst sem er framleitt í þessum þrælabúðum nútímans? Til dæmis kaffi, te, súkkulaði, íþróttaskór, leikföng og tískufatnaður af ýmsu tagi. Ég horfði um daginn á breskan sjónvarpsþátt þar sem nokkur ungmenni voru látin upplifa hvernig tískufötin sem þau klæddust verða til, og samþykktu þau að fara til Indlands og vinna við framleiðsluna á öllum stigum. Þau tíndu m.a. bómull á bómullarökrunum og unnu á saumastofu sem saumaði tískufatnað fyrir vestrænan markað, sváfu og nærðust á sama hátt og hinir verkamennirnir, og það verður að segjast að þau urðu fyrir miklu sjokki, líkt og við sem horfðum á þetta á sjónvarpsskjánum. Á saumastofunni sá maður að fólkið sem vann þar fór sjaldan út, vinnustaðurinn var líka heimili þeirra, þau elduðu sér mat þar og sváfu á gólfinu um nætur, allaf í sömu fötunum því þau áttu bara ein, og unnu þar svo yfir daginn undir vökulu auga strangra verkstjóra af báðum kynjum. Bresku ungmennin voru úrvinda eftir þessa upplifun og þeirri stundu fegnust þegar þau komust aftur heim til sín og gátu upplifað sturtubað sem hreinan munað. En líka skildu þau betur að þetta voru ekki aðstæður sem þau óskuðu neinum. Þau höfðu haldið að það væri meira val og frelsi til atvinnu, að hægt væri að krefjast úrbóta og mannréttinda, en uppgötvuðu að svo var ekki. Enda er eitt helsta vandamálið í löndum þar sem svona þrælkun er við lýði, að þar er ekki um eiginlegt lýðræði að ræða, verkafólkið getur ekki bundist samtökum af neinu tagi, þar er ekki virkt málfrelsi, mannréttindi almennt lítils virt, og gífurleg stéttskipting í krafti auðs.
Það tók vestræn ríki u.þ.b. 100 ár að bylta því kerfi sem verksmiðjueigendur á fyrstu dögum Iðnbyltingar höfðu komið á, mest fyrir öflug samtök verkafólks, svo það má ekki búast við því að þetta ómannúðlega arðrán sem nú er stundað hverfi án baráttu á næstu árum. Einna helst eru það ýmsar grasrótarhreyfingar sem hafa bent á hin ömurlegu kjör sem börn og fullorðnir búa við í svo kölluðum sweat-shops. Hreyfingar andsnúnar glóbaliseringunni hafa líka barist fyrir breyttum aðferðum í framleiðslunni, Fair-trade hópar hvetja fólk til að versla frekar við þá sem láta stærri hluta arðsins af framleiðslunni fara til verkafólksins sem vinnur við hana o.s.frv. Ef við gerum ekkert erum við meðsek!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.