Fordómafullur formaður SÁÁ

Var að enda við að lesa viðtal Mikaels Torfasonar við nýjan formann SÁÁ,  Gunnar Smára Egilsson, í SÁÁ-blaðinu sem fylgir helgarblaði Fréttatímans þessa helgi. Fordómarnir drúpa þungt af formanninum..........

Því miður er blaðið (2.tbl) ekki komið á heimasíðu SÁÁ svo þið getið kynnt ykkur innihaldið hér og nú (ef hafið þið ekki þegar lesið það í blaðinu sem berst frítt inn um lúguna), en netútgáfa blaðsins hlýtur að birtast á heimasíðunni innan tíðar.

Þarna birtast fordómar gagnvart heilbrigðisstéttum, kennurum og skólafólki og HINUM (sem eru víst þeir sem Gunnari Smára virðist finnast aumkunarverðastir, og eru skilgreindir m.a. sem þeir nemendur sem líður vel í skóla, stunda nám sitt af samviskusemi og vinna að því loknu hin ýmsu störf í þjóðfélaginu sem krefjast BA-gráðu).

Lendir Gunnar Smári eiginlega í algerri mótsögn við sjálfan sig í viðtalinu þar sem hann segir að allir geti ekki verið eins, þjóðfélagið verði að vera samsett úr mismunandi fólki til að skapa spennu og orku. "Einhver verður að vera svoldið óþekkur, annar dáldið óvirkur og sumir bara normal." segir hann, án þess að útlista nánar hvað "normal " er (hefur reyndar reynst mörgum erfitt).

Umburðarlyndi fyrir margbreytileika manna og kvenna er ekki helsti mannkostur Gunnars Smára, enn man ég þegar hann í Helgarpóstinum dæmdi hægri vinstri eftir eigin fordómum "ofmetnasta Íslendinginn" og sagði menn "leiðinlega" ef hann var á skjön við þá í skoðunum. Enn er hann tilbúinn með "leiðinlega" stimpilinn - hann segir að í þjóðfélaginu ríki "forgangsröð leiðinlega fólksins" og hefur skilgreint hana sjálfur, skv. hans skilgreiningu gengur hún út á að mennta sig til atvinnuöryggis og síðan huga að sjálfsrækt. Lendir GSE þó aftur í ákveðinni mótsögn þegar hann talar sem svo að þeim með gráðurnar leiðist eftir námið gífurlega í vinnunni sinni, hann virðist sem sagt ekki gera ráð fyrir að til séu þeir sem mennti sig til starfa með BA-námi, starfa sem þeir hafi síðan mikla ánægju af og gefur þeim lífsfyllingu.

Eitt get ég þó tekið undir með Gunnari Smára, þó hann segi það ekki með mínum orðum, en það er að skólakerfið hefur lagt ofuráherslu á bóknám á kostnað handverks og annarra greina sem eru alveg jafn mikilvægar fyrir þjóðfélagið og koma ekkert bóknámsgreind við. Viðloðandi hefur verið í nokkra áratugi að gefa minna fyrir t.d. iðnnám en t.d. viðskiptanám, þó hvort tveggja námið sé krefjandi, hvort á sínu sviði. Í ýmsum öðrum löndum, t.d. Þýskalandi, Hollandi og sumum fylkjum USA, geta krakkar valið á seinni hluta skyldunámsins námsbrautir í takt við áhugasvið sín, líkt og er hægt í sumum fjölbrautarskólum hér á landi, valið fer bara fram á yngra skólastigi og verður þar af leiðandi ítarlegra og þau finna sig frekar í skólanum. 

Ég er sammála GSE í því að greind er margvísleg og ekkert endilega bundin við skólagöngu og gráður, minni bara á fjölgreindakenningu Gardners sem ég hallast mjög að, en skv. henni er það fyrst og fremst málgreind sem nýtist við venjubundið bóknám.

Greindur einstaklingur er greindur, sama hvað hann lærir eða starfar við, og ekkert er betra en hitta fyrir einn slíkan, hvort sem hann er smiður, sjómaður, bóndi, bílstjóri, námsráðgjafi, lögfræðingur, endurskoðandi, listamaður eða blaðamaður. Eða jafnvel formaður SÁÁ. En það fellur dálítið á ljómagreindina þegar fordómarnir vaða uppi, hvort sem það er í heitum potti, hjá þeim með BA-gráðuna eða iðnmenntunina............eða blaðamönnum og óvirkum alkóhólistum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband