1.8.2011 | 14:28
Að vanda orðaval
Noregur er í sárum. Aðdáun vekja viðbrögð þjóðarinnar. Einn maður hefur staðið eins og klettur og ber nafn sitt með rentu: Stoltenberg. Í morgun ítrekaði hann í Stórþinginu og sagt var frá í Aftenposten að viðbrögðin við hryðjuverkunum 22. júlí yrðu að vera yfirveguð áfram og fólk yrði að vanda orðaval sitt í allri umræðu svo ekki hæfust nornaveiðar.
Siv Jensen, formaður norska Fremskrittspartiet er spurð hvort hún muni láta af ákveðnu gildishlöðnu orðalagi en hún lætur undir höfuð leggjast að svara beint.
Aftur á móti leggur Thorbjörn Jagland, aðalritari Evrópuráðsins, til að evrópskir þjóðhöfðingjar og stjórnmálamenn láti af ákveðnu gildishlöðnu orðalagi, eins og t.d. "íslamiskir hryðjuverkamenn" - hryðjuverk Al Queda hafi ekkert með islam trú að gera frekar en hryðjuverk Anders Breivik hafi með kristna trú að gera. Thorbjörn Jagland hefur áður hvatt Evrópuleiðtoga til að nota frekar orðið "fjölbreytni" í stað "fjölmenningar", og þykir sumum hófsamur málflutningur hans hingað til hafa frekar höfðað til íhaldsafla hvað varðar fjölþjóðasamfélög, en hvað um það, einnig hann hvetur núna til nýrrar hugsunar og vandaðrar orðræðu...."maður verður að fara varlega við val sitt á orðum, því þau má misnota" segir Jagland. (Man må være forsigtige med hvilke ord man bruker, for de kan misbrukes)..
Athyglisvert að minna á í þessu samhengi hversu stór hluti jafnréttisbaráttu snerist um að gera fólk meðvitað um orðalag og gildishlaðna orðræðu sem viðhélt ómeðvituðum viðhorfum. Var þá oft gott að skipta um kyn í setningu eða samhengi til að sjá skekkjuna. Sama á við hér.
En mikið er hann Stoltenberg flottur kall, bara ef við hefðum einhvern eins og hann. Það sýnir alltaf styrk stjórnmálamanns eða þjóðhöfðingja hvernig hann kann að hughreysta fólk sitt í sorg eða einhverri ánauð eins og t.d. kreppu eða stríði. Kóngurinn norski er vinalegur kall en virkar ekki nógu sterkt núna sem sameiningartákn, líkt og Stoltenberg gerir. Ég man hvað Vigdís var flott þegar snjóflóðin féllu fyrir vestan, hún hafði þetta, láta fólkið finna að hún fyndi til með því, en sýndi líka styrk og æðruleysi, og fann réttu orðin að segja. Þess vegna var hún flottur þjóðhöfðingi.
Athugasemdir
Góður pistill.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.8.2011 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.