13.5.2011 | 13:12
Stórkostlega gjöf - kunnum við að þakka fyrir hana?
Í dag tekur Listasafn Íslands formlega á móti höfðinglegri gjöf. Sidsel Ramson, ekkja hins heimsfræga danska COBRA-málara Carl-Henning Pedersen (1913-2007), færði á síðasta ári Listasafni Íslands og íslensku þjóðinni að gjöf nokkur verk listamannsins, en verk hans eru afar verðmæt í dag og mikill heiður að þessari gjöf. Ekkert hefur verið frá þessu sagt. Á heimasíðu Listasafnsins er ekki eitt orð um gjöfina eða afhendinguna í dag.
En hvernig stendur á því að við njótum svo mikil örlætis? Ekki veit ég það svo gjörla, en skýringarinnar kann að vera að leita í þeirri staðreynd að sumarið 1948 kom Carl-Henning Pedersen ásamt þáverandi konu sinni, málaranum Else Ahlfelt, til Íslands í boði Svavars Guðnasonar. Eyddu þau sumrinu í ferðalög og nýttu sér hughrif landsins í málverk sín. Í nóvember sama ár var svo hinn frægi hópur COBRA málaranna stofnaður í Kaupmannahöfn og var Svavar Guðnason einn stofnenda. Carl-Henning Pedersen varð þó einn hinna nafnfrægari og vinsælli meðlima, stundum kallaður Chagall Norðurlanda vegna ævintýralegs og glaðlegs yfirbragðs mynda sinna. Elsu konu sína missti hann 1974, og giftist þá eftirlifandi konu sinni Sidsel Ramson, sem nú færir okkur þessa stórkostlegu gjöf. Hugsanlega er um að ræða myndir frá Íslandsdvölinni.
Gjöfin barst fyrir löngu eins og áður sagði, en er núna formlega afhent. Ekkert hefur verið minnst á þessa stórkostlegu gjöf í fjölmiðlum, þögn sem jaðrar við vanþakklæti, bæði af hendi Listasafns Íslands - og ef fjölmiðlar hafa fengið fregnir af því (sem væri þá hlutverk safnsins að sjá um) þá eru þeir ekki heldur að standa sig í stykkinu.
Það verður forvitnilegt að vita hvernig Íslendingar munu þakka fyrir sig, en til þess að þeir fái vitneskju um þess stórkostlegu gjöf og geti þakkað hana sem bæri, í hjarta sér ef ekki vill betur, þurfa þeir að vita af henni. Það er hlutverk Listasafns Íslands og íslenskra fjölmiðla að segja frá slíku. Þetta má ekki liggja í þagnargildi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.