Sjúkraskrám úthýst

Slembiúrtak 100 hjúkrunarfræðinga og 50 lækna leiddi í ljós að sumir úr hópnum voru að glugga í sjúkraskrár spítalanna án þess að eiga í þær nokkurt erindi. Aðallega hjá frægu fólki. 6 úr þessu slembiúrtaki hlutu áminningu. En hvað með alla hina starfsmennina sem hafa aðgang að sjúkraskránum? Og hvað með þá sem hafa aðgang að þeim en eru ekki starfsmenn sjúkrahúsanna sjálfra, heldur einkafyrirtækja úti í bæ?

Sú stefna var nefnilega tekin í tíð fyrri ríkisstjórnar (2007) að stefna að einkavæðingu starfa innan heilbrigðiskerfisins. Einn liður í því var að úthýsa læknaritarastörfum í tilraunaskyni og bjóða út ritun sjúkraskráa hjá einkafyrirtækjum. Mikil óánægja reis meðal læknaritara vegna þessa máls, enda ekkert við þá rætt um hagræðingu eða annað og fréttu þeir um málið í fjölmiðlum.

Sagt var að þetta yrði gert til reynslu og frekari ákvarðanir teknar að metinni þeirri reynslu. Í febrúar 2008 birtist frétt þar sem kom fram að fyrirtækið Conscriptor hefði boðið lægst í verkið og fengið samning til 6 mánaða reynslutíma, síðan skyldi ákveðið hvort framhald yrði á. Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar var líka inni í myndinni. Ekkert hefur heyrst meira um málið í fjölmiðlum og ekkert um það hvernig tilraunaverkefnið tókst og hvort efnt var til viðameira samstarfs við Conscriptor eða aðra.

Ein hættan við að úthýsa sjúkraskrám lýtur að trúnaði um þau gögn sem unnið er með. Starfsfólk sjúkrahúsanna skrifar undir þagnareið og skyldi engan undra. Auk þess ríkir innan sjúkrastofnana ákveðinn kúltúr og viðhorf sem styrkir starfsfólkið í að gæta trúnaðar og virða þagnareiðinn. Hópeflisáhrif. Þetta veit ég af reynslu.

Við útvistun sjúkraskráa til Conscriptor var fullyrt að starfsemin uppfyllti ströngustu kröfur um öryggi og starfsmenn myndu undirrita þagnareiða líkt og starfsfólk sjúkrahúsanna. Til að hægt sé að úthýsa sjúkraskrám þarf að veita einkafyrirtækinu úti í bæ rafrænan aðgang að öllum skrám. Þar er eingöngu unnið við ritun og þar er ekki er til staðar sá sérstaki kúltúr sem ríkir á sjúkrahúsum og sá andi sem efldur er af þeim ólíku hópum sem vinna saman innan sjúkrastofnananna í þágu sjúklinga.

Þessar nýjustu fréttir um óeðlilega miklar flettingar í sjúkraskrám frægra einstaklinga vekja manni ugg. Ég er viss um að frekari einkavæðing starfa innan heilbrigðiskerfisins mun auka hættuna á slíkri hnýsni um persónuleg málefni annars fólks, málefni sem oft varða mjög viðkvæma þætti í lífi þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband