Neyðarmilljónir - neyðarástand

Fjölskylduhjálpin sendir neyðarkall til Norðurlanda. Er það nauðsynlegt?

Því verður ekki í móti mælt að fólk í neyð þarf hjálp. Fólk sem hefur orðið fyrir áföllum þarf aðstoð. Íslenska þjóðin hefur oft sameinast fallega til að safna fé svo hægt sé að hjálpa fólki í neyð. Eða til að aðstoða heilbrigðiskerfið í baráttu við illvíga sjúkdóma.

Við þekkjum öll slíkar safnanir og það er gott að gefa til góðs málstaðar. Ég sjálf hef haft það að vana að gefa lítilræði þegar ég fæ því við komið, sérstaklega um jól þegar ég legg nokkra þúsundkalla til hjálparsamtaka af ýmsu tagi eftir kenningunni "Margt smátt gerir eitt stórt".

Núna er nýliðinn mottumars, þar sem bent var sérstaklega á krabbamein sem hrjá karlmenn, allir sem töldust menn með mönnum söfnuðu skeggi, meira að segja taðskegglingar skörtuðu nokkrum hökuhárum. Fjölmiðlar létu sitt ekki eftir liggja í umfjöllun, viðtölum og greinaskrifum. Gott mál. Þá söfnuðust um 30 milljónir.

Um sama leyti og mottumarsinn var í gangi urðu miklar hamfarir í Japan. Íslenska ríkisstjórnin afhenti Rauða krossinum í Japan neyðaraðstoð upp á 10 milljónir. Söfnun sem Japansvinir settu í gang hér á landi fékk miklu minni athygli en vænta mætti, fjölmiðlar sáu því miður ekki ástæðu til að gera mikið úr henni. Enginn sjónvarpsþáttur var til dæmis helgaður söfnuninni, eins og svo oft hefur tíðkast þegar mikið liggur við. Síðustu upplýsingar segja að meðal almennings hér á landi hafi safnast 8,5 milljónir handa fórnarlömbum í Japan, en fyrir utan hina látnu og týndu, þá eru 300-400.000 manns þar heimilislausir. Neyðarsöfnunarsíminn hjá Rauða krossinum er 9041500 ef þú átt 1500 kr að gefa.

Japan er eitt þeirra landa sem veita hvað mestum fjármunum til þróunarsamvinnu og neyðaraðstoðar um allan heim. En þegar þeir lenda sjálfir í hamförum brynja þeir sig fágun og æðruleysi sem fyllir mann aðdáun. Þeir senda ekki neyðarkall en eru þakklátir þeim þjóðum sem hafa lagt fram fé eða aðstoð, falleg orð og þakkir má t.d. lesa á heimasíðu Rauða krossins hér á landi.

Japanir hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á menningarsamstarf við Ísland og hafa samskipti þjóðanna aukist og orðið innihaldsríkari - en án þess og í öllu tilviki ættum við að finna til samkenndar með þessari þjóð sem lifir á eldfjallaeyju líkt og við, þar sem náttúruhamfarir gera ekki boð á undan sér og barátta við óblíð náttúruöfl hefur mótað þjóðareðlið gegnum aldir. Ólíkar þjóðir hafa komið út úr þeirri þróun.

Fallegast var að lesa á heimasíðu Rauða krossins að framlög til Japan koma nær eingöngu frá almenningi, í árferði sem er íslenskum almenningi ekki sérlega hagstætt, og sérstaklega aðdáunarverð voru framlögin frá hópi ungs syngjandi fólks, og frá unga manninum sem gaf 50.000 kr í nafni kærustunnar sinnar - það var flott ástarjátning!

En það sem sló mig í þessum umliðna mánuði og þessum málum, var hvað Íslendingar voru duglegir að öngla saman fé til eigin málefna en ekki eins til handa japönsku þjóðinni í alvarlegri neyð. 

En aftur að neyðarkalli til Norðurlanda: Fjölskylduhjálpin fær ríflega 6 millónir í styrki frá ríki (4 milljónir) og borg (2,4 milljónir) - en líka fær hún framlög frá almenningi og fyrirtækjum í formi gjafa. Talið að það séu um 1000 manns sem þangað leita reglulega eftir matargjöfum (og hjá Mæðrastyrksnefnd). Oft hefur verið þröngt í búi hjá pistlahöfundi, en þó aldrei svo að þetta hafi verið úrræði. Þakka ég forsjóninni fyrir það og að hafa haft heilsu til að vinna mig út úr erfiðum aðstæðum oft á tíðum. Margir eru þó ekki svo lánsamir; öryrkjar, atvinnulausir eða lífeyrisþegar eiga örugglega ekki alltaf auðvelt með að ná endum saman, bæturnar í engum takti við framfærsluna.

Fjöldi þeirra sem leita til Fjölskylduhjálparinnar (um 1000 manns) sýnir að það er neyð meðal margra Íslendinga, ekki geri ég lítið úr því, en vandasamt er að finna bestu leiðina til að aðstoða þetta fólk og matargjafirnar hafa verið umdeildar. Ef svo er að yfirvöld séu ekki að standa sig gagnvart þessu fólki er örugglega full þörf fyrir hjálparsamtökin og matargjafirnar.

En neyðarkall til Norðurlanda finnst mér alveg á mörkunum - sérstaklega í ljósi þess að hér á fólk undantekningarlaust í hús að venda, á flestallt ástvini á lífi og fjölskyldur sem gætu e.t.v. hjálpað til tímabundið, og við hljótum að geta haft þá fágun og æðruleysi til að bera að leita ekki með betlistaf til annarra þjóða. Vissulega hafa margir það skítt, en neyðarástand ríkir hér ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband