Hörmungaþrá og stjórnleysi

Guðbergur Bergsson greinir þjóðarsálina af sinni alkunnu íróníu og kennir okkur við hörmungaþrá - við þráum hörmungar og hamfarir því þá getum við loks staðið saman, hjálpast að, sameinast. Hörmungaþráin er inngróin í sálarlífið eins og ósjálfrátt viðbragð eða genetísk meðvirkni - við bíðum spennt eftir vá og voða - er sama hvort það er eldgos eða icesave - vonumst bara eftir að allt fari til fjandans svo við getum dæst og barmað okkur - helst í eyru útlendinga - við erum best í eymdinni eins og öllu hinu sem við erum svo ótrúlega góð í. Eymingja iceland!

Forseti Íslands var löngum sameiningartákn, hlutverk hans ætti að vera að telja kjark í þjóðina á erfiðum stundum, sameina hana gegn hörmungum en ekki auka óeirð og ójöfnuð. Núverandi forseti hefur allan sinn embættisferil verið umdeildur - fyrst sem klappstýra viðskiptalífsins, svo sá sem færði valdið í hendur fólksins. Klappstýruhlutverkið fékk ekki góða gagnrýni í rannsóknarskýrslunni frægu. Hitt þótti mörgum flott PR-stunt. Aflaði vinsælda.

Fulltrúalýðræði eins og það sem við höfum búið við frá 1944 felur í sér að við kjósum okkur fulltrúa sem eru fulltrúar valdsins sem þeir þiggja frá fólkinu, þeir mynda þingið sem er handhafi framkvæmdavalds í landinu. Forsetinn sneri því við og færði valdið frá fulltrúunum á þinginu til fólksins, þó þingið væri fulllkomlega starfhæft og hefði tekið meirihlutaákvörðun. Hvað er hægt að kalla það - fjöldalýðræði í stað fulltrúalýðræðis? Var þetta kannski valdarán? Stjórnarbylting?

Alla vegana er þetta alveg ný og óþekkt tegund af lýðræði hér á landi. Og þetta er líka yfirlýsing um vanhæfi Alþingis til að gegna hlutverki sínu þrátt fyrir meirihlutasátt um stórt málefni sem varðar þjóðina miklu.

Forseti sem grípur þannig fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem hafa náð meirihlutasátt um mikilvægt málefni er hættulegur lýðræðinu eins og við höfum þekkt það fram að þessu, hann hefur einræðistilburði. Þess vegna þarf að endurmeta stöðu forsetans. Það hlýtur að vera Alþingis að fara fram á slíkt endurmat.

Forsetinn getur ekki verið ósnertanlegur, hann getur líka gert mistök og farið út fyrir sitt valdsvið. Spurningin núna er: Er það Alþingi og ríkisstjórn þess sem er vanhæf eða er það forsetinn? Nema hvoru tveggja sé?

Hver ætlar að leggja spurninguna fram? Og hver ætlar að leggja mat á það? Hvað ef ríkisstjórnin metur forsetann vanhæfan? Og hvað ef forsetinn metur ríkisstjórnina vanhæfa? Búum við kannski við illa dulið stjórnleysi?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband