Ósameiningartákn þjóðarinnar

Á erfiðum stundum er gott að þjappa sér saman, hjálpast að, sameinast. Til eru leiðtogar sem er ætlað það hlutverk að sameina þjóð en líka eru leiðtogar sem taka þetta hlutverk að sér óbeðnir. Svo eru hinir sem vilja deila og drottna, sundra samstöðu og samkomulagi til að fá sjálfir meira svigrúm, völd  og athygli. Pólitík býður upp á þann möguleika. Forsetaembætti Íslands ekki. Forsetinn á að sameina þjóðina á erfiðum tímum, hugga hana í sorg, efla henni kjark og von. Ekki sundra henni.


Forseti vor stendur sig ekki í þessu sameiningarhlutverki, hann er ósameiningartákn. Sundrungin í þjóðfélaginu núna er hans verk.

Hann hefur kastrerað Alþingi með ákvörðunum sínum. Hann hegðar sér eins og einvaldur en ekki forseti. Hann lítur á sig sem pólitískt afl til jafns við Alþingi. Jafnvel fremra Alþingi. Hann boðar til blaðamannafunda og tilkynnir pólitískar ákvarðanir sínar án þess að ráðfæra sig við lýðræðislega kjörið Alþingi, án þess svo mikið sem segja ríkisstjórninni hvað hann ætlast fyrir. Hann hefur ekki samráð, bara einráð.

Jafnvel kóngar og drottningar í nágrannaríkjum okkar myndu ekki blanda sér á þennan hátt í verkefni þingsins. Í löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru almennar, t.d. í Sviss, eru mál fjármálalegs eðlis aldrei lögð í dóm þjóðarinnar.

Kannski það ætti að reka forsetann eins og forstjóra sem elur á úlfúð í fyrirtæki sínu, grípur fram fyrir hendur á starfsfólkinu, er einn daginn í liði með lukkuriddurunum og því næsta skúringarkonunni (sem veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið). ÓRG fór mikinn í (of)lofi sínu um íslenska viðskiptamenn og beitti áhrifum sínum þeim í hag á alþjóðavettvangi, bæði með viðveru og bréfaskriftum. Og núna fer hann með skýjum í lýðræðisást sinni og trú á visku þjóðarinnar. Í báðum tilvikum er einhver veikleiki, óeðlileg sókn í aðdáun, hégómleg ósk um vinsældir. Eitthvað líkt og gerist stundum hjá unglingum á skólalóðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband