Ráðavillt og reið þjóð

Íslendingar sögðu í sjálfstæðisyfirlýsingu sinni 1944 að þeir myndu aldrei fara með stríði gegn annarri þjóð, en síðan er mikið vatn runnið til sjávar og núna virðumst við tilheyra árásarbandalaginu NATO en ekki varnarbandalagi, eða misskildum við eitthvað þegar við gengum í það? Mér sýnist enginn velta þessu fyrir sér í dag, eina umræðan sem hefur farið fram um þátttökuna í stríðinu í Libýu var hjá VG en foringjarnir í flokknum réttlæta árásarþátttökuna á meðan grasrótin andmælir.
Eitthvað viðnám var vegna innrásarinnar í Írak en ekkert núna, er þetta ekki undarlegt? Kannski hugsa flestir að þetta komi þeim ekki við, hugsa bara um Icesave, eru nytsamir sakleysingjar í flestu og hafa ekki skoðanir á neinu nema því sem snýr að þeim fermetra sem þeir standa á, skilja ekki samábyrgð. Sama gildir um Icesave, þar skilja menn ekki samábyrgð gagnvart öðrum þjóðum.

Er búin að kjósa um Icesave og sagði já.........já er fallegasta orðið í öllum tungumálum....qui, si, da, ja, já, yes......Yoko vissi það og John Lennon fattaði það.......vona svo innilega að ég hafi ekki með því sýnt að ég vilji selja Ísland í hendur erlendra stríðs- og herraþjóða, heldur að ég vilji standa við gefin loforð og samninga, svona er ég nú gamaldags, svona er ég upp alin. Ætli ég eigi ekki meira sameiginlegt með kynslóð ungmennafélagshreyfinganna en minni eigin, það hvarflar stundum að mér........annars er ég soldið rugluð í ríminu gagnvart þessu öllu saman, eins og þjóðin öll virðist vera, langar þó að vera nógu stór til að horfa yfir fermetrann sem ég stend á og greina einhverja heildarmynd og sameiginlega ábyrgð þjóða. Hennar verður sannarlega þörf á næstu áratugum þegar reyna þarf að bjarga lífríki jarðar. Nema fjármálaspekúlantarnir séu nú þegar búnir að ná undirtökunum með kaupum og sölu á mengunarkvótum og við séum komin á beina braut í óefni. Heimur á hraðferð á helvegi.

Hér er fallegt ljóð eftir Einar Braga, það heitir Haustljóð á vori. Mér finnst það lýsa stemningunni í þjóðfélaginu núna......soldið eins og vonin í líki lóunnar geti ekki fest hér yndi því landið og þjóðin er svo ráðavillt, reið og rugluð í ríminu.

Ein flýgur sönglaust til suðurs,
þótt sumartíð nálgist,
lóan frá litverpu túni
og lyngmóa fölum,
þytlausum vængjum fer vindur
um víðirunn gráan.
- Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

Misst hefur fallglaður fossinn
fagnaðarróminn,
horfinn er leikur úr lækjum
og lindanna niður,
drúpir nú heiðin af harmi
og hörpuna fellir.
- Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

Felmtruð og þögul sem þöllin
er þjóðin mín unga,
brugðið þér sjálfum hið sama:
þú syngur ei lengur,
þeyrinn ber handan um höfin
haustljóð á vori.
_ Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Síðan þessi færsla var gerð hefur Össur Skarphéðinsson birt grein í Fréttablaðinu þar sem hann réttlætir innrásina í Libýu og segir hana tilkomna vegna þess að Gaddafi hafi hótað og framið "hrannmorð" á eigin borgurum. ....... Hef fylgst náið með fréttum frá Libýu og um "hrannmorðin" hefur ekki verið fjallað í helstu alþjóðlegu fjölmiðlum.......kannski Össur hafi innanbúðarupplýsingar sem við höfum ekki, líkt og Tony Blair um kjarnorkuvopnin í Írak sem svo aldrei fundust........þá getur hann kannski líka upplýst okkur um það (sem komið hefur fram í fjölmiðlum) hvernig US hermenn gátu bjargað flugáhöfn orrustuflugvélar sem skotin var niður, voru sem sagt með sína menn tiltæka í Libýu meðal uppreisnarmanna og gátu því bjargað sínum mönnum hratt og örugglega og lýst þá óhulta í framhaldinu.......sem bendir óneitanlega til að undirbúningur uppreisnar hafi verið með vitund og e.t.v. skipulagi frá leyniþjónustu USA......

Harpa Björnsdóttir, 8.4.2011 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband