5.4.2011 | 19:46
Vopnasala til Libýu
Umræða fer nú fram í breskum fjölmiðlum um vopnasölu til Libýu undanfarin ár og þátttöku breskra fyrirtækja í þeirri sölu. Guardian fjallar t.d. um það hér.
Vopnasölubann til Libýu var í gildi út árið 2004, en eftir það tóku mörg Evrópuríki til við að selja Gaddafi vopn, stórtækastir Ítalir, Frakkar, Bretar, Rússar og Þjóðverjar, en margar aðrar Evrópuþjóðir í minna mæli, til að mynda Belgar og Pólverjar. Þjóðverjar seldu til dæmis Libýu tæknibúnað sem gerði stjórn Gaddafis kleift að stöðva GSM-símtöl og netsamskipti í landinu þegar uppreisnin fór í gang.
Eins og sjá má í þessari grein Guardian voru Ítalir langstærsti heildsali vopna til Libýu. En fyrirtæki eins og vopnaframleiðandinn Boe Systems í Englandi gerði það einnig og eins eru viðskipti og samningar olíufyrirtækisins BP við Libýu undanfarin ár athugunarefni. Hersveitir Gaddafis hlutu hernaðarþjálfun hjá Bretum að sögn breskra fjölmiðla og athygli vekur að Tony Blair er greinilega enginn aukaleikari í þessum samskiptum öllum (sjá t.d. Mail Online hér).
Sala vopna til Libýu fór stigvaxandi frá því að vopnasölubanninu lauk og kulmineraði árið 2009 eins og sjá má á súluriti í grein Guardian. Vopnasölubannið á Libýu var sett á eftir eitt hið flóknasta mál sem sögur fara af í milliríkjadeilum, en það er málareksturinn eftir Lockerbie-slysið, en þar er augljóslega svo ótrúlega flókið plott í gangi að þræðirnir hafa enn ekki raknað eftir öll þessi ár og vafasamt hvort nokkurn tíma fáist upp á yfirborðið hvað gerðist í raun og veru.
Hvort Libýa átti þar þátt eða ekki er stóra spurningin og þá sérstaklega hvort Gaddafi sjálfur átti hlut að máli, en álitamálin snúa allt frá því að Gaddafi hafi persónulega pantað þessa sprengjuárás eða hvort Libýa hafi ranglega verið ásökuð um hryðjuverkin og þurft að greiða háar skaðabætur til fórnarlambanna að ósekju. Hvort botn fæst í þau mál nokkurn tíma er aldrei að vita, en gruggug eru þau (og CIA-mennirnir um borð í flugvélinni vekja upp alls konar samsæriskenningar, enda hafa verið skrifaðar margar bækur um Lockerbie-slysið þar sem 270 manns létust alls).
En staðreyndin núna er sú að það eru evrópsk vopn sem salla niður fólk í Libýu, trúlega hjá báðum aðilum þessara átaka. Aukahlutverkið sem BNA vill leika í þessum hráskinnsleik og hversu áfram þeir eru um að láta Evrópuþjóðir leiða árásirnar á Libýu vekur líka upp spurningar um fyrri samskipti þessara þjóða og lesa má um í bókum og blaðagreinum.
Og eins vekur það upp spurningar að Seifur sonur Gaddafis hefur ýjað að því að Sarkozy Frakklandsforseti hafi fengið fjárstyrk frá Libýu í kosningabaráttu sinni og þeir eigi nú sitthvað inni hjá honum......... þeir feðgar segjast eiga öll gögn um málið og geti birt þau ef þarf......og góðir olíusölusamningar sem Sarkozy hefur gert við Libýu spila líka þarna inn í, heimsóknir fyrri eiginkonu hans Cecilliu til Libýu og lausn búlgörsku hjúkrunarkvennanna sem ásakaðar voru um að smita libýsk börn af alnæmi (enn ein gátan í þessum milliríkjasamskiptum) fóðrar fjölbreyttar samsæriskenningar. Synd væri að segja að gagnsæi ríki og allt sé uppi á borðinu í þessum málum öllum.........en svona leika þeir sér víst strákarnir hjá stórveldunum og þeir sem vilja vera með á því skákborði.
Sem sagt, Libýumálið er flókið og þáttur NATO undarlegur sem varnarbandalags............ekki árásarbandalags.......eða misskildum við eitthvað þegar við gengum í það?????
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.