Galtómt Alþingi!

Fór í síðustu viku með danska menntaskólanema í heimsókn í Alþingishúsið. Við fórum á þingpalla eftir hádegið til að geta séð þingið að störfum, en áður höfðu nemarnir verið á Þingvöllum og hlustað á hefðbundna rollu um upphaf Alþingis og fyrirkomulagið á þjóðveldisöld.

Við komuna í þinghúsið var okkur sagt að fara úr yfirhöfnum, og að ekki mætti taka með sér farsíma eða myndavélar. Við hlýddum og læddumst upp á þingpallana þar sem lögreglumaður tók á móti okkur og fylgdist grannt með. En þegar á pallana kom trúði ég ekki mínum eigin augum og um mig hríslaðist aumingja- og skömmustuhrollur.....í þingsal var ENGINN þingmaður, í pontu stóð Össur utanríkisráðherra mót tómum þingsal og talaði í myndavél sjónvarpsins, að baki hans Sif þingforseti og þingritari henni á hægri hönd. Upp talið. Fylgdist Sif vel með klukkunni og hvort ráðherra færi yfir tímamörk. Einhver þarf jú að standa vaktina!

Össur var að ræða eitthvað í sambandi við Evrópubandalagið, en ég verð að viðurkenna að ég fyrirvarð mig svo gagnvart þessu unga fólki sem ég var með á mínum snærum, komnu alla leið frá Danmörku, okkar fyrrum herraþjóð, og hafði svo miklar áhyggjur af því hvað þau væru nú að hugsa, að mál ráðherra fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér, ég var í hálfgerðu losti. En viti menn....einn þingmaður gekk í salinn, Árni Þór Sigurðsson, settist og virtist hlusta á Össur af athygli. Skömmu síðar gekk Atli Gíslason í salinn og hlustaði með hönd undir kinn. Tvö stig fyrir VG. Næst gengu í salinn Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra (S) og Birgir Guðmundsson (D). Bæði voru með farsíma í hendinni og voru annaðhvort að senda símskilaboð eða fá, alla vegana var athyglin óskipt þar, þau litu ekki af farsímanum sínum.

Kennari nemendanna dönsku leit til mín og ég á hann, við kinkuðum kolli til hvors annars, það var tími til kominn að yfirgefa pallana... hér var ekki mikið að sjá. Þetta var pínleg stund. Og enn skil ég ekki hvers vegna við máttum ekki vera með farsíma en þingmenn mega leika sér með þá eins og ekkert sé og fyrir allra augum í þingsal. Og helst hefði ég viljað taka mynd af þessu, jafnvel á hverjum degi til að sjá hvernig þetta fólk sem er að vinna fyrir mig stendur sig í vinnunni.

Danski kennarinn spurði um hvað ráðherrann hefði verið að tala, "um Evrópubandalagið" sagði ég..."er ekki áhugi á því málefni á Íslandi?" spurði hann, "er það ekki umdeilt?"....."jú, það hefði ég haldið" svaraði ég.......en yppti svo bara vonleysislega öxlum, því ég var algerlega orðlaus og vildi komast sem fyrst út til að sýna þeim eitthvað annað áhugavert sem fengi þau til að gleyma þessu hratt, t. d. skírnarfont Thorvaldsen í Dómkirkjunni.

Á leiðinni af pöllunum spurði ég lögreglumanninn á vakt hvort þetta væri alltaf svona.....hann hikaði, kannski mátti hann ekki segja neitt - en sagði svo: "Því miður er þetta svona ansi oft."

Niðurstaða dagsins var spurningin: Er hægt að ætlast til að virðing sé borin fyrir þessari samkomu? Mér skilst að þingmenn hafi tíma fyrir hádegi til að sinna ýmsum störfum sínum, en eftir hádegi sé "þingið að störfum", eins og það heitir svo fallega, og þá séu þeir í þingsal, framsögur fari fram og þátttaka í umræðum. Samkvæmt starfsfólkinu var þetta ekki einsdæmi sem ég upplifði en kannski kann einhver skýringu á þessu sem sem meikar sens? Þetta meikaði ekki sens fyrir mér og ekki fer ég aftur með hóp erlendra gesta á þingpalla að sýna þeim þingið "að störfum". Best að reyna að fækka þeim sem hlægja að okkur.......og elsta starfandi þingi í heimi.....HA HA HA!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þingmönnum til varnar, þá eru þeir allir með sjónvarpsskjái með útsendingu frá þinginu inni á skrifstofum sínum við hliðina á tölvuskjánum. Þar geta þeir fylgst með umræðunum á sama tíma og þeir eru að vinna að öðrum málum og undirbúa sig. Einkum þegar um er að ræða mál sem eru í fyrstu umræðu áður en þeim er vísað til nefndar.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband