Skáldkonur deyja ekki, myndlistarkonur eru ekki til

Ég man eftir tveimur þáttum Kiljunnar þar sem ég sat hálf máttlaus eftir, því ég trúði varla því sem ég hafði horft á. Fyrra skiptið var þegar Egill Helgason og Guðjón Friðriksson gengu um kirkjugarða Reykjavíkur og námu staðar við leiði þekktra skálda. "Stórkonur" þess verðar að vera nefndar á nafn voru fáar en "stórmennin" mörg. Engin skáldkona virtist hafa dáið og verið jörðuð í Reykjavíkurkirkjugörðum. Þetta var eiginlega svo fáránlega fyndið að ég fór bara að hlæja í lok þáttar. Þær voru samkvæmt þessu bara ódauðlegar!

Hitt skiptið var þegar fjallað var um bækur um myndlist og myndlistarmenn sem komið hefðu út á siðasta ári. Eingöngu var fjallað um bækur um karla í þættinum og fór mér á sama hátt og fyrr, ég fór bara að hlæja í lokin að fáránleikanum. Gagnvart samfélaginu leit út fyrir að engar myndlistarkonur hefðu starfað á Íslandi, þó þær í dag séu í raun heldur fleiri en myndlistarmenn og þar að auki virkari í sýningarhaldi. Vissulega koma út mikið færri bækur um myndlistarkonur en myndlistarmenn, en það þarf ekki þess vegna að sniðganga þær fáu sem þó komu út. En það gerði Egill. Vegna þess að mér var málið skylt skrifaði ég Agli bréf - hann viðurkenndi mistök sín - en hvort hann vill bæta úr þeim veit ég ekki,sé engin merki þess.

Í gegnum tíðina hefur Egill oft fengið á sig krítík fyrir mikla kynjaskekkju, bæði í Silfrinu og í Kiljunni, en þrátt fyrir það viðurkennir Egill ALDREI karllægan vinkil sinn, hann notar alltaf sömu rökin" þátturinn endurspeglar þjóðfélagið" - en það þarf ekki að rýna lengi áður en maður sér að þættirnir endurspegla ekki þjóðfélagið heldur ýta þeir undir ójafnréttið sem fyrir er og styrkja það.

Egill Helgason reynir af veikum mætti að andæfa þeim ásökunum sem eru á hann bornar þessa dagana af málsmetandi rithöfundum af báðum kynjum. Gagnrýnin gengur út á að Egill gæti ekki kynjajafnréttis í Kiljunni. (Fyrir nokkurm árum var sama gagnrýni uppi hjá málsmetandi fólki vegna Silfurs Egils, en þá voru eiginlega eingöngu karlar viðmælendur, núna ratar þó ein og ein kona í Silfrið, kannski vegna gagnrýninnar forðum.)

Hann svarar á bloggi sínu núna með sömu viðbáru og áður að þátturinn endurspegli þjóðfélagið.Þessi rök eru fátækleg og halda auðvitað ekki, en ef Egill telur það hlutverk sitt að viðhalda skekkju og spéspegli þá er það auðvitað meðvituð afstaða sem hann hefur tekið sem ritstjóri þáttanna. En einhverjir myndu telja það hlutverk sitt að laga skekkjuna. Það er þar að auki bundið í lög opinberra stofnana eins og RÚV. Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri segist treysta Agli Helgasyni „til þess að gæta jafnvægis milli kynjanna eftir því sem mögulegt er hverju sinni“ en ég verð að viðurkenna að trú mín á því er orðin ansi dauf.

Egill virðist nefnilega bæði sleginn blindu og daufdumbu þegar þessi mál ber á góma og hann fær uppbyggilega gagnrýni, meira að segja núna þegar málsmetandi og vel hugsandi einstaklingar reyna að benda honum á skekkjuna, þá virðist hann hafa ákveðið að hlusta ekki, afneita, þræta og þagga. - allt í anda þeirra sem hann gagnrýnir hvað harðast í hinum þættinum sínum, Silfrinu, og á blogginu sínu.

Kannski það sé tími til kominn fyrir Egil að segja "Sorry stelpur, ég skal bæta mig" en vonandi ekki með þeim hætti að hafa einhverja sérþætti um kvenfólk sem smyrls og sárauppbót, þetta á að vera meðvituð ritstjórn sem gætir jafnréttis í hvívetna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband