Ó María, María

Forsíða Fréttatímans í dag:

"Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að konur séu alltaf að velta sér upp úr því að þær séu konur og að þeim sé mismunað af því að þær séu konur."

Svo mælir María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttalesari og heimildarmyndagerðarkona.

Fréttatíminn - þetta vikulega blað sem margir bundu vonir við, en reynist jafn útþynnt og Fréttablaðið, þó blaðamenn þess hafi heila viku til að skila af sér efninu. Svona kaus ritstjórn þess að verja forsíðu þess í helgarblaðinu sem er undanfari væntanlegs Kvennafrídags á mánudaginn kemur.

Það er ritstjórnarleg ákvörðun að velja nákvæmlega þessi orð á forsíðuna en t.d. ekki þau orð Maríu sem fjalla um heimildarkvikmynd hennar um misnotkun barna í Kambódíu. Það er ritstjórnarleg ákvörðun að láta fallegt andlit á forsíðu selja blaðið, í anda Nýs lífs, en ekki eitthvað annað. Það er kona sem tekur viðtalið, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, kannski var það líka hún sem valdi orðin á forsíðuna. En lokaorð Maríu í viðtalinu hljóma svona:

"Ef maður gerir bara ráð fyrir því að manni bjóðist sömu tækifæri og karlar - þá fær maður þau. En ef maður er fastur í hugsunum á borð við: Ég get þetta ekki af því að ég er kona / Ég fæ þetta örugglega ekki af því að ég er kona / Ég er með lægri laun af því að ég er kona - þá er það bara líklegra til að gerast. Það er náttúrulega staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu en ég held að það sé konum ekki endilega til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á þessu"

Bravó María!

Er ráð þitt að hugsa bara í anda Secret fræðanna og þá kemur þetta allt ? Var það bara þetta sem klikkaði í kvennabaráttunni síðustu 100 árin??

Það er gaman að spegla þessi orð núna á þessum tímamótum þegar gengið verður í fótspor kvenna frá Kvennafrídegi 1975 - við kjörorðin þá: Ég þori, get og vil - og skoða statusinn 35 árum seinna. Ég þekki sjálf bara konur sem minnst síðustu 35 ár (ef ekki alla æfi) hafa haft staðfasta trú á því að þær, og allar aðrar konur, þori, geti og vilji. Þess vegna er það að þær mennta sig (jafnvel meira og betur en karlar) þær hafa þor og gefa oft kost á sér í hin margvíslegustu verkefni (og ef framlag þeirra er ekki þegið þá framkvæma þær sín eigin prójekt.) Og þær geta ýmislegt líka, það hefur sýnt sig, enginn efast neitt um það lengur, en viðurkenning, hvort sem er samfélagsleg eða launatengd, lætur standa á sér, eins og María viðurkennir reyndar í lokaorðum sínum.

Hversu margar vel menntaðar og klárar konur hafa ekki í gegnum áratugi trúað á eigið þor, getu og vilja á sama hátt og María SIgrún nú, trúað að vilji er allt sem þarf? Kannski við allar?

Það sem er svo ánægjulegt að sjá í viðtalinu við Maríu Sigrúnu er að þessi unga, glæsilega og vel menntaða kona hefur ekki rekið sig á neitt glerþak enn..... og mun vonandi aldrei gera það. Það væri óskandi að engin ung, hæfileikarík og metnaðarfull kona þyrfti nokkurn tíma að gera það. Að dugnaður hennar og geta reynist hennar besta veganesti og ávísun á velgengni, og enginn efaðist um hæfileika hennar vegna kyns hennar (eða jafnvel aldurs).

En María horfist reyndar í viðtalinu í augu við þá "náttúrulegu staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu", en heldur að það sé ekki konum til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á því.

Hvað þá? - Ó María, María - verður ekki að finna skýringuna til að hægt sé að breyta málunum???

Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að María SIgrún telur allt í himnalagi og enga ástæðu til að leita skýringa á mismunun í samfélaginu? Er grunns velgengni hennar sjálfrar e.t.v að leita í því að hún nýtur baráttu annarra kvenna, kvenna sem leituðu skýringa á misrétti og fengu það leiðrétt? Leiðrétt til að María SIgrún og dætur okkar allra ættu bjartari framtíð fyrir höndum þar sem meira jafnrétti ríkti? Baráttu sem enn er ekki lokið?

Ég hefði viljað sjá Maríu SIgrúnu þakka á forsíðu Fréttatímans öllum þeim kynslóðum kvenna sem gerðu henni kleift að finna ekki fyrir neinu ójafnrétti vegna kyns síns. Þó hún sé óvenju vel blessuð af guðunum, mætti hún líka hugsa til þeirra kvenna sem ekki eru svo heppnar og hljóta önnur kjör. Alveg eins og hún vildi benda á hin hræðilegu kjör kambódískra barna, þó þau væru fjarri hennar kjörum og lífi.

Vikublaðið Fréttatíminn er búið að sanna sig ómarktækt í þjóðfélagsumræðunni, það er auðvelt að henda því í endurvinnslutunnuna, og ritstjóranum og Heiðdís Lilju Magnúsdóttur þakkar maður ekki "góð orð" eða áhugaverða umfjöllun í aðdraganda Kvennafrídags. Fjórða valdið á Íslandi er máttlaust - Fréttatíminn sannar það best.

En María Sigrún er enn ung að árum, vel gefin og vel menntuð, og heppin í störfum sínum - ég trúi því að hún öðlist fljótt þroska og skilning sem nýtist henni til samkenndar með þeim kynsystrum hennar sem hafa ekki verið eins heppnar og hún, og vona líka að hún læri að þakka þeim kynsystrum sínum sem ruddu brautina, frekar en gera lítið úr margra áratuga baráttu þeirra kvenna sem leituðu skýringa og leiðréttu eftir bestu getu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð! Rakst á þessa síðu fyrir tilviljun. Hér eru nokkur atriði til að svara athugasemdum þínum.

 

a)      Það er vissulega ritstjórnarleg ákvörðun að velja forsíðutilvitnun og -fyrirsagnir. Í því felst að lokaákvörðun um forsíðutexta liggur hjá ritstjóra. Tilvitnun um Kambódíumyndina hefði aldrei komið til greina þar sem um var að ræða gamla frétt sem búið var að gera góð skil í öðrum fjölmiðlum.

 

b)      Á það má benda að tilgangur fjölmiðla er meðal annars sá að skapa umræðu í samfélaginu. Ég sé ekki betur en að þeim tilgangi hafi verið náð og er það vel.

 

c)       Þau leiðu mistök áttu sér stað í prófarkalestri að texta, þar sem vitnað var í Maríu, var breytt. Það sem hún sagði í viðtalinu var eftirfarandi: „Það er náttúrlega staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu. En ég held að það sé konum ekki endilega til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa í þessu.“ Þ.e. leita skýringa á launamisrétti í þeirri staðreynd að þær séu konur (mín orð). Í prófarkalestri var setningunni breytt á þessa vegu: ... ég held að það sé konum ekki endilega til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á þessu.“ Sem er allt önnur merking. Þetta leiðréttist hér með. 

d)      „Það er ritstjórnarleg ákvörðun að láta fallegt andlit á forsíðu selja blaðið, í anda Nýs Lífs“.

Þessi setning er sett fram í fullmikilli fljótfærni. Í fyrsta lagi er Fréttatíminn ókeypis. Blaðið er sem sagt ekki til sölu. Í öðru lagi felast í þessar setningu lífseigir fordómar, sem ég efast um að ritari þessarar síðu sé meðvitaður um. Því ber að árétta að ekkert samasemmerki er á milli útlits og gáfnafars. Hæfileikaríkt, frambærilegt og áhugavert fólk á alltaf erindi í fjölmiðla. Hvort sem um „fallegt andlit“ er að ræða eða ekki. Hvorki konur né karlar eiga að þurfa að sitja undir aðdróttunum um að viðkomandi sé einungis „fallegt andlit“ og hafi náð brautargengi á vinnumarkaði út á útlitið. Það er niðurlægjandi. Merkilegt nokk varð ég ekki vör við umræðu af þessu tagi þegar tveir þéttvaxnir vítisenglar prýddu forsíðu Fréttatímans fyrir skömmu.

 

e)      Er samasemmerki milli skoðana viðmælenda og blaðamanna í þínum augum? Telur þú að blaðamenn velji sér – eða eigi að velja sér – viðmælendur sem endurspegla skoðanir þeirra sjálfra? Værum við ekki komin út á hálan ís ef svo háttaði til? Ég er býsna hrædd um að þá fyrst yrðu fjölmiðlar máttlausir og ótrúverðugir.

 

f)       Það að ungar konur telji sig enn ekki hafa rekist á glerþakið alræmda er fagnaðarefni og sýnir betur en nokkuð annað að við erum á réttri leið.

 

g)      Fjölga þarf konum í hópi viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum. Um það getum við örugglega verið sammála. Ég hvet þig til að skoða Fréttatíma síðustu vikna, telja konur í hópi viðmælenda og bera þá tölu saman við fjölda karla sem rætt hefur verið við. Berðu þær tölur svo saman við sambærilegar tölur í öðrum fjölmiðlum.

Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn,

Heiðdís Lilja.

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2010 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband