31.3.2010 | 00:45
Íbúðalán þjóðarinnar-þakið (hrynur) yfir höfuðið
Mér finnst að það þurfi að fara að skoða málið allt í heild sinni, ekki bankaíbúðalánin sér og myntkörfulánin sér og íbúðalánasjóðslánin sér.
Við sem erum að horfa upp á eignir okkar brenna upp, venjulegt fólk sem alltaf hefur staðið í skilum, eigum kröfu á að gripið sé til úrræða sem allir njóta góðs af, ekki bara þeir sem skuldsettu sig sem mest eða með áhættusamasta hætti.
Íbúðalánasjóðslánin og lífeyrissjóðslánin hafa löngum verið hið hefðbundna form lántöku þegar kaupa skyldi íbúð, bankalánin og myntkörfulánin voru "ný vara" á þessum vettvangi. Við sem fórum hefðbundnu leiðina erum flestöll komin í mjög þrönga stöðu núna, einfaldlega vegna höfuðstólshækkunar og þar af leiðandi hækkunar á mánaðarlegri afborgun. Ekkert gerðum við sem áhætta var fólgin í, og við reynum að standa í skilum fram í rauðan dauðann. En 30% hækkun lána og afborgana er stór biti.
Að tala um greiðslugetu er líka afstætt, því með því að auka vinnuálag eykur maður tekjur sínar og þar af leiðandi greiðslugetuna. Hvað er eiginlega eðlileg greiðslugeta? Er það laun fyrir 8 stunda vinnudag - eða er það laun fyrir 16 stunda vinnudag? Ég persónulega hef aukið vinnuálag mitt jafnt og þétt undanfarin 2 ár til að geta staðið í skilum, útfrá þeirri grundvallarreglu að á meðan maður aflar stendur maður í skilum. Og á meðan maður fær vinnu sem greitt er fyrir er maður þokkalega öruggur. En er þetta þrælafyrirkomulag einhverjum til góðs? Hvað ef maður fær ekki tvöfalda/þrefalda vinnu? Er maður þá ekki líka að taka vinnu frá öðrum? Og á maður að stunda 16 tíma vinnudag fram að ellilífeyri? Og hvað þá, ekki borgar ellilífeyrinn það sem krafist er?
Vitiði það, ég er orðin örþreytt eftir 2 ár í óvissu og því að reyna að halda mér á floti með öllum mögulegum (löglegum) ráðum og fáránlegu vinnuálagi. Hversu lengi getur maður staðið vaktina? Hugmyndin um að skila inn lyklunum til skuldunautanna verður sífellt meira freistandi - eitthvert frelsi fólgið í því.
Djókinn er að þó að maður borgi sem nemur 8-10% af virði láns á ári (ca 100.000 af hverri 1.000.000) þá lækkar lánið ekki, heldur hækkar um 30%.!!!! Hvar á byggðu bóli i Evrópu þekkist svona rugl? Í öðrum löndum þýddi þetta uppgreiðsu lána á innan við 20 árum....en hér minnst 40 ára skuldaklafa með síhækkandi grelðslum.
Krafan er: Lækkun höfuðstóls aftur til jan-mars 2008 og þak á verðtryggingu þaðan í frá, t.d. 7-8%.
(Samt sem áður myndi það þýða um 13-15% raunvexti - og það þykir mikið í öðrum Evrópulöndum, þar sem íbúar geta reiknað með 2-5% raunvöxtum á lánum sínum))
Við verðum að herða baráttuna gegn svona augljósum afarkostum þar sem lánveitandi er tryggður í bak og kvið en við blæðum. Krafan er: lækkun höfuðstóls til jan 2-mars 2008 og þak á verðtryggingu þaðan í frá!!!!!!
Athugasemdir
Sammála. Það sem verið er að gera almenningi er í raun mannréttindabrot. Þú átt rétt á því að lánið þitt lækki þegar þú greiðir af höfuðstól lánsins. Annað er fáránlegt.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 31.3.2010 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.