Eitur í íslenskri matvöru og vatni

Lítið fréttir maður af því að verið sé að mæla eiturefni í matvöru eða náttúrunni hér á Íslandi, en getur lesið margar slíkar greinar á hverju ári í erlendum fjölmiðlum, helst skandinavískum. Frétt um iðnaðarsalt í matvöru feykti upp stormi um stund, einnig mengun frá álþynnuverksmiðju á Akureyri og saurmengun í Pollinum, en svo heyrist ekki meir og maður heyrir lítið um markvissar, reglulegar rannsóknir og niðurstöður þeirra.

Ég hef t.d. oft velt því fyrir mér hvort ekki sé þungmálmamengun í hrefnukjöti, líkt og í grindhval í Færeyjum, og þó það geti verið að hrefnan safni upp minna af slíku en grindin þá vil ég gjarnan vita hversu mikið þetta er. Þetta er rannsakað í Færeyjum, þar eta börn og ófrískar konur ekki grindhvalakjöt vegna eitrunarhættu.

Fréttir hafa hermt að Vegagerðin hafi (og geri jafnvel enn) notað hið illa ræmda eitur Round-up í vegarkanta, til að hamla gróðri og illgresi. Við sem erum á ferðinni um vegi landsins á sumrin sjáum svo lömb og kindur á beit í þessum sömu vegarköntum, og jafnvel þó ekki væri eitrað í þá þá er útblástur bifreiða örugglega ekki besti áburðurinn..... er lambakjöt nokkurn tíma rannsakað?

Annað sem ég hef áhuga á að vita er mengun lækja og vatna á Íslandi. Í Bretlandi er það t.d. viðurkennd staðreynd að ekki sé óhætt að drekka af því vatni sem fólk gengur hjá í náttúrunni, flest er það mengað af einhverju, helst saurgerlum. Mér vitanlega fer engin slík mæling fram hér á landi. Þó má reikna með að með auknum túrisma aukist hættan. Sjálf hef ég séð merkin og varast að drekka á fjölförnum stöðum....

Mengun frá jarðvarmavirkjunum og áhrif hennar á mannfólk er lítið ef ekkert rannsökuð. Þó búa þúsundir Reykvíkinga við hana á hverjum degi, og Hvergerðingar ekki síst, þar liggur brennisteinsþefurinn eðlilega daglega í loftinu.

Áhrif gosefna úr t.d. Eyjafjallajökli á menn og dýr er líka áhugavert rannsóknarefni, og víst er það að dýr af svæðinu eru rannsökuð eitthvað lítilsháttar þegar þau koma til slátrunar, en ekki t.d. mjólk úr kúm mér vitanlega. Og auðvitað ekki mannfólkið sem þoldi það sama og dýrin....

Við erum svo viss um að hér sé hrein náttúra, hreint og ómengað vatn, hreint og ómengað fjallalambakjöt að við drögum það sjaldnast í efa. Kannski við ættum að krefjast sannana fyrir því?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér þessar þörfu ábendingar. Vissulega eru uppsafnaðir þungmálmar í hvalkjöti, bæði hrefnukjöti og langreyðarkjöti, en einnig í ýmsum langlífum fiskum, svo sem eins og urriða og stórlúðu, svo dæmi séu tekin. Að maður tali nú ekki um sel, en neysla selaafurða hérlendis hefur reyndar stór minnkað síðustu ár. En þú minnist á athyglisvert málefni, en það er hreinleiki neysluvatns. Nú er það svo, að það er ekki nóg að vatnsbólin sjálf séu sem hreinust, heldur þurfa lagnakerfi bæja og borga að vera þannig úr garði gerð að þau séu ekki næm fyrir mengun og einnig að þeir sem sjá um viðhald þeirra og tengingar umgangist þau með þeirri virðingu og vandvirkni sem hæfir. Á það skortir nefnilega mikið. Það er mjög til siðs hér að hafa sem flestar lagnir í sömu eða samliggjandi skurðunum og oft hefur mér boðið við því þegar menn eru að tengja skólprör og neysluvatnslagnir í drullupollum og sömu skurðunum. Þar er vissulega þörf á úrbótum.
Fóðrun þess búfjár, sem við neytum afurða af er svo eitt mál enn og þar eru athugunaratriðin ótal mörg, allt frá jarðvegi, áburði og fóðri til og með slátrunar og úrvinnslu afurða. Það er efni í langa grein.

E (IP-tala skráð) 1.5.2014 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband